06.01.1988
Neðri deild: 47. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3688 í B-deild Alþingistíðinda. (2580)

181. mál, stjórn fiskveiða

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Í lögum nr. 19 frá 28. des. 1950, um stjórn flugmála, segir svo í 1. gr.: „Flugráð skipað fimm mönnum hefur á hendi stjórn flugmála undir yfirstjórn ráðherra. Þrír þeirra skulu kosnir hlutfallskosningu í sameinuðu Alþingi til fjögurra ára. Ráðherra skipar í ráðið tvo menn með sérþekkingu á flugmálum, annan til átta ára og hinn til fjögurra ára og sé hinn fyrrnefndi formaður ráðsins“ o.s.frv.

Eitt af hlutverkum þessa ráðs er að undirbúa og vera ráðherra til ráðuneytis um gerð flugmálaáætlunar samkvæmt nýlega samþykktum lögum á Alþingi. Ég held að ekki fari á milli mála að hér sé um að ræða samstarfsnefnd við samgrh. um stjórn mikilvægs málaflokks þar sem jafnvel er svo langt gengið að Alþingi kýs hluta umræddrar samráðsnefndar og ráðherra skipar sjálfur afganginn í nefndina. Það er því ekki fordæmalaust, nema síður sé, að Alþingi eigi hlut að því að kjósa nefndir eða stjórnir sem eru viðkomandi fagráðherrum til ráðuneytis um framkvæmd einstakra mála. Sé einhver vafi uppi um það er það einn aðili sem sker úr og það er Alþingi sjálft. Alþingi getur að sjálfsögðu í lagasetningu kveðið á um það hvernig Alþingi sjálft vill skipa þeim málum. Sú niðurstaða sem Alþingi kemst að um þau efni er ávallt rétt. Framkvæmdarvaldið getur ekki hnekkt henni þannig að komi slíkar tillögur fram, er það auðvitað Alþingi sem úrskurðar og hefur síðasta orðið í því máli.

Herra forseti. Ég hef tekið þátt í stjórnmálum nokkuð lengi, bæði verið við þegar ríkisstjórn hefur verið með lítinn þingmeirihluta, eins og oft var á viðreisnarárunum, og eins þegar ríkisstjórn hefur verið við völd með mikinn þingmeirihluta. Þegar ríkisstjórnir leggja fram frv. gera þær það yfirleitt með tvennum hætti. Annaðhvort er þá um að ræða mál sem stuðningsflokkar viðkomandi ríkisstjórnar gera formlega samþykkt um áður en þau eru lögð fram að skuli vera mál sem menn í þingflokkunum eigi að fylgja, svo fremi sem það brjóti ekki í bága við þeirra sannfæringu. Þá er auðvitað stóralvarlegt mál og raunar „kabinett“-spursmál ef þm. úr stjórnarflokki tekur ákvörðun um að flytja brtt. við slíkt frv. Hins vegar, og það er miklu algengara, leggja ríkisstjórnir fram stjfrv. eins og það sem nú er lagt fram, þar sem vitað var fyrir fram, og vitað var raunar þegar ríkisstjórnin hæstv. var mynduð, að ágreiningur væri um fiskveiðistefnuna. Gerð var tilraun til að leysa þann ágreining fyrir fram. Það tókst ekki og því var frv. lagt fram vissulega sem stjfrv. en þó þannig að bæði þingflokkar viðkomandi stjórnarflokka og hver einstakur þm. höfðu fyrirvara, sumir um eina eða tvær greinar frv. en aðrir um allar greinar þess og sjálfa meginstefnuna í frv. Þannig var þetta frv. lagt fram og það vita auðvitað allir.

