12.10.1987
Neðri deild: 1. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 13 í B-deild Alþingistíðinda. (26)

Sætaskipun

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Það verður ekki sagt að hér séu mjög fjölbreyttir siðir sem gilt hafa um þingsköp. Þess hefur því miður orðið vart hin síðari þingin að þetta hefur sótt nokkuð í útideyfu. Ég ætla að biðja hæstv. forseta vorn hinn nýja að taka ekki upp þann ósið að bregða út af þeim föstu venjum sem verið hafa. Hér er enga atkvæðagreiðslu hægt að hafa eða kalla menn til nema að hluta um með hvaða hætti og í hvaða röð. Því er það að það er ekki á valdi hæstv. forseta, samkvæmt fastri siðvenju, að ákveða að kalla menn til hlutkestis eða hlutunar nema samkvæmt því að hluta um fyrst. Það er ekki stafrófsröð sem gildir hér.

Ég vænti þess fastlega, af því að við höfðum sára raun af þessu á síðasta kjörtímabili hvernig hæstv. þáv. forseti vildi slá af í öllum kröfum um hin venjulegu þingsköp, bæði hvernig borin var upp tillaga og öll málsmeðferð, að hæstv. forseti - og ég veit það raunar því að ég hef af honum góða reynslu - muni vanda sig hið besta.