12.01.1988
Neðri deild: 52. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3950 í B-deild Alþingistíðinda. (2744)

63. mál, lánsfjárlög 1988

Eggert Haukdal:

Herra forseti. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar segir svo um byggðastefnu og samgöngumál, með leyfi hæstv. forseta:

„Ríkisstjórnin lítur á það sem eitt meginverkefni sitt að stuðla að betra jafnvægi í þróun byggðar með uppbyggingu atvinnulífs og þjónustu á landsbyggðinni. Í því skyni hyggst ríkisstjórnin beita sér fyrir eftirfarandi aðgerðum:

Starfsemi Byggðastofnunar verði efld til að stuðla að uppbyggingu atvinnulífs og þjónustu á landsbyggðinni. Jafnframt verði henni falið að hafa forgöngu um samstarf lánastofnana, þróunarfélaga og heimamanna og leitast við að samræma aðgerðir til að styrkja megi byggðina.“

Eins og lánsfjárlögin komu frá Ed. vantaði mikið á að Byggðastofnun hefði sama fé og í fyrra. Þar veldur fyrst og fremst að ekki er tekið tillit til þess að í fyrra var mjög góð innheimta hjá stofnuninni en allir sjá fram á að á árinu sem nú fer í hönd verði innheimta slakleg vegna erfiðleika í atvinnufyrirtækjum vítt um land. Stjórnarmenn Byggðastofnunar sem sitja í Ed. virðast hafa gleymt sér nokkuð, og reyndar fleiri í þeirri deild, og hefðu lögin verið afgreidd þannig hefði verið illt í efni.

Nú streyma hópar af landsbyggðinni til Byggðastofnunar með stórar lánsumsóknir þar sem víða brestur í böndunum og ríkisstjórnin er stöðugt að vísa málum þangað. Þeim þarf að sinna en það verður ekki gert án peninga. Stofnuninni hefur m.a. verið falið af forsrh. að sinna atvinnumálum í Rangárvallasýslu og Vestur-Skaftafellssýslu sem eru einu hafnlausu sýslurnar í landinu. En þar er sem víðar um erfiðleika að ræða í atvinnumálum. Engu af þessu verður sinnt nema til komi stórauknar lánsfjárheimildir af erlendu fé og Byggðastofnun verður ekki vísað á íslenskan lánsfjárokurmarkað.

Í þessu efni hefur nú verið bætt nokkuð úr skv. brtt. meiri hl. fjh.- og viðskn. deildarinnar, vafalaust fyrir forustu formanns stjórnar Byggðastofnunar, Matthíasar Bjarnasonar, sem á sæti í nefndinni. Ég óttast samt að þetta verði ekki nægjanlegt en vænti að séð verði fyrir þörfum Byggðastofnunar á árinu.

Komin er fram brtt. við 6. gr. frá hv. þm. Kjartani Jóhannssyni og Guðmundi G. Þórarinssyni um Herjólf. Ég vænti þess að hún verði felld. Þjóðveginn til Vestmannaeyja, sem Herjólfur sinnir, verður að styðja eins og aðrar samgöngur í landinu.

Ég mun greiða atkvæði á móti 23. gr. frv. til lánsfjárlaga, en hún hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Þrátt fyrir ákvæði 10. gr. laga nr. 56/1987, jarðræktarlaga, skal greiðsla ríkissjóðs á framlagi til jarðabóta vegna framkvæmda á árinu 1987 ekki fara fram úr 141 000 þús. kr. á árinu 1988, en lokagreiðsla komi árið 1989.“

Slík tillaga hefur aldrei sést í lánsfjárlögum áður. Í haust starfaði nefnd þriggja þm. varðandi málefni landbúnaðarins er snerti fjárlögin. Í nefndinni voru Páll Pétursson, Eiður Guðnason og Egill Jónsson og var gjarnan kallað ráðuneyti Páls Péturssonar. Þessi tillaga mun vera komin frá meiri hl. þeirrar nefndar, hv. þm. Páli og Eiði, Egill Jónsson stóð ekki að henni. Hún er komin þarna inn í lánsfjárlög og ég mæli eindregið gegn því að hún nái fram að ganga.