06.01.1988
Neðri deild: 47. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3663 í B-deild Alþingistíðinda. (2572)

181. mál, stjórn fiskveiða

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Það mun víst ekki ofsagt að það frv. sem hér er til umræðu sé bæði viðamikið og margþætt. Það er einnig ekki ofsagt, sem margoft hefur komið fram í þessum umræðum, að sá málaflokkur sem við erum hér að fjalla um, sjávarútvegsmálin, sjávarútvegurinn og stjórn þeirra mála er meðal allra þýðingarmestu mála í okkar þjóðfélagi. Ég mun ekki í þessari umræðu, sem orðin er æðilöng, flytja langa ræðu um frv. efnislega né um þá miklu hagsmuni sem hér eru í húfi því að þar yrði án efa um endurtekningar að ræða. Ég sé heldur ekki ástæðu til að ræða ítarlega það stjórnkerfi sem verið hefur við lýði og stefnt er að að framlengja með frv.

Víst er að þetta stjórnkerfi felur í sér bæði kosti og galla og kostir og gallar kerfisins hafa að sjálfsögðu komið æ skýrar í ljós eftir því sem reynslan hefur staðið lengur. Með þessu frv. er stefnt að því að auka þetta kerfi, færa fleiri greinar sjávarútvegsins en áður undir nákvæma og allsráðandi miðstýringu sjútvrn. Það er því ekkert einkennilegt eða undarlegt þó að nokkurrar varfærni eða tregðu gæti af hálfu Alþingis við að lögfesta þá auknu miðstýringu sem frv. gerir ráð fyrir og að framlengja stjórn þessa kerfis í þrjú ár.

Hv. sjútvn. þessarar deildir margklofnaði í afstöðu sinni til frv. Þó að meiri hluti næðist í nefndinni skilaði formaður nefndarinnar, hv. 1. þm. Vestf., minnihlutaáliti og flytur brtt. á þskj. 479. Umræður um þetta mál í þessari hv. deild hafa að mínum dómi verið hófsamar og yfirvegaðar og ekki á nokkurn máta farið fram með þeim hætti að þær hafi stuðlað að því að ýfa þann ágreining sem um þetta mál stendur. Þetta er vel. Ég mun að sjálfsögðu leitast við að halda á mínu máli með sambærilegum hætti. Þó er ljóst að um málið er mikill ágreiningur. M.a. er það ljóst af því hver afdrif málsins urðu í hv. sjútvn. þessarar deildar sem og raunar í hv. Ed.

Meðal þeirra sem hér fluttu hófsamar ræður var hv. 1. þm. Vestf., sem talaði um leið fyrir sínum brtt., og er þó kunnugt að hv. þm. er og hefur verið andstæðingur þess kvótakerfis sem verið hefur við lýði í þessum málaflokki. Ég tel að tillögur hans séu yfirleitt til bóta og þær eru þann veg upp byggðar að ég fæ ekki séð að þær raski í neinu því kerfi sem frv. byggir á þótt samþykktar yrðu. Þær eru einnig svo hófsamlega fram settar að ég hlýt að undrast nokkuð að það skyldi ekki takast að ná samstöðu í hv. sjútvn. meðal stjórnarliða.

Hæstv. ráðherra gerði nokkrar athugsemdir við þessar brtt. í ræðu sinni áðan. Hann sagði það m.a. varðandi 1. brtt. hv. þm. Matthíasar Bjarnasonar að það væri ekki um mikið eða stórt mál að ræða þótt ákvæði væri tekið inn um að reikna álag á rækjuafla sem fluttur væri óunninn úr landi til pillunar erlendis. Þetta hefði ekki verið vandamál. Það hefði aðeins einu sinni komið fyrir að ásókn hefði verið í slíkan útflutning vegna þess að þá hefði verið um aflabrest að ræða í Barentshafi. Allt má þetta vera rétt og er vafalaust rétt, en ég ætla að það gæti verið þýðingarmikið að hafa ákvæði í lögum um þetta efni því að svo kynni að fara að ásókn yrði í þennan útflutning af hálfu ýmissa aðila, bæði innlendra og erlendra, sem sæktu fast eftir því að kaupa ópillaða rækju til að vinna hana annars staðar. Ég held að það gæti þá verið ákjósanlegt að í lögum um þetta efni væri ákvæði sem kvæði á um hvernig með skyldi fara.

Hæstv. ráðherra ræddi líka um þá till. á þskj. 479 að Alþingi skyldi að hluta kjósa samráðsnefnd um þessi mál. Hann sagði að vísu að hann teldi ekki hægt að sætta sig við að Alþingi væri að þrengja sér inn í ýmis svið framkvæmdarvaldsins með slíkum hætti. Nú er það svo að till. sjálf gerir ráð fyrir því að Alþingi kjósi aðeins hluta af þessari samráðsnefnd þar sem segir að þrír skuli kosnir af Alþingi, einn tilnefndur sameiginlega af samtökum sjómanna og einn tilnefndur af samtökum útvegsmanna og ráðherra skipi síðan formann nefndarinnar.

