05.01.1988
Neðri deild: 46. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3604 í B-deild Alþingistíðinda. (2548)

181. mál, stjórn fiskveiða

Frsm. 2. minni hl. sjútvn. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. 181. mál þingsins, frv. til l. um stjórn fiskveiða næstu ár, er komið hér til 2. umr. Eitt stærsta mál þessa þings hingað til og hafa þó mörg viðamikil mál legið hér fyrir á undanförnum vikum. Ég segi ekki mánuðum því það er í rauninni rétt mánuður liðinn frá því að þau stjórnarfrv. sem einhverju skipta bárust hér inn á hv. Alþingi. Síðan höfum við haldið jól og áramót en ekki unnað okkur samt mikillar hvíldar vegna þess hvernig ríkisstjórnin hefur hagað sinni málafylgju, undirbúningi mála og framlagningu hér í þinginu. En hún getur ekki við neinn annan sakast en sjálfa sig, og sá meiri hl. sem hér stendur að málum fyrir hennar hönd, yfir því að lagabálkar sem ríkisstjórnin hugðist fá afgreidd fyrir áramót hafa enn ekki orðið að lögum eða eru að verða að lögum um þessar mundir og þar á meðal er það frv. sem við ræðum hér.

Við 1. umr. málsins gerði ég grein fyrir viðhorfum mínum almennt til frv. ríkisstjórnarinnar og þeirra breytinga, að vísu ekki mikilla, sem hv. Ed. hafði gert á frv. ríkisstjórnarinnar og hæstv. sjútvrh. sem mælir fyrir því hér í þinginu. Það var milli jóla og nýárs sem umræða um þetta efni fór fram og komið fram undir morgun þegar henni lauk. En sjútvn. hóf þegar á þeim morgni vinnu að skoðun þessa máls til viðbótar við það að sjútvn. beggja deilda þingsins höfðu starfað saman að meðferð málsins milli 10. og 17. des. að mig minnir og haldið allmarga sameiginlega fundi.

Sjútvn. Nd. hefur haldið sjálfstæða sérstaka fundi um þetta mál núna beggja megin áramóta, síðast tvo í gærdag. Þar skiptist nefndin upp í fjóra hluta varðandi nál. sem hér er verið að mæla fyrir og kynna.

Ég vil á þessari stundu þakka formanni sjútvn. Nd. fyrir verkstjórn á þessu starfi nefndarinnar. Ég tel að hann hafi í senn leitast við að fá fram á þeim afar nauma tíma sem til umræðu var þau sjónarmið sem voru uppi í nefndinni og einnig að gefa ráðrúm til að ræða við menn utan nefndarinnar þó ekki væru þeir margir vegna þess afar knappa tíma sem við höfðum til umráða.

Ég hafði reiknað með því að útkoman af þessu mikla starfi í sjútvn. yrði með nokkuð öðrum hætti en hér liggur fyrir. Ekki síst í ljósi þess að formenn beggja sjútvn. höfðu fyrir jól — og það er langur tími síðan á okkar mælikvarða sem vökum daga og nætur á Alþingi — lagt fyrir hugmyndir að breytingum, ýmist sameiginlegar eða sér á parti og lagt sig fram að mér sýndist til þess að stilla saman um þær hugmyndir eftir því sem frekast væru föng á. Ég hafði gert ráð fyrir því að samstaða tækist um viss atriði og var fyrir mitt leyti reiðubúinn að leggja því lið varðandi ákveðnar hugmyndir sem þarna voru uppi og hefðu verið til bóta á frv. að mínu mati. En það óvænta gerðist, leyfi ég mér að segja, að hv. formaður nefndarinnar varð viðskila við meiri hl. ríkisstjórnarinnar, hv. 1. þm. Vestf. varð viðskila við meiri hl. ríkisstjórnarinnar í málinu á lokastigi og stendur hér einn að brtt. við frv. og sérstöku nál. Mun ég víkja aðeins að vissum þáttum í hans tillögum síðar hér í ræðu minni.

Ég veit ekki hvað réði þessari lendingu, enda ætla ég ekki út af fyrir sig að hafa afskipti af því. Að sjálfsögðu ekki. En þó geri ég ráð fyrir því að fræg yfirlýsing hæstv. utanrrh., formanns Framsfl., sem birtist í Tímanum rétt fyrir áramótin, 30. des. sl., hafi ráðið þar allnokkru um, þau handjárn sem var veifað í þessu viðtali við hæstv. utanrrh. í stjórnarmálgagninu. Með leyfi virðulegs forseta held ég að rétt sé að rifja það upp vegna þess að það hefur ekki komið fram við umræðuna, við höfum ekki rætt þetta mál frá því að þessi yfirlýsing birtist, en þar er haft eftir hæstv. utanrrh. í framhaldi af risafyrirsögn á forsíðu Tímans: „Kvótinn fari óbreyttur í gegn strax eftir áramót.“ Það er forskriftin. Og síðan segir undir fyrirsögninni „Kvótafrumvarpið yrði þá óbreytt“, haft eftir utanrrh. orðrétt, með leyfi forseta:

„Það er rétt að við urðum sammála um að leggja áherslu á að þessi þrjú frv. færu í gegn fyrir áramótin, en láta þó tekjuöflunarfrv. hafa forgang, sagði Steingrímur Hermannsson utanrrh. og formaður Framsfl. En ef það tækist ekki að koma fiskveiðifrv. í gegn fyrir áramót, þá verði komið saman strax eftir áramót og það samþykkt án tafar og án nokkurra breytinga sem sjútvrh. geti ekki fallist á.“

Þetta er orðrétt eftir ráðherranum haft. Og segir blaðið síðan: „Lagði Steingrímur áherslu á það atriði í samkomulagi þessu að engar breytingar yrðu teknar inn í frv. nema þær sem sjútvrh. getur fellt sig við. Sagði hann að ljóst væri að fram muni koma einhverjar breytingar á frv. í meðferð nefnda og í 2. og 3. umr. Allar breytingar á frv. Halldórs yrðu þó miðaðar við það sem hann telur sér fært að samþykkja.“

Það er engin tilviljun. Hér er væntanlega ekkert fleipur á ferðinni. Þetta er yfirvegað útspil formanns Framsfl. inn í stjórnarmálgagn daginn eftir að frv. er vísað til nefndar af hv. þingdeild hér.

Hvað segja hv. þingdeildarmenn um vinnubrögð af þessu tagi? Hvað segja menn um hugsun eins og þá sem birtist í þessum yfirlýsingum til Alþingis? Ekkert skal hér í gegn sem er mót vilja ráðherrans. Ekkert. Sitjið og standið eins og hann vill.

Ef þessi yfirlýsing er skoðuð í samræmi við sitthvað fleira sem hefur verið að koma fram hér á Alþingi, þar á meðal starfshætti formanns þingflokks Framsfl., hv. þm. Páls Péturssonar, formanns fjh.- og viðskn. Nd. Alþingis, sem var að innleiða alveg nýja starfshætti í þingið, þá held ég, herra forseti, að ég fái ekki vítur fyrir þó að ég tali um einræðislegar tilhneigingar. Og ég tala um einræðislegar tilhneigingar og ákveðnar hótanir og ógnun við þingræðið, sem kemur fram í þessum ummælum og kveðjum til þingsins. Þá er ég ekkert að leggja mat á málin sem að baki liggja sem slík heldur þann hug sem hér endurspeglast í þessum nýju starfsháttum eins og þeir birtast okkur hér á vökunóttum og um bjartan dag af hálfu oddvita Framsfl. á Alþingi.

Ég spyr samstarfsaðila Framsfl. í ríkisstjórn: Ætla menn bara að láta þetta sem vind um eyru þjóta? Skiptir þetta menn engu máli? Hvað segir hv. þm. Sighvatur Björgvinsson um vinnubrögð af þessu tagi? Og hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson? Eru þeir sáttir við þessi vinnubrögð? Og hv. þm. Ólafur G. Einarsson, svo að nefndur sé oddviti í þingflokki Sjálfstfl., er þm. sáttur við þessi vinnubrögð af hálfu samstarfsaðilans og hefur hann skoðað þau í ljósi þess sem er að finna í þessari gráu bók? Þessari bók sem ég hef yfirleitt við höndina og hv. þm. Ólafur G. Einarsson les dag hvern, svona rifjar upp ákveðna valda kafla. Hann hlýtur að hafa lesið sérstaklega kaflann um sjávarútveg og starfsáætlun ríkisstjórnarinnar í sjávarútvegsmálum, sem er væntanlega grunnurinn. Þar er ákveðið 8. júlí þegar sest er á stóla af ríkisstjórninni að fela endurskoðun fiskveiðistefnunnar sérstakri nefnd, sem ætlað er að taka afstöðu til eftirfarandi atriða, orðrétt, virðulegur forseti, með þínu leyfi:

„Hvernig og hverjum veiðiheimildir skuli veittar. M.a. verði athugað hvort veiðiheimildir verði einvörðungu bundnar við skip.

Hvernig taka megi meira tillit til byggðasjónarmiða við mótun fiskveiðistefnu, auka athafnafrelsi og svigrúm til endurnýjunar í sjávarútvegi.

Hvers konar reglur skuli setja um færslu veiðiheimilda milli aðila.

Hve lengi meginreglur um stjórn fiskveiða skuli gilda.“

Þetta er veganestið. Þeir eru nú gamansamir, stjórnarliðar hér. Hver var látinn mæla fyrir áliti meiri hl. sjútvn. áðan? Var það framsóknarmaður? Var það sjálfstæðismaður? Nei. Það var alþýðuflokksmaður, fyrrv. hæstv. sjútvrh., nú hv. þm. Kjartan Jóhannsson sem mælti hér fyrir áliti meiri hl. (ÓE: Hann er varaformaður nefndarinnar.) Varaformaður nefndarinnar. Já, já. Það er væntanlega skýringin. Ég hélt nú að þetta hefði verið gert til þess að láta ákveðna menn bíta höfuðið af skömm sinni eins og stundum er tíðkað hér og gerðist í sambandi við söluskattinn þegar hv. 10. þm. Reykv. var látinn mæla fyrir áliti nefndarinnar eftir að hafa viðrað áhyggjur og sterkar hugmyndir um breytingar á því frv.

