12.01.1988
Neðri deild: 52. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3939 í B-deild Alþingistíðinda. (2741)

63. mál, lánsfjárlög 1988

Málmfríður Sigurðardóttir:

Herra forseti. Síðan ég fór að hafa fyrir því að kynna mér fjárlög, sem eru nú orðin allnokkur ár, hefur þessi margumtalaða 6. gr., bandormurinn, alltaf valdið undrun minni og gremju. Mér hefur alltaf fundist öldungis óþolandi að ríkisstjórnir skuli æ ofan í æ leyfa sér þá óskammfeilni að seilast í lögboðna tekjustofna, markaða ákveðnum verkefnum, og fara með það fé algerlega að eigin geðþótta. Lög um þessa tekjustofna hafa verið sett til að byggja upp og tryggja fjárhag ákveðinna stofnana og sjá til þess að þeim sé gert fært að starfa eins og lög bjóða. Með þessari árlegu skerðingu eða jafnvel brottnámi fjármuna er starfsgeta stofnananna stórlega skert, þeim er ekki gert fært að dafna eðlilega né bera þann ávöxt sem þær gætu og stundum tekst þeim ekki sökum fjárskorts að uppfylla þær skyldur sem lög mæla fyrir um.

Þeir vita sem vilja vita hversu mjög er kreppt að fjárhag Ríkisútvarpsins í þessum lánsfjárlögum. Ýmsir hv. þm. hafa gert því máli skil svo að ég fjölyrði ekki um það hér, en það er einn þáttur þessa frv. sem mig langar að gera að umræðuefni. Við kvennalistakonur bárum fram tillögur um hækkun á þeim lið við fjárlagaumræðurnar sem ekki var sinnt, en það er Ferðamálaráð.

Í blaði hæstv. forsrh. og ríkisstjórnarinnar frá 9. jan. sl. birtist býsna athyglisverð grein eða pistill. Það var viðtal fréttamanns við þrjá breska ferðaheildsala, sem hann kallar svo, sem hafa selt Íslandsferðir undanfarin ár, sumir á annan áratug. Ég vil, með leyfi hæstv. forseta, leyfa mér að lesa þætti úr þessu viðtali og kannski hæstv. fjmrh. átti sig á því að með því að fjársvelta Ferðamálaráð gerist það að það missir alla tiltrú erlendis sem forsvar Íslendinga um ferðamál og er einungis til athlægis og lítilsvirðingar erlendra manna.

Fréttamaðurinn er staddur í íslenska básnum á hinni árlegu ferðakaupstefnu World Travel Market í London til að kynna sér hvernig íslensk ferðaþjónusta er á vegi stödd á alþjóðlegan mælikvarða. Og fréttamaðurinn finnur strax að eitthvað liggur í loftinu. Það er talað um of háa verðlagningu á Íslandsferðum, en önnur þung undiralda er að brjótast upp á yfirborðið. Hann vill heyra meira og ræðir við ferðaheildsala sem eru að markaðssetja Ísland. Þeir hafa allir unnið fyrir Íslandsmarkað og kynnt sér Ísland sérstaklega. Og fréttamaður segir:

Umræðan var hreinskilin, heit og þung og það sem hér fer á eftir er samdóma álit allra þessara manna:

