07.01.1988
Efri deild: 51. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3807 í B-deild Alþingistíðinda. (2706)

181. mál, stjórn fiskveiða

Frsm. 3. minni hl. sjútvn. (Karvel Pálmason):

Herra forseti. Sjútvn. Ed. kom saman áðan, hélt fund og ræddi málið eins og það kemur frá Nd. Það má kannski segja að þar sé um formsatriði að ræða því að allir nefndarmenn hafa óbreyttar skoðanir frá því sem áður var, en eigi að síður ræddi nefndin málið. Ég tel rétt að gera grein fyrir þessu strax í upphafi umræðunnar, en í áframhaldi af því langar mig til að fara nokkrum orðum um þetta mál í heild þegar það nú er komið til 7. umr. á hv. Alþingi.

Mér sýnist ýmislegt hafa gerst sem hlýtur að vekja athygli hjá almenningi í landinu, hvernig þetta mál hefur farið í gegnum þingið. Ég rifjaði upp við 1. umr. og kannski öllu ítarlegar við 2. umr. mína afstöðu til þessa máls. Hún er sú að ég er í grundvallaratriðum, ekki síst sem jafnaðarmaður, andvígur því skömmtunarkerfi og þeim einkarétti sem hér er verið að afhenda tiltölulega fáum útvöldum í þjóðfélaginu. Mér hrýs hugur við því að forustumenn Alþfl., sósíaldemókratísks jafnaðarmannaflokks, skuli leggja lið máli eins og hér er á ferðinni. Ég minni á að það þarf ekki mín orð til. Ég minni á að margir forustumenn Alþfl. hafa ítrekað þau sjónarmið að frv. eða löggjöf eins og hér er verið um að ræða og hér á að lögfesta er ekki í anda jafnaðarstefnunnar. Ég minni líka á það og ekki síður, eins og rifjað var upp af hv. þm. í Nd., Jóni Sæmundi Sigurjónssyni, að þetta frv. er í algerri andstöðu við grundvallarsjónarmið Alþfl. að því er varðar fiskveiðar. Það er í algerri andstöðu við stjórnarsáttmálann sem Alþfl. hefur samþykkt. (EgJ: Nei.) Það þýðir ekki, hv. þm. Egill Jónsson, að segja nei. Menn ættu að lesa stjórnarsáttmálann betur ef menn segja nei við þessu. Og það sem meira er: Hér eru menn að ganga gersamlega gegn samþykkt sem gerð var á kjördæmisþingi Alþfl. á Vestfjörðum fyrir kosningar og var öllum kunn. Ég hlýt að lýsa ábyrgð á hendur þeim forustumönnum innan Alþfl. sem ætla að ganga í berhögg við þessa ályktun í sterkasta vígi Alþfl. hér á landi.

Það er mikil ábyrgð sem forustumenn innan Alþfl. ætla að axla í þessu máli, þeir sem ætla að leggja því lið að þetta frv. verði að lögum. Ég hlýt að segja þetta hér hvort sem mönnum líkar það betur eða verr. Þessu verður ekki mótmælt. Þetta er líka alveg í anda minnar sannfæringar. Sem jafnaðarmaður mundi ég aldrei styðja slíkt frv. eða löggjöf eins og hér er verið um að ræða. Það er gersamlega slitið úr samhengi við jafnaðarstefnuna.

Hér hefur maður orðið vitni að því í dag að hæstv. ráðherrar hafa leyft sér að greiða atkvæði gegn ákvæðum í stjórnarsáttmála núv. ríkisstjórnar. Ég er ekki hissa þó almenningur haldi að hér sé hálfgert hringleikahús á ferðinni, að sumu leyti til a.m.k. Hér gera menn allt annað eftir að þeir eru komnir hér inn en þeir segja fyrir kosningar. Hér eru margir hverjir og allt of margir í hálfgerðu hringleikahúsi og aðalleikhúsi þjóðarinnar.

Það er út af fyrir sig ekki skemmtilegt að tala í þessum tón sem jafnaðarmaður. Það er ekkert skemmtilegt að gagnrýna sína félaga með þessum hætti. En eigi að síður verður ekki undan því vikist og ég spyr: Ætla forustumenn Alþfl. margir hverjir að ganga af flokknum sem sviðinni jörð? Er það meiningin að menn ætli sér þannig áfram að Alþfl. verði sem hjóm í íslenskri pólitík verði fram haldið sem horfir? Ég óttast þetta. Í sjálfu sér þarf ég ekki sem einstaklingur að hafa miklar áhyggjur af slíku. En ég hef áhyggjur vegna almennings í landinu ef forustumenn ætla að beita flokknum með þessum hætti. Það er a.m.k. ekki í þeim anda sem ég tel jafnaðarstefnuna vera.

