12.01.1988
Neðri deild: 52. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3912 í B-deild Alþingistíðinda. (2739)

63. mál, lánsfjárlög 1988

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég ætla að gera hér nokkuð ítarlegar að umtalsefni en gert var í ræðu hv. frsm. minni hl. fjh.- og viðskn. þær brtt. sem við þm. minni hl. svo og hv. 5. þm. Vesturl. Ingi Björn Albertsson flytjum á sérstöku þskj. og höfum orðið sammála um að leggja sérstaka áherslu á. Þetta er á þskj. 500 og varðar þrjár greinar frv., 14., 17. og 22. gr. Ástæða þess að við tökum þessar greinar sérstaklega út úr er ekki sú að það sé ekki fleira sem ástæða væri til að breyta í frv. eða þetta sé það eina sem við séum ekki sammála frv. um, heldur hitt að við viljum vekja sérstaka athygli á þeirri meðferð sem þessir þrír málaflokkar fá af hálfu ríkisstjórnarinnar eða stjórnarmeirihlutans hér á Alþingi og teljum sérstök rök fyrir því að taka þetta þrennt út fyrir og gera tillögur um lagfæringar á því.

Fyrsti liður brtt. á þskj. 500 varðar 14. gr., en þar er gert ráð fyrir að þrátt fyrir ákvæði hafnalaga, nr. 69/1984, skuli framlag ríkissjóðs til Hafnabótasjóðs eigi fara fram úr 20 millj. kr. á árinu 1988. Fá mál hafa á undanförnum árum verið jafnharðlega gagnrýnd af hálfu ýmissa, jafnt stjórnmálamanna á Alþingi sem og í sveitarstjórnum og víðar um landið, ekki síst þeirra sem stunda höfuðundirstöðuatvinnuveg þjóðarinnar, sjávarútveginn, og það hvernig fjárveitingum hefur verið háttað til hafnamála á undanförnum árum. Hæstv. ríkisstjórn og stjórnarmeirihlutinn hefur í raun viðurkennt þessa stöðu með því að hækka nokkuð frá fyrri hugmyndum fjárveitingar til hafnamála, bæði sl. ár og eins í þeim fjárlögum sem nú hafa nýverið tekið gildi. Það er því í algjöru ósamræmi við þetta allt saman að ætla að skerða svo mjög tekjur Hafnabótasjóðs sem hér er lagt til.

Hafnabótasjóður gegnir mikilvægu hlutverki, bæði til að styðja við bakið á þeim sem við sérstaklega erfiðar aðstæður búa í hafnamálum sem og til þess að koma til hjálpar þegar óvænt verkefni krefjast skjótrar úrlausnar, svo sem þegar tjón verður í höfnum sem nauðsynlegt er að lagfæra þegar í stað eða þegar framkvæmdir, sem eru þannig vaxnar að þeim er nauðsynlegt og óhjákvæmilegt að ljúka í einum áfanga, reynast kostnaðarsamari en reiknað var með og kalla þar með á auknar fjárveitingar, jafnvel umframfjárveitingar á fjárlögum. Þetta hlutverk og reyndar margt fleira sem hv. þm. geta kynnt sér hefur Hafnabótasjóður á sinni könnu og það er með öllu óraunhæft að ætla honum ekki nema 20 millj. kr. Samkvæmt upplýsingum frá vita- og hafnamálastjóra sem og upplýsingum frá Fjárlaga- og hagsýslustofnun væri lögbundið framlag til Hafnabótasjóðs óskert um 60 millj. Við teljum það síst of í lagt þó að Hafnabótasjóður fengi allar þær tekjur og hefði þær til ráðstöfunar á þessu ári og leggjum því til að þessi grein falli niður og tekjur Hafnabótasjóðs á þessu ári verði óskertar.

Ég tel mig, herra forseti, ekki þurfa að rökstyðja ítarlegar nauðsyn þess að betur verði búið að Hafnabótasjóði en frv. ríkisstjórnarinnar og tillögur meiri hl. gera ráð fyrir þar sem umræðan um ástand hafnamálanna er svo vel þekkt og öllum kunn.

Í öðru lagi gerum við ráð fyrir að 17. gr. frv. breytist þannig að í stað 28 millj., sem renna skuli til Ferðamálaráðs eða Ferðamálasjóðs og sérstakra verkefna Ferðamálaráðs á þessu ári, komi 40 millj. kr.

Hér er sömuleiðis um að ræða allvel þekktan málaflokk sem nokkuð mikið hefur verið ræddur á undanförnum árum og mánuðum. Tekjur Ferðamálaráðs ættu skv. lögum, nýlega samþykktum lögum frá Alþingi, nr. 79/1985, að vera á yfirstandandi ári a.m.k. 80 millj. kr. skv, upplýsingum frá Fjárlaga- og hagsýslustofnun. Það er reyndar næsta víst að þessi áætlun er vanmat á veltu Fríhafnarinnar á því ári sem tekið er til viðmiðunar. Ég hygg að það sé nokkurn veginn viðurkennt að það sé ekki líklegt að velta Fríhafnarinnar verði hin sama í krónum talið ár frá ári eins og þetta frv. gerir víst ráð fyrir og nær væri að reikna með að velta Fríhafnarinnar yrði a.m.k. milljarður ef ekki meira á því ári sem tekið er þarna til viðmiðunar og þar af leiðandi yrðu 10% af því ekki 80 millj. heldur nær 100 eða yfir 100 millj. Og það er lögum samkvæmt það fé sem renna skal til verkefna Ferðamálaráðs og Ferðamálasjóðs á hverju ári.

Ég hygg að enginn liður, sem höggvið er að í þessari lánsfjáráætlun, sé jafnhlálega og hróplega í ósamræmi við hátíðaræður ýmissa manna eins og þessi framlög til ferðamálanna. Það er alkunna að það er vinsælt á tyllidögum að lofsyngja ferðamannaiðnaðinn eins og það er kallað núna þó að það heyri víst ekki undir iðnrn. eins og halda mætti. Því er gjarnan slegið upp að þarna sé á ferðinni atvinnugrein sem hafi vaxið mjög hratt á undanförnum árum og skapi nú ný og ný störf og meiri og meiri gjaldeyrisverðmæti inn í þjóðarbúið. Það er út af fyrir sig allt rétt. Einhvern hluta af þeirri miklu aukningu er sjálfsagt sanngjarnt að skrifa jákvæðu megin á reikninga Ferðamálaráðs sem hefur starfað á undanförnum árum að því að kynna landið, selja landið og reka kynningarstarfsemi á erlendri grund. Þrátt fyrir takmarkaðar tekjur virðist þetta hafa gengið býsna vel þegar saman hafa verið lagðir kraftar aðila eins og flugfélaga og ferðaskrifstofa og Ferðamálaráðs. En það er skemmst frá að segja að allar sínar takmörkuðu tekjur hefur Ferðamálaráð sett í þetta verkefni á undanförnum árum og ekki getað sinnt, sum árin alls ekki með nokkru móti, þeim verkefnum öðrum sem því ber að framkvæma lögum samkvæmt. Þar á ég sérstaklega við það að sinna umhverfisþáttunum, umhverfismálunum og því að kynna möguleika á ferðalögum innan lands, að stuðla að ferðalögum Íslendinga um eigið land. Ég hygg að þetta séu þeir tveir málaflokkar sem Ferðamálaráð hefur orðið að láta mæta afgangi vegna þeirrar skerðingar á tekjum sem það hefur búið við.

Nú má öllum vera ljóst að það getur ekki gengið endalaust að reka eingöngu landkynningarstarfsemi og auglýsa upp hina hreinu og ómenguðu náttúru Íslands — og með ágætum árangri, með þeim árangri að auka ferðamannastrauminn ár frá ári án þess að þurfa að grípa til einhverra ráðstafana í því samhengi. Þetta ætti a.m.k. öllum að vera ljóst, enda hefur umfjöllun um gífurlegan átroðning á ýmsum vinsælum ferðamannastöðum verið mikil undanfarin ár.

