06.01.1988
Neðri deild: 47. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3672 í B-deild Alþingistíðinda. (2576)

181. mál, stjórn fiskveiða

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Hæstv. sjútvrh. steig í stólinn í upphafi fundar í morgun og er það ánægjuleg nýbreytni að viðkomandi ráðherrar taki þátt í umræðum um stjfrv. á málefnalegan hátt án þess að hart sé eftir gengið. Hann svaraði a.m.k. hluta af þeirri gagnrýni sem hefur komið fram á þetta frv. og ræddi einnig nokkrar eða réttara sagt örfáar af þeim brtt. sem fram hafa komið.

Hann minntist m.a. á þá gagnrýni, sem sjútvrn. hefur orðið fyrir, að það hafi ekki sinnt skyldum sínum um endurskoðun þeirra laga sem féllu úr gildi um síðustu áramót og upplýsti hvernig ráðuneytið hefði staðið að þeim málum. Ég minnist þess að vísu ekki að við kvennalistakonur höfum haft uppi gagnrýni varðandi þetta atriði, m.a. vegna þess að ég var hreint ekki viss um réttmæti hennar. Þó var þessi gagnrýni töluvert hávær, m.a. í ráðgjafarnefndinni, og ég minnist þess ekki að henni hafi verið svarað þar af ráðuneytismönnum. Það var hins vegar ekki að vonum að við fylgdumst grannt með hvernig þessari endurskoðun var hagað, þ.e. við kvennalistakonur, þar sem við áttum ekki fullgilda aðild að sjávarútvegsnefndum þingsins á síðasta kjörtímabili. Mér virtist á skýringum hæstv. ráðherra í morgun sem ráðuneytið hafi staðið eðlilega að framkvæmd þessarar endurskoðunar og menn hafi fengið tækifæri til að hafa áhrif þar á, þ.e. þeir sem höfðu þá aðgang að málinu.

Hæstv. ráðherra rifjaði upp undirbúning þessa máls og minnti á alla þá sérfræðinga sem kallaðir voru til ráðuneytis. Það er allt satt og rétt, en segir kannski ekki alveg alla söguna því að allar þær kannanir, skýrslur og ráðgjöf sem þar var fengin miðaðist aðeins við það kerfi sem unnið hefur verið eftir á síðustu árum. Þar var ekkert eða nánast ekkert vikið að mögulegum breytingum og engin áhersla á athugun á þeim efnum. Það er vitanlega í samræmi við afstöðu hæstv. ráðherra sem okkur er kunn og það vakti athygli mína þegar hann ræddi þessi mál í næstum því klukkutíma í morgun úr þessum ræðustóli að hann skyldi ekki láta svo lítið að víkja að mjög víðtækum tillögum frá fulltrúum allra þingflokka stjórnarandstöðu. Með því finnst mér hæstv. ráðherra sýna hugmyndum okkar lítilsvirðingu og þeirri miklu vinnu sem við höfum lagt í útfærslu þeirra hugmynda. Þó er langt síðan Kvennalistinn kynnti sínar tillögur efnislega svo að ekki ættu þær að vera hæstv. ráðherra ókunnar. En það er svo sem ekkert nýtt að ráðherrar og stuðningsmenn ríkisstjórnar hverju sinni telji sig ekki þurfa að ræða tillögur frá fulltrúum stjórnarandstöðu þótt við teljum það hins vegar skyldu okkar að ræða á málefnalegan hátt allt sem frá ríkisstjórninni kemur.

En það er nú svo, herra forseti, að fá mál hafa fengið jafnmikla umræðu og það sem er hér á dagskrá, þ.e. stjórn fiskveiða, bæði utan þings og innan. Er það vel og að vonum því að hér er um lífsafkomu okkar að ræða, undirstöðu þjóðfélags okkar. Þó virðist mér ljóst að sárafáir kynna sér þetta mál til nokkurrar hlítar nema þeir sem eiga þar beinna hagsmuna að gæta og fáir skynja í raun og veru til fulls hversu mikilvægt það er að vel og réttlátlega sé staðið að verki.