Við erum allir mjög svartsýnir og hræddir við þróunina í íslenskum ferðamálum. Fyrir þremur árum voru þrír stórir ferðaheildsalar með Íslandsmarkaðinn. Einn þeirra varð gjaldþrota, annar hætti þar sem hann áleit enga framtíð í að markaðssetja Ísland, en sá þriðji situr hérna og er mjög vondaufur. Þetta er neikvæð þróun fyrir markað eins og Ísland. Við erum fáir miðað við þá miklu möguleika sem Bretland býr yfir. Ferðamannahópum, sem fara til Íslands á okkar vegum, fækkar stöðugt þrátt fyrir að mikil ferðamannaaukning er í Bretlandi, þ.e. Bretar ferðast meira ár frá ári. Hann segir að ferðamannahópum sem fara til Íslands fækki stöðugt og muni trúlega verða færri næsta ár en hefur verið sl. ár. En það skuggalegasta við þróunina er sú staðreynd að margir ferðaheildsalar vilja ekki lengur vöruna Ísland. „Við bresku heildsalarnir erum ekki þeir einu sem segja þetta. Félagar okkar á meginlandinu, þeir sem við höfum talað við, eru sammála um að Ísland eigi aðeins eitt tækifæri. Árið 1988 ræður úrslitum um hvort við hættum að selja Íslandsferðir. Það verður fróðlegt að sjá hve margir okkar verða með Íslandsbæklinga á sama tíma næsta ár. Vandamálin sem hafa orsakað þessa þróun eru aðallega gífurlega hátt verðlag sem hækkar stöðugt, ekkert virkt ferðamálaráð og enginn stuðningur við okkur.

Íslenska ríkisstjórnin“, segja þeir, „verður að gera upp við sig hvort hún vill ferðaþjónustu á Íslandi. Í sumar áttum við fund með einum ráðherra ykkar og reyndum að gera honum grein fyrir hve staðan er alvarleg. Ráðherrann afgreiddi málið með því að segja: Auðvitað er ég hlynntur ferðaþjónustu, en við viljum ekki of marga ferðamenn. En málið er bara ekki svona einfalt. Við erum aðeins fyrsti hlekkur í stórri keðju. Ef okkur gengur illa eða jafnvel við hættum að selja „Ísland“, þá verða margar íslenskar ferðaskrifstofur, sem byggjast á okkar starfi, gjaldþrota. Hvað er þá um öll nýju hótelin á Íslandi og alla uppbyggingu á ferðaþjónustu hjá ykkur?

Við fáum engan stuðning frá Ferðamálaráði Íslands. Við markaðssetjum Ísland ásamt Flugleiðum. Við erum líka þjónandi upplýsingaskrifstofa fyrir landið. Hópar af fólki koma til okkar til að fara til Íslands. Þetta fólk þurfum við að afgreiða þar sem við og Flugleiðir erum þeir einu sem búa yfir sérþekkingu og veitum upplýsingar um Ísland. En þetta er ekki hugsjónastarf“, halda þeir áfram, „heldur bein viðskipti sem krefjast mikillar sérþekkingar og ómældra fjármuna í auglýsingum. Einn er orðinn gjaldþrota, annar er að hætta og við hinir hættum eftir 1988 ef engin breyting verður sjáanleg“.

Og svo segja þeir: „Ferðaþjónusta er með stærstu útflutningsgreinum á Íslandi. Samt er lítill fjárhagsstuðningur við Ferðamálaráð. Við höfum kynnt okkur skýrslur frá öðrum ferðamálaráðum og þær eru allar samhljóða. Engin fjárfesting skilar sér betur en þeir peningar sem lagðir eru í ferðamálaráð svo að þau geti staðið undir sínu hlutverki. Danska ferðamálaráðið segir að þeir fái sinn styrk 200-faldan til baka í erlendum gjaldeyri.

Í ferðaþjónustu er geysilega mikilvægt að allir starfi saman. Allir geta lent í fjárhagserfiðleikum. Bretar hafa átt í peningavandræðum sem og margar þjóðir. Þar gildir að allir standi saman og hjálpi hver öðrum. Twickenham ferðaskrifan var að láta gera 17 mínútna myndband um Ísland. Allar breskar ferðaskrifstofur, 7000 talsins, fá ókeypis eintak. Þegar myndatakan stóð fyrir dyrum leituðum við til margra íslenskra fyrirtækja, sem byggja beint og óbeint á ferðaþjónustu, og báðum þau að styðja okkur. Allir tóku okkur vel og lýstu ánægju með þetta framtak. En svarið sem við fengum var undantekningarlaust: Þetta er gott mál, en við höfum því miður enga peninga. Flugleiðir veittu okkur stuðning, en frá Ferðamálaráði Íslands kom aðeins eitt lítið símskeyti sem sagði: Því miður. Engir peningar.

