11.01.1988
Neðri deild: 50. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3892 í B-deild Alþingistíðinda. (2728)

194. mál, verkaskipting ríkis og sveitarfélaga

Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég þóttist vita það þegar mér barst í hendur bréf Jóns Tómassonar borgarritara að það væri eitthvað athugavert við undirbúning frv. því að ég hef haft talsverð kynni af Jóni í gegnum mitt fyrra starf og tel hann alveg einstaklega vandaðan embættismann. En við að hlusta á samþm. mína gengur alveg fram af mér hvernig þetta frv. virðist unnið og það getur náttúrlega alls ekki gengið að ætla að keyra það hér í gegnum þingið án þess að senda það til umsagnar þeim sem það varðar mestu. Þess vegna tek ég eindregið undir álit minni hl. að þessu frv. sé vísað aftur til stjórnarinnar og það sé undirbúið betur og unnið betur.

Það eru sérstaklega tvö mál í frv. sem ég var búin að hugsa mér að minnast á. Annars vegar eru það tónlistarskólarnir. Ég veit að vísu að það er búið að fresta því að taka þá út úr, en það er bara frestun. Ég vil endilega að það sé gengið þannig frá að tónlistarskólarnir haldi áfram að vera á ábyrgð ríkisins. Smá sveitarfélög hafa mörgu að sinna. Þau verða að sinna ýmsum verklegum framkvæmdum, það er óhjákvæmilegt, og þau hafa oft litlu úr að spila og það þarf ekkert að segja mér það að ef svona mál eins og tónlistarskólar heyra undir sveitarfélögin sitja þau á hakanum.

Það hefur lengi verið mitt áhugamál að tónlist væri skyldufag í grunnskóla. Ég er viss um að það eru mörg skyldufög sem eru óþarfari en tónlistin. Það vita það nærri því allir hversu gefandi það er að hlusta á músík, taka þátt í músík, þó að maður hafi enga sérstaka kunnáttu. Söngurinn og músíkin sameinar fólk jafnvel frekar en nokkuð annað og ég mundi eindregið, þó að ég sé ekki með neina brtt. um það núna, vilja fá til liðs við mig einhverja hér um það að í framtíðinni væri hugað betur að tónlistinni og hún væri gerð að skyldunámi í skólum landsins.

Annað sem ég vildi minnast á eru söfnin og reyndar varðveisla gamalla húsa þó að það geti gengið út í öfgar, en söfnin alveg sérstaklega. Tíminn hefur breyst svo ört að þau sem eru börn núna botna eiginlega ekkert í bernskuheimi okkar sem eru á mínum aldri og reyndar töluvert yngri. En að fara með börn og unglinga um söfn og skýra þeim frá í nálægð hlutanna, það er allt annað. Ég veit varla neitt sem mér finnst ánægjulegra en fara með börn og unglinga um söfnin og sýna þeim og segja þeim frá.

Almenningur hefur sýnt þessu aukinn áhuga. Ég hef reynt í mínum sumarfríum að fara nokkuð um landið og það er mjög víða sem eru komin myndarleg söfn. Sums staðar eru safnverðir ákaflega miklir fræðaþulir og segja manni vel til og það er áberandi hvað fólkið í byggðarlögunum sýnir þessum söfnum mikinn áhuga, gefur í þau gamla ættargripi og virðist hlúa að þeim á allan hátt. Það verður alveg sama sagan með söfnin og tónlistarskólana. Ef ríkið dregur að sér hendina drabbast þetta niður. Ég get bara ekki séð hvernig þeim dettur það í hug því að sögu okkar verðum við þó alla vega að varðveita og hún er ekki betur varðveitt í öðru.

Mér sýnist það augljóst eftir þær umræður sem hér hafa farið fram að frv. er ákaflega illa undirbúið og við getum ekki leyft okkur þau vinnubrögð hér á Alþingi að keyra það hérna í gegn. Hér hefur komið fram rödd stjórnarþm. sem ég hlustaði á af mikilli athygli og þótti satt að segja mjög vænt um að heyra. Menn verða að taka afstöðu í þessu máli eftir því hvað er landshagur. Það er ómögulegt að gera út um mál sem snertir jafnmarga jafnmikið og þetta með einhverju meirihlutavaldi eða einhverri valdníðslu, vil ég segja. Við skulum skoða þetta mál betur, vísa því aftur og láta vinna það betur.

Ég ætla ekki að taka orð frá fleirum sem ég geri ráð fyrir að vilji eitthvað segja í þessu máli.