Í þessari starfsáætlun stjórnarinnar er talað um aðra mikilvæga þætti í sjávarútvegsstefnu ríkisstjórnarinnar, sem eru, ég tek aðeins eitt af því: „Rannsóknar- og þróunarstarf í sjávarútvegi, þar á meðal á sviði fiskeldis í og við sjó, verður aukið.“ Rannsóknar- og þróunarstarf í sjávarútvegi verður aukið. Hver var útkoman í fjárlagafrv. sem við vorum að samþykkja sem lög hér á Alþingi fyrir skemmstu að þessu leyti? Felld var tillaga eftir tillögu þó ekki væri nema um það að halda verðgildi þess fjármagns sem hið opinbera leggur til rannsóknar- og þróunarstarfs í sjávarútvegi. Kolfellt.

Hv. þingdeildarmenn sjá auðvitað að það stendur ekki steinn yfir steini í sjávarútvegsmálum miðað við þessa starfsáætlun hér. Ég er ekki að segja að hún sé gulls ígildi. Það er langt frá því. Ég hefði ekki skrifað undir hana óbreytta eins og hún er sett hérna fram. Það hefði enginn ætlað mér það. En það er afar sérkennilegt að sjá uppskeruna hér á hv. Alþingi í ársbyrjun 1988 í ljósi þessarar innsigluðu stefnu.

Áður en ég kem að eigin viðhorfum og fer að tala um þetta nokkuð almennt vil ég nefna það að mér fannst kynning talsmanns meiri hl. nefndarinnar hér áðan með dálítið sérstökum hætti og nál. sem hér liggur fyrir og hefur verið kynnt. M.a. að því leyti að meiri hl. er að reyna að þakka sér sérstaklega leiðréttingar, breytingar til hins skárra sem knúðar hafa verið fram í sjútvn. þessarar hv. deildar, ekki síst fyrir forgöngu formanns nefndarinnar og þrýsting frá okkur stjórnarandstæðingum innan nefndarinnar. Svo birtist það okkur hér sem uppskera hins baráttuglaða meiri hl. ríkisstjórnarinnar í sjútvn. þingsins þar á meðal væntanlegar breytingar á reglugerðum, bæði varðandi báta af stærri gerð og smábáta og fleira af þessu tagi.

Ég hlýt að gera athugasemd við þetta og ég gæti trúað að hv. 1. þm. Vestf. hafi ekkert liðið vel undir þessum sérkennilega lestri sem þm. hafa prentað fyrir sér í áliti meiri hl. sjútvn. En við eigum kannski eftir að heyra í fleiri stjórnarliðum hér við umræðuna. Þeir eiga kannski eftir að láta heyra aðeins í sér. Ég hygg að þeir séu svolítið misjafnlega ánægðir með uppskeruna af starfinu í nefndinni og gæti það átt við einhverja úr sjútvn. Ed. líka, en hv. þm. Matthías Bjarnason gat þess raunar að það hefði verið undralítið sambandið sem uppi hafði verið haft milli stjórnarliða í sjútvn. Ed. við Nd. eftir að samvinna nefndanna rofnaði um 17. des. sl. Og þeir fengu hugverk sitt samþykkt, svo meingallað, þó ekki væri nema út frá rökrænu samhengi, að það var alveg útilokað annað en að breyta frv., þó ekki væri nema til þess að skýra orð, og þannig að ekki yrði tómur misskilningur varðandi ákvæði heilla greina sem meiri hl. í sjútvn. Ed. stóð að og keyrði í gegn eftir vökunótt þar 22. des. sl. Þannig að af þeim sökum einum hlaut frv. að taka breytingum hér í hv. deild, en sem betur fer hafa þær orðið meira en orðskýringar. Það hafa þó aðeins orðið lagfæringar vegna þess hvernig á málinu hefur verið haldið, ekki síst af hálfu stjórnarandstöðunnar sem gagnrýnt hefur margt varðandi málsmeðferð og innihald þessa frv. efnislega, bæði í Ed. og svo aftur hér í Nd. þingsins.

Virðulegur forseti. Á þskj. 481 er að finna það álit sem ég skila hér sem 2. minni hl. sjútvn. við þetta frv. Því áliti tengjast brtt. við frv. sem er að finna á þskj. 435 og menn hafa aðgang að í prentaðri dagskrá, sem liggur fyrir þessum fundi, fyrir utan þskj. sjálft.

Ég tek það fram varðandi þetta frv. að ég hef ekki verið í hópi harðra andstæðinga kvótastjórnunar í fiskveiðum í einhverju formi. Það hefur komið fram við allar umræður varðandi lagasetningu um stjórnun fiskveiða frá 1983 að telja að ég hef lýst fylgi við stjórnun fiskveiða í því formi að þar yrði miðað við ákveðið aflamark og aflahámark í sambandi við fiskistofna eftir því sem nauðsyn væri talin að áliti bestu aðila, þó með undantekningu að því er varðar smábáta. Ég lagði nokkuð hart að mér í umræðum hér undir árslok 1983 og 1984 til þess að knýja fram breytingar á því stjórnkerfi sem smábátaveiðar þá voru hnepptar í. Ég segi þetta hér til þess að það sé enginn misskilningur út frá hvaða forsendum ég tala. Það hefur ekki verið neitt leyndarmál heldur. En ég hef jafnframt verið þeirrar skoðunar allt frá 1983 að þetta stjórnkerfi eins og það hefur verið lagt hér fyrir í frv. frá ríkisstjórnum á þessum tíma hafi verið mjög gallað og alvarlegir agnúar hafi verið á þessu stjórnkerfi á undanförnum árum. Þessir agnúar eru því miður hér enn í frv. hæstv. ríkisstjórnar með þeim breytingum sem gerðar hafa verið á frv. í hv. Ed.

Ég bendi einnig á þá ástæðulausu ofstjórn sem nú er gripið til á nýjan leik varðandi veiðar smábáta eftir að leiðrétting hafði fengist fram við nýja lagasetningu um stjórn fiskveiða fyrir árið 1986 og 1987. Ég mun ræða seinna um nokkrar brtt. bæði meiri hl. og minni hl. en ég tek það fram nú þegar að ef ekki verða sniðnir af frv. helstu agnúar, sem við hverjum manni blasa, þá get ég ekki sem minni hl. í sjútvn. og mínir flokksbræður hér og systur, þm. Alþb. í hv. þingdeild, stuðlað að lögfestingu þessa frv.

Ég vil taka næst fyrir málsmeðferðina sem tengist þessu frv. og minna á það, sem ekki var mikið gert af við 1. umr. málsins, að það er meira en ár frá því að hæstv. ráðherra var ætlað skv. lögum nr. 97/1985 að skila inn endurskoðun eða láta fara fram endurskoðun á þeim lögum sem þá voru samþykkt. En hæstv. ráðherra vék sér undan því að hafa forgöngu um þá endurskoðun á lögunum eins og þó var tiltekið í ákvæði til bráðabirgða í nefndum lögum frá 1985. Þessi endurskoðun fór þá ekki fram. Því miður. Það er ekki fyrr en um miðjan september þegar komið er fram á haust, þremur og hálfum mánuði áður en gildandi lög skyldu renna út, að fyrstu viðbragða verður vart af hálfu ráðuneytis að uppfylla kvaðir skv. ákvæði til bráðabirgða í lögunum um stjórn fiskveiða frá 1985. Þá er það sem ráðgjafarnefnd er sett á laggirnar undir forustu sjútvrn., nefnd sem kom mjög litlu ef nokkru til leiðar í reynd, en hélt allmarga fundi. Niðurstaðan varð sú að hæstv. ráðherra lagði þessa ráðgjafarnefnd í rauninni til hliðar og kvaddi til þingmenn, óskaði eftir því að þingflokkar tilnefndu menn í hóp til frekari umfjöllunar um málið. Það var þann 2. nóv, sl. Og þá fór nú aðeins að ganga klukkan á ráðherra og Alþingi í þessu máli. En það leið enn mánuður þangað til frv. ríkisstjórnarinnar kom hér inn í þingið, 4. des. sl. Það voru tvær vikur sem hæstv. ráðherra og ríkisstjórn ætlaði þinginu til að fjalla um þetta mál ef gengið hefði verið að kröfum — eða á ég að segja óskum ríkisstjórnarinnar um þinghaldið, að afgreiða hér á færibandi alla skattalagasúpuna frá hæstv. fjmrh. og þetta frv., svo að nefnd séu nokkur stærstu málin sem við fengum í þessari fyrstu viku desembermánaðar hér inn í þingið. Við afgreiddum það á færibandi fyrir jólin.

Hv. þm. Matthías Bjarnason nefndi það í sínu máli hvernig hagsmunasamtökin ýttu á eftir lagasetningunni. Ég segi ekki með ósæmilegum afskiptum. Ég vil ekki segja það. Auðvitað er öllum aðilum utan þings heimilt að koma sínum sjónarmiðum á framfæri og það er yfirleitt kærkomið að þeir láti til sín heyra. En ég get nú ekki annað en tekið undir orð hv. formanns sjútvn. deildarinnar, Matthíasar Bjarnasonar, um það að heldur var nú kvaðning frá Landssambandi ísl. útvegsmanna, sem barst okkur milli jóla og nýárs, ótímabær og hefðum við kannski átt að bregðast við slíkum heitingum með öðrum hætti en við gerðum. En við gerðum það ekki. Við höfum reynt að greiða fyrir þessu máli eins og samviska okkar hefur boðið, að láta það ekki fara óskoðað í gegn, en auðvitað hefur það fengið miklu lakari meðferð vegna þess tímaleysis og vegna þess þrýstings sem verið hefur á afgreiðslu málsins.

