07.01.1988
Neðri deild: 48. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3726 í B-deild Alþingistíðinda. (2596)

63. mál, lánsfjárlög 1988

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Niðurlagsorð hæstv. ráðherra komu mér nokkuð á óvart. Ég hlýt að undrast þau og spyrja hvort þetta atriði hafi verið að renna upp fyrir hæstv. ráðherra nú nýlega. Ég minnist þess ekki að hafa heyrt þessa getið fyrr og finnst þetta nokkuð einkennilegt að það komi upp akkúrat núna og eigi að verða til þess að þrýsta okkur til enn hraðari vinnubragða en við áttum von á í hv. fjh.- og viðskn. og svo innan deildarinnar. Ég veit ekki til þess að fyrir helgina séu fleiri þingfundir áformaðir en í dag svo ég sé ekki hvernig þetta má verða og er mjög einkennilegt að fá þetta upplýst allt í einu núna við upphaf 1. umr. um lánsfjárlög hér í Nd. Þetta hlýtur að krefjast nokkurra skýringa og athugana af hálfu stjórnar þingsins.

En varðandi þetta mál sem við erum að ræða nú, hversu líklegt sé að þetta dæmi standist, þá eru menn sjálfsagt misjafnlega trúaðir á það en vissulega eru stoðirnar heldur ótraustlegar. Mikil óvissa ríkir í efnahagsmálum almennt og heldur ólíklegt að allt gangi eftir sem hér er áætlað.

Herra forseti. Ég tók eftir því að hæstv. utanrrh. var viðstaddur í upphafi fundar og hefði óskað eftir því að hann gæti komið því við að vera viðstaddur umræðuna. (Forseti: Meðan verið er að kalla í utanrrh. hér til fundarins vil ég skýra frá því að áætlað var í dag að hafa umræðu um lánsfjárlög frá kl. 10 til hádegis. Það var af sérstökum ástæðum sem það var ákveðið, og voru þær ástæður tilkynntar talsmönnum þingflokka, að atkvæðagreiðslu væri ekki hægt að koma við samkvæmt beiðni nokkurra þm. sem voru fjarverandi á þessum tíma. Nú hefur þetta breyst þannig að það mun verða hægt að hafa atkvæðagreiðslu í fyrsta dagskrármálinu eftir hálftíma eða svo. Það er verið að tilkynna þetta og hringja út til þm. þessa breyttu skipan og atkvæðagreiðsla fer fram þegar tryggt er að náð hefur verið til allra og allir eru komnir hér í þingsal. Ég vildi tilkynna þetta áður en lengra er haldið, en það eru líkur til þess að það geti orðið í kringum kl. 11 sem atkvæðagreiðslan færi fram.)

Já, það er út af fyrir sig athyglisvert að það skuli þurfa að hringja það út þegar allir þm. Nd. áttu að vita að það væri fundur hér kl. 10 og ættu að sjálfsögðu að vera hér viðstaddir. En það er nú orðið eins og sjálfsagður hlutur að sérstaklega þurfi að ganga eftir því að menn séu hér viðstaddir fundi. En er hæstv. utanrrh. e.t.v. ekki lengur hér í húsinu? (Forseti: Hæstv. utanrrh. er hér í húsinu og er nú að ganga í salinn. En í sambandi við hringingar vil ég geta þess að það hefur ávallt verið svo að hv. þm. hafa verið aðvaraðir um atkvæðagreiðslur sérstaklega, svo lengi sem ég man.) Já. Ég held þá áfram máli mínu, herra forseti.

Það sem fyrst vekur athygli við yfirlestur þessa frv. er hversu gríðarlega mikil lánsfjáröflun er áætluð innan lands og hefur þó hlutur erlendrar lántöku vaxið verulega í meðförum Ed. þvert ofan í yfirlýstan vilja ríkisstjórnarinnar. Lánsfjáröflun hér innan lands er vissulega flestum þóknanlegri heldur en miklar erlendar lántökur, en innlendar lántökur ríkissjóðs hafa einnig sína skuggahlið sem er sú að þær hljóta að leiða af sér mikla baráttu og samkeppni um lánsfé hér innan lands og það verður tæpast til að lækka vextina sem eru að sliga skulduga einstaklinga og fyrirtæki.

Það er nú svo að stjórnvöld hafa á undanförnum árum óneitanlega dekrað nokkuð við verðbréfamarkaði og fjármögnunarleigur og önnur fyrirbæri sem hafa frelsi en bera ekki ábyrgð og skyldur á sama hátt og aðrar fjármögnunarstofnanir. Það má segja að þessar stofnanir hafi nokkuð stjórnlaust orðið stærri og stærri þáttur á íslenskum peningamarkaði. Við þetta þarf nú soltinn ríkissjóður að keppa og stendur þar nokkuð höllum fæti. Þetta verkar sem mikill þrýstingur á það að hækka vextina og þar með rekstrarkostnað fyrirtækja og hefur þannig bein áhrif á verðmyndun og vöruverð í landinu og óbein áhrif með samdrætti og minnkuðum framkvæmdum heimila og fyrirtækja.

