07.01.1988
Neðri deild: 49. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3768 í B-deild Alþingistíðinda. (2663)

181. mál, stjórn fiskveiða

Frsm. 3. minni hl. sjútvn. (Hreggviður Jónsson):

Hæstv. forseti. Nú er komið að lokum umræðna um þetta stærsta hagsmunamál þjóðarinnar, lög um stjórnun fiskveiða. Við höfum orðið vitni að afgreiðslu á tillögum frá stjórnarandstöðu og ýmsum stjórnarþm. sem hafa ekki náð fram að ganga þrátt fyrir að margar þeirra hafi að okkar mati verið mjög til bóta. Núverandi stjórnun fiskveiða hefur sýnt sig í því að vera ekki það tæki til að vernda fiskistofna og tryggja okkur afla um framtíð sem ætlast er til með þeirri löggjöf.

Ég ræddi fyrr í dag möguleika á því að sjútvn. Nd. fengi tíma til að athuga nýfengnar upplýsingar sem liggja fyrir hjá Hafrannsóknastofnun um smáfiskadráp, en það hefur ekki fengist leyfi til þess eða tími að mati þeirra sem stjórna hér málum.

Í umræðum um frv. höfum við borgaraflokksmenn lagt áherslu á ákveðna hluti sem við töldum vera til bóta og ég heyri, þrátt fyrir að þær tillögur hafi ekki verið samþykktar, að þær hafa haft sín áhrif og þær eru vafalaust til bóta. Það verður að teljast slæmt þegar ekki má gefa slíku frv. nægan tíma þannig að það náist samstaða meðal þm. að mestu leyti og að þau lög sem eiga að gilda um stjórnun fiskveiða séu með samþykki meiri hluta Alþingis með miklu víðtækara samstarfi en verið hefur.

Ég ætla ekki að halda langa ræðu en ég get þó ekki annað en vikið að máli þm. sem hafa talað áður. Það er í fyrsta lagi 2. þm. Vestf. sem kom réttilega inn á þau meginmarkmið sem með þessum lögum hlýtur að vera stefnt að. Það er að vernda fiskstofna og fiskverndun.

Það er mjög brýnt að sú stjórnun sem fer fram með þessum lögum leiði til þess að við tryggjum okkur veiði um ókominn aldur, en það verður ekki séð að núverandi lög og þau lög sem nú er verið að samþykkja verði til þess að þessu markmiði verði náð, heldur þvert á móti. Ég hef áhyggjur af því að samþykkt þessara laga verði til þess að stjórnun fiskveiða verði engin. Hér er aðeins verið að úthluta kvótum til skipa á afla sem enginn veit hvort verður eða verður ekki. Aðalmálið, fiskverndunin og það að ala upp fiskstofna, hefur verið látið víkja. Umræða um það, fiskifræðilega þáttinn, hefur því miður ekki verið slík sem hún hefði átt að vera.

Ég get tekið undir margt af því sem hv. 1. þm. Vestf. Matthías Bjarnason sagði. Þær tillögur sem hann flutti hér voru vafalaust til bóta og hefði verið nær að samþykkja þær því að þær hefðu þó lagað sumt af því sem við höfum viljað bæta.

Ég vil á þessu stigi ekki ræða um málsmeðferðina því að hún hefur verið með þeim hætti að það er best að kjósendur fái að vita sem minnst um hana. Hins vegar get ég sagt að formaður sjútvn., hv. 1. þm. Vestf., hefur staðið sig með afbrigðum vel og ég er ánægður með það sem hann hefur gert, en hann hefur gert allt sem hann hefur getað til þess að við í sjútvn. höfum mátt vinna með sem bestum hætti.

Ég held að ég verði líka að víkja að grein í DV í dag þar sem hv. 5. þm. Vestf. ræðst mjög harkalega á Hafrannsóknastofnun. Ég hlýt að mótmæla því sem hann segir þar því ég tel að Hafrannsóknastofnun sé þrátt fyrir allt sá aðili sem veit hvað mest um þessi mál. A.m.k. höfum við þm. ekki meiri þekkingu en þeir menn á fiskverndun og meðan svo er verðum við að telja að þær niðurstöður sem þeir menn sem starfa þar komast að séu hvað réttastar. Þetta mikla smáfiskadráp er nefnilega áhyggjuefni, og ég held að ef fer sem horfir munum við innan tveggja ára jafnvel standa frammi fyrir því að þorskstofninn sé hruninn og þá er alveg sama þó að við höfum þessi lög. Þau eru ónýt því að meginmarkmið laganna, fiskverndun, hefur verið látið víkja og ekki verið nægilega sinnt. Það þarf að halda miklu fastar á þessu og með öðrum hætti, sem ég ætla ekki að koma inn á hér, ég hef talað um það áður, til þess að þau lög sem hér er verið að samþykkja nái þeim tilgangi sem við erum að stefna að, að tryggja okkur fiskafla til framtíðar en ekki til eins árs.

Það ár sem nú er nýliðið, 1987, hefur skapað falskt góðæri og nú er verið að samþykkja fölsk lög á þeim forsendum. Mikill afli hefur borist að landi og það verður að efast um það að það sé með öllu verjanlegt að moka upp öllum þessum smáfiski eins og gert hefur verið. Við munum komast að því, því miður, innan tveggja ára hvort þetta hefur verið rétt eða ekki, en þá verður það e.t.v. of seint og það verður dýru verði keypt.

Hæstv. forseti. Ég vil að svo mæltu ekki hafa þessi orð fleiri og hef lokið máli mínu.