Hér er meiri hluti Alþingis að afgreiða frv. sem er þess eðlis að afsala sér slíku valdi til eins manns sem engu tali tekur. Ég efast um að nokkurt löggjafarþing hafi gert slíkt. Það eru um 30 heimildir sem verið er að veita hæstv. sjútvrh. með því frv. sem hér er verið að leggja til að verði samþykkt, því frv. sem verið er að nauðga í gegnum þingið. Það er ekki gott til afspurnar hjá almenningi úti í þjóðfélaginu að slík vinnubrögð skuli eiga sér stað hér á Alþingi. Hér eru kannski þeir sem eru mest á móti kvótafrv. að ljá því lið að það fari í gegn. Slíkt er orðið hugarfarið að mér sýnist hjá mörgum hér innan dyra. Þeir sem eru mestu kvótaandstæðingar ætla að koma málinu hér í gegn. Er þetta líklegt til að auka virðingu Alþingis? Mér sýnist svo ekki vera. Og ég skil ekki að það skuli vera í anda jafnaðarstefnunnar að menn ætli að þröngva slíku máli í gegn í ljósi þess að verið er að færa tiltölulega fáum einstaklingum auðæfi sem allir eiga. Það er tiltölulega fámenn klíka sem er verið að skapa slíka aðstöðu sem engu tali tekur.

Ég hefði ekki trúað því, fyrr en að vísu nú að ég hef á því tekið, að forsvarsmenn jafnaðarstefnunnar mundu ganga slíka leið. Þetta upplifði ég að vísu þó hart sé. En það á ekki að þýða að menn leggi árar í bát. Ég hygg að það komi sú tíð að þeim forustumönnum innan Alþfl. sem nú feta þessa braut verði komið í skilning um það þótt síðar verði að þeir hafi verið á rangri hillu að því er þetta varðar. Það var ekki tilgangur jafnaðarmanna að mínu viti að þjóna með þessum hætti undir Framsfl. og SÍS nema síður væri. Hér eru menn að ganga allt aðra leið en menn sögðu og lofuðu fyrir kosningar. Kannski er það að verða eitthvert aðalsmerki manna að framkvæma allt annað eftir kosningar en þeir lofuðu að gera fyrir kosningar. Ég ætla ekki að vera í þeim hópi. Ég hef túlkað mína afstöðu hér og tel að hún sé öllum ljós. Frv. eins og það kemur frá hv. Nd. fullnægir ekki mínum sjónarmiðum að því er þetta varðar. Hér eru menn ekki aðeins að endurnýja hið gamla kvótakerfi. Hér eru menn enn að auka valdsvið eins ráðherra innan Framsfl. í anda SÍS-veldisins.

Hvar eru nú fulltrúar einkaframtaksins? Hvar skyldu þeir vera? Það hefur ekki mikið heyrst úr þeim herbúðum nú. Nei, þetta minnir mig á söguna um jólasveinana. Það er sagt að þeir hafi allir komið í halarófu ofan í sveit. Ég sé ekki betur en hæstv. forsrh., formaður Sjálfstfl., hafi, þrátt fyrir allar fyrri yfirlýsingar um að vera ekki með þjónslund í garð Framsfl., ásamt megninu af þeim þingflokki verið í einni halarófu ásamt sumum úr þingflokki Alþfl. og forustumönnum þar, kropið fyrir framan hæstv. sjútvrh. og sagt: Verði þinn vilji. Ráð þú, Halldór, í okkar umboði. Og séra Sigvaldi hefði auðvitað sagt: Hér ætti ábyggilega við amen á eftir efninu.

Þetta er að sjálfsögðu ekkert grínmál. Það er miklu alvarlegra en svo sem hér er verið að gera. Hér eru menn að ganga inn í langvarandi kvótakerfi, skömmtunarkerfi fyrir tiltölulega fáa einstaklinga. Og það á enginn nýr aðili, hversu duglegur sem hann kann að vera, neina uppreisn í þessum efnum. Þetta er eitthvert mesta skömmtunarkerfi sem upp hefur verið fundið.

Einkaframtakið tekur því fegins hendi og segir amen og hallelúja. Þar er ekki uppreisnin gegn þessu. Hver hefði trúað því á dögum fyrri foringja Sjálfstfl., þeirra sem litið var upp til á sínum tíma, að Sjálfstfl. gengi þá leið sem hann hefur gengið í þessum efnum? Ég tala nú ekki um Alþfl., þá sem ráða ferðinni í þeim herbúðum að því er þetta mál varðar. Það hefði enginn foringi jafnaðarmannaflokks nokkurs staðar leyft sér að ganga þá braut sem hér er verið að gera. Það hefði enginn leyft sér það. Og þeim mun sárgrætilegra er það að ég sem jafnaðarmaður skuli horfa upp á slíkt. Það er út af fyrir sig ekki góð líðan, ef menn hafa sannfæringu, að horfa upp á slíka hluti gerast. Það er ekkert skemmtilegt að heyra sína flokksbræður segja: Þetta er í algerri andstöðu við grundvallarsjónarmið Alþfl.

Þetta er í algerri andstöðu við stjórnarsáttmála núv. ríkisstjórnar og þar með fulltrúa Alþfl. Og þessi sami hv. þm. sagði: Þetta er líka í algerri andstöðu við mína eigin sannfæringu, en ég ætla að segja já með semingi. (EgJ: Hver var þetta?) Ég bendi hv. þm. Agli Jónssyni á að fletta upp í þingtíðindum. (EgJ: Þau eru ekki komin út.) Ja, þegar þau koma. Það verður væntanlega læsilegt þá.

