07.01.1988
Neðri deild: 49. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3764 í B-deild Alþingistíðinda. (2661)

181. mál, stjórn fiskveiða

Frsm. 1. minni hl. sjútvn. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Hv. 5. þm. Vestf. beindi þeirri áskorun til mín að sjútvn. kynnti sér tillögur Hafrannsóknastofnunar og ræddi þær ítarlega. Mér er bæði ljúft og skylt að verða við því eftir að þing kemur saman að nýju eftir það hlé sem fyrirhugað er að gera. Ég held að það sé af hinu góða að alþm., og þá sérstaklega þær nefndir sem eiga að fjalla um tiltekin efni, kynni sér sem best hvernig umhorfs er og geti rætt við sérfræðinga sem um þessi mál fjalla og fengið hjá þeim upplýsingar eða gert athugasemdir við það sem þeir eru að bera á borð fyrir okkur. Ég ætla svo ekki að hafa fleiri orð um þetta.

Hv. 4. þm. Norðurl. e. flytur hér tillögu sem er ákaflega stutt, þ.e. að orðið „ókeypis“ falli niður. Ég verð að bæta því við að þetta eina orð var til umræðu á sameiginlegum fundum sjútvn. beggja deilda og það margoft. Þar komust þeir vísu menn, sem skipa þar meiri hluta, að þeirri niðurstöðu að ef þetta hefði ekki verið inni í frv., þá væri það sjálfsagt að hafa þetta eins og hv. þm. leggur til, en af því að orðið væri inni í frv., þá mætti alls ekki taka orðið út. Ég vildi aðeins að þetta kæmi hérna fram. Þetta var margrætt og þeir voru svo sannfærðir um það hvað það gæti verið hættulegt að taka orðið út fyrst bölvað orðið þvældist þarna inn í frv.

Þetta eru að sumu leyti dæmigerð vinnubrögð í sambandi við þetta mál allt. Ég fyrir mitt leyti sá ekki ástæðu til að taka þessa brtt. upp, ég var orðinn svo leiður á því að tala um þetta, eins og það er alveg sjálfsagt að þetta orð falli niður.

Hv. 5. þm. Vestf. flytur hér fjórar tillögur sem ég get fallist á og greitt atkvæði með mikilli ánægju öllum. Ég held að það hafi verið allmikill misskilningur hjá hv. 2. þm. Vestf. að tala um það að það munaði eiginlega ekkert um það ef heimilt væri að undanþiggja allt að 20% þess aflamarks sem skip hefði sem væri selt úr byggðarlaginu. Ég held að það muni um hvað sem er í þessum efnum og því tek ég vel í þessa tillögu hv. 5. þm. Vestf. og tel hana eðlilega í alla staði.

Ég get ekki látið hjá líða að láta í ljósi vonbrigði mín með þau vinnubrögð sem hafa verið í sambandi við efnislega meðferð þessa máls eftir að það var lagt fram á Alþingi. Og ég get tekið undir með þó nokkuð mörgum stjórnarandstæðingum sem hafa látið í ljós óánægju sína með það að menn, sem eru í fremstu víglínu í stjórnmálum eins og ráðherrar, hafa lítið verið við þessa umræðu og sumir svo að segja ekkert. Sjútvrh. er eðlilega undanskilinn, enda hefur hann verið við þessa umræðu alla eins og eðlilegt er. Ég held að tíma sumra þessara ráðherra hefði verið betur varið með því að sitja hér og hlusta á mjög málefnalegar umræður. Ég minnist þess ekki að í þessari umræðu allri hafi verið um að ræða einhver látalæti eða umræður út í hött í sambandi við þetta mál. En einstaka ráðherrar hafa verið uppteknir við það að kreista ákveðna þm. til fylgis við það að drepa allar tillögur sem gætu orðið til bóta þessu máli, sem hefðu getað orðið til þess að það hefði orðið meiri samstaða um málið hér á hv. Alþingi. Og ég held að þessari kreistingu sé lokið. Það er fleira kreist en laxinn. Þar af leiðandi hefðu þessir kreistingameistarar getað verið núna við þessa umræðu en ekki sjást þeir samt.

Ég sagði það í nál. og víðar að ég vildi mjög gjarnan hafa stutt þetta frv., en til þess að svo gæti orðið hefði þurft að gera á því verulegar breytingar. Ég er sammála hv. 2. þm. Vestf. að það verður að vera stjórnun á fiskveiðum við Ísland. Um það greinir okkur ekki á, en okkur greinir á um það að eins og þetta frv. er, þó að það hafi tekið svolítilli andlitslyftingu í meðferð þessarar deildar, er þetta hafta- og skömmtunarfrv. þar sem einstaklingurinn er færður í fjötra en aðrir einstaklingar njóta góðs af og geta selt fiskinn í sjónum og haft af því góðan hagnað. Þetta er ekki sú skoðun sem ég hef haft og það er ekki skoðun þess flokks sem ég er í og hef verið í í 50 ár. Sú skoðun, grundvallarskoðun Sjálfstfl., er einstaklingsfrelsi og víðsýn umbótastefna, en nú er öldin önnur. Það er líka farið að snjóa og frysta.

