22.10.1987
Sameinað þing: 7. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 334 í B-deild Alþingistíðinda. (269)

27. mál, ráðstefna í Reykjavík um afvopnun á norðurhöfum

Guðrún Agnarsdóttir:

Hæstv. forseti. Aðeins nokkur orð um þessa till. til þál. Mér finnst hún tímabær og sannarlega athyglisverð og hún gefur tilefni fyrir smáþjóð eins og okkur Íslendinga að sýna djarflegt frumkvæði í afvopnunarmálum.

Það hefur oft verið rætt hér hve hlutverk smáþjóða er mikilvægt á sviði afvopnunar og oft veltir lítil þúfa þungu hlassi. Við Íslendingar höfum lykilstöðu að mörgu leyti og nægir að minna á leiðtogafundinn sem haldinn var hér fyrir ári.

Ég ætla ekki að fara út í efnislega umræðu um málið. Flm. gerði henni góð skil í framsögu sinni. Við hljótum öll að vera sátt um mikilvægi þessa máls og þess vegna vil ég leggja til að tillagan fái ítarlega og vandlega umfjöllun í hv. utanrmn. þannig að menn geti þar náð sáttum um einhverjar breytingar þannig að málið nái fram að ganga á þessu ári.