22.10.1987
Sameinað þing: 7. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 318 í B-deild Alþingistíðinda. (259)

Sala Útvegsbankans

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. lýsti því yfir þegar Samband ísl. samvinnufélaga setti fram tilboð sitt að þar væri á ferðinni tilboð sem ekki væri hægt að hafna.

Ég vil spyrja hæstv. fjmrh.: Er hann enn sömu skoðunar eða hefur hann breytt um skoðun og þá hvers vegna?

Það er óhjákvæmilegt að hæstv. fjmrh. geri Alþingi í örstuttu svari, já eða nei, grein fyrir þeirri afstöðu sinni.

Í öðru lagi spyr ég hæstv. viðskrh. hvort rétt sé að Samband ísl. samvinnufélaga geri kröfu til þess að það fái að kaupa bankann vegna þess að það telji sig í reynd, samkvæmt útboðsskilmálum, hafa eignast bankann nú þegar. Hefur það sjónarmið komið fram á fundum með hæstv. ráðherra eða ekki?

Í þriðja lagi, hæstv. viðskrh.: Hefur það sjónarmið komið fram að forráðamenn Sambands ísl. samvinnufélaga séu tilbúnir til þess að höfða mál gegn ráðuneytinu ef þeir fá ekki bankann í sínar hendur vegna þess að þeir telji samkvæmt greinargerðum virtra lögfræðinga að það yrði lögbrot ef þeir fengju ekki bankann í sínar hendur?

Ég tel óhjákvæmilegt að þessir tveir hæstv. ráðherrar svari þessum spurningum skýrt og skorinort í þessari umræðu.

Hvað varðar afstöðu Sjálfstfl. er það alveg ljóst að hæstv. forsrh. og aðrir forustumenn Sjálfstfl. hafa með meðferð sinni á þessu máli afhjúpað hið raunverulega innihald hinnar svokölluðu markaðshyggju, þ.e. hún snýst ekki um það að selja hlutina, hún snýst fyrst og fremst um það hver kaupir (Gripið fram í.) og hverjir fá að kaupa, það er alveg rétt og þar með hefur auðvitað þessi grundvallarstefna Sjálfstfl. fengið hinn gamla búning að vald fáeinna aðila í þjóðfélaginu er fyrst og fremst það sem Sjálfstfl. er að hugsa um.