07.01.1988
Efri deild: 51. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3853 í B-deild Alþingistíðinda. (2717)

181. mál, stjórn fiskveiða

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Tilefni þess að ég kveð mér hljóðs, ég skal reyna að vera stuttorður, eru ummæli hv. þm. Skúla Alexanderssonar varðandi fyrirvara Sjálfstfl. um gildistíma væntanlegra laga og raunar var þetta endurtekið af síðasta ræðumanni. Það er rétt að það voru fyrirvarar gerðir af hálfu Sjálfstfl. og sérstaklega um þetta atriði. En í frv. er nú talað um þriggja ára gildistíma. Í 21. gr. segir, með leyfi hæstv. forseta: „Lög þessi öðlast þegar gildi og gilda til 31. des. 1990.“

Því er stundum haldið fram að það sé nauðsynlegt að slík lög gildi í alllangan tíma, sumir segja helst fjögur ár, þannig að menn geti hagað sínum málefnum í samræmi við það að þeir hafi vissu fyrir því að lögin muni gilda þennan tíma, geti t.d. selt báta á uppsprengdu verði þannig að kaupandinn hafi vissu fyrir því að hann geti notað kvótann í svo og svo mörg ár. Þetta er alrangt. Það sem er verið að tala um í þessu efni er að lögin gildi ekki lengur en í þrjú ár. Ég óskaði þess að það væri alveg ljóst að þau giltu ekki lengur en í tvö ár og það var ósk Sjálfstfl. Auðvitað getur þetta þing og næsta þing og öll þing breytt þessum lögum, afnumið þau ef mönnum sýnist svo. Það er alveg nauðsynlegt að leiðrétta þennan misskilning, sem er jafnvel í röðum alþm., en hver einasti lögfræðingur veit að einn fundur í Alþingi getur ekki bundið næsta fund. Það er alveg ljóst. Breyttar aðstæður geta breytt sjónarmiðum manna. Við skulum segja að það yrðu kosningar fyrr en eftir þrjú ár og þá verði allt annað fólk hér að verulegu leyti. Hver ætti að gera þeim upp skoðanir þá? En það er ekki eingöngu þetta sem er athugavert við skilning manna, en þó nauðsynlegast að leiðrétta þennan skilning.

Og það eru ákvæðin til bráðabirgða. Það er talsvert við þau að athuga líka. Það segir, með leyfi forseta, í ákvæði I:

"Sjútvrh. skal skipa nefnd samkvæmt tilnefningu þingflokka og helstu hagsmunaaðila í sjávarútvegi til að undirbúa tillögur um fyrirkomulag fiskveiðistjórnar að loknum gildistíma laga þessara. Jafnframt skal nefndin móta tillögur til breytingar á lögum þessum á gildistíma þeirra eftir því sem tilefni verður til“ o.s.frv.

Þarna er skilningur á því að það megi breyta lögunum á meðan gildistími þeirra er og þar með auðvitað afnema þau.

Í ákvæði II segir: "Sjútvrh. skal í lok hvers árs setja reglugerð um meginþætti stjórnar botnfiskveiða á komandi ári og hafa um það samráð við sjávarútvegsnefndir Alþingis og samtök helstu hagsmunaaðila í sjávarútvegi.“

Þetta er auðvitað ekkert bráðabirgðaákvæði. Þetta ætti að vera paragraf. Þetta er auðvitað lagatæknilegt og ég er ekkert að fetta fingur út í það. Það hefði þá átt að gera það strax við 2. eða 3. umr. í hv. deild.

En aðalatriðið, sem er nauðsynlegt að undirstrika rækilega, er að það er ekki hægt að semja um nokkurn bát með neinni tryggingu fyrir kvóta í nein þrjú ár, ekki heldur eitt ár, ekki heldur einn mánuð ef út í það væri farið. Þá er það einn stærsti gallinn á þessu kvótafyrirkomulagi.

Menn hafa spurt mig að því hvort ég hafi breytt um skoðun frá því fyrir fjórum árum. Það hef ég ekki gert. En ég fellst á það, sem hv. þm. Eiður Guðnason sagði, að það er ekki meiri hluti fyrir neinni annarri skipan en þessari nú og það var heldur ekki fyrir fjórum árum. Við töldum að með öðrum hætti væri eðlilegra að takmarka sókn í stofnana eins og er markmiðið og hæstv. sjútvrh. lagði áherslu á áðan. Það er auðvitað hægt að takmarka sókn með allt öðrum hætti, með einfaldari og almennari hætti en þessum, þó að það væri ekki annað en hreinlega fækka sóknardögunum. Við vitum að um alllangt skeið hafa verið takmarkanir, svokallaðir skrapdagar t.d. á sínum tíma. Við höfum of stóran flota. Það er hægt með tvennum hætti að ná markmiðunum. T.d. með þeim hætti að dagarnir sem hver fleyta má vera á sjó verði miklu færri en þeir í rauninni eru eða hafa einhvern auðlindaskatt á einhverjum hluta aflans og nota t.d. þá peninga til að úrelda skip til að minnka flotann. Þetta eru allt álitaefni og ég ætla ekkert að fara að ræða það frekar núna. Ég flutti um þetta nokkrar ræður hér fyrir fjórum árum. Menn geta lesið þær. Mínar skoðanir hafa ekkert breyst. Mér er alveg ljóst að það er ekki möguleiki á að koma fram öðrum lögum en eitthvað í þessum dúrnum nú og stjórn verður að hafa á fiskveiðunum. Það er öllum ljóst. Það er óumdeilanlegt. Allir eru um það sammála. Þess vegna, alveg eins og fyrir fjórum árum, greiddi ég atkvæði með frv. þó að ég héldi að önnur skipan væri heppilegri. Ég lagði að vísu ekkert afl í atkvæðagreiðsluna. Formaður sjútvn. þá, góður vinur okkar, sat vinstra megin við mig og ég sagði honum að hann mætti lyfta upp vinstri hendinni minni en ég legði ekkert afl til þess. Ég hef síðan hér í deildinni greitt atkvæði með frv. af þeirri ástæðu að það er þó skárra að hafa þessa stjórn en enga, það er alveg ljóst, og mun gera það áfram.

En enn og aftur: Menn mega ekki halda fram þeirri villu að það sé verið að tala um að þessi lög skuli gilda í þrjú ár. Það er enginn sem getur tryggt það og menn verða að vita það. (SvG: Það stendur nú í frv.) Gildistíminn þýðir eingöngu að þau skuli falla þá úr gildi, en þetta þing getur í næstu viku breytt þessum lögum og næsta þing. (Forseti: Sólarlag.) Þetta er sólarlag, alveg rétt, sólarlagsákvæði. Þess vegna er ekki hægt að tryggja mönnum að þeir geti grætt á því að selja kvóta í eitt ár, tvö ár eða þrjú. (KP: Það er það sem er verið að gera.) Það er verið að gera það. Fólki er talin trú um það. Það er ekki einn einasti lögfræðingur sem ekki skilur þetta. Alþingi getur breytt þeim lögum sem í gildi eru hvenær sem er. Það verða menn að vita. Þess vegna er frv. ekki nærri því eins hættulegt og það væri ella. Einmitt þess vegna greiði ég atkvæði með því.