11.01.1988
Neðri deild: 50. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3881 í B-deild Alþingistíðinda. (2726)

194. mál, verkaskipting ríkis og sveitarfélaga

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég get út af fyrir sig tekið undir næstum hvert orð sem hv. 6. þm. Suðurl. hefur sagt í ítarlegri ræðu sinni nú og ég mun því ekki endurtaka það sem hann hefur sagt nema að því leyti sem e.t.v. óhjákvæmilegt er. En ég hyggst víkja að í fyrstu hinum nýju ákvæðum um dagvistarstofnanir og gera þeim nokkur skil.

Fyrst vil ég þó segja það, herra forseti, að hvað eftir annað hefur sú gagnrýni komið fram í sölum Alþingis að lög eins og þetta frv. gerir ráð fyrir, þ.e. svokallaðir bandormar, þyki vond lagasetning þar sem saman eru settar í eitt lagafrv. stórfelldar breytingar á stórum lagabálkum sem hafa verið settir eftir ítarlegar umræður um efni, eðli og innihald þeirra lagabálka. Þetta er afleit lagasetning og ætti aldrei að eiga sér stað. Þetta vil ég segja fyrst.

Hvernig staðið hefur svo verið að afgreiðslu frv. er auðvitað með hreinum ólíkindum, því að eins og hér hefur komið fram, svo ég vitni strax þrátt fyrir gefin loforð í mál hv. 6. þm. Suðurl., hlýtur það að teljast með ólíkindum að sveitarfélög landsins og sveitarstjórnir skuli ekki hafa haft tækifæri til að fá frv. til umsagnar, frv. sem bókstaflega gerbreytir anda fjölda lagabálka sem hér hafa verið settir eftir ítarlega umfjöllun.

Það vill svo til að þegar lög eru sett um einstaka málaflokka er venjan að að baki þeim lagabálkum sé að finna ákveðnar hugmyndir, ákveðna hugmyndafræði, ákveðin markmið. Í öllum þessum tilvikum er um að ræða lög sem varða margumtalað jafnrétti allra byggðarlaga í landinu. Hingað til hefur verið talið að berjast ætti fyrir jafnrétti til menntunar, til uppeldis, til aðgangs að menningarstofnunum, svo að eitthvað sé nefnt. Hér er hent fram heldur illa tilbúnu frv. um gerbreytingar á þessum mikilvægu málaflokkum og er varla hægt að segja að þessar breytingar séu skýrðar svo nokkur mynd sé á og ætlast til að við afgreiðum þetta á örfáum dögum. Ég vara við slíkum vinnubrögðum á hinu háa Alþingi. Ég ætla því í upphafi máls míns að vísa strax í bálkinn um breytingu á lögum um byggingu og rekstur dagvistarstofnana.

Svo vill til að fyrir einungis sex árum var samþykkt breyting á 1. gr. laga um byggingu og rekstur dagvistarheimila fyrir börn nr. 112/1976 og til viðbótar við 1. gr. kom grein sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Gerð verði starfsáætlun á vegum menntmrn. er kveði nánar á um markmið og leiðir í uppeldisstarfi á dagvistarheimilum í samráði við þá aðila er að uppeldis- og skólamálum vinna.“

Ég var sjálf 1. flm. þessa frv. en meðflm. mínir voru m.a. hv. þm. úr röðum núv. ríkisstjórnar. Í kjölfar þessa var sett á laggirnar nefnd sem vinna skyldi uppeldisáætlun fyrir dagvistarheimili, markmið og leiðir. Í þessari nefnd áttu sæti, með leyfi forseta, allir helstu uppeldisfrömuðir í landinu, m.a. frú Valborg Sigurðardóttir, skólastjóri Fósturskóla Íslands, svo að það var vandað til þessa verks. Í nefndinni áttu að öðru leyti sæti Arna Jónsdóttir fóstra samkvæmt tilnefningu stjórnarnefndar dagvistarheimila Reykjavíkurborgar, Elín Edda Árnadóttir, nemandi Myndlista- og handíðaskóla Íslands, samkvæmt tilnefningu samtaka foreldrafélaga um dagvistarheimili, Elín G. Ólafsdóttir kennari samkvæmt tilnefningu Kennarasambands Íslands, Ingibjörg G. Guðmundsdóttir félagsfræðingur samkvæmt tilnefningu félagsmálaráðs Hafnarfjarðar, Kristjana Stefánsdóttir dagvistarfulltrúi samkvæmt tilnefningu Félagsmálastofnunar Kópavogs, Margrét Pála Ólafsdóttir fóstra samkvæmt tilnefningu stjórnar Fóstrufélags Íslands, Sigríður M. Jóhannsdóttir dagvistarfulltrúi og til vara Jón Björnsson sálfræðingur samkvæmt tilnefningu Félagsmálastofnunar Akureyrar, Svandís Skúladóttir, fulltrúi í menntmrn., sem veitti nefndinni forstöðu.