Ég tel því að sú niðurstaða sem verður hvað fjárveitingar til þessa verkefnaflokks varðar ef tillögur meiri hl, verða hér knúnar í gegn og brtt. minni hl. ná ekki fram að ganga sé nánast svívirða við landið, við fóstru okkar, Ísland, vegna þess að í fjárlögum eru allar fjárveitingar til þessara verkefna nánast skornar út. Og er þá sama hvar borið er niður, hvort það er hjá Náttúruverndarráði með fjárveitingum til einstakra þjóðgarða eða einstakra aðila. Þetta gengur auðvitað ekki svona til. Svona getur þetta ekki gengið ef menn vilja láta taka mark á sér, þ.e. annars vegar að þeir vilji halda Íslandi sem hreinustu og ómenguðustu og forða viðkvæmri náttúru landsins frá skemmdum, að þeir vilji selja landið í þessari merkingu, auka hingað ferðamannastraum ár frá ári, sem undantekningarlaust er rekinn áróður fyrir hér með því að höfða til óspilltrar náttúru. Og það er athyglisvert að í öllum auglýsingabæklingum og kynningarbæklingum um Ísland er ævinlega gott veður. Það er sólskin og sunnanvindur, eins og við mundum segja á Norðurlandi, bjart og heiðskírt veður og grasið er grænt o.s.frv. og að sjálfsögðu óbælt, að sjálfsögðu ótroðið og óbælt eins og þar hafi aldrei komið mannsfótur. En engu að síður er það nú svo að ferðamannafjöldinn vex ár frá ári, ferðalög Íslendinga sjálfra um landið aukast einnig, að nokkru marki a.m.k., og er það vel. Allt saman veldur þetta auðvitað því að þörfin, sem fyrir var ærin, er nú svo aðkallandi að það verður naumast notað annað orðalag en neyðarástand yfir það, yfir þá örtröð sem er á ýmsum vínsælustu ferðamannastöðum landsins um háannatímann á sumrin.

Við fulltrúar minni hl. bárum fram þá tillögu í fjh.- og viðskn. Nd. að a.m.k. yrði reynt að sýna lit í þessum efnum með því að auka nokkuð tekjur Ferðamálaráðs, þó ekki væri nema um tiltölulega hógværa upphæð, og við lýstum okkur tilbúin til að sérmerkja þá aukningu þessum verkefnum.

Talsmaður Ferðamálaráðs sem mætti á fund nefndarinnar taldi að Ferðamálaráð mundi bregðast vel við því og taka slíkum tilmælum um forgangsröðun verkefna vel þó að fjárveitingavaldið með þeim hætti skilyrti hluta af fjárveitingum til ráðsins sem lögum samkvæmt er auðvitað ekki gert ráð fyrir. Lögum samkvæmt er það auðvitað verkefni Ferðamálaráðs, ekki fjárveitingavaldsins, að ráðstafa fjármagni ráðsins til einstakra verkefna. En með tilliti til aðstæðna þá hefði því sem sagt ekki verið illa tekið þó að Alþingi hefði beint þeim tilmælum til Ferðamálaráðs að líta á þessa aukningu sem sérstaklega markaða þessum verkefnum, verkefnum Ferðamálaráðs á sviði umhverfismála og e.t.v. einnig að einhverju leyti til að kynna möguleika á ferðalögum um eigið land.

Þessari hógværu beiðni okkar var hafnað. Meiri hl. treysti sér ekki til að láta eina einustu milljón kr., ekki einu sinni hundruð þúsunda renna í þetta verkefni á sama tíma og menn treysta sér þó til að hækka lántökuheimildir Byggðastofnunar um 100–200 millj. og kem ég að því á eftir og ætla ekki að gagnrýna það. En mér finnast menn býsna smásálarlegir, það verð ég að segja, hv. 1. þm. Vestf. og aðrir góðir áheyrendur, að geta ekki einu sinni horft af fáeinum milljónum, til að mynda til þessa verkefnis, eftir allt sem á undan er gengið, og taka það á ríkissjóð, þau ósköp að hækka tekjur til Ferðamálaráðs um nokkrar milljónir, þannig að það geti a.m.k. til málamynda sinnt sínum lögbundnu skyldum á sviði umhverfismála. Ég tel þetta, herra forseti, einhverja hneykslanlegustu og aumingjalegustu niðurstöðu af mörgum slíkum ljótum hjá hæstv. ríkisstjórn, það er sú útreið sem umhverfismálin fá í afgreiðslu fjárlaga og lánsfjárlaga. (HG: Hvar er ríkisstjórnin?) Já, hvar er ríkisstjórnin, er hún búin að segja af sér, herra forseti? Hvernig er það, eru þeir með fjarvistir þessir hæstv. ráðherrar? Eða eru þeir búnir að segja af sér? (Forseti: Eins og fyrr hefur fram komið hér á fundinum, þá eru eftirtaldir hæstv. ráðherrar með fjarvistarleyfi: Friðrik Sophusson, 1. þm. Reykv., Matthías A. Mathiesen, 1. þm. Reykn., Steingrímur Hermannsson, 4. þm. Reykn., og nú nýverið hafði samband við forseta Jóhanna Sigurðardóttir, hæstv. félmrh., og bað einnig um fjarvistarleyfi.)

Já. Ég sé að það er sem sagt tæplega hálf ríkisstjórnin með fjarvistarleyfi og þeir sem þó hafa ekki fjarvistarleyfi láta ekki sjá sig í þingsölum. Það er ástæða til að harma sérstaklega þetta ástand á stjórnarheimilinu, í fyrsta lagi þetta annríki, eða heilsufar ef því er til að dreifa, sem veldur því að næstum því hálf ríkisstjórnin þarf að biðja um fjarvistarleyfi. Enn þá meiri ástæða er þó til að harma útkomuna hjá hinum sem ekki hafa haft samband við forseta, ekki hafa fengið leyfi til að vera fjarverandi við þingstörfin en láta engu að síður ekki sjá sig.

Ég hef reyndar sagt það áður, herra forseti, að ég telji að það séu tvö mál alveg sérstaklega sem koma til umfjöllunar á hverju einasta Alþingi sem kalli á nærveru viðkomandi ráðherra, þ.e. allrar ríkisstjórnarinnar, því að yfirleitt á hún öll einhver mál sem tengjast afgreiðslu þessara tveggja mála. Það eru fjárlög og lánsfjárlög. Og það eru fullkomlega eðlileg og þingleg vinnubrögð að gera kröfu um það að ráðherrarnir, ríkisstjórnin, sé viðstödd a.m.k. þegar þessi tvö mál eru rædd því þau grípa inn í næstum því hvern einasta málaflokk í landinu, a.m.k. fjárlögin og einnig lánsfjárlagafrv. sem varðar fjárveitingar og starfsgrundvöll, starfsskilyrði fjölmargra málaflokka sem heyra undir hina ýmsu ráðherra. Ég ætla að fara fram á það við virðulegan forseta að hann láti kanna hvernig ástatt sé fyrir hinum hæstv. ráðherrum sem ekki hafa fjarvistarheimild, hvort þeir séu á landinu, hvort þeir séu einhvers staðar nálægt miðborg Reykjavíkur og hvort það væri t.d. möguleiki á því að eitthvað af þeim gæti birst hér í þinghúsinu upp úr kaffihléi eða upp úr kl. 4 t.d.

Ég man, herra forseti, að ég ræddi þessi mál nokkuð við virðulegan forseta einmitt við 1. umr. og mér þótti það heldur óviðurkvæmilegt að þá var svipað ástand um viðveru hæstv. ráðherra og ríkisstjórnar. Manni dettur iðulega í hug að landið sé bara stjórnlaust, að ríkisstjórnin sé búin að segja af sér. Farin heim. Þetta er heldur nöturlegt, herra forseti, ég verð að segja það. Aum er frammistaða hæstv. ríkisstjórnar á ýmsum sviðum, en hvergi er hún sennilega lélegri en hér í mætingunni og er þá mikið sagt.

