12.01.1988
Neðri deild: 52. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3900 í B-deild Alþingistíðinda. (2736)

63. mál, lánsfjárlög 1988

Frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir áliti meiri hl. fjh.- og viðskn. Nefndin athugaði þetta frv. ítarlega, fékk til fundar við sig Gunnar Hall hagsýslustjóra, Þórð Friðjónsson, forstjóra Þjóðhagsstofnunar, Bjarna Braga Jónsson og Ingva Kristinsson frá Seðlabankanum, Hörð Vilhjálmsson, fjármálastjóra Ríkisútvarpsins, Halldór Jónatansson, forstjóra Landsvirkjunar, Gunnlaug Sigmundsson og Jafet Ólafsson frá Þróunarfélagi Íslands, Hermann Guðjónsson vita- og hafnarmálastjóra, Katrínu Atladóttur, Hilmar Þórisson og Percy Stefánsson frá Húsnæðisstofnun ríkisins, Leif Jóhannesson frá Stofnlánadeild, Birgi Þorgilsson frá Ferðamálaráði, Magnús E. Guðjónsson frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, Jónas Jónsson búnaðarmálastjóra, Þórð Ólafsson, forstöðumann bankaeftirlitsins, Stefán Pálsson, formann Sambands viðskiptabanka, Guðmund Malmquist, forstjóra Byggðastofnunar, og Halldór S. Kristjánsson, skrifstofustjóra í samgrn.

Það varð ekki einhugur í nefndinni. Meiri hl. leggur til að frv. verði samþykkt með breytingum sem fluttar eru á þskj. 502.

Heildarlántökur innan lands og erlendis hækka samkvæmt því um 1165 millj. kr. Þar af eru innlendar lántökur um 60 millj. kr. og erlendar 1105 millj. kr. Ráðgert er að allar þessar lántökur fari um ríkissjóð, en í raun eru þær allar tengdar milligöngu ríkissjóðs um lánsfé til fyrirtækja. Samkvæmt tillögum meiri hl. nema lántökur því alls 21 milljarði 784 millj. kr. Þar af er miðað við að afla 12 milljarða 210 millj. kr. innan lands og 9574 millj. kr. með erlendum lántökum. Mun ég nú rekja í stuttu máli þessar breytingar.

Innlend lántaka ríkissjóðs hækkaði í meðförum Alþingis á fjárlögum um 60 millj. kr. og stafar sú hækkun af lánveitingu ríkissjóðs til RARlK á árinu 1988 vegna framkvæmda fyrirtækisins við línu niður á Krosssand.

Það er lagt til að lántökur ríkissjóðs hækki um 1105 millj. kr. Sú hækkun er vegna milligöngu ríkissjóðs um erlend lán til langs tíma fyrir RARIK og fyrir fyrirtæki í sjávarútvegi. Þessi lán skiptast þannig að Rafmagnsveitur ríkisins fá 160 millj. kr., Sæberg á Ólafsfirði vegna breytinga á Mánaberginu í frystitogara 180 millj. kr. og fjögur raðsmíðaskip samtals 565 millj. kr. Öll þessi lán munu ganga til að greiða erlend skammtímalán sem hafa verið tekin og því munu þessar lántökur ekki auka erlendar skuldir þjóðarbúsins.

Þá hækkar lántökuheimild Byggðastofnunar um 200 millj. kr. Í því sambandi skal tekið fram að ætlast er til að Byggðastofnun styðji sérstaklega við útgerð í þeim byggðarlögum þar sem hún hefur dregist saman.

Við afgreiðslu fjárlaga var framlag til Kvikmyndasjóðs hækkað úr 40 millj. í 60 millj. Við afgreiðslu fjárlaga var framlag ríkissjóðs til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga hækkað úr 1485 millj. kr. í 1533 millj. kr. Við þá afgreiðslu láðist að láta Jöfnunarsjóðinn njóta hlutdeildar í hækkun söluskattsinnheimtu við lokaáætlun fyrir árið 1988. Það var metið á 7 millj. kr. og er lagt til að framlagið hækki sem því nemur og verði 1540 millj.

Þá er Byggðastofnun heimilað samkvæmt þessu að nýta sér hagstæð lánskjör á erlendum lánamörkuðum.

Að lokum er að ósk Seðlabanka bætt inn í frv. heimild fyrir ríkissjóð til að gefa út og selja ríkisvíxla í tvíþættum tilgangi, þ.e. til að mæta endurgreiðslu ríkisvíxla og til að bæta stöðuna á viðskiptareikningi ríkissjóðs í Seðlabankanum. Þessi heimild er hugsuð sem stjórntæki til að hamla gegn yfirdrætti í Seðlabanka og óhóflegri aukningu peningamagns í umferð.

Að lokum skal þess getið að taki frv. til laga um breytta verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, mál nr. 194, breytingum í meðförum Alþingis þarfnast 28. gr. lánsfjárlaga endurskoðunar.

Undir þetta rita Páll Pétursson, Geir H. Haarde, Matthías Bjarnason og með fyrirvara Kjartan Jóhannsson og Guðmundur G. Þórarinsson.

Nefndin fjallaði um ýmsar fleiri hugmyndir að breytingum. Ekki varð samstaða um fleiri breytingar en þessar, ekki allsherjarsamstaða, hjá meiri hl., en brtt. á þskj. 503 er flutt af tveimur í meiri hl. Út af fyrir sig get ég ágætlega fellt mig við það orðalag sem þar stendur, en um það varð ekki allsherjarsamkomulag hjá meiri hl.