11.01.1988
Neðri deild: 50. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3894 í B-deild Alþingistíðinda. (2730)

194. mál, verkaskipting ríkis og sveitarfélaga

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Það er margt athyglisvert við þetta mái. Það er athyglisvert að fáir þm. stjórnarliðsins sitja þennan fund. Lengst af hafa tveir varaþm. flokksins setið hér og hv. þm. Eggert Haukdal hefur verið hér annað slagið og svo hefur formaður félmn., hv. 1. þm. Vesturl., verið hér ásamt forseta deildarinnar. Upptalið, yfirleitt upptalið.

Ég er dálítið undrandi á ræðu hv. 5. þm. Suðurl. vegna þess að hann var að finna að vinnubrögðunum sem viðhöfð væru í deildinni varðandi þetta mál. Ég sé ekki betur en að þetta séu alveg nákvæmlega sömu vinnubrögð og hafa viðgengist á undanförnum dögum. Eru þm. stjórnarliðsins að átta sig núna fyrst á þessum vinnubrögðum og eru þeir núna fyrst hissa? Við erum, a.m.k. margir af þeim sem hafa verið að gagnrýna þessi vinnubrögð á undanförnum dögum og vikum, ekki lengur hissa. Ég fyrir mitt leyti væri mikið meira hissa ef þeir færu að vinna að þessum málum eins og var gert og hefur verið fram að þessum tíma. Þá yrði ég undrandi, þ.e. þá sæist það að þeim er ekki alveg alls varnað.

Það er margt sem hlýtur að verða umhugsunarvert fyrir þm. utan af landi þegar maður lítur á þetta frv. og þegar maður hefur það í huga að fulltrúi Sambands ísl. sveitarfélaga hefur lýst sig andsnúinn frv. í mörgum tilvikum. Og þegar maður talar við sveitarstjórnarmenn utan af landi, þá sem eru náttúrlega dyggastir stuðningsmenn stjórnarinnar, segja þeir: Ja, það kannski þýðir ekki annað en að stökkva. Þegar maður fer að tala við þá betur kemur í ljós að þeir vita ekkert út í hvað þeir eru þá að stökkva, hafa ekki hugmynd um hvernig þetta verkar. Þetta sé allt annað en hafi verið kynnt fyrir þeim á undanförnum árum. Þetta hafi ekki átt að vera svona. En á þessu er ég ekkert hissa.

Hér hafa verið afgreidd lög á hv. Alþingi þar sem kemur strax í ljós það sem við sögðum. Einu mennirnir sem eru ánægðir með t.d. söluskattinn, matarskattinn, eru kaupmennirnir, vinnumennirnir.

Hvers vegna? Ég ætla ekkert að fara að lýsa því. Ég geri ráð fyrir að flestir hv. þm. geri sér það ljóst hvers vegna það er. En þannig er málum komið. Það sem stjórnarliðið sagði í sambandi við söluskattinn er farið að sýna sig að það var — bara bull. Ég bið forláts að nefna þetta hér í ræðustóli, en það hefur reynst það, bara bull. Þeir vissu ekkert hvað þeir voru að gera. Það væri dálítið merkilegt ef þeir vissu hvað þeir væru að gera í þessu máli. Svo kemur hv. 5. þm. Suðurl. hér upp og er alveg undrandi á þessu.

Svo taka aðrir hv. stjórnarliðar ákvörðun um að sitja ekki þennan fund. Ætli það sé fyrir það að þeir treysti sér ekki til þess að hlusta á stjórnarandstöðuna? (Gripið fram í.) Gæti það verið? Ég verð að segja það að ég hálfvorkenni fyrrv. félmrh. að tala fyrir þessu frv. eins og það er, bara vorkenni honum, eftir það sem á undan er gengið, vegna þess að þetta er ekki það sem hann ætlaði að gera. En hann lætur samt hafa sig í það að tala fyrir þessu frv., fyrir nál. meiri hl. við þessa umræðu.

Það gerist margt hér á hæstv. Alþingi þessa dagana. Hv. þm. Eggert Haukdal, eða man ég það ekki rétt, skrifaði undir þetta nál. án fyrirvara. Og ég vil ekki trúa því að hann hafi gert það með ljúfu geði, ég trúi því ekki. En þetta er kannski allt í lagi.