Það eru hér ýmis mál, herra forseti. Hér er t.d. fjallað um lántökuheimildir hinna ýmsu sjóða. Þær koma hér inn undir lánsfjárlögin. Sjóðir atvinnulífsins, fjárfestingarlánasjóðir hálfopinberir og opinberir, með einum eða öðrum hætti er starfsemi þeirra hér markaður lagarammi. Halda menn að þetta komi ekki viðkomandi fagráðherrum við? Eða er það e.t.v. skoðun manna að þetta skipti engu máli, það sé engin ástæða til að vera viðstaddur og ræða þetta? — Er fundi forsetanna nokkuð að ljúka? (Forseti: Honum er lokið.) Já. Þá er fundi forsetanna lokið og ég vona þá að óskir mínar hafi fengið góðar undirtektir á þessu málþingi forsetanna og það verði kannað hvernig er ástatt fyrir þessum hæstv. ráðherrum í ríkisstjórninni sem ekki annaðhvort liggja í rúminu eða eru þegar með fjarvistarleyfi eða af einhverjum öðrum orsökum.

Ég hefði t.d. talið mjög mikla ástæðu til að hæstv. núv. utanrrh., sem reyndar er einn af þessum með fjarvistarleyfið, hefði aldrei þessu vant heiðrað okkur með nærveru sinni smástund. Ég ætlaði mér reyndar að ræða enn þá betur við hann um málefni Þróunarfélagsins hf., sem er hans skilgetið sérstakt afkvæmi. Hann gerðist guðfaðir þess kompanís þegar það var stofnað fyrir einum tveim, þrem árum síðan. Og það lá svo mikið við að framsókn varð að fórna einum sínum besta manni þar í kommissarstól við litlar vinsældar ýmissa aðila og það lá við stjórnarkreppu og stjórnarslitum í landinu út af Þróunarfélaginu fyrir einu, tveimur árum síðan. Þá lá nú svo mikið við. Þá var svo mikið í húfi. Enda var þetta fyrirtæki sem átti að bjarga landinu, átti að reisa atvinnulífið hér á nýtt flugstig með ýmiss konar nýsköpun í atvinnulífi. Nú er þetta fyrirtæki kvalið niður í næstum ekki neitt og hefur verið skorið hér niður tvö ár í röð.

Ég ætlaði að fá það upplýst hjá hæstv. núv. utanrrh. hvort hann væri alveg ánægður með þetta, hvort þetta hefði allt saman farið að hans óskum og vonum og þetta væri sú framtíð sem hann hafði hugsað óskabarni sínu. En hæstv. ráðherra er sem sagt með fjarvist og má sjálfsagt ekki vera að því að koma hér. Það gleymist náttúrlega, skiptir enda ekki máli, að þetta er formaður Framsfl. Einn og sami maðurinn. Hæstv. utanrrh. er líka formaður Framsfl. Framsfl. er ekki hér á þingi. Hann er einhvers staðar annars staðar nema auðvitað einn og einn þm., yfirleitt af eldri kynslóðinni, sem sér sóma sinn í því að sitja hér og rækja sínar þingskyldur. En ég hef margoft tekið eftir því að ráðherrar Framsfl. forðast það að vera hér inni á Alþingi og margir þm. einnig, enda líta þeir upp til þeirra, ráðherranna, nema einstöku menn sem greinilega hafa það sjálfstraust að þeir mæta eftir sem áður í þingsali þó að höfuðin séu hætt því. Já, herra forseti, þetta er auma ástandið. Það verð ég að segja.

En ætli maður haldi ekki áfram að ræða þetta og láti sem ekkert sé því það er lítið annað hægt að gera. Þeir þm., sem enn taka þingstörfin alvarlega og reyna að starfa hér með eðlilegum hætti, ræða málin af einhverju viti, þeir verða að gera svo áfram. Ég sé ekki að það sé neitt annað til. Hinna verður bara að vera skömmin óbætt að hundsa svona þessa samkomu, hið virðulega Alþingi Íslendinga.

Þá eru það útvarpslögin, fjárveitingar til Ríkisútvarpsins. Hæstv. menntmrh. er sjálfsagt veikur eða einhvers staðar önnum kafinn, a.m.k. er hann ekki hér í þingsölum. Ég geri ekki ráð fyrir því að honum þyki það koma sér mikið við hvort Ríkisútvarpið lifir eða deyr. Það er a.m.k, ekki að sjá. Afkoma Ríkisútvarpsins er mjög slæm. Hún er þannig að stofnunin dregur á eftir sér geysilegan skuldahala sem kemur til af ónógum fjárveitingum og minnkandi tekjum undanfarinna ára. Ég hygg að hallinn á rekstri Ríkisútvarpsins sl. tvö ár sé einar 400 millj. kr. og það var upplýst af fjármálastjóra Ríkisútvarpsins, sem kom á fund í fjh.- og viðskn., að þessi halli kostaði Ríkisútvarpið í vaxtagreiðslum einum fleiri, fleiri milljónir á hverjum einasta mánuði. Ríkisútvarpið er borgandi vexti kannski af stærðargráðunni 5-8 millj. á hverjum mánuði bara til að fjármagna skuldir sínar og fleyta þeim frá mánuði til mánaðar. Þetta er sem sagt staðan sem þessi stofnun stendur nú í þrátt fyrir fyrirheit um það að séð yrði fyrir högum Ríkisútvarpsins með sómasamlegum hætti þegar ný lög um útvarpsrekstur og fjölmiðlun gengju í gildi. Þá voru uppi fagrar ræður um það að auðvitað kæmi ekki annað til greina en að standa við bakið á Ríkisútvarpinu og gera því kleift að sinna því menningar-, fræðslu- og miðlunarhlutverki sem menn ætla ríkisfjölmiðlum að gera burt séð frá annarri fjölmiðlun.

Það er alveg ljóst að vegna þess mikla innflutnings, sem varð á síðasta ári af tækjum, varð Ríkisútvarpið af geysimiklum tekjum vegna skerðingarákvæða síðustu lánsfjárlaga eða kannski allt að 300 millj. kr. sem hefðu langleiðina dugað til að kvitta reikningana hjá Ríkisútvarpinu, koma rekstrarfjárstöðu þess á sléttan sjó. En illu heilli var þetta allt saman tekið af Ríkisútvarpinu og það sama á að gera á næsta ári.

Þetta er auðvitað mjög hrakleg niðurstaða. Þess vegna er það tillaga okkar að Ríkisútvarpið fái sinn tekjustofn óskertan á næsta ári og það er brtt. við 22. gr., um að sú grein falli brott. Hún fjallar um skerðingu á tekjum Ríkisútvarpsins af aðflutningsgjöldum á hljóðvarps- og sjónvarpstækjum og fylgihlutum þeirra.

Ég man ekki til þess, herra forseti, að hæstv. menntmrh. hafi tekið þátt í umræðum hér í þessari deild við 1. umr. og hann er hér fjarri góðu gamni við 2. umr. Það væri kannski ástæða til að spyrja hvort sá hæstv. ráðherra eða einhver annar ráðherra sem gegnir fyrir hann eða ætti að gegna fyrir hann ef hæstv. ráðherra getur ekki verið hér til svara í þinginu eins og stjórnarskrá og lög gera ráð fyrir, hvort einhver slíkur gæti þá orðið viðstaddur hugsanlega 3. umr. þannig að málið færi ekki í gegnum allar umræður í deildinni án þess að talsmaður ríkisstjórnarinnar í þessum málaflokki gæti verið viðstaddur. (Forseti: Það eru viðstaddir hér tveir ráðherrar í húsinu. Það eru fjmrh., sem er nú ábyrgðarmaður þessa máls, og forsrh. Ég get að sjálfsögðu gert þeim aðvart nú og mun gera það.) Þeim ráðherrum? (Forseti: Þeim tveimur. Aðrir hafa fjarvistarleyfi utan heilbrrh. sem hefur ekki fjarvistarleyfi.) Hafa allir aðrir hæstv. ráðherrar fjarvistarleyfi úr þinginu? (Forseti: Allir aðrir ráðherrar, sem eiga sæti í þessari hv. deild. Það eru að vísu ráðherrar sem eiga sæti í Ed. og eru ekki hér að sjálfsögðu.) Já. (GHelg: Þeir eru þá önnum kafnir í Ed.?) Já, þeir eru önnum kafnir í Ed. (Forseti: Þeir munu vera í sínu ráðuneyti. Í sambandi við þessar umræður allar vil ég geta þess að ráðherrar hafa ekki sótt þingfundi nema í sinni deild nema þeir séu með mál hér til umræðu. En ég mun láta þá ráðherra sem hér eru viðstaddir vita um þessar umræður sem hér hafa farið fram.)

