07.01.1988
Neðri deild: 49. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3776 í B-deild Alþingistíðinda. (2667)

181. mál, stjórn fiskveiða

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Ég ætla ekki að fara að tefja þessa umræðu. En áður en ég ræði um Byggðastofnun og hlutverk hennar og möguleika ætla ég aðeins að segja það að ég geri ráð fyrir því að hv. þm. hafi tekið eftir ræðu hv. 1. þm. Vestf. áðan þegar hann var að lýsa ástandinu úti um land. Ég hef lýst þessu margoft áður hér á Alþingi og mér hefur heyrst það á sumum a.m.k. að þeir teldu það ýkjur sem ég hef bent á og sagt hér um þessi málefni. Það er hins vegar athyglisvert að 1. þm. Vestf., hv. þm. Matthías Bjarnason, sagði alveg það sama. Og ég trúi ekki öðru en einhverjir kippist við.

Það sem hæstv. sjútvrh. sagði áðan um hlutverk Byggðastofnunar er alveg rétt en þá verður að standa þannig að málum að Byggðastofnun hafi fjármagn, hafi möguleika á að leysa þessi risavöxnu vandamál sem til hennar hafa komið og munu koma. Og ég skora á hæstv. ríkisstjórn að hugleiða það mál. Það er verið að benda Byggðasjóði á það að afla fjármagns hér á innlendum markaði með þeim kjörum sem allir vita hvernig eru. Það væri allt annað fyrir atvinnureksturinn, a.m.k. ef gengið verður stöðugt og jafnvel þó að það mundi eitthvað breytast, þá mundi hjálpin verða allt önnur ef þeir gætu sætt þeim kjörum sem hægt er fá nú á erlendum lánsfjármörkuðum. Þetta þarf að skoða. Ég hef áður rætt um það í þessum ræðustól í sambandi við landbúnaðinn að hann verður að taka sín rekstrarlán öll hér innan lands. Hins vegar fær Áburðarverksmiðjan að taka sín rekstrarlán fyrir innlenda framleiðslu á erlendum lánsfjármörkuðum þó að bændur njóti þess nú í engu, heldur eru lánin með afurðalánavöxtum. Það verður, ekki síst þegar syrtir í álinn hjá atvinnurekstrinum, bæði landbúnaði og sjávarútvegi, að reyna að rétta hjálparhönd á eins hagstæðum kjörum og mögulegt er að fá.

Ég ætla mér ekki að taka til máls um lánsfjárlögin og þess vegna nota ég tækifærið að minnast á þetta hér. Ég skora á fjh.- og viðskn. að athuga mál Byggðastofnunar og athuga þessi mál gagnvart atvinnurekstrinum.

Að öðru leyti læt ég máli mínu þá lokið.