06.01.1988
Neðri deild: 47. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3706 í B-deild Alþingistíðinda. (2589)

181. mál, stjórn fiskveiða

Frsm. 2. minni hl. sjútvn. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Það eru nokkur atriði sem ég vildi koma að áður en þessari 2. umr. lýkur, atriði sem fram hafa komið í umræðunni eftir að ég mælti fyrir nál. sem einn af minni hl. sjútvn. en meðal þeirra sem talað hafa hér í umræðunni síðan eru hæstv. ráðherra sjávarútvegsmála. Ég vil víkja að fáeinum þáttum sem fram komu í máli hans hér á eftir og ég vænti að ráðherrann sé hér — já, hann er hér í þingsal og hefur ekki þurft að kalla hann sérstaklega til í þessari umræðu sem eðlilegt er.

Það eru líka nokkur atriði sem hafa verið rædd í sambandi við rannsóknir, upplýsingaöflun sem undirstöðu undir stjórn fiskveiða sem ég sé ástæðu til að koma aðeins inn á í mínu máli.

Það sem hefur kannski vakið hvað mesta athygli í umræðunni er málflutningur nokkurra hv. stjórnarstuðningsmanna sem hafa lagt áherslu á breytingar á frv. og hér liggur fyrir brtt. frá nokkrum hv. þm., þar á meðal fjórum þm. úr sjútvn. sem hafði skilað áliti, fjórir sem rita undir meirihlutaálit sjútvn. ásamt nokkrum öðrum þm., á þskj. 488.

Ég tel þessa brtt. vissulega góðra gjalda verða svo langt sem hún nær, en hún nær ansi skammt. Þetta er ekki stór biti sem þeir ætla hæstv. ráðherra hér að kyngja þar sem þessi brtt. er, anda hygg ég að ráðherrann hafi gefið þeim kost á því að þessi tillaga fengi hans stuðning eða ég geri frekar ráð fyrir því fyrst svo margir úr meiri hl. sjútvn. eru stuðningsmenn við þessa brtt. og hafa skrifað upp á hana án þess að ég vilji vera að gera ráðherranum upp skoðanir að því leyti. Þetta er hins vegar svo óverulegt sem hér er á ferðinni þó að það sé aðeins í áttina í sambandi við 10. gr. frv. frá því sem áður hafði verið fallist á af talsmönnum meiri hl. sjútvn. að það ætti ekki að vera erfitt fyrir hæstv. ráðherra og aðra stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar að taka hana með. Vissulega á hún minn stuðning svo lítilfjörleg sem hún þó er.

Ég hef tekið eftir því að sumir hv. stjórnarliðar hafa tekið talsvert upp í sig í umræðunni og lýst yfir stuðningi við nokkrar af brtt. formanns sjútvn., hv. 1. þm. Vestf., þannig að það verður fróðlegt að sjá hver verða afdrif hans brtt. þó að menn hafi eflaust misjafnar skoðanir á þeim eftir efni og þar sem um margar till. er að ræða. Þar reynir eflaust á og hv. þm. Sighvatur Björgvinsson boðaði viðbótarbrtt. að tillögum hv. 1. þm. Vestf. föllnum og þá við 3. umr. málsins. En við höfum ekkert heyrt frekar í þm. eins og hv. 3. þm. Norðurl. e., a.m.k. hef ég ekki orðið var við að hann talaði hér við umræðuna. (Gripið fram í.) En kannski á hann eftir að taka til máls og þá er að sjá hversu þungur hann er á bárunni í sambandi við þær skoðanir sem hann áður hefur lýst. Mér hefur sýnst að þeir þm. Alþfl., t.d., sem hafa lýst andstöðu þurfi ekki mikið til að fá huggun ef þetta nægir þeim sem hér er fram komið í sambandi við 10. gr.

