05.01.1988
Neðri deild: 46. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3587 í B-deild Alþingistíðinda. (2527)

196. mál, söluskattur

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Tveir af þm. Alþingis hafa fengið dóma sem ráðherrar fyrir stjórnarskrárbrot. Hér stefnir í að sá þriðji fylgi með. Hæstv. fyrrv, samgrh. Matthías Bjarnason hafði í höndum heimild til reglugerðarákvörðunar frá Alþingi Íslendinga til að leggja á skatt. Hæstiréttur Íslands úrskurðaði að skattaheimildir ættu að vera í lögum og þingið hefði ekki heimild til að afsala svo rúmu valdi til ráðherra, sem þar var gert, og dómur var upp kveðinn. Að felldri þessari grein í þessum lögum blasir við að það er viljayfirlýsing Alþingis að það skuli ekki undanþiggja skip og varahluti m.a. Sú viljayfirlýsing Alþingis hlýtur að vera sterkari en eitthvert ímyndað vald ráðherra til að hann geti komið eins og frelsandi engill og sagt: Þrátt fyrir viljayfirlýsingu Alþingis hef ég rétt til að breyta skattalögum á Íslandi að vild. Í ljósi þess að ég tek meira mark á Hæstarétti en lítt fróðum mönnum um dóma og ákvarðanir í þessum efnum segi ég já.