22.10.1987
Sameinað þing: 7. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 316 í B-deild Alþingistíðinda. (256)

Sala Útvegsbankans

Guðmundur Ágústsson:

Hæstv. forseti. Það mál sem hér er á dagskrá hefur frá því það kom fyrst upp sýnt almenningi í landinu hve íslenskir stjórnmálamenn eru úrræðalausir og duglitlir þegar í hlut eiga peningaöflin í þjóðfélaginu. Völd hinna fáu og stóru hafa aldrei fyrr komið eins glöggt upp á yfirborðið og í þessu Útvegsbankamáli. Og aldrei fyrr hefur þjóðin séð hve flokkarnir eru tilbúnir til þess að fórna miklu fyrir hina fámennu hagsmunahópa. Við í Borgaraflokknum vöruðum í kosningabaráttunni fólk við þessum flokkum og bentum á þá sérhagsmunahópa sem stýra þeim og ráða stefnu þeirra og athöfnum. Í raun skiptir það almenning litlu máli hvor þeirra aðila, sem tilboð hafa gert í Útvegsbankann, fær hann því að almenningur er jafnilla settur með bankann í höndum 33-menninganna eða Sambandsins. Meginhugsun beggja aðilanna er að öðlast áhrif, peninga og völd, en ekki að starfa með hagsmuni almennings að leiðarljósi.

Höfuðatriði þessa máls er hins vegar hvernig hæstv. viðskrh. hefur snúið sér í því. Þjóðina varðar um Útvegsbankann og hún krefst þess að hæstv. viðskrh. komi undan feldinum og svari því hvað hann er að hugsa, ef hann er þá eitthvað að hugsa. Höggva verður á þann hnút sem mál þetta er sýnilega komið í. Það er ljóst að málið verður ekki leyst með viðræðum við aðila sem ekki eru tilbúnir að gefa neitt eftir að kröfum sínum, heldur með pólitískri ákvörðun, ákvörðun sem sýnir kjark og dug stjórnmálamanns sem tilbúinn er að standa og falla með gerðum sínum.

Það er einkennilegt hugleysi hjá hæstv. viðskrh. í þessu máli í samanburði við skörungsskap hæstv. fjmrh. sem hann sýnir þjóðinni með hinni nýju skattpíningarstefnu sinni. Hvort mönnum líkar það betur eða verr þá á Sambandið bæði siðferðilegan og lagalegan rétt til kaupanna á Útvegsbankanum. Fram hjá lögum verður ekki gengið þó að óæskilegt sé að einn aðili eignist svona stóran hlut í bankakerfi landsmanna. Við sem erum hér inni verðum að krefjast þess að framkvæmdarvaldið fari að lögum en ekki láta pólitísk viðhorf og andúð ráða þeim ákvörðunum sem teknar eru í hvert og eitt skipti. Ef við eigum að geta treyst stjórnmálamönnum verður að gera þá kröfu til þeirra að þeir meti alla jafnt, háa sem lága og sama hvar í flokki þeir standa. Þetta er grundvöllur þess þjóðskipulags sem við höfum sett okkur og brot gegn einum er brot gegn öllum.