05.01.1988
Neðri deild: 46. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3625 í B-deild Alþingistíðinda. (2549)

181. mál, stjórn fiskveiða

Frsm. 3. minni hl. sjútvn. (Hreggviður Jónsson):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka formanni sjútvn. Nd. fyrir ágæt störf og þeim nefndarmönnum sem sátu þar, auk þeirra starfsmanna ráðuneytisins sem unnu með okkur. Eins og fram hefur komið hélt nefndin sex fundi auk sameiginlegra funda með sjútvn. Ed.

Það frv. sem hér er tekið til meðferðar er viðamikið og kannski viðamesta mál þjóðarinnar. Það á nú að keyra í gegn og hefur verið barið í gegn með miklum látum og hefur í raun ekki fengið þá umfjöllun eða þá samstöðu sem þurft hefði.

Í nál. frá 3. minni hl. sjútvn. segir: „Með lögum um stjórn fiskveiða er verið að fjalla um og ákveða skipan í þeim málaflokki sem skiptir mestu fyrir afkomu þjóðarinnar.

Frv. það sem nú liggur fyrir Alþingi er fyrir margra hluta sakir mjög sérstætt. Borgarafl. hefur lagt áherslu á að sjávarfang það, sem lög um stjórn fiskveiða eiga að ná yfir, sé sameign þjóðarinnar allrar. Í því felst að leitað sé leiða til að ná aflanum úr greipum sjávar með sem arðbærustum hætti. Þm. Borgarafl. eru einhuga um að hafa stjórn á sókninni í auðlindir sjávar og það með sem minnstum höftum.

Við erum því í meginefni ósammála skipan mála eins og gert er ráð fyrir í frv.

Á hitt er að líta að við gerum okkur grein fyrir að meiri hluti alþm. er á öndverðum meiði og því aðeins raunhæft að reyna að fá lagfærða verstu gallana á frv. eins og það liggur fyrir.

Það að berja frv. í gegnum báðar deildir Alþingis með forgangshraða og helst án vinnu í nefndum er víti til varnaðar þegar svo viðamikið og viðkvæmt mál er til umræðu og afgreiðslu á hinu háa Alþingi. Í meðferð nefnda hafa verið gerðar lítils háttar breytingar sem eru til bóta en langt frá því að vera fullnægjandi.

Í öllum málflutningi Borgarafl. á Alþingi hefur verið lögð sérstök áhersla á málstað smábátaeigenda og nægir í því sambandi að minna á afkomumöguleika á stað eins og Grímsey. Það ber að harma að meiri hl. skuli ekki samþykkur þessari stefnu.

Þm. Borgarafl. hafa lagt fram brtt. við frv. sem fela í sér:

1. að landið sé eitt veiðisvæði,

2. að sérstök framkvæmdanefnd fari með stjórn fiskveiða ásamt sjútvrh.,

3. að botnfiskveiðar báta minni en 10 brl. séu óbreyttar frá eldri lögum,

4. að sérstakur dómstóll, fiskveiðidómur, fjalli um þau atriði laganna sem dæma þarf um,

5. að gildistíminn sé eitt ár.

Alþm. hefur verið skammtaður naumur tími til að ráða ráðum sínum um takmörkun á veiðum og til að tryggja sem arðbærasta og hagkvæmasta nýtingu mestu auðlindar okkar. Það er miður að ekki hefur náðst samstaða um leiðir til verulegra bóta á núverandi lögum á Alþingi. Þvergirðingsháttur og hagsmunagæsla við vinnu og gerð laga um stjórn fiskveiða er ekki sú leið sem þm. Borgarafl. vilja fara.“

Þetta er nál. sem ég hef lagt fram og segir í stuttu máli hver afstaða okkar er í Borgarafl.

Í meðförum þingsins á þessu frv. hefur margt komið til umræðu, en því miður er það svo að lítið af því hefur náð fram að ganga. Það má segja að frv. eins og það var lagt fram í upphafi sé nær óbreytt og er greinilegt að það hefur aldrei verið ætlunin að gera neinar eða miklar breytingar á því. Það höfuðverkefni sem við erum að reyna að vinna með því að setja þessi lög er friðun og nýting fiskistofnanna við landið. Það sé gert með sem mestri arðsemi og við náum hámarksafla úr fiskstofnum hverju sinni. Þessi lög hafa ekki sannað gildi sitt, þvert á móti. Á fjögurra ára tímabili hafa verið veidd 366 þús. tonn af þorski fram úr því sem tillögur lágu fyrir um. Þetta er u.þ.b. 25% meira á hverju ári en ætlunin var að veiða. Það er því fásinna að halda því fram að náð hafi verið því markmiði með þessum lögum sem ætlast var til í upphafi. Þessi lög hafa ekki stuðlað að því sem upphaflega var markmiðið og þau hafa heldur ekki reynst betri en þau lög sem áður voru í gildi.