Við höfum nú búið við gildandi fyrirkomulag í stjórnun fiskveiða í fjögur ár og erum reynslunni ríkari. Við getum vegið og metið kosti og galla þess að skipta heildarkvóta á fiskiskip í tonnatali og afleiðingar þess að afhenda útgerðarmönnum öldungis ókeypis allan rétt til afla úr sameiginlegum auðlindum landsmanna. Við kvennalistakonur höfum vegið og metið kosti og galla þessa fyrirkomulags, enda skjótum við okkur ekki undan þeirri ábyrgð að hafa átt okkar þátt í samþykkt þeirrar stefnu sem ríkt hefur undanfarin ár. Það var á sínum tíma okkar mat að kvótaskipting á skip væri líkleg til að ná tökum á heildarafla og til að auka hagkvæmni bæði í veiðum og vinnslu. Þær vonir hafa að miklu leyti brugðist, en auk þess hafa heildaráhrif orðið alvarlegri en nokkurn óraði fyrir. Þetta ræddi ég allt í 1. umr. um þetta mál og það hafa einnig gert aðrar kvennalistakonur í umræðum um málið.

Við lögðum eins og áður sagði talsverða vinnu í að skoða þetta mál frá öllum hliðum og í að móta tillögur að nýrri tilhögun við fiskveiðistjórnun. Við töldum góðan grundvöll til að stokka verulega upp í þessu kerfi sem svo bersýnilega að okkar mati hafði ekki náð tilgangi sínum og ekki síst töldum við grundvöll til breytinga góðan vegna þess að óánægja virtist vaxandi með núgildandi fyrirkomulag og því væntanlega einnig vilji til breytinga innan allra stjórnmálaflokkanna. Það voru því mikil vonbrigði að engin nýmæli komust á dagskrá svo að orð sé á gerandi í ráðgjafarnefndinni svokölluðu. Það var brugðist þar fannst mér hart gegn allri nýbreytni og til varnar núgildandi kerfi eða því kerfi sem féll úr gildi um síðustu áramót en sem stjórnvöld virðast vilja festa í sessi til framtíðar. Þessi niðurstaða var sem sagt mikil vonbrigði, ekki síst með tilliti til allrar umræðunnar um nauðsyn þess að bæta stöðu landsbyggðarinnar og treysta atvinnulífið í öllum byggðum landsins. Því hefði maður haldið að hugmyndir um eitthvert form byggðakvóta fengjust a.m.k. ræddar. Sú varð ekki raunin. Áhugi á slíkum hugmyndum virtist sem næst enginn.

Þegar málið kom til umfjöllunar á þingi kom í ljós víðtæk óánægja með það frv. sem hæstv. sjútvrh. fékk að leggja fram sem stjfrv. eftir miklar sviptingar milli stjórnarflokkanna að því er fréttir herma. Þingflokkar stjórnarandstöðu hafa ekki þurft að tala undir rós um sína afstöðu og kynnt margvíslegar tillögur sínar til breytinga, en þm. úr stjórnarflokkunum hafa vissulega átt erfiða daga og erfiða stöðu með sín viðhorf. Andstaða þeirra hefur þó ekki farið leynt og eftir allt það sem komið hefur fram í umræðu um þetta mál á hv. Alþingi og utan þess má furðu sæta hversu litlum árangri í raun og veru sú mótspyrna virðist ætla að skila. Niðurstaðan eftir allt umtalið, öll skrifin og öll upphlaupin á stjórnarheimilinu og allar yfirlýsingarnar innan Alþingis og utan þess eru einfaldlega gamla kerfið og lítið meira. Sérstaka athygli vekur að fulltrúi Alþfl. í sjútvn. skuli sætta sig við svo smávægilegar breytingar sem meiri hl. nefndarinnar stendur að hér við afgreiðslu í Nd. og er raunar eftir að sjá að samflokksmenn hans allir sætti sig við þá niðurstöðu.