Fyrir níu mánuðum ætluðum við að hefja öfluga ferðakynningu, aka á milli borga og kynna Íslandsferðir. Við héldum fundi með tíu hagsmunaaðilum. Öllum fannst þetta góð hugmynd nema fulltrúanum frá Ferðamálaráði Íslands sem náði að fella áætlunina. Hið eina sem við höfum séð frá Ferðamálaráði Íslands þetta ár er sú fullyrðing að Ísland seldist svo vel að erfitt væri að fá gistingu. Úr ferðablaði fór yfirlýsingin í bresku blöðin og eyðilagði mikið fyrir okkur. Eitt er yfirlýsing til að sannfæra sig um að allt gangi vel, annað er að loka markaði sem er alls ekki í stakk búinn til að taka við slíku áfalli.

Í desember 1986 var okkur heitið stuðningi frá Ferðamálaráði Íslands og við eyddum þeim peningum sem við fengum loforð um í auglýsingar og markaðssetningu. Í mars fengum við eftirfarandi símskeyti: Því miður. Engir peningar.

Það verður að segjast eins og er að Ferðamálaráð Íslands nýtur engrar virðingar.

Íslenskar ferðaskrifstofur hafa mikið stefnt að hvatningarferðum, „incentive tours“ og ráðstefnuhaldi. Okkar spá er sú að ekki verði langt þangað til Ísland verði líka of dýrt fyrir þessa ferðaþjónustu.“

Ég hljóp hérna yfir nokkurn kafla sem er um almenna ferðaþjónustu á Íslandi sem þessum ferðamálafrömuðum finnst vera of dýrt land.

„Þið munuð finna að öllum peningum sem hafa verið lagðir í ný hótel hefur verið eytt til einskis ef engin stefnubreyting á sér stað á næstunni. Þið hafið fengið hvert tækifærið á fætur öðru á heimsvettvangi, en lítið nýtt ykkur það. Hver smáþjóð mundi hrósa happi ef hún hefði fengið tækifæri á við leiðtogafundinn einu sinni á öld. En þið gerið ekkert úr því sjálf. Ungfrú alheimur kom frá Íslandi síðasta ár og hvert auglýsingatækifærið á fætur öðru hefur blasað við ykkur. Við erum sjálfsagt mjög neikvæðir“, segja þessir menn, „en okkur þykir vænt um Ísland. Þess vegna seljum við það og þess vegna viljum við að okkar sjónarmið komist á framfæri. Ísland er sérstætt land og það er sárgrætilegt ef ekki reynist mögulegt að senda ferðamenn til ykkar. Þið verðið að veita okkur þann stuðning sem sérhver þjóð, sem tekur ferðaþjónustu alvarlega, gefur okkur. Þið eruð ekki með ferðamálaráð“, segja þeir. Þeir taka það nefnilega ekki alvarlega. „Það á ekki að líðast að þjóð sem byggir á ferðaþjónustu sem einum stærsta útflutningsatvinnuvegi sé ekki með virkan opinberan framkvæmdaaðila sem sér um markaðssetningu og landkynningu. Íslensk stjórnvöld verða að gera eitt upp við sig, ekki hvort þau vilja takmarkaðan fjölda ferðamanna til landsins heldur hvort þau vilja yfirleitt vera með ferðaþjónustu.“

Þetta segja þessir erlendu menn. Ég hef ekki miklu við þessa greinargerð að bæta, en mér finnst hún töluvert alvarlegt umhugsunarefni. En mér finnst líka ámælisvert að þannig skuli staðið að málum að Ferðamálaráð sé fjársvelt þannig að það verði til athlægis og lítilsvirðingar á erlendum vettvangi. Ferðaheildsalarnir spá stórminnkandi ferðamannafjölda á næstu árum og erum við ekki að stefna ferðamannaiðnaðinum í voða með því að haga málum á þann hátt sem við gerum?