En ekki meira um það, virðulegur forseti. Ég ætla þá að víkja að nokkrum atriðum sem komu fram í ræðu hæstv. ráðherra og snerta þetta mál. Hæstv. ráðherra vék fyrst að undirbúningi málsins sem ekki er óeðlilegt þar sem hann hefur verið gagnrýndur verulega fyrir það hversu seint málið er fram komið. Vegna ákvæðis til bráðabirgða í gildandi lögum þar sem gert var ráð fyrir að þau hlytu endurskoðun að ári liðnu, þ.e. fyrir árslok 1986, las hæstv. ráðherra upp bréf sem hann hafði sent, til forseta sameinaðs þings m.a., og fleiri bréf sem vörðuðu þessa endurskoðun og hafði orð um það eitthvað á þá leið að hann hefði ekki orðið var við að það væru uppi kröfur um það að eftir þessu ákvæði yrði farið í reynd. Það var svona efnislega það sem ég skildi sem ályktunarorð hæstv. ráðherra að þessu leyti. Hæstv. ráðh. sagði m.a., með leyfi forseta: „Ég man ekki til þess að það hafi komið fram hugmyndir hjá þeim aðilum sem sátu þá í sjútvn. Alþingis um að slíkar breytingar yrðu gerðar á lögunum“ og vildi sem sagt skýra þessa niðurstöðu í ljósi þess.

Ég mundi eftir því að í mínum þingflokki var það bréf sem barst forseta sameinaðs þings rætt, og það var á þingflokksfundi Alþb. þann 10. nóv. 1986 samþykkt, eins og það er bókað í gjörðabók þingflokksins á fundi á þeim degi, „að svara bréfi sjútvrh. frá 10. október um endurskoðun fiskveiðistjórnar vegna 1987, mótmæla afstöðu ráðherrans“, þ.e. svona þeirri ætlan að láta við sitja að lögin giltu áfram án frekari endurskoðunar þarna.

Ég hef ekki handa á milli það bréf sem ég geri ráð fyrir að hafi verið sent í framhaldi af þessu og þá til ráðuneytisins en hef ekki haft tíma til að skoða það frekar. Ég nefni þetta vegna þess að það var mér í fersku minni að þingflokkurinn fjallaði um þetta og tók þessa afstöðu á nefndum fundi og að það væri rétt þá þegar að taka málið upp til endurskoðunar eins og gert var ráð fyrir í bráðabirgðaákvæði laganna.

Hæstv. ráðherra ræddi síðan mikið um smábátaveiðar og hélt því fram að smábátaeigendur mættu vel við una það sem inn væri komið hér í 10. gr. samkvæmt tillögum meiri hl. sjútvn. og ég ætla ekki að fara að eiga orðastað sérstaklega við hæstv. ráðherra frekar um það efni. Ég er honum ósammála að því leyti. Við sjáum líka að hæstv. ráðherra má reikna með því að þurfa að bæta þarna við svolitlu samkvæmt þeirri brtt. sem hér liggur fyrir.

Ef við lítum á það sem hefur gerst þó síðan í desember að frv. kom fram hafa auðvitað orðið þarna breytingar á greininni frá því sem ráðherrann lagði fyrir á sínum tíma og allt er það vel svo langt sem það nær. En ég held t.d. varðandi aflamarkið fyrir báta undir 6 tonnum, þetta aflamark hvort sem það eru 50 tonn, 55 eða 60, 55 tonn var það sem meiri hl. sjútvn. lagði til og hér er tillaga um 60, að menn séu með of lága viðmiðun í sambandi við þann flokk báta svo að dæmi sé tekið.

Mér fannst líka rökstuðningur hæstv. ráðherra í sambandi við endurnýjun báta og þá opnun sem er þarna enn fyrir báta undir 6 tonnum, að þar geti fjölgað án nokkurra takmarkana, ekki skýr og tel að það hefði verið eðlilegt að taka á þessu máli í heild sinni nú við afgreiðslu frv. vegna þess að það er alveg ljóst að þar eiga menn vafalaust eftir að lenda í vissum erfiðleikum ef á annað borð er talin ástæða til takmörkunar á heildarafla og sýna viðnám að því leyti.