Ég ræddi þetta frv. nokkuð ítarlega við 1. umr. og kynnti viðhorf okkar kvennalistakvenna og þær tillögur sem við höfum nú lagt fram til breytinga á þessu frv. Hv. þm. Kristín Einarsdóttir fékk áheyrnaraðild að sjútvn. Nd. og tók þátt í störfum hennar að mestu leyti og hefur nú þegar rætt þetta mál hér í ljósi þeirrar reynslu sem hún fékk af veru sinni þar að svo miklu leyti sem sú skammvinna reynsla gat einhverju aukið við þá yfirsýn sem við höfðum þegar aflað okkur.

Brtt. okkar eru á þskj. 438 og miða að því að halda heildarafla meira í skefjum, draga úr ofstjórn og miðstýringu og taka tillit til byggðasjónarmiða. Þá er það veigamikill þáttur í þessum tillögum að efla rannsóknir, hvetja til betri nýtingar og bættrar meðferðar sjávaraflans og búa betur að starfsfólki í sjávarútvegi.

Það er okkar meining að fyrstu þrjár greinar frv. geti verið óbreyttar. 1. gr. þessa frv. er að okkar mati vissulega örlítið skref sem hugsanlega geti orðið hið fyrsta á leið út úr því skömmtunarkerfi sem við höfum nú búið við í nokkur ár og verðum væntanlega að búa við eitthvað enn. Sú yfirlýsing sem er gefin í 1. gr. frv. er sjálfsögð og hana getum við öll stutt hvort sem hún dugir svo til nokkurrar stefnubreytingar í tímans rás.

Við kvennalistakonur tökum því fúslega undir þá stefnumarkandi yfirlýsingu sem felst í 1. gr. frv., enda er hún í fyllsta samræmi við stefnuskrá okkar. Sú tilhögun að úthluta veiðiheimildum síðan gefins beint til útgerðaraðila, sem geta svo ráðskast með þær í eigin hagsmunaskyni eins og frv. gefur tilefni til, er hins vegar í algerri mótsögn við þá yfirlýsingu um þjóðareign sem fram kemur í 1. gr., enda veit þingheimur hvernig sú grein er til komin. Hún er sett hér til að sætta andstæðinga kvótakerfisins innan stjórnarflokkanna við tímabundna framlengingu þessa kerfis og stinga með því að þeim dúsu og svo merkilega vill til að það virðist ætla að duga nokkuð vel til þess. Hugsanlega er það rétt reiknað að hér sé um einhverja viðspyrnu að ræða. Ég kann varla að meta það. En óneitanlega verkar þessi frvgr. ofurlítið hjárænulega með tilliti til alls þess sem á eftir kemur því þar hefst hið niðurnjörvaða samspil hæstv. ráðherra og skipaeigenda þessa lands og er þá blásið á hjalið um sameign íslensku þjóðarinnar. En við greiðum 1. gr. frv. fúslega atkvæði okkar í þeirri von að hún sé þegar allt kemur til alls upphafið að einhverju öðru og meira en hér virðist eiga að samþykkja til næstu mánaða.

Við getum einnig fallist á 2. og 3. gr. frv., en að sjálfsögðu þyrfti að breyta síðustu orðum 2. gr. þar sem vísað er til 12. gr. ef brtt. okkar væru samþykktar.

Þá erum við komin að 4. gr. frv., en á þskj. 438 leggjum við til að í stað 4.–14. gr. frv. komi þrjár nýjar greinar. Það er þá fyrst sú sem yrði 4. gr. samkvæmt okkar tillögum og hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Heimildir til botnfiskveiða skulu vera tvenns konar:

a. 80% þess heildarafla, sem ákveðinn er skv. 2. gr., skal skipt milli byggðarlaga (útgerðarstaða) með hliðsjón af lönduðum afla síðustu fimm ára.

b. 20% heildaraflans skulu renna í sérstakan sameiginlegan sjóð, veiðileyfasjóð, og vera til sölu, leigu eða til sérstakrar ráðstöfunar til byggðarlaga, sbr. 6. gr."

