11.01.1988
Neðri deild: 50. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3897 í B-deild Alþingistíðinda. (2731)

194. mál, verkaskipting ríkis og sveitarfélaga

Frsm. meiri hl. félmn. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Það er ljóst að ef ætti að fara út í efnislegar umræðu um málið duga ekki þær fimm mínútur sem eru eftir af fundartíma og þess vegna mun ég geyma mér hluta af því sem ég hefði viljað segja um þessi mál. En ég vil aðeins í upphafi segja að mér finnst dálítið furðuleg staða í umræðum um þetta mikilvæga stjfrv. og ég bendi á það og rifja það upp, ef þeir hv. þm. sem hér eru viðstaddir hafa ekki verið við 1. umr. málsins, að það er stjfrv. sem hér er um að ræða og það er sjálfur hæstv. forsrh. sem er aðalflm. þessa máls og einnig annað sérkennilegt, að það er hæstv. félmrh. sem einnig er flm. þessa máls og báðir þessir hæstv. ráðherrar tóku til máls við 1. umr. málsins og reifuðu rök fyrir því að flytja þetta frv. á hv. Alþingi.

Það sem er sérkennilegt við þetta að mínu mati er að hvorugur hæstv. ráðherra hefur séð ástæðu til að vera viðstaddur þær umræður sem hér hafa farið fram og þannig ekki gert tilraun til að koma til móts við andmælendur frv. um að skýra það sem þar þarf að koma fram. Ég verð að segja það einnig gagnvart hv. stjórnarandstöðu og þeim sem andmæla þessu frv. að það er dálítið sérkennilegt við þetta mál, þegar maður lítur til annarra mála sem hafa verið til umræðu á undanförnum vikum, að enginn hv. stjórnarandstæðingur hefur krafist þess að hæstv. ráðherrar væru hér til að svara fyrir frv. Þetta þykir mér rétt að láta koma fram í upphafi vegna þess að mér finnst þetta sérkennilegt og það lýsir e.t.v. því að málið sé ekki nægjanlega vel undirbúið eins og fram hefur komið.

Ég vil rifja það upp að við 1. umr. málsins á hv. þingi gagnrýndi ég það sérstaklega, ég geri ráð fyrir að einhverjir hv. þm. viti það, að frv. sjálft skyldi ekki hafa fengið nægilega skoðun hjá fulltrúum sveitarfélaga miðað við það sem áður hafði skeð í sambandi við þessi mál.

Þá vil ég koma að því áður en ég lýk hér þessum hluta ræðu minnar að þetta mál, verkaskipting ríkis og sveitarfélaga, er búið að vera í meðferð meðal þjóðarinnar og meðal sveitarstjórnarmanna í áratugi og það hafa aldrei á seinni stigum þessa máls komið fram andmæli frá sveitarstjórnarmönnum á Íslandi við það að fara inn á þessa braut. Og ég þori að fullyrða að það hefur ekkert mál fengið stjórnarfarslega eins mikla kynningu og áform um að taka upp nýja verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Hver einasta sveitarstjórn á Íslandi hefur haft þetta mál sérstaklega með höndum á sl. ári til að kynna sér þær hugmyndir sem þar voru uppi. Ég sem fyrrv. félmrh. get sagt að ég lagði þær línur að það yrði farið að taka í alvöru á þessum málum. Hins vegar raðaði ég aldrei upp þeim verkefnum hvað ætti að vera í forgangi eða í fyrsta áfanga o.s.frv. og frábið mér að verja það atriði.

