22.10.1987
Sameinað þing: 7. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 337 í B-deild Alþingistíðinda. (271)

27. mál, ráðstefna í Reykjavík um afvopnun á norðurhöfum

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Hæstv. forseti. Það þarf sjálfsagt ekki að taka fram að auðvitað verður þetta mál ítarlega rætt í utanrmn., eins og ýmsir ræðumenn hafa komið inn á, og ekki þetta mál einangrað heldur önnur þau mál sem hér hafa verið á dagskrá í dag og öll þau miklu tíðindi sem eru að gerast í okkar heimshluta og raunar um heim allan að við væntum.

Það er rík ástæða til þess fyrir mig kannski að þakka sérstaklega ummæli hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar því þó hann gleymdi Gorbatsjoff og Guðmundi mundi hann eftir Eykon. Ég held að það saki ekkert í háalvarlegri umræðu að vera með einhvern léttleika, eins og fram kom hjá hv. þm. Guðmundi G. Þórarinssyni. Ef við gleymum gleði lífsins og lífshamingjunni og getum ekki brosað bæði að sjálfum okkur og öðrum held ég að okkur sé æði hætt. Gaman sakar því ekki. En hér er svo sannarlega um okkar mikilvægustu málefni að ræða og þau hljótum við að ræða bæði úr þessum stól í vetur oft og mörgum sinnum og ekki síst í utanrmn. og auðvitað í utanrrn. Það hvílir auðvitað þung ábyrgð á þeim sem um þessi mál fjalla sérstaklega.

Svo vill til að fyrir réttum tveim vikum var haldin hér í borg ráðstefna um siglingaleiðir á norðurslóðum. Ég var beðinn að tala þar og þá varpaði ég fram þeirri hugmynd að um öll þessi mál, sem hér er verið að ræða nú, yrði haldin ráðstefna eða athugað um möguleika a ráðstefnu og þá gjarnan einmitt hér í Reykjavík þar sem fundarsköp yrðu ekki ósvipuð því sem var á hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna þar sem aldrei var um atkvæðagreiðslur að ræða heldur náðist samkomulag um öll málefni og aldrei greidd atkvæði fyrr en á lokadegi þegar örfáar þjóðir skárust úr leik. Þessi ráðstefna hefur verið nefnd mikilvægasta ráðstefna mannkynssögunnar einmitt vegna þess hvernig á málum var haldið þegar ákveðin voru lög á tvo þriðju allrar jarðarkringlunnar, þ.e. á öllum heimshöfunum. Hér er nú á ferðinni mál sem ekki er minna en þá var verið að fjalla um því það er um að tefla líf eða dauða. Þess vegna held ég að þessi hugmynd hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar falli mjög vel að því sem ýmsir aðrir hafa vakið máls á og við þurfum að ræða með hvaða hætti þetta eigi að bera að. Ég held nefnilega að það sé nokkuð til í því hjá Guðmundi G. Þórarinssyni að við eigum ekki a.m.k. að vera neitt stolt yfir því að við séum þannig staðsett að menn vilji hérna vera og við séum það litlir að hér sé hægt að umgangast án truflana. Við getum auðvitað verið stolt af því að það gerðist ekkert óvænt, ekkert óþægilegt á leiðtogafundinum og íslenska þjóðin öll var þar gestgjafar. Það var ákveðið að ræða engin séríslensk mál og það var skorað á þjóðina að vera sem fjærst fundarstað og trufla sem minnst. Hún gerði það. Ég held að það sé okkur til mikils hróss. En hitt er rétt að við eigum ekki að ímynda okkur að við séum orðin neinn miðdepill heimsins. Það erum við ekki. En við erum að sjálfsögðu reiðubúin til að taka á móti hverjum þeim gesti sem hér vill koma í friðsamlegum tilgangi til að ræða, ekki bara við okkur heldur ef einhverjir vilja ræða saman og hafa okkur sem fjærst, bara sem gestgjafa. Það gerum við að sjálfsögðu.