Í sjálfu sér þarf ekki að skýra þetta með mörgum orðum. Þessar tillögur skýra sig að mestu sjálfar. Hér er náttúrlega um grundvallarbreytingu að ræða þar sem skipting heildaraflans yrði miðuð við byggðarlög en ekki einstök skip. Það er í framkvæmdinni vel hugsanlegt að geyma ráðstöfun 20% heildaraflans skv. b-lið allt til 15. apríl þegar út rennur heimild ráðherra skv. 2. gr. frv. til þess að hækka eða lækka heildaraflamagnið og væri tvímælalaust til bóta að hafa slíkan sveigjanleika innbyggðan í kerfið, en einnig má hugsa sér að þar yrði um minni hluta heildaraflans að ræða, t.d. 10%.

Þá leggjum við til að næsta grein, sem þá yrði 5. gr., verði svohljóðandi:

„Sveitarstjórnir skulu selja, leigja eða ráðstafa veiðiheimildum, sem þeim er úthlutað skv. a-lið 4. gr., til útgerða, fiskvinnslustöðva eða einstaklinga eftir þeim reglum sem þær setja sér.

Sveitarstjórnum er heimilt að ákveða gjald fyrir framsal veiðileyfa, sem þær fá skv. b-lið 4. gr., og skal gjaldið eigi vera lægra en það sem þær greiða fyrir þau í veiðileyfasjóð.

Sveitarstjórnum er heimilt:

a. að úthluta tilteknu aflamarki til útgerða, fiskvinnslustöðva eða einstaklinga,

b. að ákveða sérstök álög á þann fisk sem er landað erlendis,

c. að leyfa færslu veiðiheimilda, allt að 5%, milli ára,

d. að setja reglur um veiði smábáta,

e. að setja reglur um nýjar veiðiheimildir,

f. að framleigja veiðiheimildir til annarra byggðarlaga enda verði aflanum að einhverju leyti landað í því byggðarlagi, sem framleigir veiðiheimild, ef viðkomandi sveitarstjórn óskar; tekjum af leigunni verði varið í þágu sjávarútvegsins.“

Eins og hv. þm. sjá og heyra gera tillögur okkar ráð fyrir nær algeru framsali úthlutunarvalds til byggðarlaga þótt segja megi að leiðarvísir fylgi pakkanum, þ.e. sveitarstjórnum leyfist að gera svo og svo frá a til f ef það hentar aðstæðum. Með þessu er losað algerlega um ofstjórnar- og miðstýringartök og völdin flutt heim í héruð eins og menn segja gjarnan þegar rætt er um nauðsyn valddreifingar og virkara lýðræðis sem stjórnmálamenn í öllum flokkum hafa prédikað í áraraðir en minna gert af að móta um það tillögur.

Hér er líka feimnislaust talað um að selja, leigja eða ráðstafa veiðiheimildum, en rétt er að undirstrika að það er ekki ætlun okkar að byggðarlögin verði fyrir fjárútlátum vegna þessa heldur komi þau í besta falli út á sléttu eða geti hagnast á sölu eða leigu veiðiheimilda. Yrði um einhverjar tekjur að ræða í einhverjum mæli leggjum við til að þeim verði varið í þágu sjávarútvegsins, bættrar aðstöðu í höfnum og betri þjónustu við útvegsgreinarnar.

Það er einnig rétt að vekja athygli á möguleikum til þess að skilyrða úthlutun veiðiheimilda með löndun í viðkomandi byggðarlagi, en svo geta aðstæður líka verið á þann veg að þess þurfi ekki eða sé ekki óskað og þá er jafnfrjálst að hafa það óbundið. Þannig er þetta allt frjálslegra og sveigjanlegra og auðveldara að aðlaga kerfið aðstæðum á hverjum stað án þess að heildarhagsmunir séu bornir fyrir borð.

Þá er ég komin að þeirri grein sem yrði 6. gr. og hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Gjald fyrir veiðiheimildir frá veiðileyfasjóði, sbr. b-lið 4. gr., skal miðast við ákveðið meðalverð á afla upp úr sjó.

