07.01.1988
Neðri deild: 48. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3736 í B-deild Alþingistíðinda. (2603)

Fréttir í Sjónvarpinu

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir þetta og beina því til forseta Alþingis hvort það sé ekki kominn tími til að gera úttekt á fréttamennsku sérstaklega sjónvarpsins. Það er verið að tala um í útvarpsráði að það eigi að reyna að koma á jafnrétti og þá er allt venjulega á milli kynja og það er sjálfsagt og gott mál, en það þarf líka að athuga um jafnrétti á milli þeirra skoðana sem t.d. eru uppi í þinginu. Við verðum vitni að því að fréttamenn, sem hér eru aðallega, eru að stinga saman nefjum við einstaka menn dag eftir dag og það er ekki hægt að draga aðrar ályktanir en þær, þegar maður horfir svo á fréttamennskuna, að það séu ákveðnir menn sem hafi einhver áhrif á þennan fréttaflutning. Það er a.m.k. einkennilegt mat þessara manna ef það er allt saman frá þeim komið.

Hæstv. fjmrh. var að geta um það áðan eða óska eftir því að það yrði lokið við að afgreiða lánsfjárlög fyrir helgina. Ég vil aðvara þá sem stjórna þinginu: Er ekki nóg komið af slíkum vinnubrögðum að nefndir afgreiði hlutina á færibandi? Ég held að virðing Alþingis, umtal Alþingis sé ekki þessa dagana á þeim nótum að það sé fært að bæta þar við.