Hvað lá að baki þessa mikla verks? Það var talið að samræma þyrfti uppeldisskilyrði íslenskra barna og samræma þau undirbúningi að grunnskólakennslu og grunnskólanámi. Þetta mikla rit var svo kynnt árið 1984 að mig minnir. Á ráðstefnu sem haldin var hér í borg kom fram víðtækur áhugi allra þeirra fjölmörgu eða 200 manns, sem þessa ráðstefnu sátu og áhuga hafa á uppeldismálum og málefnum barna almennt, á breyttum viðhorfum í breyttu þjóðfélagi, auknu mikilvægi forskólakennslu og auknu mikilvægi grunnskólakennslu. Hér er svo hins vegar farið að eins og þetta verk hafi aldrei verið unnið. Hér á rétt eins og hendi sé veifað að fá það í hendur sérhverju sveitarfélagi að hafa svo til öll ráð um rekstur og byggingu dagvistarheimila. Ég held þess vegna, herra forseti, þó að hæstv. viðkomandi ráðherra láti hvergi sjá sig, hvað þá að talað sé um aðra hæstv. ráðherra, að ég verði að fá leyfi forseta til að lesa úr inngangi að þessari skýrslu sem skýrir hvað var verið að gera:

„Með aukinni iðnvæðingu og borgarmyndun fjölgar hröðum skrefum fjölskyldum sem búa í borgum og öðrum þéttbýliskjörnum þar sem atvinnuframboð er mest. Hér á landi búa 20% landsmanna í dreifbýli en 80% í þéttbýli. Þessu var öfugt farið fyrir 50 árum. Breyting á búsetu barnafjölskyldunnar og uppeldisskilyrðum þeim sem börnum eru búin í nútímaþjóðfélagi er því gífurleg. Borgarfjölskyldan býr oft við þröngan húsakost og misgóð lífskjör. Aðstaða til leikja innan húss er því oft af skornum skammti. Utan dyra er lítil sem engin aðstaða til útiveru og ekkert öryggi. Geigvænleg hætta af umferðinni blasir hvarvetna við.

Við þetta bætist skortur á eðlilegum viðfangsefnum sem geta veitt börnum margvíslega þjálfun og eflt sjálfstraust þeirra og ábyrgðarkennd. Tæplega verður sú þversögn hrakin að í þéttbýli verði mest hætta á félagslegri einangrun manna. Lítil börn í borgarsamfélagi fara ekki varhluta af þeirri einangrun, einkum þau sem engin systkini eiga. Barneignum fækkar, fjölskyldan verður æ fámennari og meira úr tengslum við aðra ættingja. Á þetta einnig í vaxandi mæli við um fjölskylduna í dreifbýli.

Kjarnafjölskyldan er talin einkennandi fyrir fjölskyldugerð nútímaþjóðfélags. Hin dæmigerða stórfjölskylda er á undanhaldi ef ekki horfin með öllu.