Tekjum af sölu eða leigu veiðiheimilda skal varið til eftirfarandi verkefna:

a. fræðslu sem nýtist sjávarútvegi, fiskvinnsluskóla, símenntunar fiskvinnslufólks, sjómannaskóla og öryggisfræðslu sjómanna,

b. rannsókna tengdum sjávarútvegi, grunnrannsókna á lífríki sjávar, rannsókna á ónýttum og vannýttum tegundum, vöruþróunar í sjávarútvegi, markaðsöflunar og markaðshönnunar fyrir sjávarafurðir,

c. verðlauna til þeirra sem veiðiheimildir hafa fyrir sérstaka frammistöðu við nýtingu og meðferð aflans eða fyrir lofsverðan aðbúnað starfsfólks.“

Þetta er mjög mikilvægur þáttur í tillögum okkar. Það er nefnilega að okkar mati alls ekki vansalaust hversu lítið í rauninni þessi þjóð, sem lifir á fiski, hefur sinnt rannsóknum og fræðslu í sjávarútvegi. Ég held að þetta hirðuleysi hafi orðið okkur til verulegs tjóns og stuðlað að því m.a. að störf í sjávarútvegi njóta alls ekki þeirrar virðingar sem þeim ber. Þetta er brýnt að lagfæra og efla alla menntun og fræðslustarfsemi í þessum greinum.

Sömuleiðis er nauðsynlegt að efla rannsóknir tengdar sjávarútvegi, bæði grunnrannsóknir og hagnýtar rannsóknir. Það er raunar mjög ánægjulegt að svokallaðir hagsmunaaðilar í sjávarútvegi lýstu því yfir nýlega að þeir mundu stuðla að hagnýtum rannsóknum með fjárframlögum. Ég held ég fari rétt með að það hafi verið Landssamband ísl. útvegsmanna sem lýsti því yfir nýlega að það mundi styrkja þannig verkefni á vegum Hafrannsóknastofnunar og það sýnir aukinn skilning á mikilvægi slíkra rannsókna. Það er því í hæsta máta eðlilegt að fé úr veiðileyfasjóði verði varið til slíkra rannsókna í töluverðum mæli og þá kannski ekki síst til grunnrannsókna sem ólíklegt er að hagsmunaaðilar fyndu beinlínis hvöt hjá sér til að styrkja. Grunnrannsóknir eru þó engu síður nauðsynlegar og ber ríkisvaldinu skylda til að sjá um að slíkar rannsóknir séu ekki vanræktar.

Loks er svo c-liðurinn í þessari brtt. sem er ætlaður til að hvetja á mjög svo jákvæðan hátt til betri nýtingar aflans og bættrar meðferðar og ekki síður til þess að búa vel að starfsfólki í sjávarútvegi. Sjálfsagt hafa allir eða flestir hv. þm. einhverja reynslu af vinnustöðum í einhverri grein sjávarútvegsins, ef ekki beinlínis vegna vinnu á þeim stöðum þá a.m.k. í tengslum við vinnustaðaheimsóknir. Þarf ekki að orðlengja hversu misjafnlega ánægjulegir og vel útbúnir vinnustaðir þetta eru og varla þarf heldur að útskýra hver áhrif góður aðbúnaður og góð vinnuskilyrði hafa á líðan og velferð starfsfólks sem aftur skilar sér í betri vinnubrögðum. Það er því allt að vinna í þessu efni.

Þá er ég komin að brtt. okkar við 15. gr. frv. sem yrði 7. gr. í samræmi við það sem á undan er komið, en hún hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„a. Á eftir orðunum „og einum tilnefndum af samtökum útvegsmanna“ komi: einum tilnefndum af Sambandi ísl. sveitarfélaga og einum tilnefndum af Verkamannasambandi Íslands.

b. Í stað orðanna „varðandi veiðileyfi, aflamark og sóknarmark“ komi: varðandi veiðileyfi og aflamark. "

A-liðurinn er væntanlega auðskiljanlegur. Í samræmi við valddreifingu til byggðarlaga teljum við rétt að ætla Sambandi ísl. sveitarfélaga aðild að þeirri samráðsnefnd sem skv. 15. gr. frv. skal fjalla um álita- og ágreiningsmál varðandi veiðileyfi og sömuleiðis Verkamannasambandi Íslands og enda þótt okkar tillögur, sem á undan þessari koma, yrðu ekki samþykktar sé ég ekki að þessi standi ekki eftir sem áður og mun ekki draga hana til baka þótt hinar verði felldar. Hún á jafnvel við í því kerfi sem væntanlega verður komið á.

