22.10.1987
Sameinað þing: 7. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 332 í B-deild Alþingistíðinda. (268)

27. mál, ráðstefna í Reykjavík um afvopnun á norðurhöfum

Hreggviður Jónsson:

Hæstv. forseti. Þáltill. á þskj. 27, sem hv. 5. þm. Reykn. ber hér fram, er mjög áhugaverð og rennir stoðum undir vaxandi áhuga manna á afvopnun og raunhæfum aðgerðum í þeim málum. Þó finnst mér í þessari þáltill. blandað saman óskyldum efnum að hluta. Það er t.d. r.ætt þar um kjarnorkuslys sem er í raun hægt að ræða sérstaklega og ætti að gera það vegna þess að kjarnorka í friðsamlegum tilgangi er orðin mjög útbreidd á mörgum sviðum og um það þarf að ræða alveg sér. Ég held hins vegar að sú hugmynd að halda ráðstefnu í Reykjavík um afvopnun á norðurhöfum sé mjög svo tímabær.

Hæstv. utanrrh. kom inn á margt og ég get tekið undir margt af því sem hann sagði. Jafnframt get ég tekið undir margt af því sem hv. 10. þm. Reykv. sagði.

Það er svo að það er áhyggjuefni ef það skyldi vera að kafbátar og kafbátahernaður sé vaxandi í norðurhöfum. Við höfum að vísu ekki alveg öruggar heimildir fyrir því hvað það er mikið, en það væri ekki verra að hafa þær.

Í Morgunblaðinu í dag er viðtal við varnarmálaráðherra Noregs, Johan Jörgen Holst, og segir hann þar eftir að hann er spurður um álit sitt á þýðingu ræðu Mikail Gorbatsjoffs í Múrmansk nýlega fyrir Ísland og Noreg og þýðingu þeirra tillagna sem koma þar fram fyrir Ísland og Noreg, með leyfi hæstv. forseta:

„Tillögur hans [þ.e. Gorbatsjoffs] eru mikilvægar fyrir bæði ríkin. Ræðan var mjög athyglisverð og hún var einnig mikilvæg. Hún var mikilvæg í fyrsta lagi vegna þess að Gorbatsjoff flutti hana sjálfur og í öðru lagi vegna þess að henni var beint til þeirra þjóða sem byggja þennan heimshluta. Það gerist ekki oft að sovéskir ráðamenn ræði sérstaklega um þróun mála í okkar heimshluta. Þegar það gerist er full ástæða til að hlýða á málflutning þeirra.“

Ég held að þetta og frekari ummæli sem höfð eru eftir varnarmálaráðherra Noregs, Johan Jörgen Holst, gefi tilefni til þess að við íhugum þetta mjög vandlega. Það sýnir hins vegar að tímasetning hv. 5. þm. Reykn. er góð og till. flutt á réttu augnabliki. Það er tímabært fyrir okkur Íslendinga að taka þessi mál til skoðunar og athuga hvort við ættum að bjóða Reykjavík sem fundarstað fyrir þetta eða önnur alþjóðamál á þessum vettvangi. Hann nefndi bæði Genf, Vín, Stokkhólm og Helsinki og það er rétt, sem kom fram hjá hv. 10. þm. Reykv., að þetta eru að vísu talin hlutlaus lönd en á margan hátt er Ísland ekkert síður hlutlaust en þessi lönd.

Þá liggur fyrir yfirlýsing og vilji forráðamanna Reykjavíkurborgar um að koma á mót alþjóðlegu ráðstefnusetri hér í borg í samráði við þá aðila sem starfa að ferðamálum og við ríkisvaldið. Við í Borgarafl. höfum áður ályktað um slíkan leiðtogafund eða fundi og erum mjög fylgjandi því að við reynum að koma hér á fundum varðandi málefni sem eru mjög ofarlega á baugi í Evrópu og í heiminum alls staðar.

Það fer ekki á milli mála að sú stefna sem Mikail Gorbatsjoff setti af stað og er víst kölluð „glasnost“ á rússnesku hefur víða um heim vakið vonir um að þar væri raunverulegur vilji til viðræðna og að komast að samkomulagi í þessum málaflokkum. Það verður fyrst að reyna á það, en þær viðræður sem hafa átt sér hér stað milli leiðtoganna tveggja gefa þó vonir um að það verði e.t.v. í framtíðinni stefnubreyting að þessu leyti.

