22.10.1987
Sameinað þing: 7. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 319 í B-deild Alþingistíðinda. (261)

Sala Útvegsbankans

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Það sem olli því að ég sá mig knúinn til þess að segja nokkur orð voru þau ummæli hæstv. fjmrh. að það sem skipti máli fyrst og fremst í sambandi við ríkisbankana væru hagsmunir ríkissjóðs, að ríkissjóður þyrfti að ná því fjármagni til sín sem lægi í eign ríkisins í ríkisbönkum. Ég er satt að segja nokkuð undrandi á þessari einhliða áherslu þessa fjárgæslumanns ríkissjóðs á þessu atriði. Auðvitað hefur ríkið og Alþingi ríkar skyldur við þá viðskiptamenn sem átt hafa margvísleg viðskipti, bæði sem innleggjendur og lántakendur í ríkisbönkunum á undanförnum áratugum, og ég hygg að við meðferð málsins hér á Alþingi verði menn auðvitað að hafa í huga fyrst og fremst að sjá um að hagsmunum þessa fólks sé borgið. Ég held að ríkið hljóti að verða að taka siðferðilega ábyrgð á eignarhaldi sínu á ríkisbönkunum og verði að standa við þær skuldbindingar og þær væntingar sem viðkomandi einstaklingar hafa ástæðu til að ætla að teknar verði til greina.

Ég er fullkomlega sammála því sem hér hefur komið fram að nauðsynlegt sé að ríkisbanki, ef hann a annað borð verður seldur, lendi í margra höndum, helst sem allra flestra, til þess að óhugsandi sé að fáir aðilar, einokunarhringur eða nokkrir aðilar, komist yfir slíkan banka. Ég get vel fallist á það að hugsanlegt sé jafnvel að leggja það til að allir Íslendingar mundu fá gefins hlutabréf í ríkisbanka ef hann yrði seldur og þannig yrði almenningseign bankans tryggð og sú dreifing sem ætti að koma í veg fyrir misnotkun hvort sem við viljum kalla hana pólitíska eða af öðrum toga.