En það má gjarnan fara víðar yfir allan þennan sjóndeildarhring. Auðvitað hafa gífurlegir sigrar unnist í hafréttarmálunum og á þessum áratug og mestum hluta síðasta áratugar höfum við hvorki meira né minna en fært okkar landhelgi úr 12 mílum í 200 mílna efnahagslögsögu, við höfum unnið stórsigra í Jan Mayen málinu, við erum að vinna sigra yfir hafsbotninum suður í höfum með samvinnu við Dani, Færeyinga og væntanlega Breta alveg á næstunni og þar standa einmitt yfir rannsóknir. Við erum í samvinnu við Norðmenn og Dani um að friða hafsbotninn sem enn er opinn frá Jan Mayen landhelgi, íslenskri landhelgi og norskri landhelgi og grænlenskri þannig að norðurslóðum sé lokað með þeim hætti. Það ætti að geta gerst á mjög skömmum tíma. Og það var eitt af umræðuefnunum þegar varnarmálaráðherra Noregs var hér á ferð — það var ekki utanríkisráðherrann heldur varnarmálaráðherrann, en þeir starfa auðvitað mjög náið saman utanríkisráðherrann og varnarmálaráðherrann — að hraða fundum um þetta mál. Og þá er komið að því, sem flm. ræddi, að norðurslóðir ná kannski alla leið til Kanada og Kanadamenn eru að hugleiða og vinna að því að færa út sín landgrunnsmörk allt að 600 mílur að ég hygg. Um gífurlega mikil svæði er því að ræða. Þessar þjóðir eiga norðurhöfin, þær eiga Grænlandshaf, þær eiga Íslandshaf, þær eiga Noregshaf. Þetta er haf þjóða sem að þessum löndum liggja. Að því leyti til væri það ekkert óeðlilegt að slík ráðstefna yrði haldin einmitt í miðdepli þessa svæðis, þ.e. á Íslandi. Auðvitað verða þær fjölmargar ráðstefnurnar sem haldnar verða hér um friðun hafsins, um ræktun hafsins, um nýtingu hafsins o.s.frv. Við erum einmitt að búa þar í haginn með byggingu hótela, ráðstefnusala o.s.frv. og við verðum opnir til að veita gistingu öllum þeim sem hingað vilja koma án þess að miklast af því að við séum eitthvert stórveldi eða hyggjumst vera það.

Það er líka athyglisvert, og á því vakti ég máls við þennan sérstaka sendimann Gorbatsjoffs sem hér kom og ræddi m.a. við menn í utanrmn., að það væri íhugunarefni fyrir Rússa — hann er sagnfræðiprófessor — og hann hlustaði á það, og reyndar vakti ég máls á því líka á þeirri ráðstefnu sem ég nefndi áðan, að það hlýtur að vera mikilvægt fyrir Rússa, sem í aldaraðir hafa óttast innrás frá Vestur-Evrópu, að vita að slíkt er nánast óhugsandi héðan í frá. Evrópuþjóðirnar eru að renna saman í nánast eitt ríki. Það er verið að brjóta niður landamærin og það verður enginn grundvöllur lengur fyrir því að einhverjar tvær Evrópuþjóðir hefji styrjaldir, tvær eða fleiri, til að gæta ímyndaðra hagsmuna eða af þjóðarrembingi eins og svo oft hefur gerst áður. Oftar en ekki hafa þær styrjaldir sem síðan hafa hrjáð Ráðstjórnarríkin núverandi eða Rússa átt upptök sín einmitt í átökum í Vestur-Evrópu. Ég hygg að þetta hljóti að hafa áhrif á ráðamenn í Ráðstjórnarríkjunum og þeir hafa vafalaust velt fyrir sér hve breytt aðstaða er þarna fyrir hendi þegar þeir þurfa ekki lengur að óttast innrás eða hernaðarátök sem hefjist í Vestur-Evrópu en breiðist síðan út austur þar.