Það er mjög eðlilegt að hæstv. ríkisstjórn taki ákvörðun eins og þá sem hæstv. utanrrh. var að ræða um hér áðan, að hún mundi fyrir sitt leyti beita sér fyrir því að fá mál hér í gegnum þingið lítið breytt. En ég vek bara athygli á því, herra forseti, að stjórnarþingmenn hafa bæði í Ed. og í þessari deild flutt fjölmargar brtt. við þetta frv., m.a. formaður sjútvn. Og það er að sjálfsögðu til vitnis um að sú afstaða manna hefur ekkert breyst sem hæstv. sjútvrh. og allri ríkisstjórninni var vel kunnugt um þegar frv. var lagt fram að menn í stjórnarliðinu höfðu fyrirvara um einstakar greinar frv., jafnvel um meginstefnuna í frv. Þegar ríkisstjórn tekur ákvörðun um það að leggja slíkt frv. engu að síður fram þá hlýtur hún auðvitað að gera sér grein fyrir því að slík frv. geta og eiga að taka þeim breytingum í meðförum Alþingis sem á slíkum frv. þarf að gera til að tryggja það að meiri hluti Alþingis fallist á þá lagasetningu sem gera á.

Þetta frv. sem hér er til umræðu hefur þegar tekið slíkum breytingum. Það er ekki sama frv. og hæstv. sjútvrh. lagði fram. Því var breytt í hv. Ed. Gerðar hafa verið tillögur af meiri hl. sjútvn. í þessari hv. deild um að breyta því enn frekar og ég veit ekki betur en að það séu a.m.k. uppi ákveðnar hugmyndir um að gera enn frekari breytingar á þeim tillögum sem meiri hl. sjútvn. lagði fyrir okkur í þskj. sem dreift var hér í gær. Þannig að eins eðlilegt og það er að hæstv. ráðherrar komi sér saman um að reyna að afgreiða mál, sem ríkisstjórnin hefur lagt fyrir þingið, lítið breytt, þá er það að sjálfsögðu jafneðlilegt að stjórnarþingmenn sem aðrir, sem höfðu frá upphafi vega fyrirvara um einstök efnisatriði frv., reyni a.m.k. að leita leiða til þess að fá fram þær breytingar á frv. sem gera það þannig að þeir geti við það unað. Þetta er ekkert annað en eðlilegur framgangsmáti eins og á málinu hefur verið haldið.

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um þetta mál nú, ég gerði það í fyrri umræðu hér í deildinni. Ég hef áður bent á að verndunarsjónarmiðið, sem hin svokallaða „svarta skýrsla“ vakti upp að mig minnir 1974 og var lengi kjarni umræðunnar um nauðsyn fiskveiðistjórnunar, þetta sjónarmið er gersamleg horfið og hefur verið lagt til hliðar í allri umræðu. Ég hef líka bent á að það sjónarmið margra, sem t.d. prófessor Þorkell Helgason lýsti mjög vel í Morgunblaðsgrein nýlega, að meginkjarninn með stjórn fiskveiða ætti að vera hagkvæmnissjónarmið, ætti að vera að ná þeim afla sem ná ætti með sem minnstum tilkostnaði, einnig það sjónarmið hefur verið lagt til hliðar úr umræðunni. Meira segja svo að menn eru í fullri alvöru að ræða um að við ákvörðun um kvótaúthlutanir eigi að taka sérstakt tillit til staða eða svæða þar sem útgerðarkostnaður er meiri en annars staðar. Ef menn eru að hugsa um að eigi að beita hagkvæmni í útgerð, það sé megintakmarkið með stjórnun fiskveiða, þá sjá menn auðvitað hvílík mótsögn það er ef á síðan við aflaúthlutanir að taka sérstakt tillit til þeirra sem hafa hærri útgerðarkostnað en aðrir. Þá eru menn farnir að breyta þvert gegn því kerfi sem menn þykjast vera að boða, þ.e. þá eru menn farnir að breyta þvert gegn því að kjarni fiskveiðistefnunnar sé sá að stuðla að hagkvæmni í útgerð.

