11.01.1988
Neðri deild: 50. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3886 í B-deild Alþingistíðinda. (2727)

194. mál, verkaskipting ríkis og sveitarfélaga

Guðni Ágústsson:

Herra forseti. Enn er á dagskrá frv. um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, 194. mál, frh. 2. umr. Hér liggja fyrir nál. bæði frá meiri hl. og minni hl. félmn. þessarar hv. deildar. Meiri hl. leggur til að þetta frv. verði samþykkt, en minni hl. að frv. verði vísað aftur til ríkisstjórnarinnar.

Ég stíg í ræðustól Alþingis í dag til að vara Alþingi við þessu frv. og lýsi því yfir að í mínum huga eru miklar efasemdir um að með samþykkt frv. séum við að ganga götuna til góðs. Ég tek undir mörg þau varnaðarorð sem minni hl. tekur fram í nál. sínu. Ég hef á undanförnum dögum rætt við marga sveitarstjórnarmenn og hafa þeir flestir lýst þungum áhyggjum vegna frv. og ekki síst hversu málið eins og það liggur fyrir hv. Alþingi hefur verið lítið kynnt eða rætt í þjóðfélaginu.

Ég er þeirrar skoðunar að nál. meiri hl. félmn. sé gert með það í huga að ryðja málinu í gegnum Alþingi. Nefndin telur upp hóp manna sem komu á fund nefndarinnar. Mér finnst eins og það sé látið liggja að því að allir hafi verið einhuga. Eins og segir í nál. eftir að mikilli nafnaupptalningu lýkur, með leyfi forseta:

„Eins og sjá má af þessari upptalningu taldi nefndin nauðsynlegt að reyna að fá sem gleggsta mynd af viðhorfum aðila til þessa frv. sem hér er til afgreiðslu, enda þótt ljóst sé að á svo skömmum tíma, sem málið er til meðferðar á Alþingi, sé ekki hægt að senda frv. til ýmissa aðila sem sjálfsagt hefðu haft áhuga á að setja fram álit sitt á málinu. En segja má að í þessum viðræðum við framangreinda aðila hafi sjónarmið um flest meginatriði frv. komið fram.“

Það segir í rauninni ekkert um hvað allir þessir menn sögðu, hvert var þeirra álit. Enn fremur er ljóst að til allt of fárra var leitað, til allt of fárra af þeirri stærð sveitarfélaga sem stærstur hluti sveitarfélaga er þó í eða hinna litlu sveitarfélaga. Enn fremur stangast þetta álit á við það sem kemur fram í áliti minni hl., en þar segir:

„Af þeim takmarkaða hópi, sem nefndin kvaddi á sinn fund, voru flestir andvígir þeim breytingum sem í frv. felast eða töldu að vinna þyrfti málið betur áður en ákvarðanir yrðu teknar af hálfu löggjafans.“

Annar aðilinn lætur hvergi liggja að ágreiningi. Minni hl. segir þá ósatt ef hann getur fullyrt í áliti sínu að stærstur hluti þeirra manna og það allir sem á fundinn komu teldu málið illa undirbúið.

Þetta og margt fleira staðfestir það sem ég hef heyrt og orðið var við úti í þjóðfélaginu nú á síðustu dögum. Ég spyr bæði meiri hl. og minni hl.: Hvaða sjónarmið komu fram? Voru allir sammála um ágæti þessa ætlunarverks? Minni hl. segir svo ekki vera. Var þessi hópur nógu breiður og frá nógu fjölbreyttum sveitarfélögum eins og ég hef hér minnst á?