Ég þakka hæstv. forseta og veit að hann er allur af vilja gerður. Það er auðvitað alveg sláandi fyrir ástand mála að það þarf jafnvel að gera þeim hæstv. ráðherrum viðvart sem eru þó í húsinu, hæstv. fjmrh. og hæstv. forsrh. Ekki einu sinni þeir, þó þeir séu hér einhvers staðar á dóli í húsinu, geta haldið sig hér innan dyra stundinni lengur. Það er gott til þess að vita að öll ríkisstjórnin næstum að segja eins og hún leggur sig hefur fjarvistarleyfi frá umræðunni. Það er líka vel við hæfi. Mér finnst það mjög skiljanlegt að hæstv. ráðherrar reyni að láta sem minnst sjá sig hér. Þannig er nú frammistaðan hjá þeim að ýmsu leyti. En það er allt í lagi að hafa dregið það hér fram hvernig þessum málum er komið.

Herra forseti. Ég var að ljúka við að gera grein fyrir því að við leggjum til að 22. gr. frv. falli brott og Ríkisútvarpið haldi sínum tekjum. Ég tel mig hafa rökstutt að fyrir því séu ærnar ástæður. Ríkisútvarpið stendur eins og við vitum í uppbyggingu. Þar er verið að halda áfram framkvæmdum við nýtt útvarpshús. Enn fremur stendur til að sjónvarpið flytji inn í þá byggingu á næstunni og það mun auðvitað kalla á talsverð fjárútlát. Framkvæmdasjóður Ríkisútvarpsins hefur lögum samkvæmt 10% af tekjum stofnunarinnar og sem betur fer hafa menn ekki getað kyrkt með öllu framkvæmdir og tæknilega uppbyggingu og endurnýjun útvarpsins vegna þeirra ákvæða. Vegna þeirra ákvæða hefur útvarpið sjálfkrafa haft nokkurt framkvæmdafé burtséð frá því hvernig búið er að högum þess að öðru leyti. Mér hrýs hugur við því að hugleiða hvernig staða Ríkisútvarpsins væri ef þó ekki væri þetta ákvæði í lögum um framkvæmdasjóð Ríkisútvarpsins. Mér sýnist næsta ljóst að a.m.k. núv. hæstv. ríkisstjórn á sér þá ósk heitasta að kyrkja Ríkisútvarpið og mætti út af fyrir sig velta því fyrir sér hvort einhverjar sérstakar pólitískar hvatir séu þar að baki, hvort það sé sérstök stefna hæstv. ríkisstjórnar að lama starfsemi Ríkisútvarpsins eins og mögulega kostur er og hvað eigi þá að taka við.

Ég ætla þá að víkja að nokkrum atriðum frv. þar fyrir utan, utan við þær brtt. sem ég hef hér gert sérstaklega að umtalsefni. Þá langar mig fyrst til að nefna ofurlítið efnahagshorfurnar almennt. Á fund fjh.- og viðskn. komu ýmsir spekingar, til að mynda sérfræðingar bæði frá Þjóðhagsstofnun og Seðlabanka. Það var athyglisverð umræða sem fram fór í fjh.- og viðskn. um stöðuna í efnahagsmálunum að viðstöddum öllum þessum spekingum. Þar voru auðvitað líka starfsmenn ríkisstjórnarinnar. Í fyrsta lagi vakti athygli nefndarmanna, mína a.m.k., sá augljósi ágreiningur sem uppi var í röðum ráðgjafa ríkisstjórnarinnar um efnahagshorfurnar, þar sem greinilega kom fram mismunur, sem þegar hefur orðið uppvís í fjölmiðlum, mismunur á mati annars vegar Seðlabankans og hins vegar Þjóðhagsstofnunar á stöðu mála. Og það varð ekki annað heyrt en að sá skoðanamunur endurspeglaðist einnig í viðhorfi manna til þess hvað bæri að gera. Þetta er auðvitað athyglisverð staðreynd þegar það er svo jafnframt haft í huga að hæstv. ríkisstjórn er algjörlega ósammála að því er virðist um það hvað eigi að gera. Þar virðist ríkja slíkur ágreiningur um alla helstu þætti efnahagsmálanna að það væri e.t.v. nær að reyna að leita að því sem stjórnin gæti komið sér saman um. Ég þykist að vísu vita það að hæstv. ríkisstjórn sé næst því að geta komið sér saman um að lækka kaupið. Það hefur yfirleitt verið þannig þegar íhaldssamar ríkisstjórnir hafa setið að völdum að þær hafa ævinlega getað sameinast í því einu að lækka kaupið. Og ég veit fyrir víst að ríkisstjórnin hefði í því efni stuðning ákveðinna embættismanna í Seðlabankanum. Það kom fram á fundum fjh.- og viðskn.

En hvað varðar vaxtamálin, gengismálin, lánsfjárrammann og margt, margt fleira verður ekki annað séð en ríkisstjórnin viti ekki sitt rjúkandi ráð. Það eru slíkar upplýsingar á ferðinni um viðskiptahallann á síðasta ári og horfur á þessu ári um nánast stjórnlausar erlendar lántökur einkaaðila í gegnum hin gráu svæði fjármagnsmarkaðarins, ef svo má að orði komast og margt, margt fleira, að það er nánast eins og grín að vera að afgreiða hér frv. til lánsfjárlaga sem gengur út frá 10% verðbólgu á næsta ári og því að kauphækkanir verði ekki nema 7% eða guð má vita hvað. Ég held að það sé öllum ljóst að það er nánast eins og grín að standa þannig að hlutunum nú og að ganga frá þessu síðasta máli, sem snertir heildarstjórnun efnahagsmálanna og er nátengt fjárlögum og skattafrv. og öðru sem hér hefur verið til umfjöllunar, við þær aðstæður sem nú eru, við þá óvissu sem nú er í gengismálum, er sömuleiðis grín. Það er auðvitað til málamynda. Það er öllum ljóst að það er til málamynda, pro forma, eins og það heitir að loka þessu núna til að hafa eitthvað, til að ganga frá einhverju. Síðan verður mönnum væntanlega ljóst að allar þessar forsendur eru löngu brostnar og þar af leiðandi mun hæstv. ríkisstjórn ætla sér að spila þetta af fingrum fram án þess að hafa nokkra efnahagsstefnu. Hvar er efnahagsstefna hæstv. ríkisstjórnar? Í hverju birtist hún nú? Hver er stefnan gagnvart framtíðinni? Hvað ber að gera í vaxtamálunum? Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera? Á Steingrímur Hermannsson hæstv. utanrrh. að ráða? Á Jón Sigurðsson hæstv. viðskrh. að fá að ráða? Eða hver er stefna Sjálfstfl.? Hvar birtist það í þessum efnum? Nei, hér er auðvitað slík ringulreið á ferðinni að í þau fimm ár sem ég hef starfað hér á Alþingi og verið viðstaddur umræður um fjárlög og lánsfjárlög man ég ekki eftir öðru eins og hef ég þó ýmislegt upplifað í þessum efnum.