Í öllum þeim umræðum sem farið hafa fram um þessi mál hér á Alþingi hef ég mjög saknað þess að afskaplega lítið hefur verið rætt um það sem auðvitað er grundvallaratriði undir öllu saman, og það er hvort ástæða sé til að ætla að þær röksemdir sem komið hafa frá fiskifræðingum séu réttar. Þær röksemdir sem menn hafa byggt allt þetta hrófatildur á frá upphafi vega. Þær umræður hafa því miður verið allt of litlar í tengslum við kvótaumræðuna hér á hinu háa Alþingi. En það er einmitt þetta sem þarf að skoða sérstaklega og vandlega. Þetta er eitt af því sem ég tel að þær nefndir, sem eiga að fjalla um stjórnun fiskveiða eftir að lög hafa væntanlega verið sett þar um, eigi fyrst og fremst að gera. Þær eiga að skoða þá útreikninga og spár sem Hafrannsóknastofnun hefur látið frá sér fara um ástand fiskistofna, fá umsagnir annarra vísindamanna en bara þeirra sömu vísindamanna og hafa verið ábyrgir fyrir þessum spám í 15 eða 20 ár og ganga úr skugga um það hvort líklegt sé að reynslan hafi sýnt að þessar spár séu svo traustar að á þeim megi byggja. Þetta vantar algjörlega inn í umræðu okkar hér og þetta vantar algjörlega inn í alla þá skoðun sem fram hefur farið á hugmyndum um stjórn fiskveiða.

Ég rakti í fyrri ræðu minni hvernig eitt hefur rekið sig á annars horn í tillögum og ýmsum spám Hafrannsóknastofnunar í gegnum árin. Ég ætla aðeins að minna menn á það að í skýrslu stofnunarinnar frá árinu 1975, sem kölluð hefur verið „svarta skýrslan“, var því spáð að ef haldið yrði áfram og veitt svipað magn af þorski og gert hafði verið árið þar á undan, þá mundum við standa uppi árið 1984 með um 80 þús. tonn alls af þorski á Íslandsmiðum. En nú fór þessi veiði fram þrátt fyrir alla fiskveiðistjórnun. Tölur Hafrannsóknastofnunar sjálfrar sýna m.a. í þessu riti sem við höfum nýlega fengið í hendur, fjölriti nr. 11, að þessi veiði, sem ekki mátti eiga sér stað, hún átti sér stað. Hvernig stendur þá á því að sá þorskstofn sem átti að mestu að vera horfinn 1984 skuli enn vera til? Finnst mönnum þetta ekkert undarlegt? Nú, Hafrannsóknastofnuninni finnst þetta sjálfri nokkuð undarlegt því hún lýsti því yfir fyrir fjórum árum að þær tölur sem menn hefðu byggt á öll árin þar á undan hefðu verið reistar á ónákvæmum forsendum og breytti síðan aðferðum sínum við stofnstærðarmælingar. Átta menn sig á því hvað þetta þýðir? Þetta þýðir það að allar þær forsendur, sem menn lögðu til grundvallar ákvörðunum um stjórn fiskveiða frá árinu 1974–75 til ársins 1983–84, voru rangar. Allar rangar. Er ekki ástæða til að menn a.m.k. spyrji sig að því núna hvort ekki sé rétt að stjórnmálamenn gefi sér tíma til að fjalla um forsendur þessarar stofnunar og fái á þeim umsagnir annarra sérfræðinga en þeirra sérfræðinga sem eru ábyrgir fyrir þessum spádómum?

Það er ekki bara hér á Alþingi heldur alls staðar í þessari umræðu sem sú skoðun er ríkjandi að flestir eða allir fiskistofnar við landið séu ofveiddir, þess vegna verði að draga úr sókn og takmarka afla.

Fremstur í flokki með þessar röksemdir er að sjálfsögðu hæstv. sjútvrh. sem hefur þær eftir ráðgjöfum sínum á Hafrannsóknastofnun, sem, eins og ég minni á, sögðu okkur það árið 1974 að ef við mundum veiða næstu ár á eftir eins og við gerðum þá mundi enginn þorskstofn vera til til þess að veiða eftir árið 1984 því hann yrði allur farinn. Hvaða rök eru lögð til grundvallar þessum fullyrðingum Hafrannsóknastofnunar nú? Þau rök að meðalþyngd landaðra þorska hafi sífellt farið lækkandi og sé á þessu ári sú lægsta í langan tíma, hún jafnist nú orðið á við það sem var á versta smáfiskadrápsári Breta, þ.e. á árinu 1976.