Ég held að mörgum af kjósendum stjórnarflokkanna sé nú loks að ofbjóða og að það eigi eftir að koma í ljós á næstu vikum, ekki síst þegar menn vakna upp við það hvernig þetta verkar allt saman, matarskatturinn, tollabreytingin, vörugjaldið og svo það mál sem við erum að fjalla um, að ógleymdum húsnæðismálunum.

Það eru auðvitað mörg fordæmi fyrir því að frv. sem eru á sömu lund og frv. sem hér liggur fyrir, sem sagt bandormur, hafi verið lögð fram á Alþingi. Ég man eftir að það hefur verið gert nokkuð oft. Hins vegar eru þessi vinnubrögð ekki til fyrirmyndar, langt í frá. Og það er ekki heldur til fyrirmyndar, sem hefur verið gert á undanförnum árum, að breyta ekki lögum þar sem er ákveðið að ríkið eigi að leggja fram fjárframlög heldur bara setja það í lánsfjárlög að þrátt fyrir lögin skuli þessi og þessi greiðsla falla niður. Þetta er ekki til fyrirmyndar. Ein afsökunin sem hæstv. ríkisstjórn hefur er að þetta hefur viðgengist. En þá er mál til komið að þessum lögum sé breytt ef meiri hlutinn á hv. Alþingi er þess sinnis að það eigi að hætta þessum framlögum. Mörg þessi framlög eru nú samt þannig að ég held að það hljóti að vera umhugsunarvert fyrir marga hv. þm., meira að segja þá sem styðja hæstv. ríkisstjórn, að æskilegt sé að vinna eins og er gert nú og við fáum sjálfsagt það frv. fyrir þingdeildina á næstu dögum.

Í sambandi við t.d. málefni fatlaðra, og í sambandi við breytingu á íþróttalögunum, hlýtur það sem er verið að breyta í þessum bandormi að verða a.m.k. landsbyggðarþm. umhugsunarefni hvernig það kemur út á næstu árum, hjá þeim sveitarfélögum sem hafa dregist aftur úr, þeim sem eiga eftir að byggja og framkvæma, hvernig það verður gert. Þó að í 10. gr. segi að það eigi að koma þar eitthvað til móts við þá sem þannig stendur á fyrir höfum við sem erum búnir að vera nokkur ár á þingi reynslu fyrir því að það er nú annað sem hefur verið sagt og hitt hvað staðið er við. Þegar slík breyting er orðin sem í þessum bandormi felst er litlu að treysta í því efni.

Eins og hefur komið fram t.d. með tónlistarskólana. Það er alveg furðuleg hugmynd að það eigi að gilda eitthvað annað með þessa skóla en um annað nám í þjóðfélaginu. Eru embættismenn sem finna þetta upp farnir að stjórna hv. Alþingi eða hverjir eru það? Ég fyrir mitt leyti geri ekkert með svona tillögur, að þær skuli koma inn á þing, sem hefur ekki verið fjallað um nógu vel úti í þjóðfélaginu, og flestir þeir sem hafa látið í sér heyra mótmæla því. Það eru einhverjir embættismenn sem eru fengnir til að semja frv. og svo má eiginlega engu breyta. Þó að hæstv. ríkisstjórn hafi frestað þessu stendur þetta samt óbreytt. En hv. alþm. sem styðja ríkisstjórnina láta bjóða sér allt, hversu fráleitt sem það er.

Nei, það þýðir lítið að ræða þessi mál hér. Menn hlusta fyrst og fremst á það sem eru á móti þessum breytingum. Hinir láta ekki sjá sig. Þeir treysta sér ekki til að ræða um þessi málefni. Þeir eru bara afgreiðsluaðili. Þeir eru bara atkvæði þegar kemur til atkvæðagreiðslu í hv. Alþingi. Þessi mál eru gerð upp í þingflokkunum og þó að menn „ströggli“ þar eitthvað eru þeir tregir til að flytja mál sitt hér í hv. deild, e.t.v. í áheyrn alþjóðar. En við vitum nokkuð hvernig fjölmiðlarnir eru. Þeir birta ekki nema sumt af því sem fram kemur hér og fyrst og fremst það sem ríkisstjórninni og stuðningsflokkum hennar er þóknanlegt. Það er sannleikurinn. Við það búum við.

