06.01.1988
Neðri deild: 47. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3700 í B-deild Alþingistíðinda. (2588)

181. mál, stjórn fiskveiða

Óli Þ. Guðbjartsson:

Hæstv. forseti. Varla verður of mikil áhersla lögð á þá staðreynd að mál það sem hér er á dagskrá, 181. mál þessa þings, er þýðingarmesta málið sem hér er um fjallað. Fjárlögin sjálf, öll tekjuöflunarlöggjöfin, er þá ekki undanskilin. Fjárlögin gilda fyrir eitt ár í senn. Hér er verið að leggja grunn að löggjöf um efnalega undirstöðu þessa þjóðfélags.

Þetta frv. sem hér er til umræðu var lagt fram í desemberbyrjun, að vísu eftir töluverðan undirbúning eins og hér hefur margsinnis komið fram, og þá var ætlunin að afgreiða málið frá hv. Alþingi fyrir jól, svo það var ekki langur tími sem þingið átti að fá til umfjöllunar með öðrum önnum einmitt í þeim mánuði. Þá voru óafgreidd fjárlögin, þá var óafgreiddur allur sá urmull frumvarpa sem var í meðferð þingsins á þeim dögum.

Hæstv. ráðherra má ekki kveinka sér undan þó að hv. alþm. hafi þótt hér nokkuð þröngt skorinn stakkurinn og naumt skammtaður tíminn því að hér var sannarlega um að ræða stuttan tíma til þess að fjalla um mikið mál. Ég tók þátt í 1. umr. um þetta mál hér í þessari hv. deild og meginafstaða mín kom þá fram. Hún hefur ekki breyst. Ég er ásamt öðrum þm. Borgarafl. í grundvallaratriðum ósammála meginstefnu frv. og við flytjum hér í þessari hv. deild brtt. við frv. í því sambandi og í þeim tilgangi að ná fram ákveðnum breytingum.

Auðvitað ætlum við okkur ekki þá dul að ná fram okkar meginstefnubreytingu öðruvísi en að stjórnarmeirihlutinn fallist á að einhverju leyti. En hér gegnir dálítið öðru máli í þessu efni en venja er til. Það hefur verið tekist hér dálítið á í dag einmitt um ýmsa grundvallarþætti í sambandi við það hvernig mál eru undirbúin, hvernig mál eru kynnt og hvernig mál eru unnin hér í þinginu. Þetta mál hefur þá sérstöðu að það er greinilegur ágreiningur meðal stjórnarliða, öllu heilli, um grundvallarþætti málsins. Ég fæ ekki betur séð en að þau þrjú meginatriði sem við í þingflokki Borgarafl. lögðum þyngsta áherslu á í hv. Ed. sem var í fyrsta lagi um gildistímann, í öðru lagi um norður-suður línuna, í þriðja lagi um smábátana, ég fæ ekki betur séð en að stjórnarliðið, jafnvel hæstv. sjútvrh., sé á vissu, mismunandi skipulögðu, undanhaldi á þessum þremur sviðum.

Í upphafi var gert ráð fyrir því að gildistími þessarar löggjafar yrði fjögur ár. Nú er stefnt að þremur.

Í upphafi var gert ráð fyrir því að ekki yrði hin minnsta eftirgjöf varðandi norður-suður línuna. Nú hefur það komið í ljós að aukning í karfakvóta sunnan við línuna er að verða staðreynd.

Í þriðja lagi er greinilegt að viss eftirgjöf er gagnvart smábátum og það er sérstaklega ánægjulegt að sú vinna sem Landssamband smábátaeigenda og þeir sem veiða á litlum bátum víða um land, sú vinna sem þeir hafa lagt í þetta mál, sú alúð sem fulltrúar þeirra hafa lagt í setu á þingpöllum og að fylgjast með málinu með viðræðum við menn á öllum stigum þess, er smám saman að skila árangri. Það er alveg greinilegt.