Það er alveg rétt að meðalþyngd landaðra þorska hefur farið minnkandi núna á síðustu tveimur árum eða svo. En hvað er meðalþyngd? Hún er heildarþyngd veiddra fiska, deilt með fjölda þeirra fiska sem veiðast. Og hvað er það sem veldur breytingum á meðalþyngd? Það er hlutfallið á milli stóru fiskanna og smáu fiskanna í aflanum. Fáir stórir fiskar og margir litlir fiskar þýða þannig lága meðalþyngd. Hafrannsóknastofnun segir að ástæðan fyrir því að meira veiðist nú af smáfiski en áður sé sú að það sé meira sótt í smáfiskinn en áður hefur verið. En það er líka leyfilegt að álykta að það geti verið vegna þess að það sé meira í sjónum af smáfiski nú en verið hefur áður. Allir sem fylgst hafa með málum vita að sóknarmynstrið hefur ekki breyst svo mikið að undanförnu að hægt sé að skýra þessa aukningu með breyttu sóknarmynstri. Og hvers vegna skyldu menn þá allt í einu hafa farið að taka upp á því að elfa smáfiskinn í staðinn fyrir stóra fiskinn þegar menn vita það að smáfiskurinn gefur minna af sér í aðra hönd heldur en stóri fiskurinn?

Ég veit að margir hafa vitnað hér í ræðu sem Jakob Jakobsson hélt á síðasta aðalfundi LÍÚ, 5. nóv. sl., en þar sagði Jakob m.a., með leyfi forseta:

„Hafi útskýringar mínar á nauðsyn þess að breyta nýtingu þorskstofnsins verið of flóknar skulu nú tekin nokkur einfaldari dæmi þessu til skýringar. Ég nefndi áðan að í ár þyrftum við að veiða um 130 millj. þorska til að ná 380 þús. tonna afla. Árið 1980 voru veiddar 118 millj. þorska og árið 1981 124 millj. Hver var svo aflinn þessi tvö ár?" segir Jakob. „Var hann 380 þús. tonn hvort ár? Nei, ekki aldeilis. Árið 1980 var þorskaflinn á Íslandsmiðum yfir 430 þús. tonn og árið 1981 varð hann 465 þús. tonn. Við verðum að fara aftur til daga fyrstu „svörtu skýrslunnar“, til ársins 1976 til að finna álíka nýtingu þorskstofnsins og við stefnum nú að.“

En forstjóri Hafrannsóknastofnunarinnar hlýtur að hafa treyst því að menn hefðu ekki aðgang að upplýsingum, væru ekki læsir eða gætu ekki hugsað því annars hefði hann varla sagt þetta. Svo vill nefnilega til að Hafrannsóknastofnun gefur sjálf út skýrslur þar sem koma fram tölur um afla einstakra fiskitegunda, fjölda veiddra fiska af hverjum árgangi, meðalþyngd hvers árgangs á hverju ári mörg ár aftur í tímann. M.ö.o. eru allar staðreyndir, sem Hafrannsóknastofnun fjallar um frá fyrri tíð, þekktar. Ef flett er upp í þessu nýjasta fjölriti, sem hv. alþm. hafa nýlega fengið í hendur, má sjá eftirfarandi:

1. Meðalþorskafli við Ísland árin 1970–1976 var 400 þús. tonn á ári og fór aldrei niður fyrir 347 þús. tonn. — Sem sagt, á þessum hræðilegu smáfisksdrápsárum veiddist bæði mikið og jafnt. Einnig er vert að minna á að breski flotinn gat á þessum árum ekki veitt af fullum krafti vegna landhelgisdellunnar sem þá stóð yfir.

2. Meðalþyngd þorsksins árin 1980 og 1981 er há vegna þess að stóri árgangurinn frá 1973 er orðinn sex ára 1980 og sjö ára 1981. Meðalþyngd hans var 5,26 kg sex ára og 5,82 kg sjö ára. Úr þessum árgangi veiddust 27 millj. fiska árið 1980, samtals 142 þús. tonn og 26,5 millj. fiska árið 1981, samtals 154 þús. tonn. Meðalárgangur hefði hins vegar gefið af sér 35-40 þús. tonn hvort ár jafngamall. Meðalþyngd landaðs þorsks var 3,6–3,7 kg árin 1980 og 1981 en er núna rétt neðan við 3 kg. Ef stóra árgangsins frá 1973 hefði ekki notið við og smáfisksafli verið meiri hefði meðalþyngdin verið svipuð og nú eða um 3 kg.