Um þetta höfum við verið að fjalla ásamt öðrum stórmálum á löngum fundasetum hér á Alþingi beggja megin hátíða og áramóta. Það er auðvitað ekki viðunandi í reynd fyrir Alþingi að láta bjóða sér annað eins og þetta í sambandi við stórmál af þessu tagi og ég veit satt að segja ekki hvað getur orðið þinginu til varnar í sambandi við málsmeðferð af þessu tagi í framtíðinni.

Það eru uppi hugmyndir í ákvæðum til bráðabirgða í þessu frv. ríkisstjórnarinnar um nefndir sem eigi að fara yfir málin, ráðgjafarnefndir sem eigi að fara yfir málin og skila bráðabirgðaáliti o.s.frv., en lögin skulu gilda í þrjú ár skv. niðurstöðu hv. Ed. ef henni verður ekki hnekkt. Ég veit ekki hvort við eigum að vænta þess að Eyjólfur hressist og það komi eitthvað meira út úr því endurskoðunarstarfi sem þarna er verið að gera ráð fyrir á gildistíma þessa frv. sem samþykkt verður óbreytt fyrir næstu þrjú árin.

Ég held að það sé meira en tímabært fyrir Alþingi sjálft að setja ríkisstjórn a.m.k. einhverjar skorður í sambandi við framlagningu stórmála hér í þinginu sem hún hyggst fá afgreidd á haustþingi þannig að hægt sé að koma við lágmarksvinnubrögðum og þingið geti haldið sæmilega stöðu sinni gagnvart framkvæmdarvaldinu, því það er í raun og veru um það sem málið snýst öðrum þræði: Hvort Alþingi á að vera stimpilstofnun fyrir framkvæmdarvaldið eða hvort það á að hafa sjálfstæðan vilja en ekki lúta boðum framkvæmdarvaldsins og einstakra ráðherra, svona eins og fram kom hjá formanni Framsfl. og ég vitnaði til áðan í sambandi við þetta mál sérstaklega. Annmarkar á þessu stjórnkerfi fiskveiða eru enn

margir þrátt fyrir þessa skoðun mála og þrátt fyrir fjögurra ára reynslu að baki. Það segi ég í ljósi þess að ég hef verið stuðningsmaður þess að taka upp annað stjórnkerfi en var fyrir 1984 þegar hið svonefnda skrapdagakerfi var notað til að reyna að hafa stjórn á fiskveiðunum og þá um nokkurra ára bil undir forustu hæstv. núv. utanrrh., formanns Framsfl., sem þá gegndi embætti sjútvrh. Við ræddum það þá stundum bæði í ríkisstjórn og síðan hér á Alþingi, eftir að stjórnarsamstarfi Alþb. og Framsfl. og hluta Sjálfstfl. lauk á árinu 1983, hvernig að málum var staðið á þeim árum. Það var nú ekki til fyrirmyndar. Og ég hef aldrei verið hvatamaður þess að menn hyrfu til baka til þess stjórnkerfis þó að þetta sé meingallað sem við höfum búið við síðan.

Þetta mun vera fjórða endurskoðun laga varðandi stjórnun með kvóta eins og það er kallað. Fyrst var endurskoðað frá ári til árs og síðan til tveggja ára og nú stefna menn á þrjú ár samkvæmt formúlu hv. Ed.

Vissulega náðust fram ýmsar lagfæringar á frv. stjórnvalda á þessu tímabili og á lögunum við endurskoðun þeirra. Það voru t.d. sett mun fyllri ákvæði í lögin við endurskoðun 1985 og jafnframt var dregið úr óútfylltum heimildum til sjútvrh., sem flestum fannst vera óhugnanlega margar í hinum fyrstu lögum, lögum nr. 2, sem giltu um þessa stjórnun.

Í sambandi við skoðun mála af hálfu þingsins vil ég taka það fram svo að allrar sanngirni sé gætt að það er auðvitað allt annar blær á vinnubrögðum í kringum þetta mál í samskiptum sjútvn. og ráðuneytis en ríkti hér 1983 og 1984. Þó að ég hafi ekki átt sæti þá í sjútvn. leyfi ég mér að fullyrða að það hafi orðið á breytingar til bóta í þessum samskiptum, og það einnig þrátt fyrir tímaþrengingar undanfarinna vikna, sem koma fram m.a. í því að sjútvn. hafa fengið sýnishorn af reglugerðarhugmyndum ráðherra varðandi almenna stjórnun botnfiskveiða, varðandi veiðar á úthafsrækju og varðandi veiðar smábáta. Þetta er vissulega samkvæmt kröfu frá sjútvn. þingsins og við þeim hefur verið orðið af hálfu ráðuneytis og það ber að virða. Það hefur orðið til þess að náðst hafa fram breytingar sem ég hygg að framkvæmdarvaldið muni ekki hverfa frá þó að reglugerðarvaldið sé í þeirra höndum. En bæði koma hugmyndir varðandi reglugerðarákvæði fram í nál. meiri hl. sjútvn. og er í höndum nefndarmanna þannig að þess verður auðvitað gætt að það verði fylgni þarna á milli í reynd þegar reglugerðir verða settar á grundvelli laganna.

Síðast þegar þessi lög um stjórnun fiskveiða voru endurskoðuð, árið 1985, var breytt verulega til um veiðar smábáta og tekið upp sóknarkerfi með banndögum í stað óskipts heildaraflamagns á báta undir 10 brl. Sá pottur gilti fyrir landið allt, eins og menn kannski muna enn, en að öðru leyti voru veiðar smábáta óheftar fyrir utan þorsknetaveiðar á ákveðnu tímabili, frá 15. febr. að mig minnir til maímánaðar, þar sem um var að ræða sérstök leyfi.

Ég mun nú víkja, herra forseti, að helstu annmörkum sem ég tel að hefði átt að sníða af þessu stjórnkerfi nú við endurskoðun laganna. Ég mun jafnframt nota tækifærið til að minna á brtt. okkar alþýðubandalagsmanna við þetta frv. þar sem við erum að leitast við að sníða mestu vankantana af frv., og raunar gott betur, því að við teljum okkur vera með vel frambærilega lausn á helstu agnúum þessa kerfis eins og þeir hafa birst okkur á undanförnum árum.

Ég nefni í fyrsta lagi það að fiskveiðistjórnunin hefur ekki náð settum markmiðum um veiðar úr nytjastofnunum. Það blasir við hverjum manni sem fylgst hefur með aflatölum frá ári til árs. Á fjögurra ára tímabili, 1984–1987, hafa verið veidd 266 þús. tonn af þorski umfram hámarksafla eins og hann var ákvarðaður með reglugerð frá sjútvrn. hverju sinni, en mörk Hafrannsóknastofnunar, tillögur fiskifræðinga lágu raunar 100 þús. tonnum ofar, voru 366 þús. tonn umfram það sem reynd varð á. Svo menn hljóta að spyrja: Hefur ekki samkvæmt þessu eitt helsta markmið þeirrar fiskveiðistjórnar, sem að var keppt með þessu stjórnkerfi eins og það hefur verið útfært, brugðist að verulegu leyti? Ég er ekki þar með að leggja neitt mat á það hvort tillögur ráðuneytis hverju sinni eða tillögur Hafrannsóknastofnunar hafi hitt naglann á höfuðið en eitthvað ætluðu menn sér með þeim. Og reyndin hefur orðið sú að á fjögurra ára tímabili er aflinn umfram tillögur fiskifræðinganna sem svarar heildarársafla af þorski á síðasta ári, árinu 1987, hvorki meira né minna. Þetta geta menn virt fyrir sér á fskj. Ill, sem eru aflatölur frá Fiskifélagi Íslands þar sem þetta er flokkað frá ári til ars. Þetta eru ótrúlega líkar tölur á hverju ári sem farið hefur verið fram úr þeim breytilegu mörkum sem ákvörðuð hafa verið með reglugerðum. Ég vek athygli á þessu.

Svo nefndir séu til einhverjir hagsmunaaðilar í sjávarútvegi, sem svo eru kallaðir, þá man ég eftir sérstakri samþykkt frá stjórn Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna frá 13. okt. sl. þar sem gagnrýnt er það stjórnkerfi sem hefur verið við lýði og bent á að ekki hafi náðst þau markmið í sambandi við þessa fiskveiðistjórnun sem að var stefnt, ekki síst varðandi hagkvæmni, og kem ég kannski aðeins að því betur seinna.

