05.01.1988
Efri deild: 49. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3636 í B-deild Alþingistíðinda. (2553)

196. mál, söluskattur

Frsm. fjh.- og viðskn. (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Frv. þetta var endursent úr Nd. og hefðum við búist við því hér í deildinni, meiri hl., að Nd. mundi standa rösklega að málinu þannig að okkur væri óhætt að láta það standa að lögin öðluðust gildi 1. jan. 1988, en svo hefur nú brugðið við að Nd. hefur ekki afgreitt málið fyrr en í dag og í samræmi við daginn var nauðsynlegt að breyta upphafsorðum 9. gr. Nú stendur þar að lög þessi öðlist þegar gildi í stað þess að lög þessi öðlast gildi 1. jan. 1988. Frekari breytingar er ekki um að ræða á frv. Málið er þrautrætt hér í deildinni og skýrt fyrir mönnum svo ég sé ekki ástæðu til að hafa þessa framsögu lengri, en legg til að málið verði samþykkt í samráði við meirihlutavilja fjh.- og viðskn.