Þetta, herra forseti, er nú hinn ógurlegi sannleikur sem notaður er til þess að hræða fólk og sýna því fram á rányrkjuna. Skyldu þeir ekki eiga neinn annan betri en þetta?

Fiskifræðingar ættu a.m.k. að vita það manna best að aukning meðalþyngdar í fiskistofni er merki um skort á ungviði og þar með hættumerki. Það ætti því að vera ærin ástæða fyrir okkur til að gleðjast þegar svo mikið veiðist af smáfiski sem raun ber vitni vegna þess að ástæðan er sú að þessi smái og ungi fiskur er um allan sjó sem er merki um það að við séum komin með mjög sterkan árgang af smáum fiski sem verður uppistaða í veiðum okkar á næstu árum.

Ég ætla aðeins í þessu sambandi, herra forseti, að biðja menn sem hafa þetta fjölrit nr. 11 við höndina að fletta upp á bls. 32 þar sem farið er yfir fjölda þorska í þúsundum landaðra í aldursflokkum árabilið 1972–86. Þriggja ára fiskur árið 1974 var 14,8 millj. sem veiddust, árið 1975 29,3 millj., árið 1976, smáfiskadrápsárið mikla, 23 millj. 578 þús. fiskar. Skyldi þá ekki veiðin hafa hrunið á næstu árum á eftir, eftir allt þetta skelfilega smáfiskadráp þessara þriggja ára? Nei, ekki aldeilis. Ekki aldeilis. Veiðin hefur sjaldan verið meiri en þá. Síðan fellur þessi tala árið 1977 vegna stækkunar möskva o.fl. og aukinna friðunaraðgerða á smáfiski niður í 2 millj. og 600 þús. fiska. Úr 23,5 millj. niður í 2,6 millj. fiska. Árið 1978 er fjöldi þriggja ára fiska tæplega 6 millj., 1979 7 millj., 1980 4 millj., 1981 2 millj., 1982 3 millj., 1983 3,5 millj., 1984 6,7 millj., 1985 6,5 millj. og árið 1986 veiðast 21 millj. stykki af þriggja ára fiski.

Halda menn að þetta sé út af því að möskvinn hafi verið minnkaður árið 1986? Eða að sóknin hafi allt í einu verið svona stórkostlega aukin í smáfiskinn? Nei, auðvitað ekki. Þetta er vitnisburður um það að árið 1986 kemur inn mjög sterkur árgangur af þriggja ára fiski sem menn voru að veiða á því ári og hafa verið að veiða enn með nákvæmlega sama hætti og menn gerðu 1973, 1974, 1975 og 1976. Og þessi fiskur á eftir að vera undirstaða undir mikilli aflasæld á næstu árum eftir því sem hann vex upp.

Ég ítreka það sem ég hef áður sagt: Kanadamenn þóttust fyrir nokkrum árum geta lagt svona smáfiskastofn inn á banka, látið hann óveiddan og ónýttan, látið hann stækka og vaxa og sótt hann svo nokkrum árum síðar og slegið þar með öll veiðimet. Og Kristján Ragnarsson trúði svo á þessar kenningar að hann spáði því að á árinu 1987 mundi veiðast 1 millj. tonna í Kanada. (MB: Hvaða maður er það, þessi Kristján Ragnarsson?) Hver skyldi nú reynslan hafa orðið? Ég hef spurt hæstv. sjútvrh. til að fá þetta upp. Mér er sagt að það skorti 40–50% á að þessi afli hafi náðst. M.ö.o.: Þau rök sem liggja undir því hjá Hafrannsóknastofnun að hægt sé að geyma svona stóran árgang af smáfiski, láta hann vaxa upp, leggja hann inn á banka og sækja hann síðar — reynslan hjá Kanadamönnum, sem hafa reynt þetta, reynslan hefur fellt þessa kenningu.