Þá sný ég mér, herra forseti, að því sem er kannski einn allra mesti og mest áberandi agnúi á þessu stjórnkerfi. Það er sú einhliða úthlutun kvóta til fiskiskipa sem hefur fylgt þessu stjórnkerfi frá byrjun. Það hefur m.a. leitt það af sér að verð á fiskiskipum hefur stórhækkað vegna stjórnkerfisins. Þá hækkun hljótum við að rekja beint til þessa stjórnkerfis þó að ég vilji ekki fullyrða að það sé einvörðungu vegna þess því að sjálfsagt hefði verð hækkað á fiskiskipum ef menn hefðu verið samstiga um það að bæta ekki í flotann, stækka ekki flotann. En verðhækkun á fiskiskipum upp í meira en 100% umfram vátryggingarverð verður ekki skýrt með öðru en því að menn eru ekki bara að kaupa skip, menn eru að kaupa sér veiðirétt, menn eru að kaupa kvóta. Það er því dagljóst að útgerðaraðilar eru farnir að spila á þetta kerfi, eða geta spilað á þetta kerfi, og hagnast á því og veiðirétturinn sem slíkur er orðinn mjög arðbær eign. Ég hef í nál. sett eign innan gæsalappa því að nú þegar menn eru að iðrast, nánast eftir dauðann, eftir að hafa fellt hér á Alþingi tillögur okkar alþýðubandalagsmanna ár eftir ár um það að lýsa fiskistofnana sameign þjóðarinnar og útfæra það í stjórnkerfi um fiskveiðar, þá eru menn þó búnir að taka inn svona stefnuyfirlýsingu í 1. gr. frv. sem hangir hins vegar algjörlega í lausu lofti, svífur þar eins og blaðra og enginn veit hvert hana muni reka og engu máli skiptir í sambandi við frv. eða innihald þess að öðru leyti. Þetta er dúsa sem var sett inn í frv. til að hugga Alþfl. sem mælir hér fyrir meirihlutanál. sjútvn., fyrrv. sjútvrh. Alþfl. Til að hugga Alþfl. En formaðurinn var látinn taka stórt upp í sig í Tímanum 28. nóv. sl. (Gripið fram í.) — Hvað segir hv. þm. Karvel Pálmason? (KP: Ekki allan Alþfl.) Ekki þann sem er í stjórnarandstöðu, nei. — Þar er haft eftir formanni Alþfl. um væntanlegt stjfrv., því það var þá alveg í bökun, ef það var þá komið í bökun, það birtist okkur 4. des.: „Alvarlegt sáttmálabrot um stærsta mál Íslands“, er haft eftir formanni Alþfl. í Tímanum. (KP: Rétt.) Rétt, segir hv. þm. Karvel Pálmason, kominn úr Ed. til að leggja okkur lið hér, virðulegur forseti. (Gripið fram í: Ekki veitir af.) Já, það veitir ekki af að reyna að hressa við alþýðuflokksmenn hér í hv. þingdeild, það fullyrði ég. Því þeir létu sér nægja þessir hv. þm. að fá þessa laustengdu blöðru inn í 1. gr. frv., yfirlýsingu um að fiskistofnarnir séu sameign íslensku þjóðarinnar en gáðu bara ekki að því að tengja þessa blöðru með einhverjum hætti við efni frv. að öðru leyti. Og láta það svo gerast að fyrrv. formaður Alþfl. er látinn mæla fyrir meirihlutaáliti! Ja þvílíkt!

Það alvarlega í sambandi við þennan eignarrétt, sem virðist vera að löghelgast hér á Alþingi þrátt fyrir yfirlýsingar af þessu tagi, eins og lesa má í 1. gr. frv., er að það er alveg ljóst að hann gerir útgerðaraðilum kleift, óprúttnum aðilum segi ég, sem ætla að leggja upp laupana í sjávarútvegi, hugsanlega, gerir þeim kleift að ganga út með stórfé fyrir ekki neitt. Að ganga út með tugi ef ekki hundruð milljóna í sambandi við sölu á skipum, andvirði fyrir veiðirétt sem Alþingi er að úthluta þeim. Hvers konar siðgæði er þetta? Sjá menn þetta ekki? Loka menn bara augunum fyrir þessu? Ég ætla engum það að vera svo blindur að sjá ekki hvað er að gerast í þessum efnum. Ég vísa til fskj. með nál. mínu, fskj. IV, en það er svar frá Þjóðhagsstofnun við fsp. frá Skúla Alexanderssyni, hv. þm. af Vesturlandi, sem er að vekja athygli á og fá mat Þjóðhagsstofnunar einmitt á þessu sprengiverði á fiskiskipunum. Þar er það viðurkennt í svari frá Þjóðhagsstofnun, undirritað af Eyjólfi Sverrissyni, með svofelldum orðum, virðulegur forseti:

„Hitt er alvarlegra mál“, segir þar, „ef aðilar í sjávarútvegi selja eignir sínar á slíku verði og hætta í sjávarútvegi en í staðinn kæmu aðilar skuldum vafnir vegna slíkra kaupa og væru því vanbúnari til að takast á við hugsanleg áföll í atvinnugreininni.“

Á hvern á að skrifa þann reikning? Hvar kemur hann fram í íslensku efnahagslífi sá reikningur sem meiri hl. hér á Alþingi ætlar að gera einstaklingum í þessu landi kleift að senda þjóðinni og sjávarútveginum í landinu? Fyrir ekki neitt. Út á stjórnkerfi sem er þannig lagað að menn geta haft hundrað milljónir upp úr því að hafa eignast skip hér fyrir tíu árum og gengið síðan út að lokinni sölu á veiðirétti, fyrir utan skipið, með tugi ef ekki hundruð milljón kr. í vasanum. Og menn ætla hér að lögfesta þetta til þriggja ára áframhaldandi! Eru menn með fullu ráði?

Síðan er annað atriði, sem tengist úthlutun veiðiréttar á skip og ég kem að og tek upp í mínu áliti, og það er að engar hömlur eru settar á sölu fiskiskipa burt úr heimahöfn og ekki er girt fyrir þá hættu, svo við segjum ekki voða, sem því getur fylgt og hefur raunar komið fyrir sem afleiðing af slíkri sölu fyrir hráefnisöflun, vinnu og vinnslu, fiskvinnslu í viðkomandi byggðarlögum. Hvað er verið að bjóða upp á með því að setja ekki hömlur á slíkt? Hvar er sá „alþýðuflokkur“ staddur, hv. þm. Árni Gunnarsson, sem heldur hér uppi samræðum við ræðustólinn, hvar er sá „alþýðuflokkur“ staddur sem ekki tekur undir þó ekki væri nema það heimildarákvæði sem formaður sjútvn. þessarar deildar gerir tillögu um að sett verði inn í frv.? Að það sé þó heimild til að bregðast við slíkri vá sem steðjað getur að einstökum byggðarlögum vegna þess að hér eru engar hömlur settar á að selja skip burt og rjúfa hráefnisöflun til einstakra staða sem eiga allt sitt undir sjávarfangi. Ja, ekki heyrði ég mikið frá hv. talsmanni meiri hl. hér um áhyggjur í því efni. Jú, það var reyndar nefnt, það var eitt af því sem ráðgjafarnefndin átti að skoða á þessu þriggja ára gildistímabili, hún átti svona að velta fyrir sér hvaða áhrif þetta gæti nú haft. Eru menn ekki með reynsluna? Hafa menn ekki séð hvað gerðist á Grundarfirði? Þekkja menn ekki aðstæður á Patreksfirði? Og hvenær kemur röðin að þinni heimabyggð, þm. góður eða því umdæmi sem þér er ætlað að horfa til öðru fremur í þessum efnum? Engar hömlur eru byggðar inn í þetta frv. og ekkert gert með tillögur okkar alþýðubandalagsmanna um það að búa til það sem við köllum byggðakvóta og er það öryggi sem hægt er með auðveldum hætti, með einfaldri ákvörðun og lagasetningu hér á Alþingi að setja inn í þennan frumvarpstexta og lögfesta nú að fáum dögum liðnum á Alþingi. Þá væri girt fyrir það að útgerðaraðilar seldu einn, tveir, þrír veiðiréttinn frá einstökum byggðarlögum eins og nú er opið fyrir skv. tillögu meiri hl. og ríkisstjórnarinnar í þessu máli.

Ég fullyrði að þarna eru menn að tefla ekki aðeins í tvísýnu. Litlu útgerðarstaðirnir, sem eru kannski bundnir afla frá einu togskipi, hanga á bláþræði. Hanga á bláþræði hvað snertir afkomuöryggi og allan hag viðkomandi byggðarlags. Það er ekki bara fiskvinnslufólkið, þó að það eigi sitt atvinnuöryggi undir, það er allt byggðarlagið sem er í hættu. Tillaga Alþb. til að girða fyrir þetta er sú, kjarni hennar er sá að ef skip er selt úr byggðarlagi þá fylgi skipinu ekki kvóti, ekki veiðiréttur nema að einum þriðja þess sem skipið hefur fengið úthlutað. Tveir þriðju verði eftir. Halda menn ekki að ákvörðun um slíkt mundi slá á verðið, á þetta happdrættisverð á fiskiskipunum? Og ætli það mundi ekki draga úr því að verið væri að reyna að kaupa skip á milli staða og landshluta? Auðvitað geta menn sett spurningarmerki við það hvort í einhverjum tilvikum geti ekki verið skynsamlegt að færa til, opna fyrir tilfærslu á skipum, en menn þurfa að hafa varnagla til að verja sig í þessum efnum. Ef byggðarlagi hentar að taka undir það að fiskiskip sé selt og menn eru sammála um það þá eiga auðvitað engin lög að banna slíkt, koma í veg fyrir slíkt ef það er sammæli um það. En menn þurfa hér varnagla og hann höfum við sett í okkar tillögum um byggðakvóta.

Ég vek athygli á því, virðulegur forseti, að þetta stjórnkerfi í fiskveiðum, kvótakerfið eins og það er útfært og eins og á því hefur verið haldið, hefur ekki orðið til þess að bæta meðferð á afla sem færður er á land. Ekki frekar en hið fyrra stjórnkerfi, skrapdagakerfið sem ég er ekki að hæla hér. Það hefur nefnilega ekki verið tekið fyrir það. Það er beinlínis má segja hvati hjá fiskiskipunum að ná sínum afla á sem stystum tíma. Og tillitið sem tekið er til vinnslunnar og gæða og endanlegs verðmætis aflans er ekki byggt inn í þetta kerfi. Auðvitað er það eitt af því sem taka þarf á í sambandi við stjórnun fiskveiða. Það er öll vinnslurásin sem hér skiptir máli. Það hefur bara ekki verið gert með viðhlítandi hætti. Við búum hér við aflatoppa sem verða til þess að meðferð hráefnis er alls ekki með því horfi sem skyldi. Ætli þeir hefðu ekki sögu um þetta að segja hjá gæðaeftirliti Ríkismats sjávarafurða, þeir aðilar sem eru að fylgjast með gæðum aflans? Ég hef heyrt ýmsar heldur leiðinlegar sögur t.d. frá síðasta sumri í þeim efnum. Ég er ekki að sakfella neinn í því, ég er aðeins að benda á að stjórnkerfið sem slíkt tekur ekki á vandanum.