Við skulum gera okkur grein fyrir því að þróunin í þessum málum er svo ör að við vitum varla hvað gerist á morgun. Við sjáum ekki langt fram í framtíðina. Ef við lítum aftur á hafréttarmálin, að allt þetta skyldi gerast á þeim örskamma tíma sem raun bar vitni. Allt það sem við ræddum kannski hér í fyrra og vorum þá að hugleiða sjáum við í allt öðru ljósi nú. Við eigum að vera opnir fyrir öllum þeim hreyfingum og hræringum sem hér um ræðir. Ég ætla ekki, af því að liðið er á þennan fund, það er auðvitað óteljandi margt sem mér kemur í hug þegar við heyjum þessa umræðu, að draga hana á langinn. Það gefast önnur tækifæri til að hugleiða mál þessi öll sömul og þegar í næstu viku og á næstu vikum. Við skulum umfram allt gæta þess að reyna að sameina kraftana með svipuðum hætti og við gerðum 23. maí 1985. Eins og hæstv. utanrrh. vék að var þar Norður-Evrópa skilgreind sem allt svæðið frá Grænlandsströnd til Úralfjalla suður um Evrópusléttuna, suður um mitt Þýskaland eða svo. En það var ekki bara skilgreining framsögumanns utanrmn. Það var greinargerð sem hann flutti fyrir nefndina alla af hennar hálfu og sem allir nefndarmenn stóðu að og Alþingi í heild. Við skulum reyna á næstunni að starfa saman í þeim anda sem þá ríkti og hefur borið árangur. Menn hafa tekið eftir því að þetta svæði, ef það á að bera einhvern árangur og vera til einhvers gagns, verður að ná til hafsins, það verður að ná til loftsins og auðvitað landanna og það verður að vera a.m.k. suður um miðja Evrópu. Það er nú að ég hygg játað m.a. í þeirri að mörgu leyti mjög mikilvægu og merkilegu ræðu sem Gorbatsjoff flutti í Múrmansk.

Því er ekki að leyna að menn verða varir við að Suður-Evrópuþjóðir bera nokkurn ugg í brjósti ef okkur tekst, á nyrðra partinum í Evrópu, að losna við kjarnorkuvopnin, að þá séu þeir berskjaldaðir. Svona er þetta nú allt saman viðkvæmt. En við hljótum auðvitað að gæta okkar hagsmuna fyrst og síðast og beina allri okkar orku að því að friða höfin hér um kring. Ekki eingöngu vegna kjarnorkuhættu heldur líka að sjá til þess að óþrifnaður verði ekki liðinn á þessu hafsvæði, að við verðum ekki gerðir eða höfin okkar að einhvers konar sorptunnu eins og hafa verið tilhneigingar til eða byrjað að brenna eiturefni hér í staðinn fyrir á Norðursjó. Allt eru þetta málefni sem við þurfum að ræða og taka höndum saman um að hrinda í framkvæmd.

Ég fagna flutningi þessarar till. og þó að vafalaust megi breyta henni með einhverjum hætti eða allir sameinast um einhverja nýja till. þar sem rúmist þær hugmyndir sem ég hef sett fram t.d. og hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson og hv. flm. Við skulum einbeita okkur að þessum málum framar öllu öðru. Við erum að rífast hér um öll möguleg efnahagsmál og allt það sem er svo gamalt og slitið og alltaf koma nú gamlar og nýjar eða mest gamlar kenningar upp á yfirborðið aftur og aftur og aftur. Það er svo lítið mál út af fyrir sig hvort við tökum eina kollsteypuna til viðbótar eða hvort við náum fótfestu í efnahagsmálunum miðað við allt þetta, sem við erum að ræða hér, að við skulum sameinast í rannsókn á því, í endalausri umræðu okkar á milli, bæði hér og sérstaklega fyrir luktum dyrum þar sem menn geta sagt allt án þess að eiga á hættu að það verði snúið út úr því. Það er aðal utanrmn. frá upphafi að þaðan berst ekkert út. Þess vegna geta menn látið hugann reika og vakið upp hugmyndir sem kannski reynast svo þess eðlis að það mundi ekki vera neitt þægilegt að láta vitna í þær orðrétt seinna.

En það er liðið á fundartímann. Ég vildi aðeins koma hér upp til að lýsa stuðningi mínum við þá hugsun sem í þessu felst og við munum áreiðanlega ná saman um að gera það sem æskilegast verður talið á þeirri stundu, eins og ég sagði áðan á þeirri stundu, vegna þess að tíminn líður svo hratt, atburðirnir gerast svo hratt að það getur verið allt annað viðhorf komið upp kannski bara á morgun eða hinn daginn, að stórveldin sjálf ætli að boða til einhverrar slíkrar ráðstefnu. Þá verðum við opnir fyrir að taka á móti þeim ef þeir vilja vera hér og opnir til að styðja þá til að vera hvar sem er annars staðar. Öllu þessu þurfum við að vera opnir fyrir og ekki bíta okkur í neitt sérstakt.