Stjórn fiskveiða hefur því ekki batnað við gildistöku þessara laga og framkvæmd þeirra. Það eina sem hefur breyst frá fyrri lögum er það að í stað þess að menn kepptust um að veiða og það var samkeppni hefur þetta verið takmarkað við einkaleyfi til þeirra aðila sem áttu skip á þeim tíma sem lögin voru tekin í gildi. Eins og komið hefur verið réttilega inn á hafa þessir eigendur margir hverjir séð sér hag í því að selja skip á verði sem er langt fram yfir það sem vátryggingarverð er eða raunvirði og hafa þannig fengið stórar fjárhæðir út á þessi einkaleyfi sín út á óveiddan fisk í sjónum. Þessi lög hafa heldur ekki stuðlað að því meginmarkmiði, eins og ég kom inn á áðan, að þorskstofnar og aðrir fiskistofnar stækkuðu þannig að við gætum í raun veitt meira heldur þveröfugt.

Það hefur verið bent á að 1955 var talið að í þorskstofninum væru í kringum 21/2 millj. einstaklinga. Núna er talið að það gætu verið í kringum 800 þús. til 1 millj. einstaklinga í þessum sama stofni. En á sama tíma sjáum við að það er mikil aukning á hlutfalli þriggja ára fisks í veiðinni sem þýðir að það er farið að ganga á stofninn. Það er mjög áberandi að þetta eru hættumörk. Við erum staddir á hættusvæði. Þessi lög hjálpa ekki þar um. Þau stýra ekki veiðunum eins og tilgangurinn var.

Það er einnig nokkuð ljóst að núverandi lagasetning eykur gífurlega vald framkvæmdarvaldsins, ráðherrans, yfir þessum málaflokki. Það er í raun verið að afhenda honum þessar auðlindir á einu bretti.

Eins og ég kom inn á í byrjun höfum við í Borgarafl. staðið þétt við hliðina á smábátaeigendum og teljum í okkar brtt. rétt að gera ráð fyrir óbreyttri 9. gr. laganna, sem nú verður 10. gr., vegna þess að við teljum að smábátarnir muni ekki eyða fiskinum í sjónum. Í dag barst mér svohljóðandi fréttatilkynning frá Landssambandi smábátaeigenda, með leyfi hæstv. forseta, undir fyrirsögninni Örgustu öfugmælin:

„Vegna ummæla í þættinum Hér og nú í Ríkisútvarpinu sl. laugardag, þá vill Landssamband smábátaeigenda taka fram eftirfarandi:

1. Markmið laga um fiskveiðistefnu er m.a. að vernda fiskistofnana við Ísland fyrir ofveiði. Í kvótafrv. svokallaða er gert ráð fyrir skerðingu á botnfiskveiðum allra báta og skipaflokka. Smábátaeigendur hafa marglýst sig reiðubúna að taka sinn hlut af þeirri skerðingu.

2. Eins og kvótafrv. hefur verið afgreitt frá Ed. Alþingis, þá er gert ráð fyrir að skip sem velja sér sóknarmark geti árlega aukið afla sinn um 10%. Sé gert ráð fyrir að um eða yfir helmingur þorskafla 1988 verði veiddur samkvæmt slíku sóknarmarki þýðir það að þeim skipum leyfist sjálfkrafa á næsta ári að auka veiðikvóta sinn um 20 þús. tonn eða meir. Ætla verður að þetta aukna aflamagn sé að dómi frumvarpshöfunda innan áhættumarka um ofveiði þorskstofnsins. Að auki er svo helmingur línuafla skipa 10 brl. og stærri utan kvóta á besta línuveiðitíma ársins og mun þorskstofninum heldur ekki talin hætta við ofveiði vegna þeirra mörgu þúsund tonna sem þannig bætast við áætlað aflamagn.“

Síðan segir og það er feitletrað: „Með þessar leiðir opnar í frv. til sjálfvirkniaukningar á kvóta og veiði, þá hlýtur að vera gert ráð fyrir því af höfundum þess að þorskstofninn geti þolað 25–35 þús. tonna veiðiaukningu. Aftur á móti er það aflamagn, sem getur skilið á milli bjargálna og örbirgðar smábátaeigenda, miklu minna. Það eru því dæmi um örgustu öfugmæli þegar sagt er að lífsbjörg trillukarla geti valdið ofveiði fiskistofna við Ísland.“

Ég held, hæstv. forseti, að menn geti tekið undir það sem stendur hér. Það eru ekki hinir smáu bátar sem valda skaðanum, sem gera það að verkum að stofninn er í hættu. Það eru miklu afkastameiri skip ef til þess kæmi sem geta sópað upp fiskinum á miklu skemmri tíma og í hvernig veðri sem er.