Ég tek mjög sterklega undir að það má vera rétt, sem hæstv. ráðherra segir um þetta efni, að það sé ekki alltaf skynsamlegt að Alþingi sé að þrengja sér inn á verksvið framkvæmdarvaldsins, en það er líka rétt, sem fram kom hjá hv. þm. Stefáni Valgeirssyni, að það er ekki sama hvernig þau lög eru sem fjalla skal um hverju sinni. Mörg lög og stórir lagabálkar sem Alþingi afgreiðir eru með þeim hætti að þar eru skýr fyrirmæli. Þau eru í skýrum ákvæðum sem segja fyrir um á hvern máta framkvæmdarvaldið skuli halda á málum. Þessi ákvæði eru svo skýr að það er ekki nokkur ástæða til þess og raunar einungis til trafala ef Alþingi væri til viðbótar að þrengja sér á einhvern máta inn í meðferð framkvæmdarvaldsins á slíkum málum. En þetta lagafrv. er með allt öðrum hætti. Þetta lagafrv. felur í sér mjög margar, 30 heimildir hafa menn sagt í þessum umræðum, til hæstv. ráðherra og til sjútvrn. sem hann hefur þá í hendi sér að miklu leyti hvernig á er haldið. Þegar hv. Alþingi afgreiðir lög með þeim hætti er ekkert einkennilegt við það og ekkert óviðurkvæmilegt við það að Alþingi vilji fylgjast með og hafa hönd í bagga og samráð um hvernig á skuli haldið af hálfu framkvæmdarvaldsins. Það er þarna sem er sterkur skilsmunur í því hvers konar löggjöf er verið að meðhöndla, hvers konar löggjöf er verið að framkvæma. Ég get því ekki tekið undir ummæli hæstv. ráðherra um þetta efni hvað þessa lagasetningu snertir þó að ummæli hans gildi fullkomlega um ýmsa aðra löggjöf.

Ég ætla ekki að fjalla frekar um ummæli hæstv. ráðherra um þær brtt. sem liggja fyrir á þessu þskj., en ég endurtek að ég lít svo til að yfirleitt stefni þær til bóta og ég leyfi mér að lýsa yfir að afdrif ýmissa þeirra kunna að hafa áhrif á afstöðu mína til þessa máls við lokaafgreiðslu.

Ég vil jafnframt taka fram að ég hefði viljað sjá hagsmunum smábátaeigenda betur fyrir komið, að þeirra heimildir væru öllu rýmri en gert er ráð fyrir í þeim till. sem fyrir liggja, þó sjálfsagt sé að viðurkenna að það hefur verið komið mikið til móts við þeirra sjónarmið og þá hagsmuni sem þar liggja í brtt. meiri hl. sjútvn. Þessi mál eru þó enn til athugunar manna á meðal í hv. deild og ég tel að það væri ákjósanlegt að geta enn bætt þar nokkuð úr.

Frsm. meiri hl. sjútvn., hv. þm. Kjartan Jóhannsson, sagði í sinni ræðu að það væru vegir lýðræðisins að ná saman höndum, samkomulagi um mál. Þetta er hárrétt. Því miður hefur samkomulag ekki náðst á meðal stjórnarliða í þessari hv. deild. Því miður virðist hv. frsm. meiri hl. sjútvn. hafa þótt nóg að gert þegar naumur meiri hl. hafði náðst í sjútvn. og þrátt fyrir að formaður nefndarinnar væri þar ekki á sama báti. Þetta tel ég mjög illa farið og ég tel að það sé ómaksins vert miðað við stöðu þessara mála að freista þess enn að ná höndum saman. Ég fæ ekki séð að það beri svo mikið á milli í þeim till. sem hv. þm. Matthías Bjarnason og formaður sjútvn. Nd. hefur flutt og þess er fram kemur í áliti meiri hl. nefndarinnar að það sé enn ekki tími til að freista þess að ná þessu saman.

Ég vil því beina því héðan úr ræðustól til hæstv. sjútvrh. og það í fullri vinsemd að hann hafi forustu um að taka enn dagstund til þess, þrátt fyrir að mikið liggi nú á að koma þessu máli frá, að freista þess að ná þessu saman. Það væri annar og betri svipur á þessu máli og afgreiðslu þess frá hv. Alþingi ef stjórnarliðar gætu staðið saman um þetta mál. Ég leyfi mér enn með fullri vinsemd að beina því til hæstv. ráðherra að hann taki það til greina sem ég hef hér sagt og leitist við að ná samkomulagi.

Ég ætla ekki, eins og ég sagði, að ræða þetta mál efnislega. Ég vildi aðallega koma þessu á framfæri. En hæstv. ráðherra veit auðvitað að ef þetta gerist ekki tekur hann þá áhættu að eitthvað gangi á annan máta í atkvæðagreiðslum um þetta mál en hann mundi helst kjósa. Ég segi frá því hér að ég hef fullan fyrirvara um afstöðu mína til þessa máls og algjörlega frjálsar hendur um það á hvern máta ég haga mínu atkvæði miðað við að samkomulag hefur ekki tekist. Þess vegna ber ég enn fram mín vinsamlegu tilmæli og það var mitt aðalerindi hingað í þennan ræðustól. Ég læt þar með mínu máli lokið, herra forseti.