Ég vil í þessu sambandi vekja athygli á umræðum sem hafa orðið í Evrópuráðinu um þessi mál þar sem hafa verið tekin til mjög víðtækrar umræðu öryggismál álfunnar og hefur verið komist að niðurstöðu þar sem þm. allra flokka hafa verið sammála í þessum málum og þá einnig þeir sem standa utan hernaðarbandalaga. Menn eru mjög fylgjandi því að reyna til hlítar að fækka vopnum í Evrópu og annars staðar. Ég vil þá sérstaklega undirstrika að við hljótum að taka þátt í þeim umræðum.

Ég vil sérstaklega vitna til samantektar hv. þm. íhaldsflokksins í Noregi, Harald Lied, og samantektar hv. þm. íhaldsflokksins á Spáni, frú Loyola Palacio, en þær skýrslur sem þau hafa gert um þessi mál fyrir Evrópuráðið hafa fengið mjög jákvæða umfjöllun og hafa menn frá öllum flokkum verið mjög sammála þeirri niðurstöðu og því sem þar hefur komið fram. Þessi mál eru því í brennidepli. En menn eru jafnframt sammála um að þeir vilja ekki einhliða afvopnun. Þeir vilja horfa á heildina. Það er mjög mikilvægt að menn standi saman um það, að Evrópa sem heild standi saman og hún hviki ekki frá því að það verður að koma eitthvað á móti.

Í þessu sambandi má ekki gleyma því mikilvægasta af öllu þessu sem er grundvöllurinn undir því að við getum trúað því að þessi stefna sé í rauninni það sem hún er. Við verðum að leggja áherslu á mannréttindi í þessu sambandi. Það er ekki hægt að slá því á frest að mannréttindi séu virt. Það er undirstaða varanlegs friðar í heiminum að virt séu mannréttindi í öllum löndum. Þess vegna verðum við líka að leggja áherslu á þá hlið í okkar umfjöllun um þessi mál að mannréttindi séu í heiðri höfð í þeim löndum sem við erum að ræða um afvopnun við.

Ég vil svo að lokum undirstrika það, sem við höfum rætt um hér áður og hefur verið komið inn á, að auðvitað er kjarnorka í höfunum í kring mikið áhyggjuefni og við hljótum að taka það til sérstakrar umfjöllunar. Ég hef grun um að það muni vera till. á leiðinni um eitt tiltekið mál í því sambandi. Ég tel að við eigum að fylgjast mjög grannt með kjarnorku sem er notuð til raforku og raforkuvera. Um þetta hefur verið fjallað mjög ítarlega einmitt af Evrópuráðinu og einnig þar hafa menn vaxandi áhyggjur af þeim málum.

Í því sambandi er rétt að undirstrika að við Íslendingar búum svo vel að við þurfum ekki á þessari orku að halda, en við verðum að líta til þess að mörg Evrópulönd, eins og Frakkland og Svíþjóð, búa við það að þau verða að fá orkuna að töluvert stórum hluta frá kjarnorkuverum. Ég varpa þessu máli fram í þessu sambandi. Ég held að það sé rétt að menn líti yfir sviðið en horfi ekki bara á norðurhöfin í þessu sambandi því að þessi mál verða meira til umræðu á næstunni en þau hafa verið. Við verðum að gera okkur grein fyrir því að hér eru mjög stórir málaflokkar á ferðinni og við Íslendingar verðum að fylgjast vel með þessu þó við höfum kannski ekki afl til að knýja fram neinar samþykktir. Hins vegar getum við unnið á jákvæðan hátt. Ég vil í þessu efni minna á frumkvæði hæstv. utanrrh. þegar hann var forsrh. um að koma á ráðstefnumiðstöð hér þar sem hægt væri að ræða um framtíð heimsins á víðari grunni, eins og hann kom inn á í ræðu sinni. Ég tek sérstaklega undir það.

Ég tel að þetta mál eigi að fá ítarlega umfjöllun í utanrmn. og margt af því sem komið hefur fram hjá fyrri ræðumönnum get ég tekið undir. Ég ítreka hér að við þurfum að fjalla mjög vel um þessi mál, enda er þetta mjög viðamikill málaflokkur sem við verðum að skoða mjög vel og horfa þá til framtíðar fyrir þjóð og land.