22.10.1987
Sameinað þing: 7. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 315 í B-deild Alþingistíðinda. (255)

Sala Útvegsbankans

Hreggviður Jónsson:

Hæstv. forseti. Sú utandagskrárumræða sem fer hér fram í dag er mjög sérstök. Hún á sér stað vegna aðgerðarleysis hæstv. viðskrh. og hringlandaháttar hans. Útvegsbankamálið er stórt mál fyrir almenning í landinu því þar er verið að skipa hagsmunum og völdum til frambúðar. Mín skoðun er sú að Útvegsbankinn eigi að vera eign ríkisins áfram og stjórn hans í höndum Alþingis eins og nú er með hina ríkisbankana. Á síðustu missirum hefur komið í ljós að starfsemi bankans hefur snúist til betri vegar þrátt fyrir áföllin. Ég hef trú á að núverandi starfsfólk og bankastjórar séu þeim vanda vaxin að reka Útvegsbankann. Það verður aðeins að gefa þessu fólki vinnufrið og öryggi í málefnum bankans. Hræðsla hæstv. viðskrh. við að taka ákvörðun er auðvitað skiljanleg þar eð hann situr á milli tveggja voldugra hagsmunahópa. Hæstv. viðskrh. hefur hingað til lifað þægilegu lífi ráðgjafans sem hefur endalaust getað komið með nýjar tillögur og langar skýrslur, og það eftir eigin vild. Nú eru þessir draumadagar liðnir og hann verður að taka ákvörðun. Honum ber skylda til þess. Fólkið í landinu bíður. Það er orðið þreytt á þessari ringulreið í orðum og gjörðum hæstv. viðskrh.

Ég held hér á söluskilmálunum og í þeim er ekki nokkur undankomuleið fyrir hæstv. viðskrh. Hann er búinn að selja Sambandi ísl. samvinnufélaga hlut sinn í Útvegsbankanum. Á því er ekki nokkur vafi. Þó hefði ég óskað eftir því að það veldi væri ekki svo sterkt sem það er nú. Nú spyr ég hann: Hvenær ætlar hann að afhenda Sambandi ísl. samvinnufélaga Útvegsbankann? Og ef ekki: Hvað verða skaðabætur ríkissjóðs háar fyrir samningsrof? Eru ekki raunir starfsfólks bankans og launafólks í landinu nægar vegna þessa máls?

Hæstv. forseti. Ég hef lokið máli mínu.