07.01.1988
Neðri deild: 48. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3735 í B-deild Alþingistíðinda. (2602)

Fréttir í Sjónvarpinu

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég vil eindregið taka undir þá athugasemd sem hér kom frá hv. 12. þm. Reykv. í sambandi við fréttaflutning Ríkisútvarpsins/sjónvarp um umræður á Alþingi varðandi stjórn fiskveiða. Ég hef áður gert athugasemdir við fréttaflutning þessa fjölmiðils, ríkissjónvarpsins, vegna umræðna á Alþingi á undanförnum vikum, en það kom fram hjá þessum fjölmiðli þegar haldinn var fundur á laugardegi í fyrsta sinn í sögu Alþingis líklega, a.m.k. á síðari árum, að stjórnarandstaðan stæði fyrir málþófi á Alþingi. Það var eftir umræður sem hér fóru fram og stjórnarliðar höfðu tekið þátt í og voru fullkomlega málefnalegar umræður. Nú fáum við fréttir af því í þessum fjölmiðli, sem væntanlega er ætlast til að sé hlutlægur í sínum fréttaflutningi, að þannig hafi verið háttað umræðum um stjórn fiskveiða að stjórnarandstaðan hafi haldið uppi málþófi.

Það kemur fram í þessari frétt, sem ég hef líka fengið útskrift af, að einn af starfsmönnum þingsins, ónafngreindur, er borinn fyrir þessum staðhæfingum. Það segir: „Eins og einn starfsmaður þingsins komst að orði, þá er bara hægt að segja þetta tvisvar, þrisvar og fjórum sinnum. Þetta lýsir þessu ástandi því menn nenna ekki að sitja yfir því að hlusta á sömu hlutina dag eftir dag.“

Ég held að það væri ástæða fyrir fréttamenn, sem standa fyrir slíkum fréttaburði, að geta heimilda og vera a.m.k. viðstaddir umræður til að vera þá a.m.k. sjálfir dómbærir um það hvað fer fram í þingsölum.

Ég tel mjög alvarlegt mál á ferðinni þegar Ríkissjónvarpið stendur þannig að fréttum án þess að ég ætli að fara að blanda mér í málefni þess að öðru leyti en gera þessa athugasemd og ég bendi á að hvorugt stjórnarblaðanna, þ.e. Tímans eða Morgunblaðsins, hefur uppi orð í frásögnum af umræðum í þinginu í þá átt að haldið hafi verið uppi málþófi í sambandi við umræður um þetta frv. (Gripið fram í.) Um Alþýðublaðið spyr hæstv. iðnrh. Ég hef ekki haft tíma til að lesa það stóra blað í morgun, en ég mun ganga úr skugga um hvort þar eru ásakanir í þessa átt.

Ég vænti þess að hæstv. forseti taki undir, og það hefur hæstv. forseti raunar þegar gert eins og hæstv. sjútvrh. í lok umræðna í gær, að áburður af þessu tagi er rakalaus og hér fóru fram eðlilegar, málefnalegar umræður um þetta stóra mál og það er áreiðanlega ekki búið að segja allt sem það snerti þó að allmargir hafi tekið þátt í umræðum, ríkisstjórnarliðar sem stjórnarandstæðingar.