Í b-liðnum leggjum við til að niður falli orðin „og sóknarmark“, enda teljum við að sú tegund veiðiheimilda geti fallið niður í því kerfi sem við leggjum til.

16. gr. má standa óbreytt, en yrði samkvæmt till. okkar 8. gr. Hún sýnir að ekki viljum við svipta hæstv. ráðherra öllu valdi því hún hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Ráðherra skal setja nánari reglur varðandi framkvæmd laga þessara.“

Við 17. gr. sem yrði þá 9. gr. viljum við hins vegar gera þá breytingu að bætt sé í hana orðunum „viðkomandi sveitarstjórn“ í samræmi við hlutverk sveitarstjórna í þessari tilhögun fiskveiðistjórnar.

18. gr. yrði síðan 10. gr. og brtt. okkar er aðeins við 2. mgr. hennar og er samræmingaratriði.

19. og 20. gr. frv. stæðu þá áfram óbreyttar og yrðu 11. og 12. gr., en við 21. gr., sem yrði þar með 13. gr., gerum við þá brtt. að gildistíminn yrði fimm ár og er rétt að undirstrika það að slík tillaga á aðeins við það kerfi sem ég hef nú lýst og er alger grundvallarbreyting á núgildandi kerfi, en það er að okkar dómi nauðsynlegt að gefa slíku kerfi góðan tíma til að þróast og sanna sig. Þetta er þó ekkert úrslitaatriði og má vel hugsa sér skemmri gildistíma eða endurskoðunarákvæði til bráðabirgða.

Ég hef þá, herra forseti, lokið yfirferð yfir þessar tillögur sem okkur til ánægju hafa vakið nokkra athygli og viðbrögð en þó minna umtal og skrif en við höfðum vonað. E.t.v. er þar um að kenna að menn sjá ekki líkur til að neinar slíkar breytingar fengju byr undir vængi á hv. Alþingi. Ég sagði reyndar við 1. umr. um frv. að það hvarflaði ekki að okkur að þessar tillögur yrðu samþykktar nú, en við værum vongóðar um að þær yrðu grunnurinn að fiskveiðistefnu okkar Íslendinga jafnvel í náinni framtíð. Ég vildi því nota þetta tækifæri til að skýra þessar tillögur enn rækilegar en áður hefur verið gert og vona að hv. þm. séu nær um hvað þær í raun og veru þýða þótt færri séu nú að hlýða á þessa umræðu en æskilegt væri.

Hv. þm. Kristín Einarsdóttir og Málmfríður Sigurðardóttir hafa talað á undan mér og skýrt á ýmsan hátt afstöðu okkar kvennalistakvenna til frv. í heild. Hvað varðar brtt. annarra vegna þessa frv. kom Kristín Einarsdóttir nokkuð inn á þær, einkum þó tillögur hv. 1. þm. Vestf., enda e.t.v. líklegast að þær fái þann stuðning sem dugi, a.m.k. einhverjar þeirra, að frátöldum auðvitað tillögum meiri hl. sjútvn. sem vissulega eru til nokkurra bóta. Það verður þó ekki sagt um hina margumræddu og mjög umdeildu 10. gr. frv. sem ekki er hægt að samþykkja í þeim búningi sem meiri hl. nefndarinnar hefur fært hana í þótt þar sé óneitanlega um rýmkun að ræða. Hv. þm. Málmfríður Sigurðardóttir fjallaði talsvert um þetta áðan og ég ætla ekki að bæta við það. Það er líka grunur minn að enn sé von til þess að stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar sem ekki eru ánægðir með þessa niðurstöðu fái hér einhverju um þokað og ég mun því geyma mér algjörlega frekari umfjöllun um þennan þátt frv. ef tilefnið kynni að breytast.

