07.01.1988
Neðri deild: 49. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3773 í B-deild Alþingistíðinda. (2666)

181. mál, stjórn fiskveiða

Albert Guðmundsson:

Hæstv.,forseti. Ég fagna síðustu orðum hæstv. sjútvrh. og tek undir hans mótmæli í sambandi við fréttaflutning sjónvarpsins eins og hann barst mér til eyrna. (Gripið fram í: Ekki veitir af.) Ekki veitir af, segir hæstv. ráðherra. Það er rétt, það veitir ekki af. Hitt er annað mál að ég harma það að ekki skyldi vera farið meira eftir tillögu minni, munnlegri þó, að umræða um þessi sjávarútvegsmál skyldi látin niður falla eftir ummæli og tilkynningu hæstv. utanrrh. í dagblaðinu Tímanum 30. des. þar sem hann lýsti því yfir að þegar væri ákveðið hvernig meðferð mál, sem ekki var í afgreiðslu heldur í umræðu á Alþingi, skyldi fá og að engar breytingar mundu samþykktar nema sjútvrh. samþykkti þær sjálfur. Ég segi „sjálfur“ til að undirstrika hans mikla veldi í þessum málum. Og þá er komið að því: Hvers vegna hefur stjórnarliðið verið að tefja umræður? Af hverju var umræðum ekki hætt? Það er alveg ljóst af atkvæðagreiðslu að málin fara í þann farveg sem kom fram hjá hæstv. utanrrh. í umræddu eintaki af dagblaðinu Tímanum. Ég held að það hefði þá verið hægt að taka upp tillögu sem sett var fram í gríni af einum hv. þm. í Ed. þegar málið var þar til umræðu um að koma með nýtt frv. þar sem 1. gr. hljóðaði svo: Sjútvrh. er einráður um stjórnun fiskveiða. 2. gr.: Lög þessi öðlast þegar gildi. Það hefði sparað Alþingi mikla vinnu og ekki breytt nokkrum sköpuðum hlut.

Ég lýsi stuðningi mínum við brtt. þá sem birst hefur hér á þskj. 496 frá Steingrími J. Sigfússyni við 17. gr. þar sem orðið „ókeypis“ falli brott. Ég er að reyna að skilja þessa 17. gr. Þar segir:

„Útgerðarmönnum, skipstjórnarmönnum og kaupendum afla ...“ Nú eru kaupendur afla bæði innlendir og erlendir. Erum við að setja íslensk lög yfir erlenda menn sem versla við okkur? Ég held að við mundum telja það skref aftur á bak ef við þyrftum að hlíta sams konar lögum þeirra sem selja okkur vörur hingað þó að sjálfsögðu útflytjendur hvar sem er verði að hlíta lögum síns lands þegar þeir versla við aðila erlendis hvaðan sem þeir afgreiða sínar vörur.

Ég furða mig líka á því að hæstv. sjútvrh. skuli vilja hafa frv. orðað eins og það er með öllum þeim heimildarákvæðum sem mér er sagt og ég hef heyrt sagt hér úr ræðustól að séu um 30, heimildarákvæði í þessu frv. um fiskveiðar, um stjórn fiskveiða. Það er ekki rétt hjá hæstv. ráðherra að honum beri skylda til að nota þessar heimildir að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Heimild þýðir að hann má ef hann svo ákveður nota heimildirnar til að setja svona lög einsamall. En honum ber ekki skylda til að nota þær. Þá væri þetta orðað þannig: Að fullnægðum ákveðnum skilmálum eða skilyrðum skal ráðherra gera þetta og gera hitt. En orðalagið er ekki þannig að honum beri skylda til að gera nokkurn skapaðan hlut frekar en hann svo kýs.