Ef viðskiptahalli í mesta góðæri Íslandssögunnar verður á milli 4 og 5 þús. millj. og það stefnir jafnvel í að hann tvöfaldist á næsta ári, hvað er þá að ske? Hvað er að ske þegar raunveruleg skuldaaukning verður á sl. ári, í þessu mikla góðæri, vegna þess að erlendar lántökur eru nánast óheftar? Það er opin rás inn og út úr landinu fyrir erlendar lántökur vegna þess að upp eru komin fyrirtæki á sviði fjármögnunar sem nánast standa utan við lög og rétt og geta gert það sem þeim sýnist. Það voru málamyndareglur sem settar voru á sl. hausti um hlutfall innlendrar fjármögnunar hjá þessum fjármagnsleigufyrirtækjum. Það var niðurstaða þeirra sérfræðinga sem komu til fjh.- og viðskn. að þær mundu engu breyta. Þær mundu engu breyta um ásóknina í erlent lánsfé í gegnum þessar sjoppur. Einu áhrifin, ef einhver verða, verða þau að spenna enn upp vaxtastigið innan lands því nú þurfa þessi fyrirtæki að fara út á innlenda markaðinn og sækja þangað þann hluta sinna útlána sem er bundinn innlendri fjármögnun, þau 30 eða 40%. Það munu þau að sjálfsögðu gera með því að yfirbjóða aðra sem eru að störfum á þessum markaði, ríkið, bankana og aðra slíka aðila. Þessar reglur, þegar til kastanna kemur, verða væntanlega enn einn valdurinn að því að hækka vextina.

Svo eru það verðbólguhorfurnar, herra forseti. Hvernig eru verðbólguhorfurnar? Hvað er líklegt að verðbólgan verði ekki nema 10% að meðaltali á árinu eins og mér skilst að þessar blessaðar forsendur geri ráð fyrir? Annars er ég farinn að ruglast í þessu öllu, herra forseti, það skal ég fúslega viðurkenna. Það er nokkuð síðan ég las það síðast, en mig minnir að það standi einhvers staðar í frv. að gert sé ráð fyrir 10% verðhækkunum að meðaltali á þessu ári og er það mjög trúlegt þegar verðbólgan er í dag um og yfir 30% og það er nokkuð ljóst að ef eitthvað gerist á næstunni fer verðbólgan upp en ekki niður. Hvers vegna? Jú, vegna þess að það eru ýmiss konar hækkanir á opinberri þjónustu, auk þeirra miklu vöruverðshækkana sem nú dynja yfir almenning og reynast meiri en svartsýnustu menn höfðu reiknað með. Jafnvel svartsýnustu menn höfðu ekki áttað sig á því hversu mikil margföldunaráhrif nýju söluskattsreglnanna eru í verðlaginu. Menn höfðu t.d. ekki, þó það sé e.t.v. skammsýni, gert sér að fullu grein fyrir því hve mikið ýmsir hlutar þeirra vöruflokka sem að nafninu til átti að undanskilja söluskatti hækka vegna þess að söluskatturinn leggst á allan aukakostnað sem til fellur við hantéringu á þessum vörum og þannig verða margföldunaráhrif þessarar söluskattsálagningar meiri en svartsýnustu menn gat órað fyrir. Auðvitað hlýtur þetta að valda því að verðhækkunaráhrif breytinganna verða meiri en menn höfðu reiknað með og það mun enn þýða aukna verðbólgu. Það er alveg ljóst að eigi að halda kaupmætti launa eða verja þann kaupmátt sem um samdist í síðustu kjarasamningum er alveg lágmark að verðbólga, ef ekki verður gripið til sérstakra ráðstafana, verði hér á bilinu 20–30% að meðaltali á árinu. Ég sé ekki neina leið til þess að óbreyttu, þó að genginu verði haldið föstu, en að verðbólga verði hér a.m.k. á bilinu 20–30%. Er þá eingöngu verið að tala um að launþegar nái eftir á að leiðrétta kaup sitt þannig að þeir haldi kaupmætti síðustu kjarasamninga. Til þess þarf þegar umtalsverðar launahækkanir eða sjálfsagt nálægt 10% fyrir þá sem eru á lágmarkslaunum. Það er upplýst að kaupmátturinn hafi í desembermánuði einum fallið um 5–6% á lágmarkslaununum frá meðaltalskaupmætti árið 1987. Síðasta verðbótaviðmiðun launa var í október og í 30% verðbólgu má öllum ljóst vera að kaupmátturinn er að falla mjög hratt. Síðan er liðinn nóvembermánuður, desembermánuður og janúar að verða hálfnaður og á þessum tíma hefur verið nálægt 30% verðbólga, en kaupmáttur launa er óbættur. Þetta er staðan. Og halda menn að hæstv. ríkisstjórn hafi verið að leggja sérstaklega inn hjá sjálfri sér og auðvelda lendingu og skjóta lausn í kjarasamningum með þeim ráðstöfunum sem hún hefur verið að grípa til undanfarið? Nei, það er varla hægt að ímynda sér það. Ef gengið yrði nú svo fellt um fáein prósent eða segjum 10% og kaupmáttur launa yrði hinn sami á árinu 1988 og hann var að meðaltali á árinu 1987 og kauphækkanir sem til þess þyrftu færu fram, kannski með jöfnu millibili út árið, hvað yrði verðbólgustigið þá á árinu 1988? Það yrði 45–50% samkvæmt mati Þjóðhagsstofnunar. Og ætli mönnum þyki það nokkur goðgá að gengisbreyting þurfi að verða um 10% í þessa átt þegar frystingin í landinu er rekin með 8–9% tapi og þegar ýmsar aðrar greinar sjávarútvegsins eru reknar ja, sumar með 30 og sumar með 50% tapi að sagt er, rækjuvinnslan og hörpudisksvinnslan í þessari röð? Ég hef aldrei vitað að það gengi mjög lengi í hinu íslenska efnahagskerfi að halda genginu óbreyttu ef kostnaðarhækkanir væru að bitna á sjávarútveginum upp á tugi prósenta á milli ára og verðhækkanir kæmu ekki til erlendis til að bera það uppi. Hver á að aðstoða sjávarútveginn í þannig stöðu? Hvaðan á að taka fé til að færa það yfir til sjávarútvegsins? Það er ekki hægt vegna þess að sjávarútvegurinn leggur til um 80% af gjaldeyristekjum þjóðarinnar og það er einfaldlega ekki hægt í hinu íslenska hagkerfi að gera þá neitt annað en aðlaga gengisskráninguna því sem sjávarútvegurinn þarf. Sú gengisaðlögun getur verið mismunandi mikil eftir því hvernig búið er að atvinnugreininni að öðru leyti. Auðvitað eftir því hverjar launagreiðslur eru, eftir því hverjir vextir eru, eftir því hvort sjávarútvegurinn borgar launaskatt eða ekki, eftir því hvort hann fær uppsafnaðan söluskatt eða ekki. En ef hæstv. ríkisstjórn ætlar ekkert af þessu að gera, það á ekki að lækka vextina, það má ekki hrófla við vöxtunum, það er lagður á launaskattur, það er ekki endurgreiddur uppsafnaður söluskattur, halda menn þá að það sé hægt að halda genginu mjög lengi föstu? Auðvitað ekki. Það er fjarstæða og bull. Ef hæstv. ríkisstjórn væri með markvissar aðgerðir í gangi af þessu tagi til að styðja við bakið á útflutningsatvinnuvegunum og koma þeim til aðstoðar til þess að væri unnt að verja gengið dytti e.t.v. einhverjum manni það í hug. En við þessar aðstæður er það náttúrlega bull. Það vita allir sem eitthvað hafa kynnt sér íslensk efnahagsmál, bæði í bráð og lengd.

Það þarf enga sérstaka hagspekinga til í sjálfu sér hvað þetta varðar, herra forseti. Hæstv. ríkisstjórn veit greinilega ekki sitt rjúkandi ráð. Að nafninu til er ríghaldið í eitthvað sem heitir fastgengisstefna og er auðvitað ekki til. Sjálft hugtakið er vitleysa, sjálft hugtakið er endaleysa og hvergi jafnvitlaust og á Íslandi þar sem þjóðin er jafngífurlega háð útflutningi og innflutningi og raun ber vitni. Við þessar aðstæður allar verður ekki annað séð en hér sigli nánast allt í strand hjá hæstv. ríkisstjórn ef hún ætlar að þumbast og setja undir sig hausinn í þessari stöðu með kjarasamningana lausa og ástandið í efnahagsmálum eins og það er að öðru leyti.

