07.01.1988
Neðri deild: 48. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3747 í B-deild Alþingistíðinda. (2650)

Þinghald í neðri deild og nefndarstörf

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Það er rétt, sem hæstv. forseti sagði hér, að það er þingdagur samkvæmt venju og þar sem ríkt hefur um árabil að á fimmtudegi sitji Alþingi meðan það er að störfum, en með þeirri skipan sem innleidd var í haust var gert ráð fyrir að Sþ. starfaði á þessum degi. Ég er ekki að gera athugasemd við að nú er þingfundur í deild, en það var gert ráð fyrir því að fundum þingsins lyki á fimmtudögum milli kl. eitt og tvö og stæðu alls ekki lengur en til kl. tvö. Hér hafa menn lagt hart að sér í þingstörfum og hér er tekið upp þinghald í framhaldi áramóta. Það er eðlilegt að það fari fram með hefðbundnum hætti. Ég tek undir orð hv. þm. Hreggviðs Jónssonar að því leyti og mælist til þess við virðulegan forseta að þannig verði staðið að málum framvegis meðan ástæða er talin til áframhaldandi þinghalds og ekki er gert hlé á störfum þingsins.