Það væri vissulega fróðlegt að heyra álit hæstv. utanrrh. á þessu, hvort hann telur þetta, þ.e. ásókn ríkissjóðs í lánsfé, eiga umtalsverða sök á því raunvaxtaokri sem er að drepa hér annað hvert fyrirtæki, svo notuð séu hans óbreytt orð í viðtali við Tímann 19. des. sl. Hann var talsvert stóryrtur í því viðtali, skellti reyndar allri skuld á frjálshyggjuna og taldi að hún færi með efnahagsmálin til andskotans ef ekki yrði fljótlega gripið í taumana. Hins vegar kunni hann engin ráð í glímunni við þessa ótukt en ákallaði þá sem með peningamálin fara að gera strax tillögur til ríkisstjórnarinnar um aðgerðir. Þessi ummæli hæstv. utanrrh. og formanns Framsfl. vöktu mikla athygli. Ég tel þess vegna ástæðu, herra forseti, til að óska eftir skýringum hans á þeim og ekki síður að óska eftir upplýsingum frá honum eða hæstv. fjmrh. um aðgerðir eða tillögur til aðgerða sem kunna að hafa komið fram á síðustu dögum í samræmi við þessar yfirlýsingar hæstv. utanrrh.

Það er vitaskuld hárrétt hjá ráðherranum að vextir eru allt of háir. Við fáum næstum daglega fréttir af fyrirtækjum sem standa höllum fæti og mjög tæpt eða hafa þegar farið á hausinn þar eð fjármagnskostnaður hefur reynst þeim ofviða. Ég tel það eðlilegt að ræða þessi mál í tengslum við frv. til lánsfjárlaga og um leið ræðum við það auðvitað hversu skynsamleg þau eru í heild sinni, hvort boginn er hér ekki spenntur of hátt með tilliti til allra aðstæðna.

Mér virðist margt í þessu frv. orka tvímælis og það er nokkuð ljóst að hér er verið að hleypa af stað framkvæmdum án mikillar fyrirhyggju — og svo eru það auðvitað gömlu syndirnar. Þær eru reyndar ekki svo ýkja gamlar, það er svo ákaflega stutt síðan við stóðum hérna og þráttuðum um flugstöðina á Keflavíkurflugvelli sem okkur þótti mörgum of stór biti að kyngja, svo bara sé nú rætt um peningahliðina. Þá vorum við að sjálfsögðu að ræða um þá kostnaðaráætlun sem nú er orðin algjört viðundur í sögunni en fyrir æxlið á viðundrinu þurfum við nú að greiða 820 millj. kr. af því fé sem samkvæmt lánsfjáráætlun verður til ráðstöfunar á þessu ári. Ég ætla nú ekki að ergja sjálfa mig og aðra hv. þm. með því að telja upp allt það sem við hefðum frekar viljað gera, mörg okkar a.m.k., við þessa upphæð, en get þó ekki stillt mig um að minna á að ef ég man það rétt þá er þetta ekki langt frá þeirri upphæð sem ríkinu ber að greiða í framkvæmdir sem þegar eru orðnar í byggingu grunnskóla.

Landsvirkjun er hér greinilega að sækja í sig veðrið eftir að hafa sætt nokkru aðhaldi á undanförnum árum. Landsvirkjun er stöndugt og myndarlega rekið fyrirtæki og leggur fram nær 300 millj. kr. úr eigin vasa. Mestur hluti þess fjár fer að vísu í greiðslu vaxtakostnaðar á þessu ári en að viðbættu því lánsfé sem Landsvirkjun verður heimilað að taka samkvæmt þessu frv., þá verða nú 640 millj. kr. til beinna framkvæmda á þess vegum. E.t.v. fást nánari skýringar á þeim ráðstöfunum við umfjöllun í nefnd heldur en við fáum við lestur í grg. frv., en í athugasemdum við 3. gr. frv. stendur m.a.: „Þá er ráðgert að um 50 millj. kr. fari í að reisa nýja aðveitustöð í Kapelluhrauni sunnan Hafnarfjarðar fyrir notendur á Suður-Faxaflóasvæðinu og mögulega nýja stóriðju.“ Það eru þessi síðustu orð: „og mögulega nýja stóriðju“ sem sérstaka athygli vekja og sú spurning vaknar: Hvaða ráðslag er hér á ferðinni? Er hér verið að efna til einhvers aukakostnaðar vegna mögulegrar nýrrar stóriðju svona til vonar og vara? Það væri sannarlega eftir þeim virkjanafurstum sem láta hafa eftir sér að skynsamlegt gæti verið að eiga ögn af hálfkláruðum virkjunum svona til vonar og vara, eiga þær á lager ef ske kynni að allt í einu rofaði til í stóriðjumálunum og eitthvað vænlegar horfði með orkusölu. Eiga sem sagt dálítið af slíku til vonar og vara. Ja, það er sannarlega ástæða til að hafa strítt taumhaldið á Landsvirkjun. Þeir sem þar hafa mest að segja hafa oft skrýtnar hugmyndir um ráðstöfun fjár.