Fyrir örfáum mínútum var talsmaður í hv. sjútvn. þessarar deildar einmitt að leggja fram enn eitt atriðið sem er uppskera af starfi ykkar sem hér eigið hlut að máli. Þetta er sannarlega ánægjulegt. Það sýnir að þingræðið, lýðræðið í þessu landi, er enn við lýði enda þótt ýmislegt annað af þessum vettvangi bendi því miður til tilhneigingar í aðrar áttir sem ég e.t.v. mun koma síðar að í mínu máli.

En við þm. Borgarafl. erum ekki ánægð með hlut smábáta fyrr en það næst að löggjöfin verði í meginatriðum svipuð hvað þá áhrærir og var í gildi á sl. ári. E.t.v. næst það. Því getum við ekki svarað á þessari stundu.

Við höfum leyft okkur að flytja hér í þessari hv. deild brtt. sem eru í rauninni í fimm meginatriðum. Ég ætla aðeins að rifja það upp.

Það er í fyrsta lagi brtt. um að landið sé eitt veiðisvæði. Það er okkar grundvallarskoðun að það væri affarasælast.

Í annan stað flytjum við brtt. um að sérstök framkvæmdanefnd fari með stjórn fiskveiða ásamt sjútvrh. Að því mun ég koma síðar í máli mínu.

Í þriðja lagi flytjum við brtt. um að botnfiskveiðar báta minni en 10 brúttólestir séu óbreyttar frá eldri lögum eins og ég áðan sagði.

Í fjórða lagi flytjum við brtt. um að sérstakur dómstóll, fiskveiðidómur, fjalli um þau atriði laganna sem dæma þarf um.

Og í fimmta lagi flytjum við brtt. um að gildistíminn sé aðeins eitt ár.

Fyrir fáum dögum fékk ég í hendur ljósrit af viðtali við þrjá valinkunna menn. Þessir menn voru og eru allir hæstv. fyrrv. sjávarútvegsráðherrar. Þeir eru Lúðvík Jósepsson, hæstv. fyrrv. sjútvrh., Kjartan Jóhannsson, hv. alþm., hæstv. fyrrv. sjútvrh. og Matthías Bjarnason, hv. 1. þm. Vestf., hæstv. fyrrv. sjútvrh. Í þessum viðtölum í Sjávarfréttum er verið að ræða við alla þessa menn um sama málið, kvótastefnuna, fiskveiðistjórnina.

Það þarf ekkert að fara á milli mála að allir þessir menn eru hver úr sínum stjórnmálaflokki, þeir eru sannarlega ekki sammála á þeim sviðum. Það kemur hins vegar greinilega fram, sem er athyglisvert, að allir eru þeir í grundvallaratriðum ósammála þeirri stefnu í fiskveiðistjórn sem hér er lögð til, enda þótt einn þeirra, Kjartan Jóhannsson, sé að vísu hlynntur kvóta og hann styðji þessa stefnu af ýmsum öðrum pólitískum ástæðum. En það er sérstaklega athyglisvert að Lúðvík Jósepsson og Matthías Bjarnason, jafnósammála og ég geri ráð fyrir að þeir séu á annan hátt í stjórnmálum, skuli vera í grundvallaratriðum sammála um það að það sem verst sé við þessa fiskveiðistjórn og kvótastefnuna yfirleitt sé það að endurnýjunarmöguleikinn, sem er hverri þjóð nauðsyn, bæði hvað varðar fiskiskipastólinn, eðlilega, og ekki síður mannaflann í þessari atvinnugrein, er ekki sem skyldi í þessu kerfi. Þetta viðurkennir hæstv. núv. sjútvrh. að sé galli en hann fellst líka á það að vandséð sé hvernig eigi að leysa þessa hluti svo að viðunandi sé. Aðalatriðið er hins vegar þetta: Þegar verið er að leggja til þriggja ára löggjöf í þessu efni, eins og gert er, vantar þetta grundvallaratriði inn í, hvernig endurnýjunin á að eiga sér stað í þessari undirstöðuatvinnugrein þjóðfélagsins.