Hæstv. ráðherra vék síðan að einstökum brtt., m.a. frá hv. þm. Matthíasi Bjarnasyni, og ég nefni sérstaklega brtt. sem varðar einstök byggðarlög sem missa skip og hráefni en slík dæmi þekkjum við nú þegar og slík dæmi koma upp. Mér finnst það skjóta skökku við hjá hæstv. ráðherra sem hefur margar heimildir samkvæmt lögum þessum að vilja ekki taka heimild af þessu tagi inn í lögin. Auðvitað væri eðlilegast að ráðherrann hefði tekið undir tillögur okkar alþýðubandalagsmanna um byggðakvóta til þess að koma í veg fyrir að skipin tapist, að skipin fari úr byggðarlögunum án þess að vörnum verði við komið. En það er ekki gert og þá vísar hæstv. ráðherra einfaldlega á það að þegar illa er komið á Alþingi að taka málið upp, þá á Alþingi að taka á þeim vanda ef hann kemur upp varðandi einstök byggðarlög. Með fullri virðingu fyrir Alþingi held ég að við höfum nokkra reynslu af því að það getur verið erfitt að skapa um það samstöðu að fara að grípa inn í með lögum varðandi einstök vandamál hér og þar á landinu. Ég er ansi hræddur um að það sé ekki á vísan að róa og það væri sæmra fyrir framkvæmdarvaldið að hafa heimild til þess að taka á slíkum vandamálum sem það hefur á sinn hátt átt þátt í að skapa og geta alltaf komið upp.

Ég hef áður lýst stuðningi við þessa brtt. og geri það hér og tel ekki að ráðherrann hæstv. hafi komið með frambærileg rök gegn þessari brtt. sem getur skipt miklu ef vandamál koma upp sem alltaf má búast við með því kerfi sem er meiningin að lögfesta.

Þetta eru svona nokkur atriði sem ég vildi víkja að varðandi ræðu hæstv. ráðherra en ætla að láta þar við sitja og víkja þá aðeins að máli annarra hv. þm. sem hafa talað.

Hér talaði hæstv. utanrrh. Hann kom hér inn í umræðuna og það var greinilegt að hæstv. ráðherra sárnaði að fá til umræðu þau ummæli sem vitnað var til í dagblaðinu Tímanum frá 30. desember, og það skil ég vel. Hann gat þess í sínu máli að það hafi aldrei gengið eins stirt og nú að ná samkomulagi við stjórnarandstöðu um afgreiðslu þingmála. Ég held að hæstv. ráðherra ætti að hafa sem fæst orð um þetta og ríkisstjórnin yfirleitt því að hér hefur í rauninni ekkert verið til boða í sambandi við samkomulag. Það var fyrst í sambandi við umræðu um söluskattinn rétt fyrir nýárið að tilboð kom. Það er í rauninni eina tilboðið sem stjórnarandstaðan hefur fengið frá forustu þingsins og ráðandi meiri hluta hér og að því tilboði var gengið. Við tókum þátt í samkomulagi um það efni, en það er líka eina tilboðið sem við höfum raunverulega fengið í sambandi við þau stóru mál og meðferð mála hér í þinginu að undanförnu. Það er ansi hart að fá árásir frá hæstv. ráðherrum um það að stjórnarandstaðan hafi ekki brugðist við með eðlilegum hætti. Fyrst er þó að hafa af einhverju að taka að þessu leyti. Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að gera málflutning hæstv. utanrrh. að umtalsefni þó að hann kysi að tala um tillögur Alþb. varðandi byggðakvóta sem afskræmi án þess að hafa fyrir því að rökstyðja frekar þá einkunn sem hann gaf okkar tillögum um byggðakvóta, fulltrúi flokks sem fer með sjávarútvegsmálin og ætlar að skilja við þetta mál í því horfi að það eru engar skorður reistar við sölu skipa frá byggðarlögum og kýs að kasta einkunnum af þessu tagi til þeirra sem eru að gera tillögur um það að koma þar vörnum við.

Ég vil aðeins, vegna þess að hér hefur verið mikið rætt um smábáta, vekja athygli á því að það eru vissulega fleiri flokkar skipa sem hafa ekki fengið þá skoðun og athygli sem vert væri. Ég tek það fram að þó að ég hafi rætt nokkuð um smábátana og hafi þar eindregnar skoðanir tel ég ekki að það sé það sem öllu máli skiptir í sambandi við frv. Það er auðvitað heildarmyndin sem skiptir máli, staða togara og staða annarra skipaflokka. Ég vil nefna, vegna þess að ég gerði það ekki fyrr í ræðu minni, það féll þar niður, skipaflokk sem hefur farið mjög illa út úr því stjórnkerfi sem hefur verið í gildi síðan 1983 og það eru stóru loðnuveiðiskipin. Það eru stóru loðnuveiðiskipin sem virðast ekki vera sérstaklega á hægra brjóstinu hjá Landssambandi ísl. útvegsmanna sem hefur þó látið sig þessi mál miklu skipta. Þannig háttar til í sambandi við þau skip að þau hafa tapað réttindum til þorskveiði stig af stigi og hafa nú sáralítinn rétt þar að lútandi og skiptingin á loðnukvóta milli skipa eftir stærð er aðeins að einum þriðja miðuð við stærð en tveimur þriðju er jafnað út óháð stærð, þannig að ég hygg að menn séu vel á veg komnir ef ekki þegar búnir að kippa rekstrargrundvelli undan þessum flokki veiðiskipa. Ég nefni það hér og gerði það ítrekað raunar í þingnefnd ásamt umræðum um fleiri þætti sem ástæða hefði verið til að fara betur yfir og taka til frekari skoðunar.