Ég er þeirrar skoðunar að hér sé á ferðinni frv. sem á eftir að draga á eftir sér dilk verði það að lögum. Sjálfstæði er fagurt orð, en það hefur verið haft á tungu um áratugi að sveitarfélögin skuli fá aukið frelsi. Það hefur verið haft á tungu af hálfu þeirra manna. Menn taka sér stundum í munn orð sem þeir ekki meina og þegar þeir sjá meininguna var kannski hugsun þeirra með öðrum hætti en þar birtist. Auðvitað er það göfugt markmið að allir hafi frelsi og sjálfstæði. En það mega ekki vera orðin tóm. Það verður að tryggja að svo sé og þá með lýðræðislegum hætti. En eigi að síður benda allar aðgerðir ríkisvaldsins til hins gagnstæða, að ríkisvaldið sé í sjálfu sér ekki tilbúið að láta mönnum það frelsi og sjálfstæði eftir sem það hefur svo mjög á tungunni. Hver man ekki eftir því að um það leyti sem þetta mál var flutt hér á þinginu með orðum frelsis og sjálfstæðis sveitarfélaganna hafði það gerst nokkrum dögum áður að hæstv. félmrh. ákvarðaði útsvarsprósentu þessa árs ein og sjálf, 6,7% skyldi hún vera. Hvern varðaði um lýðkjörna sveitarstjórnarmenn þá stundina? Orð ráðherranna skulu gilda þrátt fyrir mótmæli sveitarstjórnarmanna. Og hvar var nú frjálsræðið og ákvörðunarrétturinn í þessu máli? Svo er og í fleirum.

Hér mega menn aldrei gleyma þeim sérstöku aðstæðum sem við Íslendingar búum við. Landið er stórt og þjóðin fámenn, hrepparnir og sveitarfélögin mjög misstór. Ég tel að hreppaskipulagið hafi hentað mjög vel sem frumeining og fyrsta þrep stjórnsýslunnar á Íslandi. Mér sýnist að ríkisvaldið og mjög margir þm. séu tilbúnir að rústa þetta skipulag og éti hver úr annars munni orðin um að hreppana verði að stækka til að búa til hagkvæmari einingar. Auðvitað sameinast einn og einn hreppur þar sem þannig háttar til. En ætla að þvinga slíkt í gegn án vilja fólksins er rangt.

Ég sé í gegnum núverandi sveitarstjórnarlög og þessa verkaskiptingu að slíkt er rauður þráður í hugsuninni og kröfugerð manna í embættismannageiranum og hinum stóru sveitarfélögum sem virðast nú orðið ráða öllu í Sambandi ísl. sveitarfélaga.

Ég tel að fólk í hinum dreifðu byggðum landsins þurfi að halda fast í forn og ný réttindi sín. Það má ekki láta draga frá sér vald og stjórnsýslu. Með fækkun hreppa og hreppsnefnda verður landsbyggðin fátækari og færri menn munu þjálfast upp til að halda í og verja sitt vé. Lýðræðið verður flutt í dýrar byggingar borganna. Af hverju vill Alþingi færa umboðsvaldið fjær fólkinu? Hinum dreifðu hreppum er í dag stjórnað án mikils tilkostnaðar og hygg ég að á könnu sveitarstjórnar séu mörg verk unnin fyrir ríkið án kröfu um endurgreiðslu eða af þeim verkum leiði mikinn tilkostnað fyrir ríkið. Mér sýnist að með frv. séu völd færð frá Alþingi til embættismanna og að sveitarfélögin eigi allt sitt undir vilja embættismannanna á eftir. Enn fremur fái þau svo stór verkefni til að kljást við að allt framtak og félagslegur áhugi detti niður. Þó var tryggt að hægt var að vekja upp félagslegan áhuga í sambandi við íþróttalögin, í sambandi við lögin um Félagsheimilasjóð og mörg fleiri.

Ég er talsmaður þess að færa völd heim í héruðin, menn mega ekki skilja það svo að ég sé það ekki, og að menn í sýslum og heilum kjördæmum standi saman að nýju stjórnsýslustigi sem fari með ýmis sameiginleg mál hreppanna og hafi á hendi verkefni fyrir ríkið sem snertir viðkomandi svæði. Með tilkomu þessa stjórnsýslustigs, sem ég hér nefni, mundi vera hægt að færa verkefni úr ráðuneytum og stofnunum í Reykjavík heim í héruðin.

