05.01.1988
Efri deild: 49. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3645 í B-deild Alþingistíðinda. (2566)

196. mál, söluskattur

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Kvennalistinn hefur ævinlega mótmælt kröftuglega hugmyndum um skatt á lífsnauðsynjar manna eins og matvæli. Það gerum við enn. Eins og fram hefur komið eru matvörur stærri hluti af neyslu lágtekjufjölskyldna en annarra. Hvað sem öllum meðaltölum líður mun 25% matarskattur koma harðar niður á slíkum fjölskyldum. Þær eiga þegar í vök að verjast. Matvæli eru dýrari hérlendis en víða annars staðar og laun eru hér lægri. Þessi ráðstöfun, sem á ekkert skylt við jöfnuð eða jafnaðarmennsku, er því líkleg til að auka frekar á þá mismunun og það óréttlæti sem illu heilli býr á meðal okkar. Slíkt vill Kvennalistinn uppræta en ekki auka. Það er því óhugsandi að við styðjum þetta frv. Á stuttum nefndarfundi í fjh.- og viðskn. í þinghléi áðan var brtt. rædd sem fram hefur verið borin við þetta frv., en hún hljóðar svo: „Lög þessi öðlast þegar gildi.“ Nær væri að hafa: Lög þessi öðlast ekki gildi. Ég segi því nei.