4. gr. frv. lýtur að lántökum Þróunarfélagsins en litlar upplýsingar er að hafa í grg. um ráðstöfun þess fjár. Um það fást væntanlega upplýsingar í nefndinni, ef við fáum yfirleitt einhvern frið til þess að ræða þetta mál þar.

Í 5. gr. er tekið á vandamálum sveitarfélaga vegna hitaveitna en slíkar framkvæmdir hafa því miður sums staðar orðið að einni samfelldri sorgarsögu þar sem áætlanir hafa farið úr öllum böndum. En vitaskuld er ekki um annað að ræða en að aðstoða sveitarfélögin við lausn þeirra mála og reyna að læra af reynslunni.

Um þörf Byggðastofnunar veit ég harla lítið, enda höfum við kvennalistakonur ekki átt þar aðgang.

Í 7. gr. er áætluð heimild til 100 millj. kr. lántöku vegna smíði nýs Herjólfs, eða öllu heldur til hönnunar á smíði eins og sagt er, og upplýst í athugasemdum að unnið sé að útboði vegna smíði nýrrar ferju í stað 11 ára gamallar ferju sem nú er í notkun. Til þessa liðar var veitt heimild til 25 millj. kr. lántöku á síðasta ári og ekkert sagt um endanlegar tölur. Ýmsar fréttir hafa þó borist sem vekja spurningar um nauðsyn þessa og hvort hér hafi ekki verið gálauslega af stað farið. Spurningarnar eru kannski fyrst og fremst þær hvort þessi aldur, þ.e. 11–12 ár sé eðlilegur líftími ferju, hvers konar skip sé hér um að ræða, þ.e. um búnað og annað, hvort tilkoma þess kalli e.t.v. á einhverjar hafnarframkvæmdir í viðkomustöðum, hvert verði endanlegt verð ferjunnar og hve mikill hluti þess komi til með að greiðast beint úr ríkissjóði.

Sömu spurningar koma upp í hugann varðandi aðra ferju, Breiðafjarðarferjuna, sem kom inn í frv. í Ed., og ég hlýt að óska svara við þessum spurningum ef ekki við þessa umræðu þá í nefnd eða við síðari umræður.

Þetta má alls ekki taka sem neina meinbægni í garð hlutaðeigandi. Vitaskuld þarf að halda uppi góðum samgöngum á þessum leiðum með vel búnum samgöngutækjum. En það er jafneðlilegt að við fáum upplýsingar um allt í þessu sambandi og eðlilegt að við reynum að tryggja að sem best og hagkvæmast sé að öllu staðið, enda eru þessar samgöngur styrktar með tugum milljóna árlega úr ríkissjóði.

Þá erum við komin að „þrátt fyrir kaflanum“, þ.e. Il. kafla frv. sem tók raunar miklum breytingum sem vænta mátti í meðförum Ed. og hæstv. ráðherra drap nokkuð á hér áðan. Þessi kafli finnst mér allt að því ógeðfelldur, að ég ekki segi sorglegur, því með honum er verið að skerða lög sem Alþingi hefur sett, væntanlega eftir vandlega skoðun og í samræmi við þörf. En fjárveitingavaldið er öllu öðru yfirsterkara og hér sker ríkisstjórn og sker að eigin vild. Ekki veit ég hvað hér er nákvæmlega um mikinn niðurskurð að ræða en eftir því verður að sjálfsögðu leitað í nefnd. Ég saknaði þess í máli hæstv. ráðherra, sem hlýtur að hafa þær upplýsingar ef ekki hér á borðinu hjá sér þá a.m.k. í sínu ráðuneyti, hvað hér er um mikinn niðurskurð að ræða, hvað þetta eru háar tölur sem hér eru skornar niður. En það hljóta að vera miklar upphæðir því bara einn liðurinn, þ.e. 17. gr., um framlag ríkissjóðs til ferðamála mun vera skorinn niður um a.m.k. 50 millj. kr.