Ég tel, herra forseti, að það sé alveg ljóst hvað hér er að ske pólitískt séð. Það er ósköp einfalt í mínum huga. Hér er svonefnd frjálshyggja að sigla í strand. Hún er að brotsigla sig gjörsamlega á þessum síðustu mánuðum. Stefna frjálshyggjunnar í vaxtamálum, í ríkisfjármálum og að ýmsu öðru leyti er núna að sigla harkalega í strand. Og af hverju er það nú, hv. þm. Ed. Egill Jónsson? Það er gaman að sjá einu sinni í húsinu efrideildarmann sem ekki hafa verið hér mikið. (EgJ: Ég hef ekki þingskyldu hérna megin.) Ég veit það, enda hefur hv. þm. ekki rétt til að taka til máls í þessari deild, en ég ávarpaði hann engu að síður af því að hann sást í dyrunum. Það var þó ekki ætlast til þess að hann færi að blanda sér í umræður.

Frjálshyggjan er að sigla í strand vegna þess að góðærið er búið í bili. Það er nefnilega þannig að frjálshyggjan gat gengið og menn gátu sperrt kassann og barið sér á brjóst og sagt: Þetta er allt í lagi, við höfum lausnirnar, á meðan var bullandi uppsveifla og góðæri. Þá gat vaxtabrjálæðið gengið og þá gat ýmislegt annað gengið upp sem við eðlilegar aðstæður er botnlaus vitleysa. Það er mitt mat á þeirri stöðu sem nú er uppi í íslenskum efnahagsmálum og þjóðmálum að hér séum við að horfa upp á á þessum líðandi mánuðum strandsiglingu frjálshyggjunnar í hinu íslenska hagkerfi. Það er víðar en í Wall Street sem frjálshyggjan er að hrynja saman þessa dagana. Hún er líka að gera það uppi á Íslandi.

Vaxtafrelsið mikla. Til hvers er það nú að leiða? Tímamótaákvörðunin frá 1984 sem þeir lofsungu öllum öðrum mönnum hærra, hæstv. núverandi utanrrh., þáverandi forsrh., Steingrímur Hermannsson og Þorsteinn Pálsson, hæstv. núverandi forsrh. Þessir tveir menn gengu fram fyrir þjóðina og kynntu henni tímamótaákvarðanir í vaxtamálum og peningamálum sem ættu að færa þjóðinni ríkidæmi og blessun að því að manni skildist. Til hvers er þetta nú að leiða? Það er að leiða til þess að sennilega hefur íslenski fjármálaheimurinn, peningamarkaðurinn og allt það kerfi, sem er nú ekki giska burðugt, aldrei verið vitlausara en í dag, aldrei verið vitlausara og óréttlátara. Framleiðsluatvinnuvegirnir eru að kikna undan vaxtaokrinu, þeir aðilar sem fyrst og fremst eru með mikið rekstrarfé að láni. Gengisskráningin bitnar á þeim, er þeim mjög óhagstæð. Og hverjir hagnast? Hverjir eru það sem tútna út? Það er innflutningur á ýmiss konar drasli sem á niðurgreiddu gengi flæðir inn yfir landið.

Það var líka upplýst í hádegisfréttunum, ef ég heyrði rétt, að verðmæti útflutnings Íslendinga hefði vaxið myndarlega á síðasta ári, enda mesta góðæri sögunnar. Mig minnir að ég hafi heyrt töluna 16 eða 17% sem raunverðmæti útflutnings frá Íslandi, vöruútflutnings, jókst. Það er myndarleg frammistaða. Oft hefur íslenskur sjávarútvegur og aðrar útflutningsgreinar gert vel en þó líklega sjaldan jafnvel og á s.l. ári. En hvað gerðist á móti? Vöruinnflutningurinn jókst tvöfalt þetta. Það var enn þá myndarlegar gert. Og hver er ástæðan fyrir því? Hún er sú að gengisskráningin stuðlar að auknum innflutningi á alls konar vörum, en bitnar mjög þungt á framleiðsluatvinnuvegunum og útflutningsatvinnuvegunum. Þetta er alveg morgunljóst. Það verður ekki séð að hæstv. ríkisstjórn hafi mikinn áhuga á að breyta þessu. (Forsrh.: Er þm. að biðja um gengislækkun?) Þm. er að draga vissar staðreyndir upp fyrir hæstv. ríkisstjórninni, þ.e. því litla broti hennar sem er viðstatt við umræðurnar, og þm. leyfði sér að halda fram þeirri skoðun sinni að ef menn ekki grípa til einhverra ráðstafana til að bæta útflutningsatvinnuvegunum upp þær kostnaðarhækkanir sem þeir hafa tekið á sig innan lands í föstu gengi og við nokkurn veginn fast afurðaverð, eins og það hefur verið síðustu mánuði eftir að það hætti að fara upp á við hjá sjávarútveginum, verði að fella gengið. Það eru tvær leiðir til, hæstv. forsrh., ef ég má ávarpa hæstv. forsrh. með þínu leyfi, herra forseti. Það eru bara tvær leiðir til í því efni. Það er ósköp einfalt og þarf ekkert að þrasa um það. Hv. þm. sem hér talar er ekki að biðja um gengisfellingu. Það er ævinlega óæskilegt að þurfa að fella gengið, en stundum standa menn frammi fyrir staðreyndum og spurningin er hverjir þora að viðurkenna staðreyndirnar. Ég þori það. Ég veit að gengisfelling er ólánsaðgerð að mörgu leyti. Hún er ekki góð fyrir þá sem skulda erlendis og hún er óhagstæð að ýmsu leyti. Best væri að geta haft gengið sem stöðugast. (Forsrh.: En hvað um kaupmátt?) En löngun okkar til þess að halda föstu gengi, hæstv. forsrh., breytir ekki staðreyndum efnahagslífsins. Hún breytir ekki þeirri staðreynd að sumar greinar sjávarútvegsins eru nú reknar með allt frá 10 og upp í 50% tapi. Hún breytir ekki þeirri staðreynd að ullariðnaðurinn og fleiri greinar útflutningsiðnaðar eru reknar með 20–30% tapi. Á sama tíma er hæstv. ríkisstjórn undir forustu hæstv. forsrh., sem hér er að taka þátt í umræðunni, að leggja launaskatt á þessar greinar, að draga úr endurgreiðslum á uppsöfnuðum söluskatti og gerir ekki handtak til að lækka vextina, til að draga úr vaxtaokrinu sem bitnar mjög þungt á þessum greinum.

Við höfum eiginlega ekki rætt kjaramálin enn þá í þessu samhengi þó það sé ástæða til og þá staðreynd að kaupmáttur launa er nú hríðfallandi í þjóðfélaginu vegna þess að hæstv. ríkisstjórn hefur misst verðbólguna gjörsamlega úr böndunum og reyndar ekki bara þessi hæstv. ríkisstjórn. Það er ekki sanngjarnt að skrifa allt á reikning hennar vegna þess að sú ríkisstjórn sem sat næst á undan þessari ýtti öllu á undan sér í tilefni komandi alþingiskosninga síðustu mánuðina og jafnvel missirið fyrir þær kosningar með þeim afleiðingum að þegar aðgerðaleysi og stjórnleysi þessara tveggja ríkisstjórna er lagt saman glopraðist með öllu niður það mikla tækifæri sem menn hefðu átt að hafa til að ná verðbólgunni neðar á Íslandi en nokkru sinni fyrr í framhaldi af tvennum mjög raunsæjum kjarasamningum og í framhaldi af góðærinu. Og hvenær ætti að vera hægt að ná tökum á verðbólgu í landinu ef það er ekki í lokin á löngu góðærisskeiði og þegar gerðir eru mjög hógværir kjarasamningar, verðbólgulækkandi kjarasamningar? Það hefur enginn maður haldið öðru fram en því að verkalýðshreyfingin hefur staðið við sinn hluta þeirra samninga. Þeir sem hafa ekki gert það eru fyrst og fremst tvær hæstv. ríkisstjórnir, sú sem nú situr og sú næsta á undan henni.