Það hefur verið dálítið lærdómsríkt að lifa síðasta sólarhring hér á hv. Alþingi. Hér er verið að ræða þessi mál frá ýmsum sjónarhornum eins og gengur og gerist, en við getum litið hér á ríkisstjórnarbekkinn. Þar er þessa stundina enginn sem sýnir hv. Nd. þá virðingu að vera viðstaddur umræðuna. Svo hefur verið lengst af. Þó skal ég ekki draga það undan að hæstv. sjútvrh. hefur stundað sinn póst sem fagráðherra með ágætum. Hinir stjórnarflokkarnir., bæði Framsfl. sem á hæstv. sjútvrh. í þessari ríkisstjórn og sérstaklega Sjálfstfl. hafa að öllu leyti, vil ég segja, eða flestu leyti vanrækt þessa sjálfsögðu skyldu að fylgja þeim málum eftir hér í þingdeildinni sem eðlilegt væri og þetta tel ég vera mjög til vansa, ekki síst vegna þess að það þekki ég til Sjálfstfl. að hann hefur lengi farið með stjórn þessara mála. Innan hans raða eru margir af burðarásum sjávarútvegsins og það er sannarlega ekki á þann veg eins og vera ætti þegar ráðherrar flokksins — að vísu hefur einn þeirra, hæstv. menntmrh., komið hér í dag, en aðra hef ég ekki séð. Ég vil þó ekki draga það undan að í dag er miðvikudagur og mér er það fullkunnugt að á miðvikudegi eru hæstv. ráðherrar með viðtalstíma en þessi umræða er búin að standa síðan kl. 3 í gær með litlum hléum og þetta er með þeim hætti að það er ekki annað hægt en að vekja á því athygli.

Ég sagði að í viðtölunum við þessa valinkunnu menn hér hefði komið greinilega fram að þeir voru í meginatriðum sammála. Mig langar, með leyfi hæstv. forseta, að vitna í örstuttan kafla hafðan eftir Lúðvík Jósepssyni. Hann segir:

„Ég vil enn fremur minna á að kvóti, sem er að meira eða minna leyti byggður á aflamagni sem einu sinni var, læsir öllu föstu og truflar eðlilega þróun. Slík stefna leiðir líka fljótlega af sér spillingu og brask og getur leitt hörmungar yfir einstök fiskveiðibyggðarlög. Veiðarnar verða að þróast með fiskgengd og árferði," segir þessi hæstv. fyrrv. sjútvrh. „Veiðarnar verða að þróast með fiskgengd og árferði og skipastóllinn þarf líka að þróast til nútímalegri vinnubragða.“

Þetta finnst mér sýna svo að ekki verður um villst að þessi aldni stjórnmálaleiðtogi og reyndi maður einmitt á þessu sviði er hér á allt annarri skoðun en hér er lögð til.

Hv. þm. Kjartan Jóhannsson og talsmaður meiri hl. sjútvn. þessarar hv. deildar leggur á það áherslu í þessu viðtali að kvótakerfið stuðli ekki að veiðum á stórum fiski fremur en smáum. Þetta er afskaplega athyglisvert atriði, ekki síst miðað við ræðu hv. 5. þm. Vestf. fyrr á þessum fundi. (Forseti: Vegna þess að nú er kominn sá tími sem þingflokksfundir hefjast að venju vil ég inna ræðumann eftir hvort hann eigi langt mál eftir af ræðu sinni.) Það er nokkur hluti eftir, já. (Forseti: Þá fer ég þess á leit við hann að gera hlé á máli sínu og hefja þá ræðu sína aftur eftir hlé.). — [Fundarhlé.]

Hæstv. forseti. Það var að vísu ekki mikill hluti ræðu minnar eftir, en þetta mál sem við ræðum er, eins og margsinnis hefur komið fram, viðamikið og þýðingarmikið.