Við skulum líta til sögunnar og minnast þess að lengi vel var landinu skipt í fjórðunga sem útkljáðu sín mál sjálfir. Einnig var hluta af framkvæmdarvaldinu skipt eftir fjórum ömtum með umtalsverðri heimastjórn. Árið 1903 voru ömtin lögð niður og komið á fót einu stjórnarráði í Reykjavík. Aðeins einn þm. greiddi atkvæði gegn lögum um Stjórnarráð Íslands og rökstuddi það þannig að afleiðingarnar yrðu þær að allt framkvæmdarvaldið færðist á einn stað og að sama skapi minnkuðu völd héraðanna. Þetta hefur gengið eftir. Enn skal á sömu brautina lagt. Enn hafa menn á Alþingi ekki haft kjark til að stíga ný og stór skref þar sem þó sannarlega frelsið og sjálfsákvörðunarrétturinn er færður heim með það í huga að samvinna hreppanna og sveitarfélaganna á hverju svæði sé mikil.

Mér finnst X. kafli frv. gott dæmi um miðstýringarhugsunina og sennilega sá kafli sem flest stærri sveitarfélögin kannski sættast á í frv. En þar segir, með leyfi forseta, um uppgjörsdeildina, það eru teknar þar upp tvær deildir, sérdeild og uppgjörsdeild: „Uppgjörsdeild skal á árunum 1988 til og með 1991 greiða sveitarfélögum og félagasamtökum framlög vegna áfallinna skuldbindinga ríkissjóðs er rætur eiga að rekja til framkvæmda til ársloka 1987 við félagsheimili, íþróttamannvirki og dagheimili. Við mat á áföllnum skuldbindingum ríkissjóðs í þessu sambandi skal miða við reglur um kostnaðarhlutdeild ríkissjóðs í þessum framkvæmdum er giltu til ársloka 1987. Greiðslum úr uppgjörsdeild skal skipt af fjvn. milli þeirra sveitarfélaga og félagasamtaka sem hér um ræðir, að fengnum tillögum viðkomandi ráðuneytis.“

Þarna sjáum við það að menn bíta á þetta agn, að nú skuli gamlar skuldir greiddar og ríkið koma með sinn hluta af því sem það skuldar sveitarfélögunum. Og lái hver hinum stóru sveitarfélögum þó að þau bíti á þetta agn og séu fús til þess að fallast á málið.

Það er nú svo að auðvitað eru þær skuldir til skammar sem ríkissjóður skuldar sveitarfélögunum og hefur hann oft á tíðum haft í frammi augljós svik við sinn þátt. Því skulum við minnast þess að á þessum áratug fór hæstv. fjmrh. eða fjárveitingavaldið út á þær villigötur að ræna í ríkissjóð mörkuðum tekjustofnum sveitarfélaganna. Félagsheimilasjóður hefur ekki síst farið varhluta af þessu. Samkvæmt lögum skal hann fá 50% af álögðum skemmtanaskatti. Árin 1981–1986 hefur fjárveitingavaldið hirt 63,6 millj. kr. af tekjum hans og eru það um 56% af tekjunum umrætt ár. Vitanlega er þetta hrein óhæfa og fyrir bragðið hefur sjóðurinn ekki getað staðið í skilum. Öllum er þó kunnugt um að lengst gekk þetta kannski á þeim tíma sem hv. þm. Albert Guðmundsson var fjmrh. en þá hirti ríkið 77% af tekjum þessa sjóðs.

Lítum svo á sérdeild í X. kafla laganna. Þar segir að nú skuli stofna sérdeild sjóðsins og skal hún greiða framlög til jöfnunar á milli sveitarfélaga vegna aukins kostnaðar þeirra í kjölfar breytinga á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga frá ársbyrjun 1988. Greiðslur þessar skulu inntar af hendi samkvæmt reglugerð sem fjmrh. setur í samráði við Samband ísl. sveitarfélaga. Í reglugerðinni skal m.a. kveðið á um nánari skilyrði fyrir greiðslum úr sérdeild sjóðsins. Þannig er nú lýðræðið að þarna á allt að vera komið undir vilja og gjörðum félmrh. Hann skal hafa valdið og í rauninni eiga sveitarstjórnarmenn að krjúpa fyrir þeim ráðherra í framtíðinni. Ekki hrífst ég því af þessu ætlunarverki.

