13.01.1988
Neðri deild: 53. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3966 í B-deild Alþingistíðinda. (2760)

63. mál, lánsfjárlög 1988

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Við 2. umr. um þetta mál var felld brtt. frá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, Kristínu Halldórsdóttur og Inga Birni Albertssyni þess efnis að Ríkisútvarpið fengi óskertar tekjur af aðflutningsgjöldum á útvarpstækjum og búnaði. Hér er við 3. umr. flutt tillaga um það að Ríkisútvarpið njóti 100 millj. kr. tekna af tekjum af aðflutningsgjöldum. Þetta er aðeins hluti af því sem Ríkisútvarpinu ber lögum samkvæmt. Hér er afdrifaríkt mál á ferðinni fyrir stöðu Ríkisútvarpsins sem aðalfjölmiðils á ljósvakanum í landinu og það verður áreiðanlega eftir því tekið hvort Alþingi samþykkir eða fellir þessa brtt. okkar hv. þm., ásamt mér Kristínar Einarsdóttur og Óla Þ. Guðbjartssonar. Ég segi já.