07.01.1988
Neðri deild: 49. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3747 í B-deild Alþingistíðinda. (2652)

Afgreiðsla þingmannafrumvarpa

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Áður en gengið verður til dagskrár vil ég vekja athygli hv. þingheims á því að á þessu þingi hafa þm. flutt u.þ.b. 30 lagafrv. og 49 þáltill. eftir því sem mér hefur talist til. Vegna þess hve seint stjfrv. hafa komið fram hefur allur tími þm., jafnt stjórnarþingmanna sem stjórnarandstæðinga, farið í vinnu vegna frv. ríkisstjórnarinnar. Öll þessi þingmannamál liggja því í nefndum sem margar hverjar hafa varla komið saman hvað þá að fjallað hafi verið um efni málanna. Ég leyfi mér að benda á ýmis mál sem að mínu mati eru þýðingarmiklir áfangar að betra samfélagi, mál sem varða fólkið í þessu landi, bætta aðstöðu barna, umhverfismál,samgöngumál, menntamál, afvopnunarmál, málefni námsmanna, mál um jarðhitaréttindi, flugsamgöngur og ótal margt fleira.

Við sem lagt höfum vinnu í undirbúning þessara mála hljótum að spyrja virðulegan forseta hvenær vænta megi að þingstörf hefjist á eðlilegan hátt að nýju, hvenær þingnefndir komi saman til að fjalla um öll mál sem þeim berast í stað þess að stunda afgreiðslustörf fyrir ríkisstjórnina.

Hingað til hafa einungis tvö örlítil frv. þm. hlotið afgreiðslu á hinu háa Alþingi á þessum vetri. Eftir er að fjalla um 28 frv. og 49 þáltill. og fleiri mál kunna að bætast við ef þm. fá vinnufrið hluta úr degi að nýju eins og eðlilegt hefur verið talið hingað til.

Herra forseti. Ég tel fulla ástæðu til að hafa áhyggjur af því þingræði sem hér hefur verið rekið á þessu þingi og hlýt að spyrja hversu lengi þetta ástand geti varað.