Ég held að þessar staðreyndir ættu að vera hæstv. forsrh. í huga og væri ástæða til þess að hæstv. forsrh. skýrði fyrir þingdeildinni og Alþingi við þessa umræðu hver væru úrræði hæstv. ríkisstjórnar á næstu mánuðum. Nú mun hv. Alþingi væntanlega gera fundahlé um tveggja vikna skeið og í framhaldi af því koma aftur saman. Það er því ekki óeðlilegt að við þessi tímamót sé hæstv. forsrh. spurður að því hvað sé á dagskrá hjá hæstv. ríkisstjórn í gengismálum, í vaxtamálum, í sambandi við rekstrarskilyrði sjávarútvegsins og útflutningsgreinanna og í sambandi við komandi kjarasamninga. Hvað hefur hæstv. ríkisstjórn hugsað sér í þeim efnum? Telur hún viðunandi að kaupmátturinn rýrni mánuð eftir mánuð í 30% verðbólgu og að kjarasamningar dragist á langinn, m.a. vegna óvissu í efnahagsmálunum, m.a. vegna þess að verkalýðshreyfingin þorir ekki að semja, þyrði ekki að semja þótt hún ætti kost á einhverjum samningum við þessa óvissu? Hvernig á að ganga frá kjarasamningum e.t.v. langt fram í tímann þegar óvissan er eins og raun ber vitni í efnahagsmálunum? Það er ekki hægt nema þá að verðtryggja og binda í alla enda slíkar gjörðir. Og jafnvel þó menn geri það er ólíklegt að menn mundu treysta sér til að gera kjarasamninga nema til mjög skamms tíma við þessar aðstæður.

Hvað vill hæstv. ríkisstjórn segja í sambandi við það mál eða er meiningin að þegja um þetta þunnu hljóði eða er það e.t.v. svoleiðis að hæstv. ríkisstjórn hafi ekki frá neinu að segja, hafi ekki rætt þessi mál, hafi engin úrræði, viti ekki sitt rjúkandi ráð? Ágreiningurinn sé slíkur í hæstv. ríkisstjórn að þeir komi þar engu fram? Er það e.t.v. þannig að deilurnar séu svo miklar milli hæstv. utanrrh. og hæstv. viðskrh. um vaxtamálin að ríkisstjórnin geti ekkert gert, hún fórni bara höndum? Og þegar hæstv. ríkisstjórn fer til sinna ráðgjafa, annars vegar í Seðlabankanum og hins vegar í Þjóðhagsstofnun, fær hún tvö mismunandi svör, tvö mismunandi svör um horfurnar, tvö mismunandi svör um möguleg úrræði. Er það e.t.v. svona? Er það þetta sem háir hæstv. ríkisstjórn öðru fremur? Það væri gaman að heyra hæstv.forsrh. svara þessu.

Herra forseti. Það eru mörg fleiri efnisatriði frv. sem ég hefði út af fyrir sig gjarnan viljað ræða og gagnrýna, til að mynda skerðingar til ýmissa aðila, svo sem eins og Framkvæmdasjóðs fatlaðra. Ég vil gagnrýna og endurtaka mótmæli mín við því að ríkisstjórnin skerði framlög sín til Atvinnuleysistryggingasjóðs. Þar er um að ræða þríhliða samkomulag ríkisstjórnar, vinnuveitenda og sveitarfélaganna í landinu um að hvert fyrir sig greiði sinn hluta af byrðunum af því að fjármagna Atvinnuleysistryggingasjóð. Hvort sem sjóðurinn er í augnablikinu eða ekki þannig staddur að hann þurfi á tekjum að halda gengur það auðvitað ekki. Það er óhæfa að ríkisstjórnin rjúfi einhliða sinn hlut samkomulagsins. Ég bendi á það að samkvæmt tillögum verkaskiptanefndar milli ríkis og sveitarfélaga er þetta einmitt einn liður sem á að færast af sveitarfélögunum yfir til ríkisins þannig að sveitarfélögin hætti þátttöku í fjármögnun Atvinnuleysistryggingasjóðs og að það verkefni verði einhliða milli atvinnurekenda og ríkisvalds. Er það trúverðugt að fela ríkisstjórninni einni þetta verkefni þegar hún stendur að hlutunum eins og raun ber vitni, er með skerðingar á sínum framlögum til sjóðsins árið áður en þessar breytingar eiga væntanlega að taka gildi? Ég segi nei.

Ég tel það stórkostlegt umhugsunarefni hvort hæstv. ríkisstj., a.m.k. þeirri sem nú situr, sé yfirleitt treystandi til þess að fara með hluti eins og Atvinnuleysistryggingasjóð. Það er e.t.v. þankagangurinn í hæstv. ríkisstjórn sem er þannig að henni þykir þetta verkefni, þetta tiltekna viðfangsefni, starfræksla Atvinnuleysistryggingasjóðs, ekkert nauðsynjamál. Ég er ekki viss um að þeir samþykki það á Patreksfirði.

Ég tel að Rafmagnsveitur ríkisins séu eitt af mörgum fyrirtækjum, eins og Ríkisútvarpið, sem hæstv. ríkisstjórn sé að þjarma þannig að að til stórvandræða horfi í framtíðinni. Fjárveitingum eða fjárhagsáætlun Rafmagnsveitnanna er samkvæmt fjárlögum lokað með um 370–380 millj. kr. halla. (Gripið fram í: 392.) 392 millj. kr. halla, þakka fyrir. Og hvað er nú þar að gerast? Jú, væntanlega það að staða fyrirtækisins er að versna, a.m.k. sem þessu nemur, og hefur þó fyrirtækið verið gert upp með halla undanfarin ár. Og hvaða verkefni annast nú þessar Rafmagnsveitur ríkisins? Hvað er nú það? Jú, þær annast það verkefni sem er óhagstætt í raforkumálum þjóðarinnar að dreifa raforkunni, einkum og sér í lagi út um hinar dreifðu byggðir, og annast smásöluna á litla og dreifða markaði á meðan aðrar veitur og Landsvirkjun sinna þeim hlutum raforkumálanna sem eru auðvitað langhagstæðastir, selja mikið magn á þéttbýl svæði. Þetta ætti mönnum að vera nokkurt umhugsunarefni. Síðan er verið að þjarma svoleiðis að hag þessarar stofnunar að það verður ekki annað séð en að hún verði gersamlega á opinberu framfæri innan tíðar ef svo heldur fram sem horfir. Það er ekki mjög skynsamlegt. Það mun leiða til þess að ásókn verður í að hækka gjaldskrá þessa fyrirtækis meira en ella þyrfti. Hverjir koma til með að borga það? Væntanlega raforkunotendur í strjálbýli landsins. Þannig að hér er í sjálfu sér á ferðinni stórt og pólitískt mál og frammistaða ríkisstjórnarinnar er heldur léleg.

Ég tel að til að mynda þegar borin eru saman þessi tvö höfuðfyrirtæki í orkumálunum, Landsvirkjun annars vegar og Rafmagnsveitur ríkisins hins vegar, sé að koma upp mikið ósamræmi í þessum hlutum. Annars vegar er Landsvirkjun sem gerir ráð fyrir því að greiða niður skuldir sínar mjög hratt. Það er út af fyrir sig æskilegt. Hins vegar eru Rafmagnsveitur ríkisins, sem sjá um erfiðasta hluta orkumálanna, að safna skuldum og eiginfjárstaða þeirra versnar ár frá ári og er þó ekki á bætandi. Hér er ekki rétt að málunum staðið og hér eru að skapast hlutföll sem geta boðið upp á miklar hættur í framtíðinni.