Það er ekki skemmtilegt að horfa upp á eða hlusta á ræður af slíku tagi frá eigin flokksmönnum. Ég a.m.k. tek ekki slíkri forustu þegjandi og ég ítreka sérstaklega að þeir forustumenn Alþfl. sem ætla sér að stuðla að þessari löggjöf á Alþingi bera mikla ábyrgð. Þeir eru þar með að mínu viti væntanlega að höggva frá sér jafnaðarmenn á Vestfjörðum í stuðningi við hæstv. ríkisstjórn. Það mál vel vera að mönnum sé sama um slíkt og það komi málinu ekkert við. En það á kannski eftir að koma í ljós að það hefði verið betra að hugsa áður.

Hér eru menn úr forustuliði Alþfl. að taka afdrifaríkar ákvarðanir, ákvarðanir sem kunna að valda miklu í framhaldinu að því er þann flokk varðar, a.m.k. á vissu landsvæði. Ég frábið mér, ekki bara vegna þeirrar samþykktar sem gerð var á kjördæmisþingi Alþfl. heldur vegna minna skoðana, minna grundvallarsjónarmiða sem jafnaðarmanns, að standa að slíku.

Ég þarf út af fyrir sig, herra forseti, ekki að hafa öllu fleiri orð um þetta. Málið er ljóst. Það sem er verst í þessu er að allt of margir þm. ljá þessu máli lið án þess að hafa sannfæringu fyrir því að það sé rétt. Þeim er beinlínis þröngvað til að styðja málið. Það er verst að á löggjafarsamkomunni sé hægt að þröngva mönnum gegn sannfæringu til að styðja mál, ég tala nú ekki um mál sem er eins og þetta, sem veldur hvað mestu fyrir lífskjör, lífsbjörg þjóðarinnar sem heildar.

Það er ljóst, herra forseti, að ég mun ekki greiða frv. atkvæði. Ég stend gegn því vegna þeirrar grundvallarskoðunar að það þarf að gera breytingu á öllu þessu kerfi. Menn bundu vonir við það sumir hverjir með stjórnarsáttmálanum að menn væru að stíga inn á það svið að gera breytingar til hins betra, færa sig út úr kvótakerfinu, en reyndin hefur orðið allt önnur. Menn eru að fara enn lengra inn í það. Það er augljóst að það gerist ekki núna, en við verðum að finna leiðir sem gefa leitt okkur frá þessu skömmtunarkerfi, gefa leitt okkur til þess að auðlindir hafsins séu eign Íslendinga allra sem þær eru ekki með þessu frv. Það er rétt að vekja sérstaka athygli á því. Með þessu frv. er ekki verið að lögfesta að auðæfi hafsins séu eign allra Íslendinga. Ég þykist vita að flestir vildu að svo væri. En það á ekki við.

Ég ítreka: Ég vara við því, og þá sérstaklega vara ég mína flokksbræður í Alþfl. og forustumenn hans við því, að lögfesta þetta mál hér á Alþingi, standa að því að það verði lögfest. Geri þeir það bera þeir miklu meiri ábyrgð á framhaldinu en þeir kannski gera sér ljóst nú. Það væri betra að menn hugsuðu til þess áður en það er orðið um seinan.

Ég skal ekki, herra forseti, eyða lengri tíma í þetta. Það er tilgangslítið að mér sýnist. (EgJ: Já.) Já, segir hv. þm. Egill Jónsson og þá þarf ekki að tala um hlutina frekar. En ég tel það kannski fyrst og fremst þarflaust vegna þess að sjálfir ráðherrarnir hafa neitað að taka til greina það sem þeir sjálfir hafa lagt til í stjórnarsáttmálanum og það er kannski það skringilegasta við þetta mál að ráðherrarnir sjálfir neita stjórnarsáttmálanum, vísa honum frá. Hvað þýddi þetta á venjulegu máli? Hvað eru menn að gera með þessu? (SvG: Lýsa vantrausti á ríkisstjórnina.) Lýsa vantrausti á sjálfa sig fyrst og fremst. Þetta eru leikreglur sem eiga ekki og mega ekki eiga sér stað á löggjafarsamkomunni.

Svona væri hægt að halda áfram miklu lengur, en ég skal ekki gera það, herra forseti. Ég lýsi algerri andstöðu gegn þessu skömmtunarfrv. hæstv. ríkisstjórnar og meiri hlutans á Alþingi. Ég vænti þess að það gefist tækifæri fyrr en seinna til þess að brjótast út úr þessu kerfi, til að koma á réttlátara skipulagi. Það er enginn að hafa á móti stjórn, en koma á réttlátara skipulagi, skipulagi sem gefur einstaklingunum tækifæri til þess að komast áfram, gefur byggðarlögunum tækifæri til að njóta sín. Það gerir þetta frv. ekki.

Með þessu, herra forseti, ætla ég að ljúka máli mínu.