Ég gat þess fyrr í ræðu minni að ég teldi að það hefði þegar náðst nokkur árangur af starfi stjórnarandstöðu og ýmissa aðila innan stjórnarliðsins sem eru á annarri grundvallarskoðun en fram kemur í meginstefnu frv. sem við ræðum.

Sá flokkur sem ég er fulltrúi fyrir, Borgarafl., er yngsti þingflokkurinn og kannski þess vegna er við því að búast að hann nái e.t.v. ekki eins miklum árangri og hinir sem grónari geta kallast. Þó vil ég í þessu sambandi minna á eitt mál frá undanförnum vikum þar sem rödd Borgarafl. hefur skorið sig úr svo greinilega að eftir hefur verið tekið í þjóðfélaginu. Það er varðandi ekki veigaminni þátt en húsnæðislöggjöfina. Vitaskuld hefur hæstv. ríkisstjórn og stjórnarliðinu öllu tekist að koma í gegn þeim endurbótum sem hæstv. ríkisstjórn taldi eðlilegar á þeirri löggjöf, en trúa mín er sú að það verði ekki langur tími liðinn þegar þeir sem þar bjuggust við bótum munu komast að raun um að bæturnar voru harla litlar sem samþykktar voru fyrir jól eða í desember sl. og að þegar menn fara á raunhæfan hátt að sinna þessum málaflokki muni tillöguflutningur Borgarafl. bæði í þessari hv. deild og raunar ekki síður í hv. Ed. verða þau málsatriði sem menn munu byggja á til varanlegrar framtíðar.

Því minni ég á þetta að ég tel að í því máli sem við fjöllum hér um, þó að árangur hafi áunnist varðandi gildistímann, varðandi norður-suður línuna og varðandi veiðar smábáta þó að það sé hvergi nærri nóg, sé það atriði ónefnt sem er einna þýðingarmest í þeim tillögum sem Borgarafl. flytur hér sem brtt. við þetta frv. Þar á ég við tillögu okkar sem mig langar til að lesa, með leyfi hæstv. forseta, úr þskj. 436, 2. brtt. okkar. Þar segir:

„Á eftir 1. gr. komi tvær nýjar greinar svohljóðandi:

a. (2. gr.) Sérstök framkvæmdanefnd fer með stjórn fiskveiða samkvæmt lögum þessum. Nefndin skal skipuð níu mönnum kosnum hlutfallskosningu til eins árs í sameinuðu Alþingi eftir gildistöku laga þessara. Kosnir skulu jafnmargir varamenn. Formaður nefndarinnar boðar hana til fundar í samráði við sjútvrh. Á fundum nefndarinnar ræður afl atkvæða. Ríkisstjórnin ákveður þóknun til nefndarmanna.

b. (3. gr.) Verkefni framkvæmdanefndar um stjórn fiskveiða eru:

1. Að gera tillögur til sjútvrh. um reglugerðir um framkvæmd laga þessara.

2. Að fjalla um leyfi, heimildir og undanþágur samkvæmt lögum þessum og reglugerðum og gera tillögur í þeim efnum til ráðherra.

3. Að fjalla um álita- og ágreiningsmál, sem ekki falla undir fiskveiðidóm, varðandi veiðileyfi, aflamark og sóknarmark samkvæmt lögum þessum og reglugerðum settum samkvæmt þeim, og gera tillögur til ráðherra um úrlausn þeirra.“

Þetta atriði hefur borið nokkuð á góma í þessum umræðum, kannski ekki síst vegna þess að einn af stjórnarliðum og ekki ómerkari en sjálfur formaður sjútvn. þessarar hv. deildar, fyrrv. sjútvrh. Matthías Bjarnason, flytur einnig brtt. hér, að vísu einn síns liðs, sem gengur í svipaða átt. Sú tillaga sem hv. 1. þm. Vestf. Matthías Bjarnason flytur er að vísu mun þrengri en okkar tillaga en engu að síður er hér fjallað um efnið í grundvallaratriðum á sama hátt. Það er þetta atriði sem hæstv. sjútvrh. gerði að umtalsefni í svari sínu fyrr á þessum fundi í dag. Hann sagði af þessu tilefni, ég held að ég hafi náð því alveg orðrétt, að hann teldi að óeðlilegt væri að Alþingi þrýsti sér inn í framkvæmdarvaldið með þessum hætti.