Lítum á frv. örlítið í viðbót og sjáum II. kaflann. Hann snýst um íþróttalögin. Mér sýnist að íþróttalögin frá 1940 verði eyðilögð ef þetta gengur í gildi. Hvað segir um íþróttamannvirkin? Öll fyrirgreiðsla um sérfræðilega aðstoð við undirbúning íþróttamannvirkja er aflögð í frv. Ég er sannfærður um að einmitt þetta ákvæði gömlu laganna sem nú eru í gildi hefur skapað skipulag. Þangað sóttu menn ráð og náðu þess vegna að standa að skynsamlegri uppbyggingu íþróttamannvirkja um allt land.

Það er sagt að opinber stuðningur við byggingu íþróttamannvirkja skuli vera í verkahring sveitarfélaga. Enn fremur segir: „Alþingi veitir þó árlega fé í sjóð sem nefnist Íþróttasjóður . . . Íþróttanefnd gerir tillögur til fjvn. um skiptingu fjárins.“

Þetta sýnist mér alleinkennilegt ákvæði í frv. og til þess að flækja málið.

Ég er sannfærður um að það þarf að skoða marga kafla þessa frv. miklu betur, ekki síst II., III. og IV. kaflann, og ég segi fyrir mig að sem einn af þm. Framsfl. get ég ekki staðið að afgreiðslu frv. eins og það liggur hér fyrir hv. deild. Ég tel að íþróttamannvirkin á landsbyggðinni og félagsheimilin og þau ákvæði laganna um hvernig þau voru byggð upp með þátttöku ríkisins og hugsjón heima fyrir — ég hygg t.d. að það hefði ekki gengið vel hjá hv. nefndarmanni í meiri hl. félmn., Eggert Haukdal, að byggja glæsilegt félagsheimili í sinni sveit ef þessi lög hefðu verið aflögð fyrir 10–15 árum en hann gat með því að benda á að ríkið tæki 40% þátt í byggingarkostnaði hvatt menn til dáða í sinni sveit, þannig vakið upp afl og djörfung í mönnum til að standa að því að byggja merkilegt félagsheimili. Þetta félagsheimili hans og öll önnur hafa einmitt í gegnum tíðina flutt heim í byggðirnar menningu. Félagsheimilin hafa gert það að verkum að það hefur verið vakinn í fólkinu nýr kraftur, hvort það var söngur, leiklist eða framganga á sviði fyrir framan fólk, hvort það var í ræðustól, í félagsstarfi, þannig hafa félagsheimilin verið einn af stærstu skólum þessa lands allt frá því að Framsfl. hrinti þessum lögum í framkvæmd og stóð um áratugi að af svo miklum myndarskap og fylgdi því fast eftir að Alþingi stæði við sinn hluta. Og ég hygg að það sé nú svo að þó að margir agnúist út í félagsheimilin séu þau flestöll notuð frá morgni til kvölds í félagslegu starfi. Svo er og með íþróttahúsin á landsbyggðinni.

Þess vegna segi ég sem landsbyggðarmaður: Ég tek ekki þá áhættu að varpa þessu ágæta kerfi fyrir róða og stend ekki að því. Ég tel því að hiklaust megi taka undir margt í áliti minni hl. félmn. Með leyfi forseta lít ég á nokkrar þeirra athugasemda sem ég vil sérstaklega taka undir og hef kannski þegar gert í ræðu minni. Ég tel að frv. fjalli um hluta af þeim mörgu viðfangsefnum sem tillögur hafa komið fram um að breyta í núverandi verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga. Hér liggur því ekki fyrir nein heildarstefnumörkun í þessum málum. Ég tel að það þurfi að gera heildarstefnumörkun, miklu, miklu víðtækari en hér o í núverandi sveitarstjórnarlögum er gert ráð fyrir. Ég teldi það göfugt verkefni þessa löggjafarþings að sinna þeirri stefnumörkun það sem eftir er vetrar.

Eins vil ég taka undir það að ekki hafa verið kynntar reglur eða drög að reglugerð varðandi fjárframlög til jöfnunar milli sveitarfélaga vegna aukins og mismunandi kostnaðar í kjölfar breyttrar verkaskiptingar.

