22.10.1987
Sameinað þing: 7. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 317 í B-deild Alþingistíðinda. (258)

Sala Útvegsbankans

Jón Magnússon:

Herra forseti. Ég verð að lýsa furðu minni á því að hér skuli hafin umræða utan dagskrár um þetta mál og ég spyr: Hvað knýr á um það núna að hafa utandagskrárumræðu um sölu Útvegsbankans? Ég vil hins vegar þakka svör viðskrh. og þær yfirlýsingar sem hann hefur gefið hér bæði um það að hann muni birta Alþingi niðurstöður matsnefndar þeirrar sem nú fjallar um eignir og skuldir Útvegsbankans, í annan stað að hann skyldi koma sérstaklega með það að hann mundi ekki selja bankann eða selja hlutabréf ríkisins í Útvegsbankanum einhverjum einum aðila eða láta einhvern aðila fá yfirráð yfir bankanum sem slíkum. Ég held nefnilega að það sé mergurinn málsins og það sem menn verða að hafa í huga, að ef selja á hlutabréf í ríkisbanka þá er aðalatriðið að þar sé tryggð ákveðin valddreifing yfir fjármagni. Að ekki sé afhent á silfurdiski eða einhverjum öðrum diski jafnmikilvæg fjármálastofnun og Útvegsbankinn eða hvaða önnur stofnun sem það er, hvort heldur er til SÍS eða einhvers sérstaks samstæðs hagsmunahóps.

Afstaða þeirra þm. Borgaraflokksins, sem hér hafa ruðst hver um annan þveran í ræðustól, hefur komið mér mjög á óvart. Ég gat ekki skilið ummæli hv. 11. þm. Reykn. öðruvísi en þannig að hann gerði kröfu til þess til viðskrh. að hann seldi Sambandi ísl. samvinnufélaga bankann. Það hefur reyndar formaður þess flokks gert áður og þess vegna í fullu samræmi við þá stefnu Borgaraflokksins. En það er rangt að gera það vegna þess að það er ekki í anda þeirrar valddreifingar sem þarf að vera fyrir hendi ef á að selja hlutabréf ríkisbanka. Á sama hátt væri það ekki í samræmi við eðlilega valddreifingu að selja svokölluðum „KR-ingum“ bankann eins og hv. 5. þm. Vesturl. Ingi Björn Albertsson orðaði það hér áðan. Það er einfaldlega fráleitt að selja hlutabréf í þessum ríkisbanka nema tryggt sé að þar sé um mikla dreifingu að ræða, en ekki einum eða tveimur hagsmunaaðilum falin yfirstjórn bankans. Það held ég að sé meginmálið.

Ég var mjög ánægður með að heyra þau sjónarmið sem fram komu hjá hæstv. viðskrh. hér áðan sem mér fannst að fullu taka undir og styðja þau sjónarmið sem ég hef hér lagt áherslu á.

En ég spyr aftur: Hvaða ástæður eru þess valdandi nú að þetta mál er tekið á dagskrá? Er eitthvað sem knýr á um þetta? Ég get ekki betur séð en að með því að efna til umræðna með þessum hætti séu þm. einfaldlega að koma á framfæri fyrirspurnum til ráðherra utan venjulegs fyrirspurnatíma Alþingis og ég tel það ámælisvert.