22.10.1987
Sameinað þing: 7. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 341 í B-deild Alþingistíðinda. (272)

27. mál, ráðstefna í Reykjavík um afvopnun á norðurhöfum

Flm. (Ólafur Ragnar Grímsson):

Herra forseti. Ég þakka þær góðu undirtektir sem þessi till. hefur fengið og þann opna hug og góðan vilja sem fram hefur komið hjá öllum þeim hv. ræðumönnum sem um till. hafa fjallað. Ég greindi frá því í minni framsöguræðu að ég hefði reynt að nálgast þetta mál með þeim hætti að till. ætti að geta skapað grundvöll að sameiginlegum umræðum þings og ríkisstjórnar um þetta viðfangsefni og þær umræður leiddu síðan til þess að skýr og afdráttarlaus vilji þjóðarinnar gæti myndast í þessu stóra viðfangsefni. Ég vék að því í minni framsöguræðu, og það hefur reyndar komið fram einnig hjá einstökum ræðumönnum, að sá tími sem er að renna upp núna er ærið afdrifaríkur hvað snertir ákvarðanir um næstu dagskrár og viðfangsefni í viðræðum á alþjóðavettvangi um þessi efni. Eins og ég sagði áðan kennir reynslan okkur að slík augnablik koma, þau geta farið fljótt aftur og þá getur reynst nánast óvinnandi verk að koma brýnum hagsmunamálum eða nýjum áherslum á dagskrá ef menn hafa orðið of seinir þegar opnunin varð. Þess vegna vil ég beina því til hæstv. utanrrh. að hann íhugi að hafa þær umræður, sem hér hafa orðið, sem hluta af sínu vegarnesti í viðræðum sem hann á á næstu vikum og mánuðum og á fundum sem hann kemur til með að sitja vegna þess að ég held að það hljóti að veita honum ákveðinn styrk að geta greint frá því að Alþingi Íslendinga sé einmitt að ræða með hvaða hætti Íslendingar geti stuðlað að því að umræður um afvopnun á höfunum og takmarkanir á umferð kjarnorkukafbáta og kjarnorkuknúinna skipa eigi sér stað á hafsvæðunum í kringum Ísland.

Þess vegna held ég að tillöguflutningurinn einn og sér og umræðan í utanrmn. um hann geti þegar gefið hæstv. utanrrh. það vegarnesti að byrja verkið strax, að ýta fram á hinni alþjóðlegu dagskrá þeirri íslensku kröfu að afvopnunin á höfunum verði sett fremst á viðfangsefnaskrána en ekki aftast. Það er alveg ljóst, þó að ekki hafi verið komið inn á það hér, að sterk hagsmunaöfl á meginlandi Evrópu, ríkisstjórnir og aðrir aðilar, hafa beinlínis mótað vilja og stefnu um að reyna að flytja kjarnorkuvígbúnaðinn í ríkari mæli út í höfin. Þess vegna vona ég að þessi till. geti orðið til þess að hæstv. utanrrh. hefji strax að vekja athygli á þessum áherslum, jafnvel á þeim fundi sem hann greindi frá fyrr í dag að hann mundi sækja innan fáeinna daga þegar Shultz kemur til þess að greina frá því innan Atlantshafsbandalagsins hver hafi orðið niðurstaðan í viðræðum hans við Sjevarnadze vegna þess að margt bendir til að í þeim viðræðum sé einnig verið að fást við það hver eigi að vera dagskrárefnin í viðræðum stórveldanna á næstu árum. Það er ekki aðeins verið að ræða samninga sem ljúka á á næstu mánuðum heldur dagskrárefnin á næstu árum. Ég held þess vegna að meðferð Alþingis um málið sjálft geti verið upphafsskrefið í að veita það aðhald og viðspyrnu sem nauðsynleg er.