Hér talaði hv. 5. þm. Vesturl. Sighvatur Björgvinsson og það var sitthvað athyglisvert í hans máli. Hann gerði að sérstöku umtalsefni þátt sem ég vil koma nokkuð að í mínu máli, þ.e. stöðu hafrannsókna og þann grunn sem verið er að byggja á í sambandi við fiskveiðistjórnun út frá áætlaðri stöðu fiskstofnanna. Ég vil fyrst af öllu segja að hv. 5. þm. Vestf. hefði betur staðið með öðrum hætti að tillögum um fjárveitingar í sambandi við Hafrannsóknastofnun og hafrannsóknir almennt og fiskileit sem formaður í fjvn. Hann ásamt öðrum átti hlut að því að fella tillögur stjórnarandstöðunnar, þar á meðal Alþb., um auknar fjárveitingar til hafrannsókna, því miður. Það hygg ég að annar þm. sem talaði hér við umræðuna hafi einnig gert, hv. 1. þm. Vesturl. Alexander Stefánsson sem taldi sig bera þennan þátt sérstaklega fyrir brjósti, en ég er ansi hræddur um að hann hafi verið í hópi þeirra sem felldu tillögur stjórnarandstöðunnar um auknar fjárveitingar til hafrannsókna.

Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson gerði að umtalsefni ályktanir og tillögur Hafrannsóknastofnunar varðandi hámarksafla og taldi að þörf væri á því að fara ofan í upplýsingar og tillögur stofnunarinnar, m.a. á vegum sjútvn. þingsins. Mér þætti gott, virðulegur forseti, ef hæstv. samráðherrar hæstv. sjútvrh. væru ekki að trufla hann, tala í bæði eyrun á honum í senn. Það er ekki vænlegt ef hæstv. ráðherra á að halda athygli sem hann hefur áreiðanlega reynt. (Gripið fram í.) Já, þá eru þeir hættir að trufla. Ekki held ég að það séu afruglarar sem þar eru á ferð, þannig að ég treysti því a.m.k. ekki að það séu nein hollráð sem koma þarna til hæstv. ráðherra úr þessum áttum. (Gripið fram í: Ætli það sé ekki nóg að hafa eitthvað í stólnum?) Ekki skildi ég, virðulegur forseti, þetta frammíkall.

En í sambandi við mál hv. 5. þm. Vestf. tek ég það fram að ég tel það meira en ómaksins vert að farið sé yfir hér á Alþingi og af sjútvn. þingsins tillögur Hafrannsóknastofnunar og þann grundvöll sem hún hefur byggt á og byggir sínar tillögur á, reynslan metin og horft á það mál fullkomlega opnum augum, málið skoðað opnum huga. Það ætti að vera eitt af verkefnum þingsins og sjávarútvegsnefnda þess og það eru fleiri sem hafa komið að þessu máli en hv. 5. þm. Vestf. Í rauninni gerðist það hér við 1. umr. málsins að bæði ræddi hv. 5. þm. Reykn. Geir Gunnarsson hér um stöðu fiskstofnanna og hv. 12. þm. Reykv. Kristín Einarsdóttir ræddi það einnig og vék þá sérstaklega að fjölriti Hafrannsóknastofnunar nr. 11 sem ekki hafði komið fyrir augu þingmanna og hafði farist fyrir vegna einhverra mistaka hjá Hafrannsóknastofnun að koma á framfæri við þingið. Þessi skýrsla mun hafa verið tekin saman sl. vor, þetta fjölrit nr. 11, einmitt til þess að undirbúa af hálfu Hafrannsóknastofnunar tillögur vegna veiði á komandi ári, tillögur þar að lútandi. Þessi skýrsla fjallar um nytjastofna sjávar og umhverfisþætti og aflahorfur 1988. Hún var kynnt á miðju sumri fyrir fjölmiðlum sem eitthvað gátu um efni hennar í byrjun júlí en hún kom ekki inn á Alþingi, hvorki til sjútvn. né almennt til alþm., fyrr en eftir að hv. 12. þm. Reykv. hafði vakið athygli á henni og lagt fram ákveðnar spurningar um einstaka þætti hennar og geta menn séð það í hennar ræðu. Það var í framhaldi af því að Hafrannsóknastofnun kom góðu upplagi hér til þingsins og við fengum þetta til athugunar í sjútvn.

