07.01.1988
Efri deild: 51. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3832 í B-deild Alþingistíðinda. (2710)

181. mál, stjórn fiskveiða

Guðmundur Ágústsson:

Hæstv. forseti. Nú er þetta mál um stjórn fiskveiða eiginlega að lokum komið. Þetta mál hefur sætt þremur umræðum hér í Ed. fyrir jól og síðan þremur öðrum umræðum í Nd. Nú er komið að 7. umr. þessa frv. og hefur það því miður ekki hlotið þær breytingar sem a.m.k. við þm. Borgarafl. bundum vonir við að mundu verða á þessu frv.

Þær brtt. sem við settum fram voru ræddar við ýmsa þm. áður en þær voru settar á blað og virtust þær a.m.k. að einhverju leyti hafa hljómgrunn hjá þeim. En því miður hafa stjórnarliðar nú fellt þær allar. Þessar brtt., sem við þm. Borgarafl. lögðum fram, voru settar fram í þeim tilgangi að breyta því óstjórnarfrv. sem við teljum það frv. um stjórn fiskveiða, sem hér er til lokaumræðu, vera.

Þetta frv., sem hér er lagt fram af ríkisstjórninni eða sjútvrh., eins og kom fram í þingræðu í gær að það væri hans verk, felur í sér verulega takmörkun á athafnafrelsinu. Við erum að sjálfsögðu algjörlega á móti því þó svo að við þm. Borgarafl. viðurkennum það að stjórn þurfi að vera á fiskveiðum. Það er ekki aðeins það sem við höfum út á þetta frv. að setja, heldur einnig þær þverstæður sem eru í frv. og það óeðlilega mikla vald, framsal valds löggjafans til ráðherra til ákvörðunar um efnisatriði.

Þær brtt., sem ég minntist á hér áðan sem við þm. Borgarafl. lögðum fram og hafa verið felldar, eru einkum um það að takmarka þetta vald sem sjútvrh. hefur samkvæmt frv., að sett yrði á stofn samráðsnefnd sem skjóta megi til ágreiningsefnum er varða veiðileyfi, setningu reglugerðar o.fl. Þá yrði þessari nefnd falið að ákveða hvað veiða megi úr fiskistofnum og hún yrði umsagnaraðili um þær reglugerðir sem setja skal til framkvæmdar þessum lögum. Þetta hefur sem sagt allt verið fellt í meðförum bæði Ed. og Nd. og harma ég það mjög.

En það sem ég vildi segja við þessa lokaumræðu er einkum það að við stöndum ekki á neinn hátt að þessu frv. Við teljum stjórn fiskveiða með þessum hætti ekki fullnægja þeim kröfum sem lýðræðisríki gerir til þeirra verðmæta sem það hefur yfir að ráða. Við teljum að þegnarnir eigi að hafa meira frjálsræði og ekki eigi að takmarka heimildirnar við einstaka menn eða einstaka hagsmunahópa og þá helst þá hópa sem notið geti góðs af þessum lögum. Þetta vildi ég segja hér að lokum.

Ég vona svo sannarlega að þetta frv., þó svo það sé með öllum þessum annmörkum, eigi eftir að koma fyrir þingið áður en þau þrjú ár eru liðin sem gildistíma þessara laga er ætlað að vera og þá megi ræða nánar um þetta og á þann hátt að frjálsræðið verði meira.