Ég vil láta það koma fram að við erum búin að fjalla um þetta í félmn. Nd. og við tókum inn þar alla þá aðila sem við vildum láta skýra sín mál. Það voru ýmsir aðilar sem við vissum um að sveitarstjórnarmenn voru sammála og allir fulltrúar sveitarstjórna, sem komu á fund nefndarinnar, voru sammála um að þetta væri mál sem væri rétt að staðið og væri 1. áfangi þessarar verkaskiptingar. (HG: Er það nú rétt?) Allir fulltrúar sem komu sögðust hafa umboð sveitarfélaganna til að ræða þetta mál og eins og hv. þm. vita hefur stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga umboð sveitarstjórnarmanna í landinu til að fara með æðstu stjórn þessara mála. Það er landsþingið sem er æðsta vald sveitarfélaga og fyrst fjallar um þessi mál, síðan fulltrúaráð sveitarfélaga og loks er það stjórn sambandsins sem framkvæmir þær samþykktir sem þessi aðalþing sveitarfélaga í landinu móta og samþykkja. Þannig lýstu þeir yfir því, fulltrúar stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga, sem komu á fund nefndarinnar, að þeir hefðu þetta umboð. Nú er ég ekkert að tala sérstaklega um þetta vegna þess að þetta vita allir sem nálægt sveitarstjórnarmálum koma. (HG: Ætli það sé skriflegt, umboðið?) Ég þarf ekki að ræða þetta við hv. 2. þm. Austurl. Þetta á hann að vita. Þetta vita allir, sem hafa komið nálægt sveitarstjórnarmálum, að er gangur mála.

Ég vil aðeins segja að það er ekki rétt, sem hér hefur komið fram, að upplýsingar um það sem fyrirhugað er að færa til, fjárhagslegar upplýsingar, liggi ekki fyrir. Þær komu fram í 1. umr., þær komu fram með framsögu nál. og ég get rifjað það upp fyrir hv. þm. Stefáni Valgeirssyni að þessar upphæðir eru tæpar 450 millj. kr. sem gert er ráð fyrir í meðferð fjárlaga að mundu fara í uppgjörssjóð í sambandi við þessi verkefni. Þau eru flokkuð þannig að það er íþróttasjóður. Þar eru sveitarfélögin með 74,3 millj., íþróttafélögin með 111,7 millj. eða samtals 186,1 millj. Félagsheimilasjóður er með 65 millj. og dagvistunarheimili 170,8 millj. Síðan eru tæpar 30 millj. sem skiptast yfir á hina ýmsu aðra liði. Gert er ráð fyrir að skuldastaðan 31. des. 1987 sé gerð upp með fjögurra ára tilfærslu eins og þarna hefur komið fram í frv.

Ég get sagt það einnig að okkur var ljóst í nefndinni að menn voru ekki sammála um þau verkefni sem tiltekin voru af hæstv. ríkisstjórn og ég lét það koma fram bæði við 1. umr. og eins í 2. umr. að ég væri andvígur því að fella niður Íþróttasjóð og við mundum gera það sem í okkar valdi stæði til að lagfæra að það kæmi ekki fyrir það slys að afnema Íþróttasjóð.

Um tónlistarfræðsluna. Við vorum einnig sammála um að það væri ekki tímabært að taka það mál til meðferðar eins og ætlunin var og þess vegna var því frestað til 1. sept. 1989 til þess að tóm gæfist til að gaumgæfa það mál og taka það til athugunar í sambandi við frekari verkaskiptingu, þ.e. í sambandi við grunnskólana.

Ég ætla ekki að eyða meiri tíma í þetta að þessu sinni. Ég mun koma aftur og rökræða nokkur atriði sem hefur m.a. verið spurt um. En ég vil endurtaka að við megum ekki hafa vantrú á því að sveitarfélögin ráði við aukin verkefni. Ég veit að allir hv. þm. eru mér sammála um að það á að auka verkefni til sveitarfélaga og gera skýrari skiptingu á þessum málum. Sveitarfélögin eru fær um að fara með þessi mál.

En vegna þess sem fram hefur komið í sambandi við álit Jóns G. Tómassonar borgarritara þótti okkar sjálfsagt í félmn. að taka málið til nefndarinnar milli 2. og 3. umr. til að ræða það nánar og skoða bæði þessar athugasemdir og aðrar sem fram hafa komið. Ég mun beita mér fyrir því að svo verði þannig að tóm gefist til að skoða þetta mál miklu betur.