Ég hef ekki haft aðstöðu og tíma til þess að skoða þetta mál til að leggja neitt endanlegt mat á efni þessa, en ég tel það vera meira en ómaksins vert að litið verði á það og fleira aftur í tímann til þess að við hér á hv. Alþingi eigum betra með að bregðast við tillögum frá Hafrannsóknastofnun og átta okkur sérstaklega á því hvar skortir á rannsóknir, hvar þarf að fylla í eyður til þess að bæta úr skorti á þekkingu og þá einnig að því er varðar fjárhagshlið þeirra mála og stöðu stofnunarinnar.

Hér var af hv. 5. þm. Vestf. vikið að veiði á smáfiski og hann var að velta því fyrir sér eins og fleiri hvort hin mikla veiði á þriggja ára fiski, og þá er það þorskstofninn sem um er að ræða, beri ekki vott um það að það sé meira af smáfiski að tiltölu en áður hafi verið og við gætum litið björtum augum til framtíðar. Ég fékk því komið til leiðar að forstjóri Hafrannsóknastofnunar kom á fund sjútvn., ég held 29. des. sl. Þar var þetta efni rætt sérstaklega sem hv. 5. þm. Vestf. kom að í sínu máli og tilefnið var ræða hv. 12. þm. Reykv. daginn áður við umræðuna. Forstjóri Hafrannsóknastofnunar vildi ekki draga neinar ályktanir í þá átt sem kom hér fram hjá hv. 5. þm. Vestf. en ég er ekki þar með að segja að það geti ekki verið ástæða til að fara yfir málin, bæði með honum og öðrum aðilum og hef þegar undir það tekið.

Það sem kom fram hjá Jakob Jakobssyni, forstjóra Hafrannsóknastofnunar, um þetta efni var m.a. að menn mættu ekki draga víðtækar ályktanir af fjölda fiska í veiði, fjölda fiska af tilteknum árgangi, vegna þess að hann segði lítið sem ekkert um hlutfallið í afla. Það væri spurningin um það hversu hátt hlutfall veiðist af hverjum árgangi hverju sinni en ekki aflann sem slíkan. Þetta er mál sem sjálfsagt er fyrir menn að skoða.

Hann benti á það varðandi árganginn 1980 sem hefur verið með býsna mikinn fjölda nýliða í veiðinni á undanförnum árum að milli áranna 1986 og 1987 hafi fiskum í veiði úr þessum árgangi fækkað sem svarar um helming og vísaði til töflu sem er á bls. 9 í umræddu fjölriti því til staðfestingar, en þar má sjá að fjöldi þorska úr þessum árgangi í veiði 1987 sé sem þessu nemur. Á þessu vildi ég vekja athygli.

Þá minni ég á það, vegna þeirra umræðna sem fram hafa farið um spár Hafrannsóknastofnunar, að það hefur ræst betur úr því sem þeir hafa reitt fram til skýringar á því að þær hafi ekki staðist en þeirra spár gerðu ráð fyrir, t.d. varðandi árganginn frá 1973, vegna þess, og ég er ekki að leggja endanlegt mat á það, að það komu hér inn að þeirra mati, samkvæmt þeirra staðhæfingum, verulegar göngur frá Grænlandi sem þeir vissu að voru þar að alast upp og breyttu stöðunni að mati Hafrannsóknastofnunar, og ég hygg að það sé nú mikið til í því, á árunum 1980 og 1981. Hafrannsóknastofnun og forstjóri hennar segir að við getum reiknað með hugsanlega að þetta endurtaki sig varðandi árganginn frá 1984 vegna þess að talsvert af seiðum úr þeim árgangi sé að alast upp við Grænland og það geti hugsanlega skilað sér inn í veiði hér 1991.