Enda þótt fjölskyldan hafi misst flest þeirra fjölskylduhlutverka sem stórfjölskyldan gegndi í bændasamfélagi fyrri tíma gegnir hún enn veigamiklu hlutverki. Kjarnafjölskyldan er fyrst og fremst tengd nánum tilfinningaböndum. Það er styrkur hennar og veikleiki. Hún er griðastaður einstaklinganna, foreldra og barna og þarf að vera þess megnug að fullnægja þörfum þeirra fyrir náin tilfinningatengsl, ást og öryggi. Mikilsvert er því að gefa gaum að fjölskyldunni sem tilfinninga- og félagsmótandi afli í uppeldi barna og að gera sér grein fyrir því hvernig hún er í stakk búin til að anna því hlutverki. Óstöðugleiki kjarnafjölskyldunnar er meiri en svo að unnt sé að loka augunum fyrir honum. Hjónaskilnaðartalan vex hröðum skrefum, barnsfæðingum utan hjónabands eða utan sambúðar foreldra fjölgar, einstæðir foreldrar verða hlutfallslega æ fleiri.

Fleira kemur til sem raskað hefur hefðbundnu mynstri fjölskyldunnar. Konan hefur til skamms tíma borið meginábyrgð á uppeldi barnanna innan vébanda heimilisins, en breytt staða konunnar í nútímaþjóðfélagi og aukin þátttaka hennar í atvinnulífinu hefur bein áhrif á stöðu móðurinnar sem foreldris. Raskar það hefðbundinni fjölskyldugerð og hefur afdrifarík áhrif á uppeldisskilyrði barnanna.

Í anda jafnréttis fer í vöxt að báðir foreldrar taki þátt í atvinnulífinu, einnig meðan börnin eru enn í bernsku. Jafnrétti til starfa er lögum samkvæmt í flestum menningarlöndum, þar á meðal á Íslandi, sbr. lög um jafnrétti kvenna og karla nr. 74 frá 1976. Því má ekki gleyma. Þjóðfélagið verður að taka þeim afleiðingum af raunsæi með heill fjölskyldunnar að leiðarljósi.

Á tiltölulega skömmum tíma hafa orðið miklar og örar breytingar á lífsháttum manna í hinum vestræna heimi sem hafa geigvænleg og afdrifarík áhrif á uppeldisaðstæður barna. Bitnar þessi þróun mest á ungum börnum ef ekkert er að gert. Engum eru þó ljósari afleiðingar þessarar félagslegu þróunar en hugsandi foreldrum. Aukin almenn menntun gerir það að verkum að foreldrar eru yfirleitt betur upplýstir um mikilvægi barnauppeldis og uppvaxtarskilyrða barna en nokkru sinni fyrr. Þeir eru einnig mjög móttækilegir fyrir þekkingu á því sviði, enda slíkur fróðleikur meiri og aðgengilegri en áður í gegnum bækur, blöð og aðra fjölmiðla. Foreldrar ungra barna í dag óska eftir uppeldisaðstoð til handa börnum sínum og þurfa á henni að halda. Fjölskyldan sem griðastaður og uppeldisathvarf barna stendur mjög höllum fæti. Staða fjölskyldunnar er mjög alvarleg og gefur fullt tilefni til aðgerða henni til styrktar og verndar. Meðal raunhæfra og viðeigandi aðgerða er fjölgun dagvistarheimila sem veita börnum markvisst uppeldi í samræmi við þroska þeirra og þarfir“, og lýkur þá tilvitnun minni, herra forseti.

Ég held að hér sé komin fram mjög afgerandi stefnumótun um hvað dagvistarheimili eiga í raun og veru að vera og hvaða gildi slíkar stofnanir hafa. Hvað er svo verið að gera hér? Með frv., ef að lögum verður, er verið að kasta því algerlega í hendur ólíkra sveitarstjórna að vinna að þessum markmiðum. Getur það talist eðlilegt, ef dagvistarstofnanir eiga að vera áfangi í almennri grunnskólamenntun barna, að einstök sveitarfélög eigi þar að ráða lögum og lofum? Eins og hv. 6. þm. Suðurl. sagði áðan er þetta frv. svo illa unnið að þar rekst hvað á annars horn.

