06.01.1988
Neðri deild: 47. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3686 í B-deild Alþingistíðinda. (2578)

181. mál, stjórn fiskveiða

Utanríkisráðherra (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Í upphafi míns máls vil ég fara örfáum orðum um skyldur ráðherra til að sitja á fundum Alþingis. Að sjálfsögðu bera þeir þar sömu skyldu og aðrir þm. en sérstaklega þó sá ráðherra sem fer með viðkomandi mál. Sjútvrh. hefur í þessu tilfelli setið hér mjög dyggilega og svarað fyrir það mál sem hann ber ábyrgð á innan ríkisstjórnarinnar. Svo að ég noti nú sömu eða sama orð og hv. þm. notaði um ummæli sjútvrh. hef ég satt að segja haft annað og miklu betra að gera en að hlusta á bullið úr þessum hv. þm. Ég verð að biðja afsökunar á því, herra forseti, að nota þetta orð, en það notaði hv. þm. áðan svo að ég heyrði. Við höfum náttúrlega ýmsum öðrum skyldustörfum að gegna og þurfum oft að vera á hlaupum á milli staða til að geta sinnt þeim. Ég vil jafnframt segja það að svona ummæli eða dylgjur eins og hv. þm. var með áðan um mig sæma ekki neinum þm.

Svo að ég komi að þessu ákveðna máli vil ég segja það að síðan ég kom á þing hef ég ætíð kynnst því að í fyrsta lagi eru gerðar margar og miklar tilraunir fyrir jólaleyfi sem kallað er og fyrir þinglok til að ná samkomulagi um það hvernig á að ljúka málum, tilraunir gerðar með öllum þingflokkum. Það tekst mismunandi vel, tókst ákaflega illa núna. Ég man ekki eftir neinu þingi þar sem svo stirðlega hefur gengið að ná samkomulagi eins og nú. Öll þau ár sem ég hef verið í ráðherrasæti, sem ég veit að hv. þm. þykir vera allt of lengi, hafa líka stjórnarflokkarnir rætt mjög um það hvernig þeir hyggjast koma málum í gegn. Mig grunar að hv. þm. Hjörleifur Guttormsson geti tekið undir það með mér að þeir voru ófáir fundirnir 1980–1983 þar sem við, með lítinn meiri hluta, ræddum um það hvernig við gætum komið málum í gegn og vildum beita okkur fyrir því innan okkar þingflokka. Það er ekki þar með verið að binda þingið. Ég veit ekki betur en að öll stjfrv. séu lögð fyrir viðkomandi þingflokk og rædd þar, oft lengi áður en þau koma fyrir þingið. Gleggsta dæmið er kannski fjárlögin almennt. Ég skal viðurkenna að mér hefur oft þótt afar súrt að þurfa að greiða atkvæði gegn hinum ágætustu tillögum um breytingar á fjárlögum, en menn verða náttúrlega að meta það með sjálfum sér hvort þeir af samvisku sinni meta mikilvægara, samstöðuna í ríkisstjórninni sem er líka þingstarf, að halda saman starfhæfri ríkisstjórn, eða að greiða atkvæði gegn ríkisstjórn. Þetta kemur upp á hverju einasta þingi og þetta veit ég að allir þm. þekkja, m.a. þeir þm. Alþb. sem hafa tekið þátt í stjórnarsamstarfi. Sem betur fer hefur það ekki verið nokkuð lengi og verður vonandi seint.

Vegna þess máls sem hér er um að ræða vil ég segja það að það er hárrétt sem segir í Tímanum. Við ræddum um það hvernig við ættum að beita okkur fyrir framgangi mikilvægra mála á Alþingi eins og við höfum gert öll ár, allar ríkisstjórnir og allir stjórnarflokkar hafa gert. Okkur sem á þeim fundi voru mættir, það voru nokkrir ráðherrar og formenn þingflokka, ásamt fáeinum öðrum, kom saman um að beita okkur fyrir því að tekjuöflunarfrv. ríkisstjórnarinnar gengju fyrir en svokallað kvótafrv. yrði tekið fyrir strax í framhaldi af því og við komum okkur saman um að beita okkur fyrir því að ekki yrðu aðrar breytingar gerðar á frv. en samkomulag gæti orðið um við þann ráðherra sem fer með þetta mál í því samstarfi sem þrír flokkar standa hér að. Ég gæti nefnt fjölmörg dæmi þar sem menn hafa komið sér saman um að beita sér fyrir slíku. Hvort það tekst er svo annað mál. Það reynir væntanlega á það í atkvæðagreiðslu hér í dag. Við höfum tekið málið fyrir í okkar þingflokki og rætt það. Það er engin launung að það eru menn í okkar þingflokki sem vildu fá breytingar gerðar. Sumar breytingar hafa náð fram eins og breyting á 10. gr. sem margir eru ánægðari með, gerð í samkomulagi við sjútvrh. Það er því ekki nokkurn skapaðan hlut óvenjulegt við þetta. Við erum ekki að binda Alþingi, að sjálfsögðu ekki. Við erum að ná samkomulagi og beita okkur fyrir ákveðnu samkomulagi, ákveðnum framgangi mála, mikilvægs máls innan þess meiri hluta sem stendur að baki ríkisstjórnarinnar hér á Alþingi.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þetta mál. Ég vil svo segja að lokum að mér eru mikil vonbrigði að sjá það afskræmi sem orðið er í tillögum Alþb. um þennan byggðakvóta sem ég held að sé hægt að útfæra á skemmtilegan máta. En þar er nú frekar verið á atkvæðaveiðum en fiskveiðum.