Það er sagt í ákvæði til bráðabirgða að á þessu ári, 1988, eigi að verja allt að 100 millj. kr. til greiðslu til sérdeildar Jöfnunarsjóðs. Ég sé að hæstv. félmrh. telur sig ekkert þurfa að vera hér til að hlusta á þessa umræðu eða taka þátt í henni. Ég neyðist því til að varpa spurningu til frsm. meiri hl. félmn., hv. 1. þm. Vesturl.: Er vitað hve stóra upphæð þarf til að standa undir greiðslum sem uppgjörsdeild ætti að hafa til að greiða það sem ætlast er til? Eru það 100 millj.? Er það minna eða er það e.t.v. miklu meira sem ég hef grun um? Ég treysti því að hv. þm. hafi gögn um það eða það hafi komið fram í nefnd þó að mér sé kunnugt um að það hafi ekki verið mikill tími miðað við önnur málefni sem var verið að ræða. Hv. þm. var í fjvn. og mjög þröngur tími frá öðrum störfum til að fjalla um þessi mál til hlítar. En það er í samræmi við þessa nýju starfshætti Alþingis að nefndir eiga að skrifa upp á frv. án þess að fjalla um þau að nokkru gagni.

Það hefur komið fram að uppgjörsdeildin eigi að fá einnig 100 millj. kr. Þessar fjárhæðir duga til að standa undir þessum greiðslum Jöfnunarsjóðs og uppgjörsdeildarinnar sem slíkrar. Því hefur verið haldið fram af hæstv. fjmrh. að það hafi komið fjármagn og sé búið að gera ráðstafanir til að auka greiðslur til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til að standa undir þeim breytingum sem frv. felur í sér. En það fer lítið fyrir því að hæstv. ráðherra eða aðrir ráðherrar eða stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar skýri frá því hvað er vangreitt miðað við gildandi lög í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Það hefur aðeins verið skilað hluta af því sem af honum hefur verið tekið á undanförnum árum. Þannig er nú það mál.

Ég gerði ráð fyrir, herra forseti, að það yrði annað mál í dag til umfjöllunar miðað við það sem var búið að segja og maður á kannski að vera farinn að vara sig á því að það stendur eiginlega aldrei út klukkutímann hvað á að taka fyrir næst. Það eru þessi nýju vinnubrögð, sem hér er búið að taka upp, að það virðist enginn vita neitt, hvorki um frv., hvernig þau verka eða hvað á að taka fyrir eða nokkurn skapaðan hlut um þinghaldið. Það eru þessir nýju tímar sem við lifum nú á, þessi nýju vinnubrögð á hv. Alþingi.

Ég ætla að fara að ljúka máli mínu. Það hlýtur að liggja ljóst fyrir öllum þeim sem hafa velt þessu máli fyrir sér að það væri mjög óeðlilegt ef frv. ætti að fara í gegn án þess að það yrði rætt meira og fengið sent til skoðunar hjá sveitarstjórnum í landinu vegna þess að fulltrúi Sambands ísl. sveitarfélaga, sem var tilnefndur sem þeirra fulltrúi í nefndina, getur ekki verið sammála hinum tveimur nefndarmönnunum um framgang þessa máls. Þar sem Samband ísl. sveitarfélaga er hinn aðilinn að þessu máli verður að líta svo á að hann hafi meira um þessi mál að segja og fyrir hv. Alþingi eigi það að ráða meira en álit hinna tveggja.

Ég vil svo að endingu ítreka að ég mun styðja að þessu máli sé vísað frá og hef gert grein fyrir því hvers vegna. Og á þá fáu þm. stjórnarflokkanna, sem hér eru, skora ég að ræða þetta í sínum þingflokkum af því að nóg er nú komið af málum sem hafa verið afgreidd hér sem almenningur mun ekki vera hrifinn af þó að það sé ekki verið að bæta þessu ofan á annað.