1. gr. laga um byggingu og rekstur dagvistarheimila er að vísu látin standa til málamynda, en síðan er gert ráð fyrir að fella niður 9., 10., 11., 12., 13. og 14. gr. núgildandi laga. Í 11. gr. stendur t.d. að ráðuneytið eigi með reglugerð að setja ákvæði um húsakost dagvistarheimila, stærðareiningar, húsrými á barn, barnafjölda á deild, fjölda starfsliðs hverrar deildar svo og ákvæði um útivistarsvæði og innri gerð. Það segir hins vegar ekkert um annað en ráðuneytið eigi að annast þessi atriði, en það verður ekki séð að það eigi á nokkurn hátt að hafa eftirlit með markmiðum og leiðum sem mótaðar hafa verið fyrir starfsemi dagvistarstofnana. Ég sé því ekki annað en hv. þm. ætli með einum svokölluðum bandormi, sem menn áreiðanlega hafa farið mismunandi vandlega yfir, að snúa frá öllu því sem fram kemur í þessari skýrslu eða uppeldisáætlun fyrir dagvistarheimili. Þá hlýtur maður að spyrja: Hvað í ósköpunum var verið að gera hér fyrir fimm árum þegar þessi lög voru samþykkt og þessi mikla vinna látin fara fram sem var þriggja ára starf fjölda þeirra manna sem með uppeldismál fara í þjóðfélaginu? Alls staðar annars staðar á Norðurlöndum t.d. verður háværari umræða um málefni barna og aðstöðu barna í þessum svokölluðu velferðarþjóðfélögum okkar. Eftir nýafgreidd skattalög batnar staða fjölskyldunnar varla eins og ég hygg að þeir hafi þegar gert sér ljóst sem hafa farið í verslun til að kaupa í mat á þessum allra síðustu dögum og þarf ekki vitnanna við að þar er ekki unnið í þágu fjölskyldunnar nema síður sé. Ég geri ráð fyrir að fólk eða þjóðin öll eigi eftir að horfast í augu við það sem nú er búið að setja á herðar henni.

Herra forseti. Það má fara á þennan hátt í gegnum alla kafla frv. Hið sama gildir um breytingu á lögum um málefni fatlaðra sem voru sett árið 1983 eftir langa baráttu og þá ekki síst vinstri flokkanna í landinu. Öllum er ljóst að síðan þau lög voru sett hefur orðið hraðari uppbygging stofnana til aðstoðar við fatlaða á allan hátt. Þessi mál hafa tekið stökkbreytingu. Svo er nú komið að fólk er hætt að vera tilneytt til að flytja úr hinum ýmsu byggðum landsins suður til Reykjavíkur til að fá einhverja þjónustu fyrir fötluð börn sín. En hér þarf ekki langar umræður eða miklar til að breyta hlutunum.

Svo margir hafa talað um félagsheimili að ég held að ég láti það nægja sem komið hefur fram í sal hv. Nd. um þau mál. En þarna ber allt að sama brunni. Við skulum vera minnug þess að eitt sinn var tekin af ríkinu sú skylda að annast uppbyggingu og rekstur almenningsbókasafna. Við getum farið um landið og séð hvernig smæstu byggðarlögin hafa farið út úr þeim lögum. Það eru dæmi til að tvær bækur hafi verið keyptar til bókasafns á einu ári. Svo geta menn talað um jafnrétti í svo sjálfsögðum þætti mannlegs lífs að eiga aðgang að sæmilegum bókakosti.

Síðan komum við að kaflanum um tónlistarskólana. Ég hefði átt von á að sú tíð væri löngu, löngu upp runnin að menn gerðu sér ljóst að tónlistaruppeldi er jafnsnar þáttur í uppeldi barna og það að læra að lesa, enda hefur sýnt sig að sá fjöldi barna sem iðkar tónlistarnám fer sívaxandi og meðal allra siðmenntaðra þjóða er það talinn eðlilegur liður í uppeldi hvers barns. Ég hefði talið að sú breyting sem við ættum eftir að sjá á þeim málum væri að tónlistarnám yrði sett inn í grunnskólana, því það hefur ekki farið fram hjá neinu foreldri að það eru ekki allir foreldrar sem hafa efni á að leyfa börnum sínum að njóta þessa sjálfsagða uppeldisþáttar. A.m.k. hér í Reykjavík kostar einfaldlega milli 20 og 30 þús. yfir veturinn að hafa barn í tónlistarskóla og ég tel fráleitt að allir hafi efni á því. Ég get a.m.k. ekki séð hvernig einstæðir láglaunaforeldrar fara að því að leysa þá fjárhæð af hendi. En nú á að bæta enn um betur og treysta einstökum sveitarfélögum til að taka við rekstri þessara stofnana.