Sú trygging, sem reynt var að setja í lög um ferðamál árið 1985 fyrir því að ríkið stæði við sín framlög, hélt ekki í eitt einasta skipti. En eins og vafalaust flestir hv. þm. vita og muna þá voru sett lög um ferðamál árið 1976 og þar var sérstakt gjald lagt á vörusölu Fríhafnarinnar á Keflavíkurflugvelli sem nam 10% af árlegu söluverðmæti Fríhafnarinnar. Þær tekjur vildum við tryggja sem fjölluðum um endurskoðuð lög sem sett voru árið 1985 um ferðamálin. Við reyndum af alefli að tryggja það að þessi tekjustofn rynni beint til ferðamála. En það hélt ekki. Sú trygging brást. Ég man nú reyndar ekki hvort þessi lög hafa nokkurn tíma haldið, ég hef ekki svo langa reynslu hér inni á þingi að ég muni þetta nákvæmlega og hef ekki flett því upp en a.m.k. á síðustu árum hefur þessi liður sætt stöðugum niðurskurði.

Þetta er aðeins eitt dæmið og heldur ófagurt.

Vonandi verðum við fróðari um þennan kafla eftir umfjöllun í nefndinni. Það sakaði þó ekki að fá þessar tölur hér við 1. umr. ef hæstv. fjmrh. hefur þær með höndum, þ.e. hversu miklar fjárhæðir eru skornar niður skv. II. kafla frv.

Í 22. gr. kaflans er vegið að Ríkisútvarpinu og hefði maður ekki trúað því að alþýðuflokksmenn mundu standa að slíku þegar þeir fengju að ráða einhverju um fjármál ríkisins svo mjög sem þeir hömuðust gegn sams konar lið í lánsfjárlögum síðasta árs. Þarna er um að ræða eina af þeim stoðum sem skotið var undir Ríkisútvarpið við setningu útvarpslaganna árið 1985 og átti að styrkja það í óvæginni samkeppni við nýjar stöðvar. Þegar tekist var á um þessa lagasetningu féllu mörg orð um skyldur Ríkisútvarpsins við alla landsmenn og ekki síst mikið og göfugt menningarhlutverk þess. Sú umræða hefur magnast og það er sífellt verið að tala um nauðsyn þess að bæta hér um. Sá vilji virðist ekki rista mjög djúpt og heldur ekki skynsemi þeirra sem ráða samningu þessa frv. því fjárhagur Ríkisútvarpsins er mjög bágur og öldungis óhjákvæmilegt að gera eitthvað til að rétta hann. Í stað þess vill nú hæstv. ríkisstjórn svipta Ríkisútvarpið einum af þess tekjustofnum og er vægast sagt erfitt að sjá samhengið í þessu. Við kvennalistakonur mótmælum þessum lið harðlega og er slæmt að hafa ekki hæstv. menntmrh. í sínu sæti til að heyra hans viðhorf til þessara ráðstafana.

Síðasta grein kaflans, 28. gr., varðar niðurskurðinn til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Við höfum nú með jöfnu millibili heyrt útlistanir hæstv. fjmrh. á því hvað ríkisstjórnin gerir vel við Jöfnunarsjóðinn með því að skera minna en skorið var niður í fyrra. Undir slíkum ræðuhöldum sé ég nú alltaf fyrir mér tvíburana hennar Guðrúnar Helgadóttur rithöfundar, Jón Odd og Jón Bjarna, þegar annar leit á hinn og sagði: Nú erum við góðir. (ÓÞÞ: Það er gott að hafa heimsbókmenntirnar á reiðum höndum.) Já. Og sakna ég tilvitnaðs rithöfundar hér í salnum. En svo margt er búið að segja um framgang ríkissjóðs í þessu máli að ég læt þetta nægja í þessari umferð.

Herra forseti. Ég get í rauninni líka sett hér með amen á eftir efninu, enda verður það vonandi allt skýrara og betra til umfjöllunar eftir skoðun í nefnd þó að upplýsingar eða fróm ósk hæstv. ráðherra hér í lok málsins áðan benti ekki til þess að hann ættaði okkur mikinn tíma til skoðunar. En að lokum mætti spyrja: Hvernig hafa reynst þær aðgerðir sem hæstv. ríkisstjórn greip til í sumar og haust til þess að hamla gegn erlendum lántökum einkaaðila og fyrirtækja? Kvartanir þeirra, sem voru mjög háværar í upphafi vegna lántökugjaldsins og annarra takmarkana, hljóðnuðu mjög fljótt. Eins hefur verið hljótt um það hverju þessar aðgerðir hafa skilað. Því spyr ég: Hverju hafa þær skilað í beinum tekjum í ríkissjóð og hvernig hafa þær reynst til takmörkunar á eftirsókn í erlent lánsfé?

Ég vil svo aðeins að lokum, herra forseti, ítreka spurningar mínar og tilmæli til hæstv. utanrrh. sem ég bar fram hér í upphafi.