Stefna Kanadamanna í sambandi við þorskstofninn hefur verið rædd nokkuð hér og hv. 5. þm. Vestf. nefndi það í sínu máli fyrr við umræðuna og fleiri hafa komið að því. Ég vil að það komi fram að samkvæmt fullyrðingum forstjóra Hafrannsóknastofnunar á fundi sjútvn. hafi stofnunin ekki fylgt þeirri stefnu í sambandi við tillögur sínar um hámarksafla úr þorskstofninum sem Kanadamenn hafa fylgt, heldur í rauninni verið miklu frjálslyndari að þeirra mati að þessu leyti. Það kom fram hjá Jakob Jakobssyni að ef þeir hefðu miðað við sömu forsendur og Kanadamenn hafa gert hefðu þeir ekki lagt til 300 þús. tonna ársafla á komandi ári af þorski heldur 180 þús. tonn sem hámark og þá hygg ég að hefði farið að síga brúnin á sumum hér ef við hefðum staðið frammi fyrir tillögum að því leyti. Ég vil að þetta komi hér fram án þess að ég sé þar með að leggja nokkurn dóm á þetta mál vegna þess að það þarf auðvitað að skoðast frá ýmsum hliðum áður en menn taka afstöðu til slíkra þátta. Skýringin sem við fáum á samdrættinum í þorskafla miðað við fyrri spár hjá Kanadamönnum er ekki síst sú að þar hafi umhverfisskilyrði versnað frá því að spárnar voru gerðar og árgangarnir skilað minni afla en ráð var fyrir gert vegna versnandi umhverfisskilyrða, m.a. við Nýfundnaland.

Þetta leiðir auðvitað hugann að því sem við höfum heyrt um nú og orðið aðeins vör við á eigin skinni undanfarna daga að það er mjög kalt fyrir norðan landið. Það ríkir fimbulkuldi á hafsvæðum norður af landinu og við höfum aðeins fengið forsmekkinn af honum. Hugsanlegt er að hann leiði til kólnandi sjávar á íslenskum hafsvæðum og auðvitað gæti það haft slæmar afleiðingar fyrir vöxt fiskstofnanna sem við byggjum á og komið fram að einhverjum tíma liðnum, að einu eða tveimur árum liðnum. Um það verður auðvitað ekkert spáð á þessari stundu en við skulum muna það að við höfum búið við hagstæð umhverfisskilyrði, við tiltölulegan hlýjan sjó nú að undanförnu sem hefur áreiðanlega skilað sér í betri stöðu varðandi okkar nytjastofna, að einhverju leyti a.m.k., en ella hefði orðið. Þetta vil ég nefna hér.

Áhugi hjá einstökum alþm. er sannarlega góðra gjalda verður, og hann þyrfti að vera hjá sem flestum, á hinni fræðilegu undirstöðu undir tillögur frá okkar ráðgjafarstofnun í þessum málum, Hafrannsóknastofnun, og ég vil gjarnan taka þátt í skoðun þessara mála innan sjútvn. þessarar deildar í vetur því að ég held að við gerum margt óþarfara, það sé fátt þarfara sem við gætum gert til þess að búa okkur undir framtíðina en að fara yfir þessi efni og draga af því okkar ályktanir að skoðun lokinni.

Þessi mál hafa verið rædd áður. Ég minni m.a. á umræður sem fóru hér fram fyrir nokkrum árum og mikil blaðaskrif voru um í sambandi við smáfiskadráp. Það var á fyrri hluta árs 1984 í framhaldi af fundi sem haldinn var í Norræna húsinu og veruleg blaðaskrif urðu í framhaldi af því. Menn gætu kannski aðeins haft það í huga við skoðun mála á vegum sjútvn. ef af því verður.