Allir sem hafa stundað sjó á smábát vita að það eru veðurguðirnir, það er veðrið sem skiptir töluverðu máli. Það skammtar þessum bátum veiðitíma og veiðistund. Það er því alveg út í hött að ætla að þrengja svo að þessum bátaflota að í mörgum byggðarlögum þar sem útgerð slíkra báta skiptir höfuðmáli muni verða miklir erfiðleikar. Það er því mikilvægt að 9. gr. gömlu laganna verði samþykkt óbreytt og smábátaeigendur geti veitt áfram án takmarkana.

Ég þarf ekki að koma inn á að í sjútvn. voru að sjálfsögðu rædd töluvert mörg mál, en þrátt fyrir það tel ég að umfjöllun í nefndinni hefði mátt taka töluvert lengri tíma og fara hefði mátt ítarlegar í ýmsa hluti, sérstaklega er varðar fiskverndun, gæðaeftirlit, meðferð afla og hvaða leið tryggði mestu arðsemi í sjávarútvegi. Það hefur verið unnið þannig að það hefur ekki verið ætlast til að Alþingi fengi að fjalla um þetta mál með eðlilegum hætti. Það hlýtur að vekja upp margar spurningar um stöðu Alþingis og hvernig á að vinna mál. Ef Alþingi er aðeins afgreiðslustofnun fyrir einstaka ráðherra og ríkisstjórnir, þá er ekki vel komið.

Á þjóðveldisöld lentum við undir forræði Norðmanna vegna þess að einn þáttur í þrískiptingu ríkisvaldsins brást, þ.e. framkvæmdarvaldið. Ýmislegt bendir til þess að við séum á leið til annarrar áttar, þ.e. framkvæmdarvaldið sé að taka bæði dómsvald og löggjafarvald í sínar hendur. Í tillögum okkar borgaraflokksmanna er gripið á þessum málum hvorum tveggja því að ef frv. er lesið yfir kemur glöggt í ljós að það er í rauninni aðeins hluti af því sem er ætlast til að Alþingi fjalli um, en stóra hluta og ekki viðaminni en eru í lögunum sjálfum er ætlunin að afgreiða í reglugerð. Okkur voru þó sýnd drög að reglugerðum í nefndinni og gátum haft áhrif á það væntanlega að þær væru eitthvað bættar. En í frv. er í raun verið að afhenda ráðuneytinu og ráðherra löggjafarvald miklu meira en er ætlunin með stjórnarskrá okkar. Við höfum í okkar tillögum hjá Borgarafl. lagt til að til að koma í veg fyrir þetta valdaafsal sé kosin sérstök framkvæmdanefnd sem fari með stjórn fiskveiða ásamt sjútvrh. Þegar maður lítur til þess að hér á Alþingi er oft og tíðum kosið í alls kyns nefndir og ráð sem hafa miklu minni völd en ráðuneytinu er ætlað í þessu frv. verður maður undrandi yfir því að það skuli ekki vera framkvæmdanefnd til að fara með stjórn fiskveiða, sem er stærsta hagsmunamál þjóðarinnar. Ef litið er til þess þegar hér er verið að kjósa í einhverjar frekar valdalitlar nefndir úti í bæ, sem þykir nauðsynlegt að kjósa í á Alþingi, spyr maður: Er ekki meiri þörf á því að það sé kosin framkvæmdanefnd til að fara með stærsta og mikilvægasta málaflokk þjóðarinnar? Ég held að svarið hljóti að vera jákvætt.

Þá höfum við gripið á í okkar till. í Borgarfi. til bóta við þetta frv. að það sé sérstakur dómstóll, fiskveiðidómur, sem fjalli um þau atriði laganna sem dæma þarf um. Á síðasta ári féll dómur fyrir Mannréttindadómstólnum í Strasbourg. Það mál fjallaði um að framkvæmdarvaldið var að dæma í málum sem það kom nálægt sem handhafi framkvæmdarvalds. Við undirritun okkar að sáttmála um þessi mál hjá Evrópuráðinu höfum við skuldbundið okkur til að hafa í heiðri þrískiptingu ríkisvaldsins og þar með að dómsvald sé ekki falið framkvæmdarvaldinu heldur sé það falið dómstólum. Ég á von á því að eins og þegar Jón Kristinsson frá Akureyri hjólaði með sitt mál til Strasbourgar, ef við getum orðað það þannig, eigi einhver eftir að sigla til Strasbourgar með sitt mal og hann mun örugglega vinna sitt mál þar ef Hæstiréttur verður ekki þá þegar búinn að dæma í þá veru.