Það er vitnað í önnur lög af ráðherra þegar hann talar um 17. gr. þar sem útgerðarmönnum, skipstjórnarmönnum, kaupendum afla og umboðsmönnum og útflytjendum og öllum aðilum sem nálægt okkur koma í viðskiptum um okkar aðalútflutningsvöru og aðalframleiðsluvöru sem þjóðin lifir á og að þeir aðrir aðilar verði að hlíta því að vinna kauplaust. Er það til sóma fyrir þjóðfélagið að vera með lög sem skylda þegnana eða hluta af þegnunum til að vinna kauplaust? Ef hæstv. veiðimálaráðherra fer að gera því skóna eða gefa í skyn að kaupmenn séu ánægðir með það að innheimta bróðurpartinn af ríkissjóðstekjum án þóknunar er það mesti misskilningur. Viðskiptaaðilar allir — ég kalla þá viðskiptaaðila, þessa þræla ríkissjóðs sem við köllum í daglegu tali kaupmenn eða atvinnurekendur — hafa mótmælt í gegnum tíðina þessari þvingun með lögum til þess að innheimta fyrir ríkissjóð bróðurpartinn af ríkissjóðstekjunum. Ég undirstrika það um leið og ég segi þetta að allir aðrir innheimtuaðilar ríkissjóðstekna um land allt, og flestir eru það lögfræðingar og gæta hagsmuna hver annars, fá ákveðna prósentu fyrir að innheimta söluskatt eða aðrar ríkissjóðstekjur svo að þetta er, má segja, með eindæmum að ráðherra skuli svo koma hingað upp til að hæla sér af því að vera að setja viðbótarfjötra á nýjar stéttir sem verða að vinna kauplaust. Þegar mælt er með þessum aðförum er talað eins og hér sé um einu innheimtuna frá atvinnurekstri að ræða til þess að standa undir eftirliti með atvinnurekstrinum sjálfum. Það verður hæstv. ráðherra að viðurkenna og ríkisstjórnin öll að er ekki rétt vegna þess að þetta eru viðbótarskattar á atvinnureksturinn til þess að standa undir þessu eftirliti sem annars á náttúrlega, eins og um öll önnur lög sem Alþingi setur, að kosta af Alþingi sjálfu eða ríkissjóði, af skatttekjum, hvort sem það er fyrirtækjanna eða skatttekjum af þjóðinni í heild, en ekki á að hlaða á einstaklinga og atvinnureksturinn viðbótarsköttum. Skattarnir eru orðnir það margir og margslungnir og þungir fyrir einstaklinga og fyrirtæki, svo að ég tali nú ekki um að verðið á þeim vinnutækjum, sem ég kalla peninga því að þeir eru ekkert annað en verkfæri þjóðfélagsins, er orðið svo hátt að atvinnureksturinn er að sligast undan þessum álögum öllum saman. Og vitið þið hvað það þýðir, herrar mínir, og frúr svo að ég gleymi því nú ekki? Það þýðir einfaldlega það sem merkur maður, einn af okkar merkustu þjóðfélagsþegnum, hefur boðað í langan tíma og hann heitir Gísli Sigurbjörnsson og það skal enginn vefengja hans ágæti. Hann segir:

„Herrar mínir. Innan tíðar verður bankað á dyrnar. Og þegar þið opnið stendur lítil dama fyrir utan sem vill tala við ykkur. Og hún heitir fröken Neyð. Og þessi fröken Neyð er okkur öllum yfirsterkari og öllum okkar samþykktum þannig að við skulum reyna að fara að haga okkur eins og menn. Við skulum reyna að fara að nýta góðærið öðruvísi en að eyðileggja það, áður en litla fröken Neyð bankar og við verðum að lúta hennar vilja, hvort sem við viljum eða viljum ekki.“

