06.01.1988
Neðri deild: 47. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3697 í B-deild Alþingistíðinda. (2585)

181. mál, stjórn fiskveiða

Kristinn Pétursson:

Herra forseti. Það mál sem hér er til umræðu er mjög viðamikið mál og það er slæmt að það skuli þurfa að vinna það í jafnmiklu tímahraki og raun ber vitni.

Ég ætla aðallega að ræða hér um 10. gr., um smábáta, en ég tel að miðstýring henti ákaflega illa í smábátaútgerð og henti illa þessum smáu byggðarlögum úti á landi. Ég skal færa nokkur rök fyrir því. Það eru kannski ekki mörg byggðarlög sem þetta á við um, en m.a. það byggðarlag sem ég kem frá.

Þar er t.d. léleg hafnaraðstaða, svo ég taki eitt dæmi. Auðvitað skiptir það máli hvernig aðstöðu menn hafa við að sækja fisk í sjó. Síðan er það veðráttan á 66° norður. Hún hefur stundum verið alla vega. Veðurguðirnir blása og hafið er nú eins og það er. Í allri þessari skriffinnsku í dag kemur fram lítill skilningur á umgengni við náttúruna. Svo er gott að menn búi hér ekki til byggðavandamál svo að það sé þá hægt að taka upp byggðastefnu til að leysa vandamál sem var búið til. Ég er ekki að segja hér að það sé verið að búa til vandamál. Ég veit að það er verið að reyna að leysa það vandamál að skipta of litlum fiskistofni á of stóran flota, ef svo mætti að orði komast. Það er náttúrlega aðalmálið. En við megum ekki láta tölfræði og skriffinnsku gjörsamlega drekkja heilbrigðri skynsemi.

Ég vil minna á 69. gr. stjórnarskrárinnar því það er akkúrat það sem er hér til umræðu. Það er grein um atvinnufrelsi. Þar stendur að engin bönd megi leggja á atvinnufrelsi manna nema almenningsheill krefji og þarf lagaboð til og það er það lagaboð sem hér er verið að ræða. Þá er spurning hvort almenningsheill krefst þess að þessir smærri bátar séu settir inn í þessa skriffinnsku og þurfi að skila skýrslum mánaðarlega um það hvað þeir dragi marga fiska úr sjó og fyrsta verk manna þegar þeir koma heim á kvöldin er að setjast niður og skrifa og gleyma ekki vigtarnótunni svo að allt verði ekki vitlaust og það komi símskeyti eftir mánaðamótin þar sem mönnum er hótað því að þeir verði sviptir veiðileyfi í íslenskri lögsögu ef þeir skila ekki skýrslunni. Þetta er sú hlið á kerfinu sem verið er að ræða um að menn séu settir inn í. Því allar vigtarskýrslur skila sér náttúrlega til Fiskifélagsins eftir aflaskýrslum, en það dugar ekki í þessu kerfi því það þarf að senda sérstaklega.

Það er alltaf spurning hvenær er orðið um að ræða framsal á valdi löggjafans til framkvæmdarvaldsins þegar verið er að ræða atriði sem vega svona þungt í stjórnarskránni eins og atvinnufrelsi. Ég ætla ekki að dæma um það hvort verið sé að brjóta það, en það er svona víða á mörkunum svo maður segi nú ekki meira.

Þegar svo skýrslurnar eru komnar hingað suður í hið háa ráðuneyti, þá er náttúrlega eftir að skrá þetta allt og sortéra og fylgjast með að þetta sé allt rétt gert. Togarafjöldinn er eitthvað á annað hundrað og bátafjöldinn einhver hundruð, ég er ekki með tölurnar og það skiptir ekki máli nákvæmlega, en trillufjöldinn er um 1700 sem stundar fiskveiðar og þær landa langoftast af öllum. Hér er því verið að tala um skráningu kannski upp á tíföldun við að taka trillurnar inn og eftirlit í samræmi við það. Og hvað þarf marga menn til að fylgjast með því öllu? Það þarf töluvert lið og þeir eru ekki öfundsverðir sem eiga að standa í því að fylgjast með þessu öllu.

Ég vil minna á það að afli smábáta er besta og ódýrasta hráefnið sem völ er á. Það er minnstur erlendur kostnaður við að sækja fiskinn. Það skiptir líka máli hversu miklu er eytt við að afla gjaldeyris. Af öðru sem liggur hér fyrir, þá líst mér mjög vel á 6. brtt. hv. þm. Matthíasar Bjarnasonar á þskj. 479, en hún hljóðar svo:

„Alþingi kýs hlutfallskosningu nefnd níu manna til að undirbúa tillögur um fyrirkomulag fiskveiðistjórnar og nýtingu fiskstofna að loknum gildistíma laga þessara. Sjávarútvegsráðherra skipar formann nefndarinnar.

Að ári liðnu skal nefndin leggja fyrir Alþingi bráðabirgðaálit á fiskveiðistefnunni ásamt tillögum um breytingar á lögum þessum telji hún það nauðsynlegt. Nefndin skal kanna eftirfarandi:

1. Áhrif laga þessara á afkomu einstakra byggðarlaga; byggðaþróun í landinu og sjávarútveg.

2. Áhrif gildandi stjórnar á fiskstofnana, afrakstur þeirra og hagkvæmni veiða.

Í starfi sínu skal nefndin kynna sér rækilega hvaða áhrif fiskveiðistefna undanfarinna ára hefur haft á byggðarlög, fiskstofna og sjávarútveg.“

Þetta er nú hluti af því sem þarna stendur og ég verð að segja það að mér finnst þetta vera málefni framtíðarinnar, af því að ég sagði hér í upphafi að við værum hér í tímahraki, og það er mjög mikilvægt að fagmannlega sé unnið að því að endurskoða þetta mál. Það er mikil vinna sem auðvitað þarf að liggja fyrir þannig að vel geti farið.

Varðandi 10. gr. um smábáta sem ég gat um áðan, þá hefði ég viljað sjá öllu meira frjálsræði í þeirri grein þó að sumir vilji hafa stjórn á því og ég ætla að setja þann fyrirvara við atkvæði mitt við þessa 10. gr. að Landssamband smábátaeigenda geti sætt sig við greinina í endanlegri mynd eins og önnur hagsmunasamtök hafa lagt blessun sína yfir sinn þátt af þessum tillögum.