Þessi brotalöm í lögunum er mjög alvarleg og sýnir að þessi lög eru alls ekki í samræmi við hugmyndir þeirra manna sem settu okkur stjórnarskrá. Því er mikilvægt að Alþingi ígrundi vel lagasetningu og afsal á völdum til einstakra ráðherra og ráðuneyta. Það er tvímælalaust rétt að það sé sérstakur dómstóll sem fjalli um þessi mál. Það er ekki nokkur vafi á að verði þessi lög afgreidd með slíkum hætti sem þau liggja hér fyrir mun reyna á þetta mál fyrr en síðar.

Ég hef rætt atriði er varða lögin sjálf. Þá er það gildistíminn sem við teljum að sé allt of langur. Miðað við þau lög sem hér liggja fyrir ætti hann að vera í mesta lagi eitt ár. Hitt er annað mál að ef þessi lög væru afgreidd með sæmilegum friði og samvinnu bæði stjórnar og stjórnarandstöðu, eins og hv. 1. þm. Vestf. kom inn á. Þá væri ástæðulaust að hafa einhvern gildistökutíma í lögunum heldur mættu þau gilda eins og önnur lög ótiltekið, eins og talsmaður Alþb. hefur komið réttilega inn á, hv. 2. þm. Austurl. Hjörleifur Guttormsson. Ég tel að hefði verið nægur tími og unnið þolanlega að þessum málum hefðum við getað afgreitt lögin með þessum hætti.

Ég hef lesið eins mikið af því máli sem hér liggur fyrir og hægt er og sett mig inn í það eins og tök eru best á. Ég get sagt það um till. hv. 1. þm. Vestf. að þar eru till. sem ég gæti vel hugsað mér að styðja. Ég held að það sé betra að gildistíminn séu tvö ár en þrjú ár þó ég óski frekar eftir að hann sé eitt ár. Ég held líka að það sé til bóta að kosin sé níu manna nefnd til að undirbúa tillögur um fyrirkomulag fiskveiðistjórnar og nýtingu fiskistofna að loknum gildistíma laga þessara. Ég held að það sé mikilvægt að allir þingflokkar eigi þess kost að skipa menn í slíka nefnd og hafa áhrif á gang mála.

Ég vil líka taka undir þá till. hjá hv. 1. þm. Vestf. þegar hann leggur til að þau skip sem fórust á árunum 1983–1984 skuli eiga rétt á veiðileyfi. Það er sorglegt að hugsa til þess að stífnin skuli vera svo mikil í þessu máli að spurningin um hvort menn voru á réttum degi, öðru hvorum megin við lögfestingu þessara laga, skuli skipta öllu máli um hvort þeir eiga rétt á skipi innan marka þessara laga. Það hlýtur að höfða til réttlætiskenndar þeirra manna sem á annað borð hafa réttlætiskennd að menn, sem hafa átt þessi skip skuli ná rétti sínum. Það er undarlegt að hugsa til þess að menn skuli vera svo stífir á dagsetningum að þessir menn skuli vera látnir út á gaddinn.

Það er ekki nokkur vafi á að þetta eru aðeins tíu skip og átta þeirra mjög smá sem hafa sáralítil áhrif á heildarkvótann. Hins vegar eru tvö loðnuskip sem okkur er tjáð að muni hafa í för með sér e.t.v. 4% minnkun hjá öðrum loðnuskipum, en þá er á það að líta að eigendur hinna skipanna, sem nú eru í rekstri, hafa auðvitað fengið þessi 4% vegna þess að þessi skip hafa ekki fengið að veiða. Það er því mikið réttlætismál að eigendur þessara skipa nái þeim rétti sem þeir eiga. Ég tel því mikilvægt að menn geti sameinast um slíka hluti sem skipta ekki höfuðmáli ef maður lítur yfir heildina.

Hæstv. forseti. Ég ætlaði ekki að halda orðinu mjög lengi, enda hafði ég talað í 1. umferð um þessi mál, en þó verður að líta á það að þessi málaflokkur er okkar stærsti málaflokkur og mikilvægasti. Því verður ekki komist hjá að fjalla um hann og hefði þó þurft miklu meiri tíma til. Ég vildi óska þess að menn hefðu verið heldur samvinnuþýðari varðandi það og hefðu tekið upp þetta mál fyrr á þingi og gefið því þann tíma sem það hefði þurft. Ég ætla að undirstrika að þeir þm. sem eiga sæti í Nd. sýni þann kjark, og ég endurtek kjark, að standa við það sem þeir hafa sagt í blöðum og fjölmiðlum undanfarnar vikur. Hér hafa menn talað um ýmislegt varðandi þessi mál og haft stór orð í frammi. Nú mun reyna á það innan tíðar hvort menn standa við þessi orð eða hvort þetta er bóla sem hjaðnar. Það er vafalaust svo að það er meiri hluti þm. á móti þessum lögum. Það er aðeins spurning um hvort þeir hafa kjark til að breyta þeim til bóta. Það geta þeir gert væntanlega þegar frv. verður afgreitt mjög fljótlega.