05.01.1988
Efri deild: 49. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3644 í B-deild Alþingistíðinda. (2564)

196. mál, söluskattur

Egill Jónsson:

Herra forseti. Það væri út af fyrir sig hægt að hafa hér langa umræðu um hverjir hefðu látið undan í sambandi við landbúnaðarmálin. Ég held að Framsfl. hefði býsna skammt komist í þeim efnum, t.d. varðandi fjárlagagerð, ef ekki hefði komið stuðningur frá okkur sjálfstæðismönnum. (KP: Nú já, það er svona.) Því það hygg ég að allir viti að hæstv. fjmrh. hafði margoft lýst því yfir, m.a. í fjárlagaræðunni, að í þeim efnum ætti að gera miklar breytingar, sem reyndar voru nánast allar dregnar til baka, og hann hafði líka gefið um það margar yfirlýsingar að söluskattur ætti að ganga jafnt yfir allar vörutegundir og þar ættu ekki að koma til niðurgreiðslur. En út af því sem menn eru að deila um í sambandi við framkvæmdina á niðurgreiðslunum vill svo til að í fylgiskjali með nál. frá meiri hl. landbn. Alþingis um breytingar á búvörulögunum gefur einmitt að líta samkomulag landbrn. og fjmrn. um hvernig niðurgreiðslum verði háttað á þessu ári. Það er sett fram á því fylgiskjali með skýrum hætti sú niðurstaða sem þessi tvö ráðuneyti hafa komið sér saman um. Þar af leiðandi er hægt að sleppa öllum deilum og skýringum hér með því að þetta er skjalfest í þingskjölum. Þar kemur ótvírætt fram að söluskattinn á hefðbundnar búgreinar að því marki sem þar er tilgreint eigi að greiða til baka.