Hv. 4. þm. Norðurl. e. Steingrímur J. Sigfússon gerði þetta mjög að umtalsefni fyrr á fundinum og fleiri hafa að þessu komið. Hér er um að ræða verulegt grundvallaratriði sem þessi hv. þingdeild verður innan tíðar að taka afstöðu til.

Ég verð að segja það að mér kom mjög á óvart hve þunginn í máli hæstv. ráðherra var mikill gegn þessari hugmynd. Ég hafði ekki búist við öðru fyrir fram en að hann væri að verulegu leyti til viðræðu um breytingu í þessum efnum vegna þess hve víða er fram tekið í þessu frv. um fiskveiðistjórn að vald, framkvæmdarvald, í mjög veigamiklum atriðum er fært til hans.

Þá taldi ég og tel raunar að það væri ráðherranum ekki einungis hollt heldur nánast nauðsyn, ef hann vill ná eðlilegri stjórn, að hafa aðila sér við hlið sem hann gæti leitað ráða hjá og sem hann gæti leitað styrks til, ekki síst vegna þess að það kom annars staðar fram í máli hæstv. sjútvrh. að hann vildi mjög gjarnan hafa náið samband við hagsmunaaðila. Og ég fæ ekki séð hvernig menn ætla að hafa náið samband við hagsmunaaðila ef þeir vilja ekki undir neinum kringumstæðum fá þingkjörna nefnd sér við hlið í jafnveigamiklu máli eins og hér um ræðir.

Í þessu sambandi langar mig til þess að vitna enn til viðtals í Sjávarfréttum sem ég minntist fyrr á í ræðu minni og haft var við fyrrv. sjútvrh. Matthías Bjarnason. Þar segir hann, með leyfi hæstv. forseta:

„Kvótakerfið er ekki alvont, en gallarnir vega þó mun þyngra en kostirnir. Þar á ofan hefur framkvæmdin á kerfinu verið stirð og ósveigjanleg. Það er ekki hollt fyrir neinn sjútvrh. að hafa svona mikil völd. Ég dreg ekki í efa að ráðuneytið eigi að hafa yfirumsjón með þessum málum en ég tel enga ástæðu til þess að nefnd sú, sem á að skera úr í ágreiningsefnum, sé skipuð fulltrúum útgerðar, sjómanna og fiskvinnslu. Þarna eiga að sitja menn með víðari sjóndeildarhring, menn sem Alþingi skipar, sem hafi meiri yfirsýn yfir hlutina og séu ekki bundnir þröngum sérhagsmunum. Menn sem geti metið ástandið á hinum ýmsu stöðum á landinu þegar ákvarðanir eru teknar. Það munar til að mynda minna um að missa eitt skip frá Reykjavík en frá Sandgerði, Patreksfirði ellegar Neskaupstað svo dæmi sé tekið.“

Hér talar maður sem farið hefur með vald að þessu leyti í verulega langan tíma. Hér talar maður sem hefur reynslu, kom beint úr atvinnulífinu, þekkir það vel og veit hvað hann er að segja. Það fer ekkert á milli mála. Þessi sami maður stendur að tillöguflutningi sem formaður sjútvn. þessarar hv. deildar sem gengur í þá átt að fá þingkjörna nefnd til samstarfs við ráðherrann um þessi veigamiklu mál. Undir þetta tökum við, fulltrúar Borgarafl., heils hugar. Við viljum að vísu ganga lengra en þessi hv. þm. og þess vegna geri ég þetta sérstaklega að umtalsefni.