Hvað ætla menn að gera ef þau bregðast? Telja hv. þm. að með þessu sé verið að vinna að jafnrétti þegnanna? Ætli það hafi ekki verið þó nokkur barátta að fá slíka kennslu heim í byggðarlögin með þátttöku ríkisins? Og menn geta spurt, sem kunnugir eru utan Reykjavíkur en ég er, hvort þeir treysti því að alls staðar verði séð fyrir þessum þætti í uppeldi barna og uppeldi allra og afþreyingu og ánægju þeirra sem slíka menntun kjósa.

Og langt er nú seilst þegar til stendur að taka af byggðasöfnunum þá smávægilegu styrki sem þau hafa notið. Ég vil enn og aftur taka undir með hv. 6. þm. Suðurl. að byggðasafn gegnir menningarlegu hlutverki. Það er þáttur í sögukennslu, kennslu um það þjóðfélag sem við lifum í. Börn og unglingar þurfa að eiga aðgang að slíkum söfnum, sjá þau áhöld sem unnið var með, kynnast atvinnusögu þjóðarinnar í hinum ýmsu byggðum sem ekki var alls staðar eins. Hver byggð á sína sögu og börn í þeim byggðarlögum og öðrum eiga að eiga aðgang að henni. En nú stendur til að kippa bókstaflega fótunum undan þessum stofnunum.

Herra forseti. Mér er ljóst að nú nálgast tími til þingflokksfunda. X. kafli frv. er fyrir mér óskiljanlegur með öllu. Það eina sem ég get gert mér grein fyrir er að nú skal starfrækja tvær deildir auk almennra deilda. Hvernig hlutverki þessara þriggja deilda hverrar um sig er varið er látið liggja heldur óljóst. Fjármagn er þess utan að sjálfsögðu engan veginn tryggt til þess að þarna verði að staðið sem menn hafa talað fjálglega um. Ég tel því, herra forseti, að hér sé stigið eitthvert stærsta skref aftur á bak í baráttunni fyrir jafnrétti allra Íslendinga og allra byggða landsins þannig að það vekur mér furðu að menn skuli þora að sýna þetta frv. í þingsölum.

Hv. Alþingi hafa að sjálfsögðu borist mótmæli frá ýmsum hópum, áhugamönnum um listir og menningu, áhugamönnum um dagvistarmál og ótal öðrum. Á þetta fólk er ekkert hlustað og eins og áður hefur verið sagt, ekki einu sinni sveitarstjórnirnar sjálfar.

Það kom líka fram áðan að langflestir sveitarstjórnarmenn sem ég hef talað við halda að hér sé unnið að fullu í samræmi við þær tillögur sem út voru gefnar á sl. vori. Síðan berst bréf frá Jóni G. Tómassyni, borgarritara í Reykjavík, sem er sérstaklega til nefndur sem einn af þeim sem frv. þetta hafa samið. Hann fræðir hv. þingheim, eins og þegar hefur margsinnis fram komið og ég las hér fyrir nokkrum dögum bréf hans í heild, um að hann sé á engan hátt ábyrgur fyrir ákveðnum þáttum frv.

Ég held að það sé algerlega nauðsynlegt að hv. félmn., sem nú hefur frv. til meðferðar, haldi nýja fundi og sjái til þess að allar sveitarstjórnir landsins fái frv. til umsagnar. Það er betra að það dragist dálítið að gera frv. að lögum en svona sé unnið. Það verður engum til sóma og ég á eftir að sjá að það verði friður í hinum ýmsu byggðum landsins og meðal sveitarstjórnarmanna um lögin ef þeir fá ekki að sjá frv. og láta álit sitt í ljós um það. Ég vil því skora á hæstv. forseta þessarar deildar að brýna fyrir formanni virðulegrar nefndar að svo verði gert.