Ég tel mig ekki hafa gengið frá minni grundvallarlífsskoðun. Svo er ég líka þeirrar skoðunar að einstaklingurinn og dugnaður hans eigi að fá að njóta sín við að draga fisk úr sjó alveg eins og hann á að fá að njóta sín í öðrum atvinnugreinum, verslun og viðskiptum og lánastarfsemi.

Það eru til menn hér á hv. Alþingi sem eru að telja sjálfum sér og öðrum trú um það að það sé víðtækt samkomulag um þetta mál, hagsmunaaðilarnir séu allir sammála, og þeir trúa þessu. Það linnir ekki símtölum; bréfum og viðtölum við mann frá fólki í þessum atvinnuvegi sem er sáróánægt með þessa stefnu og hefur treyst á að það yrði gerð einhver breyting til batnaðar. Fiskverð hefur hækkað, það er farið að bjóða fiskinn upp. Fiskvinnslan verður að kaupa fiskinn mun hærra verði en áður, en það er fjölmennur hópur sem hefur orðið út undan í þessu kapphlaupi. Það er fiskverkunarfólkið í landinu. Það fólk stendur í stað. Það tekur á sig núna stórfellda hækkun á sínum lífsnauðsynjum. Hvar bitnar þetta helst? Það bitnar auðvitað á þeim stöðum þar sem sjávarútvegurinn er allt, þar sem ekkert er annað en sjávarútvegur, fiskveiðar og vinnsla og vinna fiskverkunarfólksins. Þetta er lágtekjufólk, fiskverkunarfólkið. Og með þessu erum við ekki að breyta því.

Fyrst ég var nú svo lánsamur að vera í ræðustól og sjá sjálfan hæstv. fjmrh. hér inni sem bíður eftir því að hlusta á umræður um lánsfjáráætlun — ég ætla ekki að taka til máls þar — bendi ég hæstv. fjmrh. á það að það er of lítið sem skammtað er af erlendu fjármagni sem þarf í atvinnureksturinn í sjávarútvegi. Sjávarútvegurinn, fiskvinnslan, hefur ekki ráð á að keppa við þá sem eru að reyna að græða með því að hafa sem mest fjármagn á milli handanna og verður að fá að taka frekari og hærri lán á hinum frjálsa lánamarkaði í heiminum. Það léttir strax fyrir mörgum atvinnufyrirtækjunum sem nú standa í miklum erfiðleikum.

Ég er ekki að kenna hæstv. ríkisstjórn um alla atvinnuerfiðleika sem eru. Það eru svo margvíslegir örðugleikar sem að steðja í þeim efnum. Það má enginn taka orð mín á þann veg. Við verðum hins vegar að taka tillit til þess hvað er að,gerast í kringum okkur og hvernig ástandið er. Ég er að benda á ákveðna hluti sem hefur stórkostlega þýðingu að leiðrétta og gera það sem allra fyrst. Og ég þekki hæstv. fjmrh. það vel að ég treysti honum til þess að endurskoða þetta atriði í lánsfjáráætluninni til þess að mæta sífellt auknum erfiðleikum atvinnurekstrarins víðast hvar úti um landið. Það er engin skömm að því þó tillaga sem gerð var í haust sé endurskoðuð í skjóli þeirrar reynslu og þeirra atburða sem átt hafa sér stað. Það er samdráttur í sjávarútvegi eins og fram hefur komið.

Ég ætla sérstaklega að fara bónarveg að þeim hv. alþm. sem felldu fyrr í dag tillögu um það að gera mönnum kleift að fá veiðikvóta í stað skipa sem fórust. Við höfum staðið frammi fyrir nokkrum erfiðum atriðum á undanförnum árum og ég held að ég hafi verið búinn að skrifa fjórar eða fimm slíkar tillögur í þessa átt en mér fannst þær allar of rúmar til þess að geta sætt ríkisstjórn og stjórnarliða á þær þannig að sú tillaga sem flutt var var sú langþrengsta. Sjálfur hefði ég viljað hafa þetta rýmra. Mér er hins vegar alveg ljóst að það er ekkert gamanmál fyrir sjútvrh. að taka við slíkum heimildum. En hann hefur verið óspar á að taka við heimildum og ef þurft hefði að grípa til þess að nota þá heimild sem þessi tillaga gerði ráð fyrir hefði það auðvitað aldrei verið gert nema með samþykki allrar ríkisstjórnarinnar. Þessi mál komu fyrir í tíð fyrri ríkisstjórnar sem ég átti sæti í og þá var alltaf svarið: Það er ekkert hægt að gera. Það er ekki heimild til í lögum.

Og nú ætta ég að biðja ykkur, þá hv. þm. sem felldu þessa tillögu, að minnast þess að ef ólánið ber að dyrum í kjördæmum ykkar verður svarið: Það er engin heimild til að koma til móts við ykkur. Þá skuluð þið muna eftir því hvað þið gerðuð fyrr í dag.