Virðulegur forseti. Ég ætla að stytta mál mitt. Ég hef fengið, eftir að ég tók til máls, í hendur bréf það sem ég gerði ráð fyrir að skrifað hefði verið af hálfu þingflokks Alþb. vegna endurskoðunar á fiskveiðistefnunni og lögunum um stjórnun fiskveiða. Það er sent til sjútvrh. 24. nóv. 1986 frá forseta sameinaðs þings, mun vera eina bréfið sem sent er í ljósriti áfram til sjútvrh., og ég held að það sé rétt vegna ummæla minna að það komi fram hér í þinginu hvað það innihélt. Það var stílað til forseta Sþ. og er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Þingflokknum hefur borist ljósrit af bréfi sjútvrh. til yðar 10. okt. 1986. Þar segir að sjútvrn. hafi ritað bréf til hagsmunaaðila í sjávarútvegi og til sjútvn. Alþingis dags. 15. júlí sl. Þar hafi verið óskað eftir athugasemdum aðilanna varðandi fiskveiðistefnuna og framkvæmd hennar. Á þeim grundvelli hafi verið haldnir fundir í sjútvrn. 13. og 17. ágúst.“ Þá segir í bréfinu: „Það er niðurstaða sjútvrn. á grundvelli þeirra umræðna er þar urðu og umfjöllunar um málið í ráðuneytinu sjálfu að á þessu hausti sé ekki ástæða til að breyta ákvæðum laga um stjórn fiskveiða á næsta ári.“

Loks segir í bréfi ráðuneytisins: „Telur sjútvrn. að þar með sé lokið þeirri endurskoðun á ákvæðum laga nr. 97/1985, um stjórn fiskveiða, sem ráðuneytinu var falin.

Þingflokkur Alþb. fékk bréf sjútvrh. í ljósriti en hefur engu að síður ákveðið að bregðast við sérstaklega með því að senda forseta Sþ. þessar athugasemdir:

1. Samráð við sjávarútvegsnefndir hefur verið lítið.

2. Þingflokkur Alþb. telur eðlilegt að taka reynsluna af fiskveiðistjórninni til umræðu á sameinuðu Alþingi.

3. Ekki er unnt að líta svo á að það hafi verið „niðurstaða“ af samráði við sjútvn. þingsins sem leiddi til þess að ráðuneytið ákvað að leggja málið ekki fyrir Alþingi á nýjan leik í haust. Þingflokkurinn vitnar í þessu sambandi til ummæla Garðars Sigurðssonar fulltrúa Alþb. í sjútvn. Nd. er hann talaði við 2. umr. málsins og sagði þá m.a. (Alþingistíðindi, umræður, 9. hefti 1985, dálkur 1475):

„En ég vil segja það að í þessu ákvæði er talað um að hafa skuli samráð við sjávarútvegsnefndir við breytingar á þessu máli. Og ég legg áherslu á það að þetta verði ekki nafnið tómt, heldur verði þessu samráði sinnt.“

Með skírskotun til þessa leyfir þingflokkurinn sér að fara þess á leit við yður sem forseta sameinaðs Alþingis að þér greinið frá því

a. hvort þér teljið að málið eigi ekki að koma fyrir þingið á þessu hausti,

b. hvort þér eruð sammála sjútvrh. eða

c. hvort þér munuð beita yður fyrir því að málið komi til meðferðar Alþingis aftur.

Augljóst er að orð forseta sameinaðs Alþingis hljóta að vega þungt í þessu máli og tilvitnun í ræðu Garðars Sigurðssonar sýnir að þm. treystu því að samráð yrði meira en nafnið tómt. Væntir þingflokkurinn þess að fá bréflegt svar yðar sem allra fyrst.“

Undir bréfið rita Svavar Gestsson og Steingrímur J. Sigfússon f.h. Alþb.

Þetta vildi ég að kæmi hér fram sem álit þingflokks Alþb. vegna þessa ákvæðis til bráðabirgða í gildandi lögum sem hæstv. sjútvrh. fjallaði um í sínu máli í morgun við þessa umræðu.

Herra forseti. Ég hygg að það dragi að lokum þessarar 2. umr. um þetta mál. Við gerum okkur vissulega ljóst að það er nauðsynlegt fyrir þingið að skera úr í sambandi við fyrirliggjandi tillögur. Það er eftir því beðið og ég ætla ekki að lengja þetta öllu meir.