Herra forseti. Það er eitt enn. Það er Jöfnunarsjóður sveitarfélaga. Það mál hefur verið svo mikið rætt og verður e.t.v. rætt hér í tengslum við annað frv. sem er til meðferðar í hv. Alþingi að ég held að ég stytti mál mitt hvað þetta varðar. Hv. fjh.- og viðskn. Nd. ræddi þetta auðvitað dálítið og það er ábyggilega ekki leyndarmál að þar voru uppi hugmyndir um að ganga þannig frá lánsfjárlögum að ef ske kynni að frv. til laga um verkefnaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga næði ekki fram að ganga yrði varnagli inni í lánsfjárlögum, varnagli af því tagi að færðust þessi verkefni ekki yfir á sveitarfélögin mætti ríkið skerða tekjur Jöfnunarsjóðs meira en ella stendur til að gera. Það er vísað í þessar hugmyndir í nál. meiri hl. og ég tel mér því heimilt, og að það geti ekki fallið undir trúnaðarbrot, að segja frá því að þessar hugmyndir voru uppi í nefndinni. Það segir sem sé aftast í nál. meiri hl., með leyfi forseta:

„Að lokum skal þess getið að taki frv. til laga um breytta verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, mál nr. 194, breytingum í meðförum Alþingis þarfnast 28. gr. lánsfjárlaga endurskoðunar.“

Hvað er nú átt við hér? Ætli það sé ekki átt við það að 28. gr. frv., sem er um skerðingu á framlögum til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, eigi þá að breytast þannig að ríkissjóður skerði þá meira tekjur Jöfnunarsjóðs eftir því sem minni verkefni eða engin eftir atvikum færðust yfir á sveitarfélög? Ég kýs að skilja þessa setningu í nál. meiri hl. þannig, enda er ég kunnugur málinu og vissi hvaða hugmyndir voru þar á ferðinni. Og þetta ætla ég eiginlega að láta nægja sem umfjöllun um viðhorf ríkisstjórnarinnar, og þeirrar síðustu reyndar líka enda sömu mennirnir að stórum hluta til í báðum, til sveitarfélaganna í landinu og Jöfnunarsjóðsins. Svo mikið liggur nú við að láta nú ekki þessi, með þínu leyfi, fjandans sveitarfélög fá eyri meira en ríkisstjórninni þóknast að ef ske kynni að þau tækju ekki öll þau verkefni að sér á þessu ári sem stjórnin ætlar þeim er alveg nauðsynlegt að hafa möguleikann opinn á því að skerða Jöfnunarsjóðinn meira. Það væri nú hættulegt ef þessi Jöfnunarsjóður sveitarfélaga fengi nokkrar krónur umfram það sem ríkisstjórnin hafði ætlað sér að skammta honum. Þessi lögbundni markaði tekjustofn sveitarfélaganna sem einhliða hefur verið skertur af hálfu ríkisvaldsins undanfarin ár er sem sagt með öðrum orðum orðinn svo sjálfsagt viðfangsefni hæstv. ríkisstjórnar að hræra í að í báða enda skal það bundið að ekki fari í hann krónu meira en ríkisstjórninni þóknast hvað svo sem þessir tekjustofnar skila miklu og hvað svo sem málinu líður að öðru leyti. Þetta er ekki mjög velviljað viðhorf. Þetta er ekki mjög traustvekjandi gagnvart þeim samskiptum og þeirri uppstokkun á samskiptum þessara aðila sem boðuð er. Það verð ég alveg að segja.

Ég vil spyrja formann fjh.- og viðskn. og frsm. meiri hl., af því að hann er ekki víðs fjarri, að því hvernig beri að skilja ákveðnar setningar er snerta lántökuheimildir Byggðastofnunar. Meiri hl. varð allt í einu rausnarlegur og ákvað að heimila Byggðastofnun 200 millj. kr. meiri erlendar lántökur, ef ég hef skilið það rétt, en ætlað var í frv. og um þær 200 millj. segir í nál. meiri hl. fjh.- og viðskn., lið b, með leyfiforseta:

„Þá hækkar lántökuheimild Byggðastofnunar um 200 millj. kr. Í því sambandi skal tekið fram að ætlast er til að Byggðastofnun styðji sérstaklega við útgerð í þeim byggðarlögum þar sem hún hefur dregist saman.“

Ég spyr formann fjh.- og viðskn. hvað átt er við. Ber að líta þannig á að þessar 200 millj. allar séu sérstaklega eyrnamarkaðar því verkefni? (PP: Nei, nei, nei.) Ég fer fram á að hv. frsm. og formaður fjh.- og viðskn. komi í ræðustólinn og skýri þetta mál. Ég sætti mig ekki við einhverjar handaveifingar úr hliðarsölum. Ber sem sagt að skilja það svo eða ekki? Hvað með byggðarlög þar sem erfiðleikar steðja að af öðrum toga en í sjávarútvegi, í atvinnumálum, og geta verið hliðstætt stórir fyrir þau byggðarlög þó að útgerðin sem slík, sem gæti verið einhver, eins og t.d. á Blönduósi þar sem búið er að kaupa raðsmíðaskip sem er að veiða rækju, ber að skilja það svo sem ekki mætti taka úr þessum 200 millj. eitthvert fjármagn til að aðstoða prjónastofu sem kynni að vera á hausnum á stað þar sem útgerðin stendur þó sæmilega, eða hvað? Hvaða ákvörðun liggur hér að baki? Er verið að vísa til samþykktar í ríkisstjórn eða stjórn Byggðastofnunar eða hvernig ber að skilja þessi ummæli yfirleitt og hvað er á bak við þau? Ég fer fram á það að formaður fjh.- og viðskn. skýri þetta betur.

Ég tek það fram að ég tel það í sjálfu sér eitt með því gáfulegra sem hæstv. ríkisstjórn og stjórnarmeirihlutinn hefur gert að átta sig á því að sá niðurskurður á lánsmöguleikum Byggðastofnunar sem áformaður var í frv. var í hróplegu ósamræmi við stöðu byggðamálanna, við stöðu atvinnulífsins víða úti á landi, og ég fagna því þeirri aukningu sem þarna varð á heimildum Byggðastofnunar.

Að síðustu vil ég taka fram, herra forseti, að ég styð brtt. hv. þm. Kjartans Jóhannssonar og Guðmundar G. Þórarinssonar. Ég styð einnig smíði þess skips sem þar er um að ræða. Ég tel alveg nauðsynlegt að Vestmanneyingar hafi sem bestar samgöngur og sem öflugustu skipi yfir að ráða sem er þeirra vegur. Mér er alveg ljóst að fullnægjandi samgöngum milli lands og Eyja verður ekki haldið uppi nema með öflugu skipi, stóru skipi og hraðskreiðu skipi sem fer vel í sjó, og það þarf enginn að láta sér detta annað í hug en að það skip og rekstur þess kosti peninga. Annað væri auðvitað barnaskapur, en menn geta þá líka velt því fyrir sér hvað það kostaði að brúa út í Eyjar eða grafa jarðgöng út í Eyjar ef menn vildu reyna að leysa samgöngumál þeirra með þeim hætti. Ég er hræddur um að þá fengju menn út dálítið myndarlegar fjárhæðir og er það ekki auðskilið mál að byggðarlag af þessari stærðargráðu og jafnmikilvægt þjóðarbúinu og Vestmannaeyjar eru á fulla heimtingu á því að eitthvað sé lagt til samgöngumála þess. Það kostar býsna miklar fjárhæðir að leggja vegi og viðhalda vegum til ýmissa afskekktra byggðarlaga úti á landi. Vegirnir urðu ekki til af sjálfu sér og viðhald þeirra kostar eitthvað. Hér er í raun um hliðstætt framlag ríkisins til þessa byggðarlags að ræða.

Ég er því ekki að styðja þessa brtt. með það í huga að koma í veg fyrir að Vestmanneyingar búi við fullnægjandi samgöngur og geti endurnýjað sína ferju þegar þörf er á því. Ég tel hins vegar með tilliti til stöðu málsins eðlilegt að ganga svona frá því þar sem í ljós hefur komið við könnun fjh.- og viðskn. að málið er tæplega undirbúið í stjórnkerfinu með þeim hætti sem eðlilegt hlýtur að teljast þar sem samgrn. og fjárveitingavald hafa í rauninni ekki fjallað um málið eins og eðlilegt er áður en í framkvæmdir er ráðist. Ég treysti þeim aðilum sem hér eru tilnefndir fyllilega til þess að ganga úr skugga um það að málið sé á eðlilegu framkvæmdastigi og í eðlilegum búningi áður en því verður hleypt af stokkunum.