Þegar hæstv. sjútvrh. fjallaði í dag í ræðu sinni um hugmyndina um byggðakvóta minntist hann á það að hann teldi að þar væri um svo viðkvæm mál að ræða sem væri ákaflega erfitt að hans dómi að setja ákveðnar reglur um. Það kom vel fram í hans máli að hann taldi tillögur Alþb. í þessu efni nánast óframkvæmanlegar. En hann sagði og ég held að það hafi verið orðrétt sem ég náði þeim orðum hæstv. ráðherra: „Hins vegar verður Alþingi að vera við því búið að taka á slíkum vandamálum.“ Takið eftir því. Alþingi á að vera við því búið að taka á slíkum vandamálum.

Hæstv. ráðherra taldi sem sagt og telur alls ekki koma til greina að hafa þingkjörna nefnd við hlið framkvæmdarvaldsins eða hluta af framkvæmdarvaldinu til þess að greiða úr slíkum málum en auðvitað og sjálfsagt að Alþingi grípi inn í.

Nú vill svo til að í tillögum hv. 1. þm. Vestf., hæstv. fyrrv. sjútvrh., Matthíasar Bjarnasonar, er um að ræða eina tillögu, eitt framkvæmdaratriði um ákaflega viðkvæmt mál sem á þennan hátt er flutt inn til Alþingis til ákvörðunar. Þar á ég við 7. liðinn í tillögum hv. þm. Matthíasar Bjarnasonar, sem ég hef leyft mér að kalla „Um útburðina.“ Ég ætla, með leyfi hæstv. forseta, að lesa þessa tillögu:

„Á eftir ákvæði til bráðabirgða I komi nýtt ákvæði er orðist svo:

Skip sem koma í stað eftirtalinna skipa, er fórust á árunum 1983–1984, skulu eiga rétt á veiðileyfi sem sé meðaltal aflamarks skipa í sama stærðarflokki.“ Síðan eru skipsnöfnin öll talin upp í röð.

Þegar hæstv. sjútvrh. svaraði eða lét í ljós sitt álit á þessari tillögu í dag, fyrr á þessum fundi sagði hann eitthvað á þá leið að menn skyldu athuga að ef þessi tillaga yrði samþykkt þýddi þetta minnkun í aflakvóta loðnuskipa — mér skildist að þarna væri um að ræða tvö skip, loðnuskip — um 4%, í þorskkvóta um 1%. Auðvitað kom það engum a óvart, ef réttlætinu á að vera fullnægt, að það komi einhvers staðar niður. Spurningin er um það hvort þeir aðilar sem þarna eiga hlut að máli fái sinn hlut við réttan.

Ég varð þess áskynja síðar í dag í samtali við hæstv. sjútvrh. að hann er þeirrar skoðunar að þessir aðilar hefðu getað fengið skip í millitíðinni. Mér var það ekki ljóst fyrir fram. Engu að síður er ég þeirrar skoðunar að þarna sé um að ræða dæmi, þarna sé um að ræða mál sem Alþingi, eins og hæstv, sjútvrh. telur varðandi byggðamálin og byggðavandamálin, eigi að fjalla um og taka ákvörðun um. Þarna er um að ræða eitt ákveðið dæmi sem er hér á borðum okkar núna og hv. 1. þm. Vestf., sem nú gengur í salinn, Matthías Bjarnason, hæstv. fyrrv. sjútvrh., orðaði það eitthvað á þá leið fyrr í umræðum í þinginu að á það reyndi einmitt í þessu efni hve langt ljúfmennska þm. næði til þess að greiða götu manna sem á hefur verið brotinn réttur. Það verður eftir því tekið um allt land hvernig þessi hv. deild og þá ekki síður Ed., ef málið kemur þangað aftur, tekur á þessu máli.

Ég hef lokið máli mínu að sinni, hæstv. forseti.