Frv. hefur ekki verið sent til kynningar eða umsagnar sveitarstjórna eða annarra aðila og álit þeirra liggja því ekki fyrir. Ég er hræddur um að Halldór minn Ásgrímsson hefði fengið á baukinn ef hann hefði komið með kvótann sinn svo illa undirbúinn inn í þessa deild. (Gripið fram í.) Og var hann þó ásakaður oft á tíðum. (Gripið fram í.) En hann var þó búinn að fara með sitt mikla kvótamál í gegnum alla helstu hagsmunaaðila sem snerta sjávarútveginn, ræða við verkalýðshreyfinguna og kalla hana inn í málið o.s.frv. Hann leyfði, sem sjálfsagt var, stjórnarandstöðunni að taka þátt í störfum nefndar um það mál.

En hvað hefur gerst í þessu? Þetta mál hefur ekki farið til umsagnar til einnar einustu sveitarstjórnar, hvorki stórra eða smárra. Menn hafa á hátíðlegum samkundum sveitarfélaganna verið að álykta. Hvað segja menn ekki þegar stutt er í kokkteilinn? Þá skal flýta sér og þá eru menn tilbúnir til þess að segja já og hefja veisluglauminn. En mér heyrist að menn séu þegar vaknaðir með timburmenn víða um land, að þeir hafi ekki akkúrat meint það sem hinir vakandi embættismenn, sem að þessu máli hafa komið, hafa fest á blað og Alþingi ætlar hiklaust að láta ganga fram.

Og það er fleira. Kannski er eitt það stærsta í mínum huga að þeir sem kannski fyrst og fremst hafa komið nálægt þessu máli, það eru menn hér rétt á bláhorni Suðvesturlandsins, fyrst og fremst embættismenn og nokkrir menn sem reka hér sveitarfélög þar sem íbúar skipta tugum þúsunda, þannig að ég teldi nú að við skyldum líta til okkar smæstu bræðra. Hvað segja þeir á Vestfjörðum? Hvað segja þeir á Vesturlandi? Þeir eru kannski hugfangnir af þeirri skýrslu sem hefur birst um að þeir verði að eilífu ríkir ef þetta fer í gegn. Eins og menn hafa sjálfsagt séð þá hefur það verið reiknað út að staða sveitarfélaganna muni batna og Vesturland sérstaklega tekið þar inn í. En ég er sannfærður um að það er stundargróði sem verið er að tala um. Ég hygg að við mundum fljótlega standa með í höndunum mikil vandamál og mikla óánægju út af þessu frv. ef við hristum það hér í gegn á svo skömmum tíma.

Ágætu þm. Ég hef ekki ætlað mér að leggjast í mjög löng ræðuhöld um þetta mál. Ég vil alla vega trúa því að Framsfl. taki þetta mál til skoðunar og að það verði rætt þar af mikilli hreinskilni. Ég hef þegar í höndunum af öllum hans helstu þingum á sl. hausti áskoranir til Alþingis um að verja íþróttasjóðinn, að verja félagsheimilasjóðinn, og aðvaranir um þetta mál sem hér er, enda skil ég það vel þar sem foringjar Framsfl. í gegnum tíðina eiga svo mikinn þátt í því hversu myndarleg félagsheimili og íþróttamannvirki eru nú um land allt.

Ég vænti þess að að lokinni þessari umræðu komist félmn. að þeirri niðurstöðu að vænlegast sé að vísa þessu máli á ný heim til ríkisstjórnarinnar til þess að það verði skoðað af meiri þekkingu, meiri breidd í þjóðfélaginu. Ég trúi því ekki að menn ætli á þessari viku að ryðja þessu máli í gegn. Við vitum að það kom fram í önn daganna í byrjun desember, mig minnir 7. des. eða svo, þannig að tíminn er stuttur. Ég mundi leggja það til að þessu máli yrði vísað aftur til ríkisstjórnarinnar og menn verði ekki sprengdir í löngum umræðum um svo illa undirbúið mál sem mér sýnist þetta vera.