Í öðru lagi, vegna fsp. hæstv. utanrrh. um hver hugsunin væri í orðalagi 1. mgr., að ráðstefnan ætti að fjalla um hvernig komið verði á viðræðum, vek ég athygli á að orðalagið er „hvernig komið verði á formlegum samningaviðræðum“. Því miður held ég að málin séu þannig að við hefðum ekki mátt til að boða hér til ráðstefnu þar sem samningaviðræðurnar sjálfar ættu að hefjast, það sé ekki í okkar valdi því miður, og þess vegna sé það raunsæi af okkar hálfu að ætla okkur ekki stærra verk en það að knýja á um að hinar formlegu samningaviðræður hæfust. Næðist sá árangur, þó ekki væri annað, væri það veigamikil þáttaskil. Þess vegna er þessi till. af ráðnum huga orðuð á þennan veg. Ekki vegna þess að ég telji að það að tala um viðræður sé það eina sem eigi að gera og skilji vel viðvörunarorð hæstv. utanrrh. að hætta er á því á alþjóðavettvangi að menn ræði þá endalaust um það viðfangsefni heldur einfaldlega vegna þess að ég hef sannfæringu fyrir því að ef við ætlum að láta taka okkur trúanlega og alvarlega í þessari viðleitni okkar megum við ekki í upphafi ætla okkur um of. Ef ég hefði orðað þessa till. á þá leið að við ættum að boða til ráðstefnu um samningana sjálfa og hefja samningana hér hefði ég talið að slíkt væri nánast áróðurstillaga, ef ég má orða það svo, en væri ekki byggð á raunsæju mati á því hvað væri gerlegt.

Þess vegna eru líka ýmsar aðrar málsgr. síðar í till., t.d. sú sem fjallar um að fela utanrrh. að eiga formlegar undirbúningsviðræður við fulltrúa stjórnvalda, einnig orðaðar í þessum anda. Og enn fremur sú málsgr. sem kveður á um vinnu utanrrn., utanrmn., Öryggismálanefndar og Háskóla Íslands að þessu verkefni.

Það er alveg rétt sem hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson vék hér að að það vinnulag sem notað var á hafréttarráðstefnunni er einhver merkilegasta samningaaðferð sem beitt hefur verið í alþjóðasamskiptum á undanförnum áratugum og hún skilaði miklum árangri. Og það er e.t.v. ánægjulegt fyrir hv. þm., sem er mikill áhugamaður um hafréttarráðstefnuna, að á öðrum vettvangi hef ég heyrt færustu fræðimenn og virta stjórnmálamenn setja fram hugmyndir um að sú samningaaðferð yrði einmitt notuð til þess að koma á víðtækum alþjóðlegum samningum um nýtt öryggiskerfi í heiminum vegna þess að enginn væri þá skuldbundinn á hverju stigi við þann texta sem væri verið að tala um heldur hefðu allir opnar leiðir og hægt væri að vinna að hinu stóra verkefni án þess að ríkisstjórnir væru knúnar í hverjum áfanga til að taka afstöðu til einstakra málsgreina. Í 3. lið þess verkefnis sem hér er rætt um, um skipulag slíkra samningaviðræðna, þá var einmitt m.a. sú hugsun sett fram vegna þess hve málið er erfitt og flókið að þar gæti viðræðulíkanið frá hafréttarráðstefnunni vissulega orðið eitt af þeim viðfangsefnum sem menn ræddu um hvort ætti að nota.

Varðandi þá athugasemd að ég hafi gleymt till. hv. þm. Guðmundar G. Þórarinssonar og ræðu Gorbatsjoffs þá skal ég játa að það er kannski svo langt um liðið, sjö ár, að þó að sú tillaga hafi verið mér í huga þá lagði ég ekki á mig þá vinnu, sem vissulega hefði verið réttlætanlegt að gera, að skoða hana. Kannski vegna þess að hún fékk því miður ekki mikinn hljómgrunn á sínum tíma. Hún vakti nokkra athygli um smástund, en náði því einhvern veginn ekki að verða viðspyrna til áframhaldandi verka.

Varðandi Gorbatsjoff hins vegar þá held ég að það sé ekki skynsamlegt af hálfu okkar Íslendinga að byggja slíka viðleitni okkar um of á tillögugerð Gorbatsjoffs, með allri virðingu fyrir þeim hugmyndum sem hann setur fram. Þær eru vissulega athyglisverðar en það á algjörlega eftir að reyna á það hvaða alvara eða hvaða raunverulegur vilji hvílir þar að baki. Þess vegna kaus ég það af ráðnum huga að víkja aðeins lauslega að því einni setningu í greinargerð en gera það ekki að neinum máttarstólpa í þessari tillögugerð. Við getum ekki byggt þetta mál okkar á slíkum yfirlýsingum Sovétríkjanna. Þær geta verið tímabundnar. Það geta aðrar yfirlýsingar verið komnar frá þeim eftir nokkra mánuði. Þeir hafa dregið til baka ýmsar fyrri yfirlýsingar og komið með nýjar. Stefnuafstaða þeirra hefur sveiflast til og frá. Ég tel heldur ekki að það sé skynsamlegt af okkar hálfu að flytja málið með þeim hætti. Það er að vísu ágætt að yfirlýsing hans (Gorbatsjoffs) hefur komið fram, en ég tel hana ekki vera neinn meginþátt í þessu máli.

