11.01.1988
Neðri deild: 50. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3893 í B-deild Alþingistíðinda. (2729)

194. mál, verkaskipting ríkis og sveitarfélaga

Albert Guðmundsson:

Hæstv. forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að taka til máls í dag vegna þess að á föstudaginn hafði mér borist dagskrá þessa fundar með öðrum málum á dagskrá en-endanlega voru sett á dagskrána í dag og þar af leiðandi hafði ég ekki undirbúið mig eins og skyldi, eins og ég hafði hugsað mér að gera fyrir þetta dagskrármál.

Ástæðan fyrir því að ég kem í ræðustól er einfaldlega sú að hv. 5. þm. Suðurl. var með vindhögg undir belti vegna þess að hann staðhæfði að framlög til íþróttamála í minni tíð sem fjmrh. hafi verið skorin niður eða gengið eitthvað til baka. Ég vil bera þetta eindregið til baka vegna þess að framlög til íþróttamála voru meira en tvöfölduð í þann stutta tíma sem ég sat sem ráðherra í fjmrn. Þar að auki voru framlög til Íþróttakennaraskólans og íþróttamannvirkjanna á Laugarvatni, sem má segja að sé eins konar útungunarvél fyrir íþrótta- eða menningarstarf í öllum skólum landsins, meira en tvöfölduð. Það var áformað að skera niður framlag til byggingarinnar til hálfs, en framlög í minni tíð til íþróttakennaraskólans á Laugarvatni nægðu til þess að mannvirkið var steypt upp í einum áfanga og klárað í einum áfanga. Ég veit ekki annað en að það sé enn óbreytt sú áætlun svo ég ber til baka lágkúruleg ummæli viðkomandi þm. Ég hef þegar óskað eftir því að hann kynni sér málin betur og komi hér upp í ræðustól og leiðrétti.

Varðandi sjálft frv. sem er til umræðu sé ég ekki ástæðu til að eyða tíma þingsins. Það er best að láta stjórnarliða ræða og verja sitt eigið frv. því að þeir þurfa að verja það hver gagnvart öðrum. Svo vitlaust er það að það hlýtur að fara til baka til ríkisstjórnarinnar og koma endurskoðað þaðan.