Varðandi till. hv. 1. þm. Vestf. á þskj. 479 vil ég segja það að mér finnst fyrri hluti fyrstu tillögunnar sjálfsagður, en um síðari málsgreinina hef ég nokkrar efasemdir, þ.e. varðandi skiptingu á milli eða heimild til skiptingar á milli vinnslustöðva. Mér finnst óeðlilegt að taka einn þátt fiskveiða út úr á þennan hátt og skipta honum niður með skömmtunarkerfi af þessu tagi þótt ég viðurkenni vissulega sérstöðu rækjuvinnslunnar. En ég efast um að ég treysti mér til að styðja þann hluta þeirrar tillögu þó að ég sé ekki búin að athuga það alveg til botns.

Þriðju tillöguna á þskj. 479 styð ég enda er hún ekki ósvipuð tillögu sem ég samdi og sýndi nokkrum þm. þegar fiskveiðistjórnun var síðast til umræðu en lagði reyndar aldrei fram á þingskjali þar eð ég fann engan hljómgrunn hjá þeim sem ég leitaði til þá og taldi mér dómbærari um það hvað rétt væri og líklegt til árangurs. Hæstv. sjútvrh. vék að þessari tillögu í máli sínu í morgun og taldi öll tormerki á framkvæmd hennar. Ég get vissulega samsinnt því að þetta gæti orðið erfitt í framkvæmd og ég hefði orðað þessa grein öðruvísi. T.d. tel ég síðari setninguna óþarfa og bjóða upp á mikinn vanda í úrlausn. Ég get auðvitað ekki stillt mig um að minna á að slík grein væri hins vegar óþörf í því kerfi sem Kvennalistinn gerir tillögu um.

Um aðrar tillögur þarf ég engu að bæta við það sem hv. þm. Kristín Einarsdóttir sagði við umræðuna í gær en árétta þau orð hennar að enda þótt við höfum vissar efasemdir um árangur nefndarstarfa að fenginni reynslu líst okkur vel á þá nefndarskipan sem sjötta brtt. á þskj. 479 gerir ráð fyrir, svo og verkefnalýsingu hennar.

Um tillögur hv. þm. Alþb. og Borgarafl. er svo það að segja að tillögur hinna fyrrnefndu eru nær þeim hugmyndum sem við höfum mótað í okkar tillögur en þó að ýmsu leyti frábrugðnar eins og augljóst er og auðheyrt ef hv. þm. hafa haft fyrir því að hlýða á útskýringar.

Þriðju brtt. á þskj. 435 mun ég styðja, enda á hún við þótt áfram verði stjórnað á sama veg og hingað til. Þá mun ég einnig styðja brtt. þeirra á þskj. 435 við 10. gr. sem er samhljóða grein í þeim lögum sem féllu úr gildi við síðustu áramót og að viðbættri síðustu málsgreininni sem setur skorður við fjölgun smábáta. Hæstv. ráðherra vék að þessum hluta tillögunnar í máli sínu í morgun og taldi slíkt fyrirkomulag nánast óviðráðanlegt. Það hafa ýmsir aðrir fjallað um þetta og telja að svo muni alls ekki vera, m.a. Félag ísl. smábátaeigenda eða þeirra fulltrúar. Ég hef því ekki trú á því að þetta sé ekki hægt og held að það væri til bóta.

Tillögur hv. þm. Borgarafl. eru um allt annars konar kerfi en við kvennalistakonur gerum tillögur um og getum við því ekki stutt þær. Þó sé ég ekki annmarka á því að við gætum stutt hugmynd þeirra um sérstaka framkvæmdanefnd sem fari með hluta þess valds sem ráðherra er ætlað í þessu frv., svo og sérstakan fiskveiðidóm, en báðar þessar tillögur draga úr valdi ráðherra sem okkur þykir mikið í þessu máli öllu.

Ég held, herra forseti, að ég hafi ekki frekari orð um þetta að sinni.