Hæstv. sjútvrh. gat því miður um að í tollalögum, m.a., væri gert ráð fyrir að viðskiptaaðilar ríkisins, innflytjendur, þyrftu sjálfir að standa undir kostnaði við eftirlit með sjálfum sér. Þetta er rétt. En þvílík hneisa. Þvílík hneisa þar sem árangurinn af eftirliti einkaaðila með sjálfum sér, ég geri ráð fyrir að hann sé að vitna þar í tollvörugeymsluna, er svo miklu betri en eftirlitið hjá tollinum sjálfum þar sem einkaaðilar og fyrirtæki borga ekkert annað en tollana, ekki eftirlitið með sjálfum sér að því leyti og að því marki sem gert er í tollvörugeymslunni. Það er aukagjald sem er hrein hneisa að taka af þeim eftirlitsaðilum sem skila hér um bil 100% — ég þori ekki að fullyrða meira, ef ég væri ekki á Alþingi mundi ég fullyrða að það væru 100% — til tolls og til gjalda af því sem inn kemur í geymsluna. Svo lítil er rýrnunin þar þegar rýrnunin er alls staðar þar sem tollurinn sjálfur er ábyrgur fyrir eftirlitinu.

Nei, ég tel að Alþingi eigi sjálft að sjá sér fyrir tekjum og standa undir þeim útgjöldum sem Alþingi skapar með svona samþykktum eins og þessi 17. gr. er með orðinu „ókeypis“ innanborðs og ég legg til að það verði fellt. Ég mun alla vega beita mér fyrir því að í mínum flokki náist sú samstaða sem við erum þekkt fyrir til þess að fella þetta orð út.

Hér liggja fyrir tillögur hv. 5. þm. Vestf., brtt. við frv. til laga um stjórn fiskveiða, á þskj. 495. Svo furðulegt sem það er er hægt að standa svo illa að málum hér á hv. Alþingi að stjórnarandstaðan sjái sér hag í því þjóðarinnar vegna, til að forða frekari skandala ef ég má nota það orð, frekari skaða, tjóni, að standa að tillögum sem koma eiginlega beint úr stefnuskrá stjórnarliða. Hér er undir 3. lið: „Ákvæði til bráðabirgða I orðist svo: Alþingi skal kjósa níu manna nefnd“, og síðan kemur upptalning á því hvað sú nefnd á að gera og það er í fjórum liðum sem eru orðrétt teknir upp úr stefnuskrá ríkisstjórnarinnar. Ég mun líka beita mér fyrir því innan míns flokks og ég get reynt að hafa áhrif á aðra stjórnarandstæðinga — og suma stjórnarliða líka — til þess að þeir samþykki stefnuskrá ríkisstjórnarinnar, því það er hugsanlegt að hægt sé að koma fram þessum tillögum sem byggðar eru að verulegu leyti á stefnuskrá ríkisstjórnarinnar og eru frá formanni fjvn., fyrrv. fjmrh. Alþfl. Það hlýtur að vera Alþfl. stuðningur að vita að hann hefur einhverja samstarfsmenn í þessu máli.

Sem sagt, svo illa getur stjórnarliðið farið með sjálft sig, úr því að þeir ekki vildu fara að ráðum hins reyndasta alþm., og ég tala nú ekki um alþm. í sjávarútvegsmálum, Matthíasar Bjarnasonar, að stjórnarandstaðan sjái sér hag í því að samþykkja stefnuskrá ríkisstjórnarinnar sem við höfum öll í stjórnarandstöðunni barist á móti.

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri að sinni nema tilefni gefist, en það er stjórnarliðið sem hefur dregið þessar umræður um nokkra daga, dregið þær má segja frá 30. des. þegar ljóst var að samkomulag var orðið með forustuliði ríkisstjórnarinnar og þar með stuðningsliði ríkisstjórnarinnar öllu, því að forustuliðið plús sjútvrh. eru fjórir ráðherrar sem hafa náð samkomulagi urri að þessi lög sem hafa verið í nokkra daga hér a dagskrá skyldu fara óbreytt frá því sem sjútvrh. ákvæði sjálfur gegnum Alþingi og það er reyndin miðað við þá vinnu sem þegar er búin í þessu máli. Það hefði verið hægt að spara nokkurra daga umræðu um málið hefði ríkisstjórnin verið nógu heiðarleg til þess að draga málið út af dagskrá eftir ummæli hæstv. utanrrh.