Þá er eitt atriðið sem mikið hefur verið rætt um sem eðlilegt er. Það er vaxandi útflutningur á óunnum fiski sem hefur valdið hráefnisskorti í verstöðvum eins og í Vestmannaeyjum og Ísafirði, svo dæmi séu tekin. Sú hætta sem slíkum útflutningi fylgir, fari hann út yfir eðlileg mörk — ég segi eðlileg mörk því ég hef ekkert að athuga við það að menn sinni í einhverjum mæli markaði fyrir ísfisk erlendis, það getur verið allra hagur að hafa aðgang að slíkum markaði í einhverjum mæli — en stóra hættan er sú að útlendingarnir fari að spila á þetta kerfi okkar, að þeir komist hér bakdyramegin inn í landhelgina með því að ýta undir útflutning á óunnum fiski og taka hann til vinnslu í sínum eigin stöðvum erlendis, í sínum vinnslustöðvum sem eru til staðar og dæmi eru um og eru í uppbyggingu þar sem horft er til þess að ná óunnum afla af Íslandsmiðum, frá íslenskum fiskiskipum, til vinnslu og þá auðvitað um leið samkeppni við íslenskar afurðir á viðkomandi mörkuðum.

Á þessu þarf að taka. Það er reynt í þessu frv. með 15% álagi, eða allt að því, á óunninn fisk til frádráttar á aflamarki eða aflahámarki. Ég hygg að þessi frádráttur hafi numið nálægt 5000 lestum, ef ég man rétt, nálægt 5000 lestum á síðasta ári vegna slíks útflutnings og skerðingarákvæða af þessu tagi. En Ed. felldi út tillögu um aukaálag til að setja frekari hömlur á slíkan útflutning þannig að eftir stendur aðeins þessi heimild um 15% að hámarki.

Ég efa það, hæstv. sjútvrh., að þessar heimildir í frv. séu fullnægjandi til að hafa stjórn á útflutningi á óunnum fiski. Sérstaklega af því að við erum að ræða hér um lagasetningu til nokkurra ára. Við í Alþb. höfum lagt til annað fyrirkomulag í þessu samhengi, sem felst í því að lagt verði á sérstakt útflutningsgjald á fisk sem geti verið breytilegt, allt að 5% miðað við söluandvirði á ísfiski. Það sé hægt að haga álagningu þessa gjalds m.a. með hliðsjón af stefnu helstu viðskiptalanda okkar í sambandi við tolla. Auk þess er tekið fram í okkar tillögu að andvirðið renni til rannsóknar- og þróunarstarfsemi í sjávarútvegi, sem ekki mun af veita jafnsmátt og ríkisvaldið skammtar í þeim efnum og við urðum vitni að við afgreiðslu fjárlaga.

Þá er það miðstýringin margumrædda, virðulegur forseti, sem er vissulega einkenni á þessari stjórnun fiskveiða, óhjákvæmileg að vissu marki en heldur óskemmtileg við að búa til lengri tíma þegar hún birtist þannig að það er mjög erfitt fyrir nýja aðila að ná fótfestu í sjávarútvegi, koma inn í tilraunir, nýbreytni og spreyta sig þar. Þá er þetta kerfi lokað nema þér takist að komast yfir fiskiskip, nema þú eigir þær milljónir og milljónatugi eða hundruð milljóna sem til þess þarf. Nema á smábátunum, þar hefur þetta verið opið. Og þar birtist okkur vissulega á undanförnum árum sá áhugi sem er á Íslandi enn í dag til að sækja sjó, sem betur fer, lifandi áhugi á því að sækja sjó og draga fisk úr sjó. Menn hafa í ríkum mæli reynt að komast yfir smábáta til þess að nota þá einu smugu í rauninni sem hefur verið til þátttöku í fiskveiðum og lái þeim hver sem vill. Þrátt fyrir það stend ég hér að tillögu um það að á þetta verði settar vissar hömlur vegna þess að einhliða uppbygging á þessari tegund flotans er auðvitað ekki neitt heilræði, er auðvitað engum til góðs til lengri tíma litið og ekki tilkomin vegna áhuga þeirra sem í þessari útgerð eru fyrir, nema síður sé, svo sem eðlilegt er.

Við höfum gert tillögur um það að opna fyrir möguleikum til þess að komast frá þessari rígskorðun við veiðiskip og úthlutuðu aflamarki á veiðiskip með því að gera ráð fyrir því að litlum hluta, allt að 5%, mætti halda eftir þegar afla er úthlutað á skip, frá árinu 1989 að telja, til þess að opna fyrir lagfæringum og skapa möguleika fyrir nýja aðila til að koma inn í sjávarútveginn og til þess að gera tilraunir með veiðar og vinnslu í sjávarútvegi. Auðvitað þarf að fara varlega með slíka heimild og ekki síst er hún erfið ef um samdrátt er að ræða í heimiluðum heildarafla og menn standa frammi fyrir því að búa við skerðingu frá því sem var eins og gert er ráð fyrir nú á milli ára, frá árinu 1987 til ársins 1988.

Virðulegur forseti. Þá kem ég að þætti sem mikið hefur verið ræddur sem eðlilegt er og ég get ekki hlaupið yfir. Það eru smábátaveiðarnar, veiðar báta undir 10 tonnum, þau ákvæði sem hæstv. ráðherra setti inn í sitt frv. og liggur hér enn fyrir, að vísu að breyttu breytanda, með nokkrum breytingum frá hv. Ed. og nú breytingum til lagfæringa af hálfu sjútvn. þessarar hv. deildar, tekið fram í nál. meiri hl. þar sem þessum breytingarhugmyndum er lýst. Ég tek það fram, ítreka það hér, að ég og aðrir talsmenn stjórnarandstöðu í sjútvn. og andstæðingar þessa frv. innan nefndarinnar hafa ekki síður en aðrir, ég vil segja fremur en aðrir, lagt áherslu á breytingar og tekið undir allar breytingar sem til bóta gátu horft í sambandi við meðferðina á smábátunum eins og hún var kynnt hér í frv. hæstv. ráðherra og ríkisstjórnar fyrir mánuði síðan.

Við alþýðubandalagsmenn flytjum brtt. við 10. gr. Það er hægt að hafa um það fá orð, virðulegur forseti. Brtt. felst í því að búa við svipaða stjórnun, áframhaldandi við svipað fyrirkomulag varðandi veiðar báta af þessum stærðarflokki og verið hefur undanfarin tvö ár. Ég fagnaði því vissulega þegar þau ákvæði komust í lög sem þar voru, þó ég gerði við þau athugasemdir og sæti hjá 1985 við atkvæðagreiðslu um 9. gr. í þáverandi frv. til l. um stjórn fiskveiða, því mér leist ekki á banndagakerfið. Mér fannst það ganga of langt. Og mér finnst það í rauninni ganga of langt að lögfesta það áframhaldandi til þriggja ára ef við ættum völ á því. En vegna þess að Samband smábátaeigenda hefur lýst vilja sínum um að búa við óbreytt kerfi fyrir sína umbjóðendur, þá hef ég ekki gert athugasemdir við það. Hins vegar hef ég gert athugasemdir við það að lengja með einhverjum hætti banndagana, fjölga banndögum og bæta þar við þá erfiðleika sem mörg þau byggðarlög, sem eiga mest undir smábátaútgerð, búa við, þurfa að búa við af náttúrunnar hendi. T.d. með þeim hætti sem vel kom fram nú alveg nýlega í vitali við einn af ágætum fulltrúum Grímseyinga sem hafa með réttu látið til sín heyra í sambandi við þetta mál. Og ég leyfi mér hér að vitna til ummæla í Morgunblaðinu sl. sunnudag, höfð eftir Haraldi Jóhannssyni trillukarli, eins og hann þar er kallaður, með réttu sjálfsagt, úr Grímsey. Þar segir, virðulegur forseti, og ég tek bara eina málsgrein út úr þessu viðtali:

„Í gegnum tíðina hefur veðráttan sett á okkur 270–280 banndaga á ári á handfærunum. Okkur hefur fundist óþarfi að bæta á þessa banndaga af ráðuneytinu úr Reykjavík. Mikill hluti þessara daga kemur á versta tíma fyrir okkur.“

Ég nefni þetta hér, herra forseti, vegna þess að mér finnst að það séu ekki bara einhverjir embættismenn í ráðuneytunum sem vilja gleyma þeim aðstæðum sem mönnum eru búnar á Íslandi af náttúrunnar hendi og koma mjög misjafnlega við menn, bæði eftir því hvar þeir búa og við hvað þeir dunda sér, við hvaða rekstur þeir fást.

Ég þekki það úr mínu kjördæmi, þar sem smábátaútgerð er gildur þáttur og reyndar undirstaða í nokkrum byggðarlögum, að þar eru þeir dagar, sem náttúran tekur frá í sambandi við sókn smábáta, það margir að það ætti að vera þarflaust fyrir Alþingi Íslendinga að vera að auka þar við með sérstökum lögákveðnum banndögum fyrir útgerð af þessu tagi.

Með frv. ríkisstjórnarinnar er vissulega á mjög grófan hátt, svo vægt sé nú til orða tekið, gengið gegn hagsmunum þeirra sem hafa framfæri sitt af smábátaútgerð. Það hafa engin frambærileg rök komið fram frá hæstv. sjútvrh. eða öðrum talsmönnum þessa frv. um nauðsyn breytinga gagnvart veiðum smábáta eins og gerðar eru tillögur um af ráðherranum og nú af meiri hl. í þessari hv. þingdeild þó að tekist hafi að fá þokað þar ýmsum ákvæðum til skárri vegar en var í frv.