Svo get ég ekki látið hjá líða, herra forseti, að lesa fyrir ykkur ívitnun, sem er afskaplega vísindaleg, um skarkolaafla og tillögur Hafrannsóknastofnunar um skarkolaafla á árinu 1988. Hér segir á bls. 21 í þessu riti:

„Áður hefur verið á það bent að hámarksjafnstöðuafli úr skarkolastofninum hér við land sé um 10 þús. tonn þegar stuðst er við þróun veiðanna á þessari öld.“ M.ö.o. er hér um sagnfræði að ræða. Þegar stuðst er við þróun veiðanna á þessari öld þá er hámarksjafnstöðuafli 10 þús. tonn. Síðan segir stofnunin: „Með hliðsjón af framansögðu [þ.e. af sagnfræðinni] leggur Hafrannsóknastofnun til að leyfilegur hámarksafli skarkola árið 1988 verði 10 þús. tonn.“

Ég legg til, herra forseti, að sjútvrh. láti reikna það út hvað væri, á grundvelli þessarar vísindalegu kenningar, líklegt að óhætt væri að taka af þorskfiski á árinu 1988. Ætli það væri ekki nær 500 þús. tonnum en 400, svo maður tali nú ekki um 360? En fyrst óhætt er að nota sagnfræðivísindin á skarkola ætti þá ekki að vera óhætt að nota sagnfræðivísindin á þorskstofninn líka svo maður tali nú ekki um ef maður tæki alla öldina inn í myndina? Þetta er afskaplega vísindalega gert, herra forseti.

Nei, ég held nefnilega að það sé löngu kominn tími til þess að menn gefi sér ráðrúm, og þá stjórnmálamenn fremur en aðrir, til þess að skoða þær kenningar sem verið er að byggja okkar veiðibúskap á. Og ég skora á hv. þm. Matthías Bjarnason, formann sjútvn., að hann taki sig nú til og noti það sem eftir lifir vetrar til þess að fá sjútvn., og ekki væri nú verra ef sjútvn. Ed. vildi vinna það verk með honum, til að skoða þessar forsendur Hafrannsóknastofnunar og fara nú einu sinni rækilega ofan í saumana á þeim upplýsingum sem stofnunin er að gefa og fá jafnframt vísindamenn utan stofnunarinnar til að leggja mat sitt á þær rannsóknaraðferðir, þær tillögur og reynsluna sem menn hafa við að styðjast í þessum efnum. Það þarf, herra forseti, enga samþykkt Alþingis til að þetta sé gert. Þetta getur formaður sjútvn. ákveðið að láta nefndina vinna. Þannig mundi hún nota vel sinn tíma. Og ég ítreka það að ég skora á hv. þm. Matthías Bjarnason að standa að slíkri athugun á vegum sjútvn. Alþingis á þessum vetri. Ég sé að hann kinkar kolli og ég tek það sem góða ábendingu um það að hann muni hafa þetta í huga. (Gripið fram í: Hristi hann ekki bara höfuðið?) Nei, hann kinkaði kolli. Það fer ekkert á milli mála hvort heldur hv. þm. gerir, hristir höfuðið eða kinkar kolli.

Herra forseti. Ég ætla ekki að tala mikið meira að þessu sinni. Ég er andvígur meginefni þessa frv. sem er fyrst og fremst um það að skipta sameiginlegri eign þjóðarinnar upp á milli örfárra einstaklinga. Ég vek athygli á því að á sl. ári, árinu 1987, liggur fyrir að um 25% kvótans voru í sölu en það eru verðmæti upp á 400–500 millj. kr. sem menn eru að skipta á milli sín, verðmæti sem menn fá fyrir ekki neitt og eru að selja hver öðrum fyrir slíkar upphæðir.

Þó svo að ég sé andvígur meginefni frv. þá vil ég enn fremur láta það koma fram að ég gæti svo sem unað við það ef þorri þeirra tillagna, sem hv. þm. Matthías Bjarnason flytur á sérstöku þskj., yrði samþykktur. Þá mundi ég ekki leggjast gegn frv. Ég ætla líka að láta það koma fram, herra forseti, að verði misbrestur á því, sem ég vona að ekki verði, þá mun ég gera lokatilraun við 3. umr. til þess að leggja enn fram nokkrar brtt. við þetta frv. sem munu þá koma til atkvæða við þá umræðu. Nái ekki slíkar tillögur samþykki — og þá er ég ekki endilega að tala um hverja einustu tillögu heldur lungann úr slíkum tillögum — þá mun ég ekki greiða atkvæði með þessu frv. heldur gegn því og ég minni á þá samþykkt sem fyrir liggur frá kjördæmisráði Alþfl. á Vestfjörðum varðandi afstöðu ráðsins og okkar vestfirskra alþýðuflokksmanna til framlengingar kvótakerfisins óbreytts.

