06.01.1988
Neðri deild: 47. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3672 í B-deild Alþingistíðinda. (2575)

181. mál, stjórn fiskveiða

Forseti (Jón Kristjánsson):

Í þessu sambandi vil ég geta þess að að sjálfsögðu hafa hæstv. ráðherrar þingskyldur, en auðvitað hafa þeir líka ýmsar skyldur sem ráðherrar sem þeir verða að sinna. Þegar allt gengur hér fram í umræðum með venjulegum hætti, sem það gerir vissulega nú, hefur það verið svo að viðstaddir umræðuna hafa verið ábyrgðarmenn málsins sem til umræðu er. En að sjálfsögðu er eðlilegt að menn séu aðvaraðir eða kallaðir til ef til þeirra er beint málum og það mun ég gera í þessu tilfelli með utanrrh. og láta hann vita í hléinu. Mun þá hv. ræðumaður halda áfram sinni ræðu eftir fundarhlé. — [Fundarhlé.]

Þegar fundarhlé var gefið var hv. 4. þm. Norðurl. e. kominn alllangt áleiðis í sinni ræðu, en hafði beðið um utanrrh. til viðtals. Ég hef aðvarað utanrrh. Hann var ekki tiltækur í augnablikinu, en hans er væntanlega von síðar. Í samráði við hv. 4. þm. Norðurl. e. hefur það orðið úr að hann lýkur ræðu sinni síðar í umræðunum.