Ég vek athygli á því sem fram kemur í fylgigögnum með mínu nál. í fskj. V, þar sem eru grg. og skýringar fulltrúa samtaka smábátaeigenda á rökleysum sem fram hafa komið frá hæstv. ráðherra og talsmönnum þessa máls gagnvart þætti smábátanna í heildarafla og aflahlut, auknum aflahlut á síðasta ári. Það var innan við 2% sem trillurnar tóku úr þeirri aukningu á þorskafla umfram það sem gert var ráð fyrir með reglugerð. Aðeins tæp 2%. Og heildaraflahlutur þeirra bæði að mati þeirra sjálfra hygg ég og sjútvrn. er ekki nema um 8% þó mönnum henti nú að slétta úr þeirri tölu og segja að það sé um 10% — og halda raunar sumir fram að bætt hafi verið í þann skammt einhverju, svona til að leika á kerfið. Ekki skal ég dæma um það. En ég tek það fram að vinna og málsinnlegg smábátaeigenda í sambandi við þetta mál sem við ræðum hér og frv. ríkisstjórnarinnar er þeim til mikils sóma. Þeir hafa ekki farið neinu offari í sínum málflutningi. Þeir hafa hins vegar komið á framfæri við okkur þm. og sjútvn. þingsins mjög skilmerkilegum, skýrum málflutningi í munnlegu og skriflegu formi, þar sem þeir hafa skýrt sín mál og sína hagsmuni og auðveldað mönnum að greina hismið frá kjarnanum, og margt af því sem veifað hefur verið í sambandi við málsvörn þeirra af þeim sem bera fram þetta frv. og það kerfi sem hugmyndin er að reyra smábátaveiðarnar í samkvæmt því.

Ég nefni hér, virðulegur forseti, án þess að gera það að máli, Þorláksmessuinnleggið í Tímanum í garð smábátaeigenda sem voguðu sér að fylgjast með málum ásamt fleiri áhugamönnum um þetta frv. sem hér er rætt á þingpöllum Alþingis. Það voru heldur kaldar kveðjurnar sem komu í stjórnarmálgagninu Tímanum til þess hóps sem eyddi með þm. næturstund, verandi á þingpöllum í hv. Ed. þingsins. Þar komu fram hugmyndir og kröfur um að það ætti að loka þinginu fyrir fólki af þessu tagi. Það ætti bara ekkert að hleypa því að. Það ætti ekkert að vera að skipta sér af því sem hér væri verið að gera, Alþingi ætti að fá frið til að starfa.

Ég tók það fram við 1. umr. að ég er ekki að gera því skóna að þm. Framsfl. hafi pantað yfirlýsingar af því tagi í málgagni sínu. En samt lýsir það inn í hugarheim sem er mér mjög framandi varðandi starfshætti Alþingis og er svolítið í ætt við það sem ég var að geta um í upphafi máls míns, kvaðningarnar frá hæstv. formanni Framsfl., utanrrh., í sambandi við kröfuna um lyktir þessa máls, stutt og laggott nú upp úr áramótunum: í samræmi við vilja og eingöngu í samræmi við vilja hæstv. sjútvrh.

Ég gæti hér, herra forseti, tekið nokkurn tíma í það að ræða þær breytingar sem þó hefur tekist að þrýsta fram varðandi smábátaveiðarnar í þingnefnd og birtast í brtt. frá meiri hl. sjútvn. og er auk þess að finna í hugmyndum að reglugerðarsetningu varðandi hámarksafla fyrir þorsknetaveiðar, breytingar sem eru til bóta frá því sem upphaflega lá fyrir og kynnt var bæði í frv. og reglugerðardrögum frá 11. des. sl., þá fyrir sameiginlegum nefndum þingsins, en færa þetta mál þó engan veginn í viðunandi horf. Engan veginn í viðunandi horf. Það er alveg dæmalaust að heill þingflokkur og ráðherrar hans, ráðherrar Framsfl., skuli stríða við það ekki bara vikum heldur í raun árum saman, allan þann tíma sem þetta stjórnkerfi hefur verið við lýði, og fyrst var sýnt hér frv. um það haustið 1983, að gera þeim sem smábátaútgerð stunda lífið svo leitt að þeir sjá í rauninni mjög illa fram úr sínum hagsmunum, grundvallarhagsmunum, eigi þeir að fylgja lögum sem þeir fá yfir sig héðan frá Alþingi.

Ég hef enga skýringu í rauninni á þessari þráhyggju af hálfu hæstv. sjútvrh. varðandi þennan veiðiskap sem tekur ekki til sín meira en 8% af þorskaflanum á síðasta ári og sáralítið af viðbótinni umfram það sem var á árinu 1986. Að það skuli vera strekkt í þessu máli með þeim hætti sem hér er, að það þarf að toga með töngum hverja litlu breytinguna og lagfæringuna eftir aðra til þess að þoka málum þannig að menn geti sagt: Nú, þetta er eitthvað í áttina. Slæmt er það, en kannski er þetta ekki dauðadómur. En eftir stendur það að ég held að þetta stríð, þetta einkastríð hæstv. sjútvrh. og bandamanna hans gagnvart smábátaútgerðinni verði engum til ánægju sem er ætlað við það að búa eða reyna að stjórna í ljósi þeirra ákvæða sem hér er verið að lögfesta.

Virðulegur forseti. Ég hafði reiknað með því að það væru kannski fleiri sem vildu taka þátt í umræðum hér um þetta mál en ætla má af viðveru hv. þm. Hér er inni í þinginu nú ágætur kunningi minn af Austurlandi, varamaður hv. þm. Sverris Hermannssonar, Kristinn Pétursson. Það væri kannski eðlilegt að segja þm. frá því að ég nefni nafn hans hér í ræðustól. Ég geri það vegna þess að hann kemur úr einu af þessum dæmigerðu byggðarlögum sem eiga allt sitt undir smábátaútgerð. Ég tók til handargagns ummæli hans í Morgunblaðinu 23. des. sl. varðandi skerðinguna á smábáta, það var löngu áður en ég hafði hugmynd um að hann kæmi hér inn á þing sem varamaður. Þar orðar hann þetta með miklu skýrari og afdráttarlausari hætti en ég leyfi mér í þessum ræðustól og hef gert til þessa, um það hneyksli sem hann kallar skerðinguna gagnvart smábátum, og geta menn kynnt sér þau ummæli í tilvitnaðri grein í Morgunblaðinu 23. des. sl. Ég fagna því að hv. nefndur þm. skuli vera hér staddur einmitt við afgreiðslu þessa máls til að fylgja skoðunum sínum eftir hér á Alþingi áður en þetta frv. er lögfest. Þeir væru betur komnir hér fleiri úr þeim byggðarlögum á Íslandi sem eiga allt sitt undir útgerð báta sem eru minni en 10 brl.

En, herra forseti, það þarf ekki alltaf ýkja mikið til að hugga menn í þessum efnum og ég kemst því ekki hjá því að nefna það að ég var svolítið hissa þegar ég heyrði hvað var fljótlegt að skrúfa niður í hv. 1. þm. Vesturl. sem hefur leyft sér að hafa uppi athugasemdir við áform hæstv. sjútvrh. í sambandi við smábátaútgerðina. Það þurfti sko ekki mjög mikið. Það þurfti ekki ýkja mikið til að skrúfa niður í hv. þm. Alexander Stefánssyni í þeim efnum, til að fá hann til að lýsa ekki aðeins yfir að hann yndi við það kerfi sem nú á að skella á með lagasetningu hér frá Alþingi, heldur lýsti hann yfir alveg sérstakri ánægju sinni með það sem stæði nú í textanum eins og hann er kynntur af meiri hl. sjútvn. Var bara himinlifandi. Nú þurfa smábátaeigendur sannarlega ekki að kvíða framtíðinni að dómi þess hv. þm. ef marka má viðhorf hans eins og ég heyrði til hans í sjútvn. þingsins. Kannski er þetta bara miklu betra en mér sýnist það vera, hæstv. sjútvrh.? (Gripið fram í.) Ráðherrann heldur það. Hann er þeirrar skoðunar að þetta hugverk sem við höfum verið að streitast við að lagfæra nú síðustu fjórar vikurnar, í kringum stórhátíðarnar og messuhaldið á Íslandi, hann telur að þetta hafi allt saman verið misskilningur hjá þinginu að vera að krukka í hugverk hans eins og hann lagði það fram hér 4. des. sl.

Eitt er það sem ég kemst ekki hjá að nefna varðandi þennan gleðiboðskap frá 1. þm. Vesturl. og öðrum í meiri hl. sjútvn. þessarar hv. þingdeildar varðandi smábátana og það er ákvæði í sambandi við endurnýjun. Það er tilhögun á endurnýjun á bátum í þessum stærðarflokki. Hæstv. sjútvrh. hefur eðlilega haft nokkrar áhyggjur af því hvernig ákvæðin, sem hann fékk lögfest hér 1985, hafa birst, þessi eina smuga sem menn hafa haft til þess að komast nýir út á sjó til að dorga, til að draga fisk, hvernig þau hafa virkað þar sem smábátum hefur fjölgað mjög mikið þessi síðustu ár, og kannski alveg sérstaklega síðustu tvö árin. Hann fékk þá kvaðningu frá Landssambandi smábátaeigenda að þeir teldu það enga goðgá að reisa skorður við þessari fjölgun. Töldu það ekki óeðlilegt. Ég hefði þá haldið að hæstv. ráðherra mundi reyna að byrgja þennan brunn sem hann hefur haft svo þungar áhyggjur af. En hvað sjáum við? Hann er bara byrgður til hálfs. Brunnurinn er bara byrgður til hálfs. Það eru settar úreldingarkröfur á endurnýjun báta yfir 6 tonn að stærð, milli 6 og 10 tonna, og báta undir 6 tonnum sem fá heimild til netaveiða, sem nýta sér heimild til þorsknetaveiða. Þeir eiga að fylgja endurnýjunarkröfu eftir úreldingarkerfi, bátur fyrir bát. En að öðru leyti á þetta að vera frjálst.