Ég vil aðeins í lokin vekja sérstaka athygli á því, af því að það kom til umræðu hér áðan varðandi seinni málsgrein 1. brtt. hv. þm. Matthíasar Bjarnasonar, að hættan við það sem verið er að gera nú þegar upp er tekinn kvóti á rækjuveiðum er sú að þær rækjuvinnslustöðvar, sem haft hafa algjört frumkvæði um að leita að djúphafsrækjumiðunum og nýta þessi mið, hafa margar hverjar búið við þær aðstæður að þær urðu að leigja sér skip til slíkra veiða þar sem þær áttu ekki slík skip sjálfar og fengu ekki heimild til þess að kaupa sér skip. Þessi skip voru því leigð af umræddum stöðvum, voru rekin alfarið á þeirra áhættu, mönnuð af þeim og þau mið, sem uppdöguðust, uppdöguðust fyrir þeirra tilverknað. Þegar upp verður tekinn kvóti á úthafsrækjuveiðum þá fá þessir frumkvöðlar ekki svo mikið sem rækjusporð af honum heldur rennur hann til útgerðaraðilanna sem þessi skip eiga og hafa sjálfir ekkert lagt til þess að finna þessi mið og nýta þau annað en þau leiguskip sem aðrir hafa rekið með eigin áhættu. Þetta gæti orðið til þess að rækjuvinnslustöðvar á Norðvesturlandi, Vestfjörðum, Vesturlandi og Suðurlandi fengju mjög takmarkað af þeim afla sem veiðist af djúphafsrækju og nánast því sem næst ekkert á ákveðnum árstímum á sama tíma og allt yrði yfirfullt hjá verksmiðjum annars staðar á landinu.

Markmiðið með brtt. Matthíasar Bjarnasonar, en ég er hér að ræða um 2. málsgr. 1. brtt. hans, er að reyna að tryggja að varðandi þá vinnslurækju sem veiðist við Ísland sé reynt að halda þannig á málum að allar vinnslustöðvar geti fengið nokkuð öruggt hráefni þannig að vinnslan geti orðið stöðug og nokkuð jöfn allt árið um kring, en menn þurfi ekki að sitja uppi við það, þar sem rækja er undirstöðuatvinnugrein í mörgum byggðarlögum, að fólkið sem við þau störf vinnur þurfi að ganga kannski lungann úr árinu atvinnulaust vegna þess að enga vinnslurækju er að fá, en vinna hinn hluta ársins frá morgni og fram á miðjar nætur til þess að hafa undan þeim afla sem að berst. Þetta er kjarninn í seinni málsgrein tillögu hv. þm. Matthíasar Bjarnasonar og ég ætla að biðja þm. að gaumgæfa það til hvers þessi tillaga er flutt áður en atkvæði eru um hana greidd.

Að lokum, herra forseti, þá væri ágætt að hæstv. sjútvrh. gerði sér grein fyrir því að úrslitum um þetta mál ráða þm. sem vitað er að eru andvígir ýmsum efnisatriðum í frv. eða jafnvel meginkjarna þess. Við höfum hlýtt á mál nokkurra slíkra, eins og t.d. hv. þm. Pálma Jónssonar, hv. þm. Jóns Sæmundar Sigurjónssonar og fleiri slíkra. Frv. verður ekki að lögum nema með því móti að menn, sem eru andvígir jafnvel meginefni þess, láti það yfir sig ganga að greiða atkvæði með því. Þetta ætti hæstv. sjútvrh. að gera sér fyllilega ljóst. Það er ekki efnislegur meiri hluti fyrir málinu hér á hinu háa Alþingi, jafnvel þó svo að það hljóti afgreiðslu sem lög frá þinginu. Það leggur að sjálfsögðu hæstv. ráðherra og hæstv. ríkisstjórn þunga ábyrgð á herðar. Og í þeim hópi sem ég nefndi hér áðan vil ég ekki heldur undanskilja hv. þm. Alexander Stefánsson eða hv. þm. Ólaf Þ. Þórðarson.