Herra forseti. Það er einnig rétt að í þeirri stuttu greinargerð sem fylgir till. má finna setningar sem e.t.v. virka við fyrstu sýn misvísandi hvað snertir það að skilja á milli kjarnorkuvígbúnaðar og síðan kjarnorku til að knýja skip. Staðreyndin er hins vegar sú að allur þorri þeirra skipa í höfunum í kring, sem knúin eru kjarnorku, er hlekkur í kjarnorkuvígbúnaðarkerfinu. Þannig að ef menn sameinast um það að draga úr og síðan útrýma kjarnorkuvígbúnaði í höfunum þá væri tilgangurinn fyrir þessi dýru skip og þessa dýru útgerð ekki lengur fyrir hendi. Ég hef hins vegar ekki trú á því að menn næðu í upphafi neinum vilja frá öðrum ríkjum sem byggt hafa kjarnorkuknúin skip sem ekki bera kjarnorkuvopn til þess að banna siglingu þeirra í upphafi og það væri tiltölulega auðvelt fyrir þá sem vilja hamla gegn kjarnorkuvígbúnaðartakmörkununum að láta umræðuna snúast of mikið um þann þáttinn þó að ég geri mér fyllilega grein fyrir að efnislega er það alveg rétt ábending að við ættum að vera með hann ofarlega vegna þeirrar hættu sem lífríki sjávar og fiskistofna stafar af því. En slíkt mundi tengjast fyrri deilum frá hafréttarráðstefnunni um alþjóðlegar siglingaleiðir, um rétt til þess að halda úti útgerð af því tagi og yrði miklu erfiðara viðfangsefni. Aftur á móti er vígbúnaðurinn skýrt afmarkaður og ef okkur tækist að ná þeim árangri væri í raun og veru búið að taka grundvöllinn undan meginhlutanum af þeirri kjarnorkukafbátaútgerð eða útgerð flugmóðurskipa, sem eru með flugvélar sem borið geta kjarnorkuvopn eða með stýriflaugar, á höfunum hér í kring.

Herra forseti. Það var einnig sagt hér að það gæti verið hæpið fyrir Ísland að verða aðsetur slíkra samningaviðræðna vegna þess að við mundum þá eingöngu hafa hlutverk gestgjafans en gætum ekki tekið virkan þátt í efnismeðferð. Ég er alveg sammála því að ef málið væri þannig vaxið þá væri okkar verkefni fyrst og fremst að koma slíkri ráðstefnu á en ekki bjóða Ísland sem aðsetursstað. Ég held hins vegar að reynslan af Stokkhólmsráðstefnunni og Helsinkiráðstefnunni sýni að ríkisstjórnir Finnlands og Svíþjóðar höfðu bæði beint og óbeint bak við tjöldin og með formlegum hætti veruleg afskipti af því að árangur náðist á báðum þessum ráðstefnum vegna þess að gestgjafaríkisstjórnin skuldbatt sig pólitískt til að stuðla að því að árangur næðist. Svissneska ríkisstjórnin hefur hins vegar haft allt aðra afstöðu gagnvart afvopnunarviðræðunum sem verið hafa í Genf. Það hefur nánast eingöngu verið afstaða hótelhaldarans. En það gegndi öðru máli um Svía og Finna varðandi ráðstefnurnar í Stokkhólmi og Helsinki.

Herra forseti. Ég vil endurtaka þakkir mínar fyrir þá umræðu sem hér hefur orðið og ítreka það sem ég sagði í upphafi að á næstu mánuðum kann að ráðast hver verða dagskrárefnin í vígbúnaðarviðræðunum það sem eftir er af þessum áratug og fyrri hluta þess næsta. Það er mjög mikilvægt að Íslendingar sýni þar eins og við gerðum á hafréttarráðstefnunni að við getum verið verulega mótandi um það hver dagskrárefnin verða. Þessi till. er flutt í þeim tilgangi að reyna að skapa hér samstöðu þjóðar og þings og ríkisstjórnar um slík markmið okkar Íslendinga líkt og okkur tókst á tímum hafréttarráðstefnunnar að ná verulegum árangri af því að við stóðum saman um þau markmið.