07.01.1988
Efri deild: 51. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3824 í B-deild Alþingistíðinda. (2708)

181. mál, stjórn fiskveiða

Danfríður Skarphéðinsdóttir:

Herra forseti. Ég get í upphafi máls míns ekki látið hjá líða að lýsa vonbrigðum mínum með þau óvönduðu vinnubrögð sem fram komu í fréttaflutningi Ríkisútvarpsins sjónvarps í gærkvöldi. Ég hef hingað til borið mikla virðingu fyrir þessari stofnun og þeim mikilvægu skyldum sem hún hefur að gegna bæði varðandi fréttaflutning og menningarmiðlun hér í landinu. Vonandi hef ég ástæðu til að bera virðingu fyrir þessari stofnun eftir sem áður, þrátt fyrir það sem gerðist í gær. En þau vinnubrögð sem þarna sluppu út fyrir stofnunina eru með öllu óverjandi.

Ég tel ekki ástæðu til að hafa mörg orð að þessu sinni um það frv. til l. um stjórn fiskveiða sem nú er aftur komið til þessarar hv. deildar að lokinni umfjöllun um það í Nd. Ég tel að við umfjöllun málsins hafi sjónarmið Kvennalistans komið fram varðandi meginatriði frv., svo og þeirra brtt. sem lagðar voru fram af öðrum flokkum við 1. og 2. umr. málsins. Auk þess kynntum við kvennalistakonur allítarlega okkar eigin hugmyndir og brtt. sem við lögðum fram þegar við 1 umr. málsins í þessari hv. deild.

Hugmyndir okkar og brtt. byggja eins og mönnum er eflaust kunnugt á allt öðrum grundvallarhugmyndum en frv. það sem hér liggur fyrir. Eins og ég hef áður getið um í umræðunum erum við Kvennalistakonur á móti frv. í heild sinni. 1. gr. er hins vegar í anda við hugmyndir okkar þar sem við teljum að auðlindir hafsins séu eign allrar þjóðarinnar. Tillögur okkar mótast einmitt af þeirri skoðun okkar.

Við teljum að það að úthluta veiðiheimildum gefins til einstaklinga og fyrirtækja, sem síðan geta verslað með þær, brjóti algjörlega í bága við yfirlýsinguna um þjóðareign sem 1. gr. felur í sér. Þá færir allt frv. í heild sinni hæstv. ráðherra og ráðuneyti hans óeðlilega mikið vald sem enginn, hvorki einstaklingar né stofnun, er öfundsverður af.

Valddreifing er títtnefnt hugtak og var oftlega rætt í kosningabaráttunni sl. vor þegar rætt var um að dreifa valdi út til byggðarlaga og sveitarfélaga, en valddreifing er eitt af grundvallarhugtökunum í hugmyndafræði Kvennalistans, þar sem við byggjum allt starf innan okkar eigin raða á valddreifingu. Við reynum að dreifa valdinu og þar með ábyrgðinni og auka virkni þeirra sem um málin fjalla hverju sinni. Þær hugmyndir sem við lögðum hér fram, brtt., byggðust einmitt á því að færa raunverulegt vald út til byggðarlaganna.

Ég vil víkja sérstaklega að einni brtt. sem í morgun féll á jöfnu í hv. Nd. Brtt. var í þessari hv. deild flutt af hv. þm. Karvel Pálmasyni og í Nd. af hv. þm. Matthíasi Bjarnasyni, en hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Sé skip með veiðiheimild selt úr byggðarlagi, sem að mestu byggir á fiskveiðum og fiskvinnslu, skal ráðherra heimilt að bæta viðkomandi byggðarlagi aflatapið þannig að veiðiheimildir þeirra skipa sem eftir eru verði auknar. Heimild þessari má þó því aðeins beita að sala skips valdi straumhvörfum í atvinnulífi og hætta sé á byggðaröskun af þeirri ástæðu.“

Þessi tillaga, þó skammt gangi og sé óljós að ýmsu leyti, hefði vissulega verið skoðunar verð og þörf á nánari útfærslu hennar, enda sýnir sú niðurstaða sem varð í hv. Nd. í morgun er till. féll á jöfnu, að hér er á ferðinni tillaga sem stór hópur þm. er hlynntur. Í umræðunum bæði í hv. sjútvn. þessarar deildar og hér í deildinni hefur hugmyndin um einhvers konar byggðakvóta þráfaldlega skotið upp kollinum. En brtt. okkar kvennalistakvenna ganga einmitt út á að auka sjálfdæmi og ákvörðunarrétt byggðarlaganna yfir þessari sameiginlegu auðlind okkar.

Eins og fram hefur komið í umræðunum þá ganga tillögur Alþb. líka í átt að þessu markmiði og eins og ég nefndi hafa allmargir hv. þm., bæði svokallaðir stjórnarliðar og stjórnarandstæðingar, lýst áhuga sínum á að rjúfa sambandið milli skips og kvóta á þann hátt að tryggja megi atvinnuöryggi byggðarlaga.

Því nefni ég þessa till. hér að ég tel þetta atriði vera kjarna málsins, að rjúfa sambandið milli skips og kvóta. Ég býst við að ef við hefðum haft lengri tíma til að fjalla um þetta viðamikla mál og fyrir hendi hefði verið meiri vilji ráðamanna til að taka nýjar hugmyndir til nákvæmrar skoðunar, jafnvel með það fyrir augum að breyta hugsanlega einhverju í þessu kerfi sem við höfum búið við og stefnt er að að verði við lýði næstu árin, hefði meira áunnist. En okkur hefur verið skammtaður allt of naumur tími til að fást í alvöru við þær hugmyndir sem hefði þurft að ræða og gaumgæfa betur. Þær brtt. sem samþykktar hafá verið í Nd. og eru ástæðan fyrir því að frv. er nú komið hingað aftur til okkar tel ég að ýmsu leyti vera til bóta og þá einkum í sambandi við þessa margumtöluðu og umdeildu 10. gr. þó að ég telji reyndar vera of skammt gengið. En þó tel ég að þokað hafi nokkuð í rétta átt.

Herra forseti. Að öðru leyti er afstaða okkar í Kvennalistanum óbreytt og sé ég því ekki ástæðu til að lengja mál mitt frekar, en vonast til að hið fyrsta verði í raun hafin sú endurskoðun fiskveiðistefnunnar sem svo sannarlega er þörf og stjórnarsáttmáli hæstv. ríkisstjórnar gerir ráð fyrir. Við þá endurskoðun er nauðsynlegt að taka tillit til margra þátta og svara mikilvægum grundvallarspurningum eins og t.d.: Hverjir eru hinir raunverulegu hagsmunaaðilar? Hverjir eru hagsmunir þeirra? Á hvern hátt ættar þjóðin að nýta sameiginlega auðlind sína, hafið? Hverjir eiga rétt á að sækja fiskinn og með hvaða skilyrðum sækja þeir hann? En, herra forseti, þetta eru spurningar sem við þurfum að velta fyrir okkur og svara áður en raunveruleg endurskoðun getur hafist.