05.01.1988
Efri deild: 49. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3638 í B-deild Alþingistíðinda. (2555)

196. mál, söluskattur

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Þá gengur hæstv. fjmrh. út. E.t.v. þykir honum það orðið leiðinlegt að hlusta á skammir vegna þessa vonda frv. sem hann hefur borið fram fyrir þingið. En það er ekki hægt að láta það mótmælalaust þegar þetta mal kemur enn einu sinni til umræðu í Ed. og eru reyndar síðustu forvöð fyrir hv. þm, að átta sig á því hversu óréttlát þessi ráðstöfun er. Það er hreint og beint óþolandi að hlusta á hæstv. fjmrh. sem því miður er genginn úr stofu hér. Ég ætla að endurtaka: Mér finnst óþolandi að hlusta á hæstv. fjmrh., hversu sjálfbirgingslegur hann er og hversu illa og litlu hann svarar um þetta frv. þegar leitað er eftir svörum hjá honum hvernig á að mæta þeim vanda og jafnvel neyð sem hann er að bjóða heimilum landsmanna upp á. Það er óréttlæti sem fólgið er í þessum matarskatti sem fjmrh. ætlar að koma á þjóðina. Það er ekki í takt við yfirlýsingu hans og slagorð um einföldun, skilvirkni og réttlæti vegna þess að í þessu felst ekki réttlæti. Það er sérstaklega óréttlátt gagnvart heimilum launþega, einkum gagnvart heimilum barnmargra og lágtekjufjölskyldna. Okkur er sagt að framfærslukostnaður muni ekki hækka, en þar er um að ræða meðaltöl. Þar er ekki tekið tillit til einstaklinga. Það er heldur í raun ekki tekið tillit til þess hvernig efnahagslegt andrúmsloft verði á því ári sem nú fer í hönd. Við hlustum á spár um samdrátt. Við hlustum á spár um hækkandi verðbólgu. Við hlustum á spár um gengisfellingu. Það er líklegt að á næsta ári muni sverfa að heimilunum meira en nú gerir. Það er lítil jafnaðarstefna sem fólgin er í frv. og væri jafnaðarmanni nær að ganga að þeim matarholum sem feitastar blasa við, stóreignafólki og vel stöndugum fyrirtækjum. En þar er aftur tekið á með silkihönskunum.

Það stef réttlætis er horfið úr pólitískri stefnu þess flokks sem kennir sig við jafnaðarmennsku og það er vond þróun og mál að lýsa eftir jafnaðarflokki á þessu landi.

Ég lýsi ábyrgð á hendur þeim hluta þingsins sem hyggst styðja þetta frv. og tel slíka afstöðu ekki bara ögrun og óvinveitta heimilum launþega og reyndar allra landsmanna. Ég tel slíka afstöðu vera pólitíska heimsku, einkum þeirrar ríkisstjórnar sem nú ætlar að fara í kjarasamninga við launþega þessa lands.