Menn hafa talað mikið um þessa báta af stærðinni 9,9 tonn og haft það í flimtingum að það sé kannski ekki alveg farið eftir þeim reglum eins og menn ætluðu sér á sínum tíma þegar þessi mörk voru dregin í sambandi við smíði þeirra báta sem sumpart eru nú ekki komnir á sjó, en eru í smíðum. En ætli dragi ekki að því, hæstv. sjútvrh., að það bara komi nokkuð margir í staðinn fyrir 9,9? Að það verði 5,9? Það verði næsta bylgjan? Nema að Íslendingar bara hlýði og hætti að fara á sjó, nýir aðilar hætti að fara til veiða, sem ég vona nú að gerist ekki, því að smábátaútgerðin er kannski einn besti sjávarútvegsskólinn á Íslandi, virkasti sjávarútvegsskólinn á Íslandi, þar sem menn bæði stunda þetta sem atvinnurekstur en einnig byrja á þessu sér til dægrastyttingar og jafnvel gamans. Mun væntanlega enginn amast við því þó að það sé gert. En þetta er sjávarútvegsskóli og harður skóli hjá þeim sem hafa þetta að lífsviðurværi.

Ég hafði einhvers staðar, virðulegur forseti, handa á milli yfirlit, og það er raunar að finna hér í fskj. með nál. mínu, yfir stærðir smábáta og fiskibáta utan kvótakerfis eins og það var á liðnu ári. Ég held að það væri fróðlegt fyrir hæstv. ráðherra og hv. þm. hér í deildinni að líta á þetta yfirlit yfir smábáta skv. skipaskrá 1. jan. 1987, sjá hvernig þetta flokkast í stærðarflokka. Af 1600 skráðum smábátum undir 10 brl. var yfirgnæfandi meiri hluti af stærðinni undir 6 tonnum í byrjun síðasta árs. Það eru langt innan við 200 bátar sem eru á bilinu 6–10 tonn. Um 50 á milli 6 og 7 tonna, um 50 á milli 7 og 8 tonna, 36 8–9 tonn og aðeins 19 á bilinu 9–10 tonn. Þetta er fróðlegt að skoða og hafa í huga þegar menn eru að ræða um þau ákvæði sem meiri hl. sjútvn. og hæstv. ráðherra lagði til strax í sínu frv.: Skorður yfir 6 tonn en frjálst undir nema þorskfisknetaveiðarnar.

Það er kannski ágætt að hæstv. ráðherra skilji eitthvað eftir handa sér að glíma við, ef hann skyldi enn vera í sínum stól þegar kemur að endurskoðun þessara laga, til að glíma við í sambandi við smábátana, þá bylgju sem hlýtur að rísa í sambandi við smíði báta undir 6 tonnum.

Ég held að þetta sé ekki komið samkvæmt óskum smábátaeigenda og ég held að þessi hálflokaði brunnur verði ekki skýrður með því að það sé svo erfitt að fylgjast með þessu, úthluta leyfum o.s.frv. Það er afskaplega skrýtið finnst mér þegar menn eru að kenna því um að það sé ómögulegt að hafa eftirlit, hlutirnir séu svo flóknir núna á tölvuöld, fylgjast með málum, að hafa eftirlit með leyfum og leyfisúthlutun o.s.frv. Það er yfirleitt fyrirsláttur, sett fram til afsökunar eða betrunar sínum málstað eða skýringa og ég held hún eigi ekki við í sambandi við þetta, að það sé svo erfitt að greina t.d. raunverulegan fiskibát af þessum stærðarflokki frá sportveiði. Einhvers staðar gefa menn upp sinn afla, menn sem eru að fiska eitthvað meira en bara rétt í pottinn sér til gamans. Og ég held að það væri engin ofætlan að hafa yfir það skrá. Ég tel að það sé svolítið einkennilegt að vera að færa þessi endurnýjunarmörk niður að 6 tonna mörkunum og þykist sjá hvaða afleiðingar það hljóti að hafa þó að ég sé ekki að segja að það sé neinn voði á ferðum. Það er nú ekki sá afli sem þessar fleytur taka þó stundað sé á þeim býsna stíft, eftir því sem stjórnkerfið frekast leyfir og náttúran.

Herra forseti. Ég ætla að láta þetta nægja um þennan þátt, þetta umdeilda atriði varðandi smábátaveiðarnar og mun ekki ræða það nema þá síðar ef tilefni er til. En ég hef hér lýst ýmsum augljósum og reyndar mjög stórum annmörkum á þessu stjórnkerfi sem verið er að endurskoða og lögfesta til þriggja ára að tillögu meiri hl. sjútvn. Ég er alveg undrandi á því að það skuli ekki vera meiri tilburðir að læra af reynslunni heldur en birtist okkur í þessu frv. Það er eins og menn ætli sér bara engan tíma í þessi mál. Hvað hafa menn verið að gera, menn sem eru þó að fylgjast með þessu frá degi til dags í sjútvrn. á Íslandi? Að þeir skuli ekki reyna að koma fram með tillögur og ábendingar til að sníða augljósa og hrikalega annmarka af þessu kerfi, sem eru matarholur fyrir þá sem óprúttnir eru og gætu komast yfir stórfé út á kerfið eitt vegna þess að veiðirétturinn er farinn að ganga kaupum og sölum í gegnum skipin, tengt skipunum, og ég hef þegar rætt hér.

Við höfum séð ástæðu til þess í Alþb. að leggja nokkuð á okkur til þess að reyna að koma fram með tillögur til þess að sníða af annmarka á þessu kerfi og ná saman um þá hluti. Þær tillögur liggja fyrir í formi brtt. á þskj. 435 og margháttaðra ábendinga á fskj. VlI með mínu nál. þar sem er sú fiskveiðistefna sem undirbúin var af þingflokki Alþb. og samstaða var um í miðstjórn flokksins á fundi miðstjórnar í byrjun desember sl.

Herra forseti. Ég hef séð ástæðu til að taka inn í nál. mitt ábendingar um stöðu hafrannsókna í tengslum við stjórn fiskveiða og láta fylgja með áliti mínu álit Hafrannsóknastofnunar eins og það birtist okkur í nýlegum grg. frá stofnuninni um nytjastofna sjávar og umhverfisþætti á árinu 1987 og aflahorfur 1988 og í sambandi við áætlun stofnunarinnar í samvinnu við Rannsóknaráð ríkisins um haf- og fiskirannsóknir fyrir tímabilið 1988–1992. Ég held að menn horfi allt of lítið á þennan þátt mála, þörf og gildi rannsóknanna til að koma upp brúklegu stjórnkerfi í fiskveiðunum og geta staðið að þessum málum í ljósi vitneskju sem byggð er á þekkingu og sem aðeins getur verið uppskera af rannsóknastarfi. Þarna er skammtað ótrúlega smátt í íslensku samfélagi til þessara þátta. Við búum við það að rétt um 1/2% af andvirði seldra sjávarafurða er varið til hafrannsókna og fiskileitar, um helmingi lægra hlutfall og meira en varið er til þessara mála hjá nágrannaþjóðum okkar sem byggja þó ekki á fiskveiðum nema að óverulegu leyti sinn þjóðarbúskap. Við sem allt eigum undir sjávarútveginum í sambandi við útflutningstekjur, gjaldeyrisöflun í þessu landi, verjum langt um minna en Norðmenn í þessu skyni og fleiri grannþjóðir. Og vitneskja okkar um ástand hafsvæðanna í kringum Ísland og samspil lífsins í sjónum, vistkerfi sjávarins, er auðvitað gloppótt að sama skapi vegna þess að við höfum ekki gefið okkar vísindamönnum svigrúm, búnað og tæki og mannafla til að fara yfir þessi mál og gera sínar rannsóknir eins og þörf væri á. Þarna eru mjög margar spurningar sem er ósvarað og sem snerta ákvarðanir um t.d. heildaraflahámark á þær tegundir botnfiska og annarra sjávardýra sem tekin er upp skömmtun á í varúðarskyni samkvæmt og með hliðsjón af tillögum Hafrannsóknastofnunar. En það er auðvitað viðurkennt af forráðamönnum Hafrannsóknastofnunar og öðrum sem við þessi mál fást í reynd að þeirra svör, þeirra tillögur byggja engan veginn á fullnægjandi þekkingu eða fullri þekkingu á samhenginu á íslenskri fiskislóð, á hafsvæðunum í kringum landið. Það er nöturlegt þegar verið er að skammta með þeim hætti sem við erum vitni að hér við afgreiðslu fjárlaga til þessara þátta og ekki er tekið undir tillögur um að bæta aðeins úr, auka eitthvað að raungildi fjármagn til rannsókna á undirstöðu íslensks samfélags sem eru fiskveiðarnar.

Það hafa komið fram í umræðunum ýmsar spurningar við 1. umr. þessa máls í þingdeildinni um þessa þætti, eins og í ræðu hv. þm. Geirs Gunnarssonar við 1. umr. málsins í sambandi við verndun fiskistofnanna og í ræðu hv. 12. þm. Reykv. við 1. umr. þar sem hún var að benda á ýmsar spurningar sem tengjast þeim gögnum sem fyrir liggja frá Hafrannsóknastofnun m.a. og skylt er fyrir þm. að reyna að lesa sig í gegnum þegar verið er að fjalla um stjórnun fiskveiða því að auðvitað viljum við öll reyna að byggja þá stjórnun á þekkingu og vitneskju. Það bara kostar dálítið að afla hennar. Og það er okkar hér á Alþingi að tryggja að það fjármagn sé ekki of naumt skammtað. Ég vek athygli á þessu hér, virðulegur forseti, og bendi jafnframt á að það er ekki bara um vistfræðilegar rannsóknir og lífríkislegar rannsóknir á hafsvæðunum að ræða í sambandi við stjórnun fiskveiða. Það þarf að samþætta rannsóknir á þessu sviði, tæknilegar varðandi veiðarfærin, félagslegar varðandi byggðirnar og auðvitað líffræðilegar og vistfræðilegar í sambandi við þann nægtabrunn sem við höfum getað ausið úr og höfum náð tökum á, fullveldistökum á með útfærslu okkar landhelgi. En skilningur núverandi stjórnvalda á þörfinni á rannsóknum og ráðgjöf í sjávarútvegi er satt að segja hörmulega lítill og bitnar bæði á veiðum og ekki síður á fiskvinnslu.

