05.01.1988
Efri deild: 49. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3640 í B-deild Alþingistíðinda. (2557)

196. mál, söluskattur

Fjármálaráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):

Herra forseti. Hv. 7. þm. Reykv. beindi til mín þeirri spurningu hvort niðurgreiðslufé, sem ákveðið hefur verið, væri verðtryggt innan ársins eða hvort ríkisstjórnin hefði uppi áform um það. Svar við því er nei. Það er ekki áformað. Sú breyting sem hér tekur væntanlega gildi stendur til eins árs, söluskattsbreytingin sem slík. Áform ríkisstjórnarinnar eru þau að frá og með næstu áramótum taki gildi virðisaukaskattur og að hliðarráðstafanir því tengdar verði endurskoðaðar við gerð fjárlaga fyrir næsta ár og í tengslum við þann þátt þeirrar miklu skattkerfisbreytingar sem hér er um að ræða.

Að því er varðar verðlagsáhrif þessara breytinga, sem vikið var að, vil ég aðeins árétta að í fjárlagafrv. eins og það var lagt fyrir Alþingi sl. haust var gert ráð fyrir framlagi til niðurgreiðslna á búvöruverði að upphæð 1390 millj. kr. Í tengslum við þær kerfisbreytingar sem síðar hafa verið á dagskrá Alþingis var ákveðið að verja til niðurgreiðslna 1285 millj. eða alls 2675 millj. kr. Þessu til viðbótar hefur sú upphæð enn hækkað sem svarar 160 millj. vegna niðurgreiðslna á neyslufiski þannig að niðurgreiðslufjárhæðin er þar með komin í 2835 millj. Við það bætist síðan tvennt. Annars vegar endurgreiðsla á kjarnfóðurskatti til að halda niðri verði á afurðum svína og alifugla. Fyrir utan það að því næst er varið 600 millj. kr. til tekjujöfnunaraðgerða í formi barnabóta og barnabótaauka og hækkunar á bótum almannatrygginga. Hér er því um að ræða fjárhæð alls rúmlega 3,5 milljarðar sem varið er til niðurgreiðslna og tekjujafnandi aðgerða í þessu skyni.

Því hefur ekki verið í móti mælt að verðlagsáhrif þessarar kerfisbreytingar í heild sinni þegar saman er tekið, sú verðlækkun sem hlýst af verulegri lækkun tolla, lækkun vörugjalds og þrengingu gjaldstofns í vörugjaldi, þ.e. afnám vörugjalds í mörgum greinum, ásamt með söluskattsbreytingunni hafi þau áhrif í heild sinni að framfærsluvísitala muni hækka en byggingarvísitala og lánskjaravísitala muni lækka. Að sjálfsögðu er það svo að þetta eru meðaltöl eins og hér kom fram. Þetta þýðir að útgjöld meðalfjölskyldu á Íslandi munu ekki hækka af völdum þessara breytinga í heild sinni og að því er varðar aðra sérstaka hópa, eins og t.d. barnmargar fjölskyldur sem njóta barnabóta og barnabótaauka, liggur ljóst fyrir að þær gera meira en að mæta þeirri 7% hækkun matvöruverðs í heild sinni og þær fjölskyldur munu þar af leiðandi ekki verða verr settar af völdum þessara breytinga eftir en áður.