Ég vil aðeins áður en ég lýk máli mínu vekja athygli á því hversu stórt þetta mál er í samhengi byggðamálanna á Íslandi, en þar stöndum við frammi fyrir heldur dökkri mynd svo vægt sé til orða tekið. Ég fékk í morgun frá Hagstofu Íslands niðurstöðu varðandi þróun íbúatölu og fólksflutninga í landinu og stöðu í einstökum byggðarlögum, í einstökum sveitarfélögum. Menn heyrðu ágrip af því í fréttum í gærkvöldi varðandi þróun milli áranna 1986 og 1987. Þar blasir við okkur heldur nöturleg mynd sem þannig er orðuð í fréttatilkynningu Hagstofu Íslands frá í gær. Með leyfi forseta segir þar:

„Á þessum áratug hefur það einkennt fólksfjölgunina að hún hefur mestöll orðið á höfuðborgarsvæðinu. Á hverju ári 1984–1986 fjölgaði fólki meira þar en nam heildarfjölgun landsmanna svo að bein fækkun varð í öðrum landshlutum samanlögðum. Fækkaði í þeim um 20 árið 1984, um 142 árið 1985 og um 343 árið 1986. Árið 1987 hefur fólki fjölgað um 3161 á höfuðborgarsvæðinu en um 165 á öðrum landsvæðum, en á Suðurnesjum fjölgaði um 270 og hefur því fólki utan þessara tveggja landsvæða fækkað um 105.“

Þetta eru niðurstöðurnar varðandi búsetu fólks í landinu í tíð núv. og fyrrv. ríkisstjórnar. Ég er ekki þar með að skrifa þessa flutninga alfarið á þá aðila sem með völd hafa farið, en ég efast ekkert um það og það höfum við oft rætt hér að efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar og stefna hennar í atvinnumalum hefur vissulega vegið býsna þungt í þessu samhengi og hert á þessum straumi til Suðvesturlands til muna frá því sem orðið hefði ef fylgt væri skilmerkilegri byggðastefnu.

Vafalaust er það hugur þeirra sem eru hér að gera tillögur af hálfu framkvæmdarvaldsins varðandi fiskveiðistjórnun að það verði til að styðja við landsbyggðina, en ég tel að því miður hafi ekki tekist þar sem skyldi. Það blasir við okkur að öflugir útgerðarstaðir víða úti um landið eru að tapa fólki. Þar er íbúatalan lækkandi á sama tíma og á höfuðborgarsvæðinu hefur orðið aukning um 1900 manns, þ.e. hér í höfuðborginni á síðasta ári. Heildarfjölgun á höfuðborgarsvæðinu á 10 ára tímabili hefur orðið um 20 þús. manns. Samsvarandi tölur eru í mínus víða úti um landið. Í einstökum kjördæmum utan höfuðborgarsvæðisins fækkar á síðasta ári, um 0,2% á Vesturlandi, 0,4% á Vestfjörðum, 0,6% á Norðurl. v., um 0,3% á Austurlandi, í fyrsta sinn um langt árabil töluleg fækkun íbúa þar, og um 0,5% á Suðurlandi. Það er aðeins á Norðurlandi eystra sem haldið er í horfinu og nær þó ekki því að halda í við heildarmeðalfjölgun á milli ára.

Það vekur athygli að staðir sem hafa verið vaxandi úti um landið á undanförnum árum eru nú í mínus, t.d. annað árið í röð varðandi Höfn í Hornafirði þar sem íbúum fækkar og verulega í þeirri sýslu og er Höfn þó einn öflugasti útgerðarstaður á landinu. Sama gildir um Vestmannaeyjar, fækkun íbúa um nær 2%, mínus 1,9%, milli ára.

Ég nefni þetta hér í þessu samhengi því að þetta eru upplýsingar sem við alþm. hljótum að gefa gaum þegar við erum að fjalla um svo þýðingarmikinn þátt byggðamála sem stjórnun fiskveiðanna er. Ég harma það að ekki hefur tekist betri samstaða um viðbrögð gegn þeirri öfugþróun í sambandi við þetta mál og minni þar á tillögur okkar alþýðubandalagsmanna og fleiri sem ekki hefur verið tekið undir af meiri hl. í sjútvn., hvorki í hv. Ed. né hér í hv. Nd. til þessa.

Vonandi tekst betur til þegar þingið hefur færi á að fjalla um þetta mál næst og við eigum reyndar eftir að sjá hver verður niðurstaða úr atkvæðagreiðslu um einstakar tillögur sem liggja fyrir við þessa umræðu.