Ég tel, herra forseti, að það væri sannarlega þörf á því að við værum lengra komnir í sambandi við tök á stjórn fiskveiða en þetta frv. og till. meiri hl. sjútvn. bera vott um. Ef hér ríkti orðið samstaða um málstök varðandi stjórnun fiskveiða væri meiri von til þess að menn gætu beitt sér að öðrum þáttum í okkar þjóðarbúskap og þá sérstaklega í nýtingu sjávarafla þar sem brennandi spurningar blasa við en eru lítið ræddar á Alþingi Íslendinga, m.a. vegna þess að við erum að deila hér, leita leiða með of miklum ágreiningi að mínu mati um stjórn fiskveiðanna og höfum ekki tekið okkur tíma til að fara yfir stöðuna í sambandi við fiskiðnaðinn og hvað af opinberri hálfu og af hálfu Alþingis væri skylt að gera til að ýta þar undir átak, það þróunarátak sem koma verður ef íslenskur fiskiðnaður á að lifa af þá kreppu sem honum er nú búin í efnahagslegu tilliti af stjórnvöldum en einnig vegna breyttra ytri aðstæðna og harðnandi samkeppni, bæði við aðrar verkunaraðferðir, eins og útgerð frystitogara, við útflutning á óunnum fiski úr landinu, og er iðnaður sem býr því fólki sem við hann starfar í reynd láglaunakjör, láglaunakjör þó menn með óheyrilegu vinnuálagi geti brauðfætt sig með því sem menn fá í launaumslagið í frystihúsunum með því að leggja nótt við dag, með því að leggja hart að sér í bónusvinnu sem skilur nú sitt mark eftir á fólkinu sem hana stundar lengi.

Já, það er lagt til, herra forseti, að þessi lög, sem hér er ætlunin að setja af meiri hl. í þessari þingdeild, ef hann er þá til staðar til að styðja þetta frv. eins og það er hér kynnt af meiri hl. sjútvn., gildi í þrjú ár. Við alþýðubandalagsmenn erum þeirrar skoðunar að það sé varhugavert að setja slík sólarlagsákvæði í jafnstórt mál og hér er um að ræða. Ég gæti fært mörg rök því áliti til stuðnings. Ég tel að það væri mun farsælla að hafa þessa væntanlegu lagasetningu án slíkra ákvæða, hafa gildistímann ótiltekinn, lögin öðlist gildi og menn láti reynsluna skera úr, bæði þá vinnu að endurskoðun sem væntanlega fer þá, skera úr um hversu endingargóð þau ákvæði verða í reynd sem hér er verið að leggja til og lögfest verða að lokum, en ekki að draga þriggja ára ramma í kringum þetta hugverk með lögfestingu, bæði vegna þess að hér er um svo meingallaða þætti að ræða, sem er fyrirhugað að lögfesta, en einnig vegna þess að ég held að réttarstaðan geti orðið nokkuð tvísýn hjá þeim aðilum sem ætlað er að starfa undir lögum með gildistíma af þessu tagi. Það væri miklu eðlilegra að hafa almenna lagasetningu með ótilteknum gildistíma þannig að Alþingi geti óhindrað tekið á agnúum, sem fljótlega koma í ljós og reyndar blasa nú þegar við, þegar hentar og réttmætt er talið, en auðvitað verður að vinna að málum af þessu tagi fullkomlega í ljósi þess að menn þurfa að geta athafnað sig og tekið sínar ákvarðanir sem eru að starfa í þessum atvinnurekstri, þessum undirstöðuatvinnuvegi landsmanna, sjávarútveginum. Ég held að menn séu þar engu bættari með þessi þrjú ár. Vonandi verðum við að þessum þremur árum loknum komnir lengra í þessum efnum til sammælis um stjórnun fiskveiðanna þannig að menn vinni sig fram til stjórnkerfis sem sé eitthvað betra en það sem hér er boðið upp á af meiri hlutanum því það væri þörf á því að það væri hægt að skapa frið og framtíðarsýn í sambandi við þessi mál. Það væri mikil þörf á því fyrir íslenskt samfélag og íslenskan þjóðarbúskap.

Ég vil svo stytta mál mitt, herra forseti, þó margt eigi ég ósagt í raun. Ég vék að því að sitthvað í till. og nál. meiri hl. sjútvn. væri til bóta og ekki uppskera þess meiri hl. sem slíks heldur uppskera af starfi innan nefndarinnar í heild, bæði af hálfu formanns hennar og stjórnarandstöðunnar sem og annarra sem þar störfuðu, en reynt er að setja hér fram til þess að bæta eitthvað stöðu þess sérkennilega meiri hl., sem þarna hefur skapast í þessari hv. þingnefnd, að þetta sé nú þeirra. Ég ætla ekki að finna þeim orðum stað með því að vitna beint í nál. sem hér liggur fyrir, en vek á þessu afhygli.

Ég vek einnig athygli á því að í till. frá hv. 1. þm. Vestf. Matthíasi Bjarnasyni, brtt. hans við fyrirliggjandi frv. eru ákvæði sem ég tel mig geta tekið undir fyllilega og hefði viljað sjá hér lögfest og helst sjá flutt af nefndinni sameinaðri. Ég nefni þar sérstaklega tölul. 3 í till. á þskj. 479 sem varðar varnagla fyrir byggðarlög sem kynnu að missa skip og sitja uppi án hráefnis til vinnslu. Og ég nefni tölul. 6, ákvæði til bráðabirgða, þar sem gert er ráð fyrir að Alþingi kjósi hlutfallskosningu nefnd níu manna til að undirbúa tillögur um fyrirkomulag fiskveiðistjórnar og nýtingu fiskstofna að loknum gildistíma þessara laga. Varðandi þessa till. hv. þm. Matthíasar Bjarnasonar vil ég benda á að mínu mati dálítið sérkennilegar till. meiri hl. sjútvn. að þessu leyti, varðandi nefndarskipan, þar sem gert er ráð fyrir að kosnir verði sjö menn, skipaðir í endurskoðunarnefnd skv. ákvæði til bráðabirgða, og það sé fullt tillit tekið til þingstyrks. Ég held ég muni það rétt að það er tillaga um sjö þannig að ekki er reiknað með að allir þingflokkar á Alþingi eigi þar öruggan fulltrúa. Þetta er í samræmi við ýmislegt annað sem fram kemur við málsmeðferðina af hálfu þessa meiri hl., verð ég að segja. Ég tel að það væri mun vænlegra að kjósa níu manna hóp, sem hefði þá trygga fulltrúa frá öllum þingflokkum hér á Alþingi, frekar en að gera því skóna að þingmannahópurinn í ráðgjafarnefndinni eigi að þinga og funda sér, eins og skilja mátti á talsmanni meiri hl. sem lýsti skoðunum sínum áðan er hann mælti fyrir sínu nál. Þeir dragi sig út í horn og fundi sér þegar hentar, skilji sig frá hinum. Það eru afskaplega skrýtnar hugmyndir verð ég að segja og eiga kannski þátt í mínum ugg í sambandi við störf að endurskoðun á væntanlegum lögum á þriggja ára gildistíma, að það verði ekki allt með þeim hætti sem við hefðum viljað sjá.

Herra forseti. Ég gat þess við 1. umr. þessa máls í deildinni að ég teldi að það þyrfti á Alþingi að leita lýðræðislegrar samstöðu um þetta stóra mál, að menn þyrftu að leggja dálítið á sig til að finna einhvern samnefnara í þessu máli frekar en að standa í hörðum deilum um efnisatriði sem eru býsna mörg sem menn gera athugasemdir við eins og málið liggur fyrir frá meiri hl. Það hefur ekki gerst, því miður, enda kannski ekki von þegar málin eru sett fram með þeim hætti, sem ég gat um í upphafi máls míns, að þinginu væri ætlað í rauninni að taka því einu sem framkvæmdarvaldinu og hæstv. sjútvrh. þóknaðist að leggja blessun sína yfir til breytinga á frv. og engu öðru. Það er ekki sá jarðvegur sem þarf, ef menn ætla að ná saman í málum, að stilla þinginu upp með þeim hætti og setja málin fram þannig, enda er niðurstaðan eins og hér blasir við, sjútvn. með fjögur álit, menn sem hafa verið taldir í stuðningsliði ríkisstjórnarinnar með minnihlutaálit og áreiðanlega fjölmargir þm. í þingdeildinni sáróánægðir þó að svo kunni að fara að þeir beygi sig undir veldissprota framkvæmdarvaldsins og hótanir í sambandi við afgreiðslu málsins. Mér þykir mjög miður að málið skuli liggja fyrir við 2. umr. með þessum hætti. Ég hef þó litlar vonir úr því sem komið er að því verði breytt og að mál gangi til atkvæða á grundvelli fyrirliggjandi till. því að fast er knúið á um að frv. þetta verði að lögum og fyrir því eru vissulega skiljanlegar ástæður sem ég hef reynt að taka tillit til í mínu starfi í sjútvn. og í umræðum um þetta mál.

Ég læt þetta nægja sem framsögu fyrir mínu nál., virðulegur forseti, en ræði þetta mál að sjálfsögðu frekar eftir því sem aðstæður bjóða hér og við höfum tíma til að fjalla um það í deildinni þó mér sé ljóst að sá tími er naumur út frá sjónarhóli framkvæmdarvaldsins. Og ég tek undir að það er engin ástæða til þess úr því sem komið er að tefja framgang þessa máls í þinginu, en hér skipta dagar að sjálfsögðu ekki máli og jafnvel vikur ef þær gætu skilað mönnum í samstæðari hóp með heilstæðari niðurstöðu en raun ber vitni. Það er sú ósk sem ég hefði átt að við stæðum í þeim sporum nú að hafa fyrir þingdeildina að leggja betra vegarnesti til afgreiðslu að lokinni 2. umr.